Lögberg - 07.07.1955, Blaðsíða 6

Lögberg - 07.07.1955, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 7. JÚLÍ 1955 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Já, hann á bréfið, en ekki þú. Það er sama og opna annars manns hirzlu að rífa upp bréf, sem aðrir eiga, eða svo var mér kennt, þegar ég var krakki“, sagði Þórður og lyfti hendinni ósjálf- rátt, eins og til þess að bjarga bréfinu. „Þar að auki er víst ekki annað í því en einhver þvæla um sveitarmál, svo að þú græðir sjálfsagt ekki mikið á því að opna það“, bætti hann við. Þá komu feðgarnir inn. „Við Þórður erum hér að þrefa um þetta bréf“, sagði Anna. „Ég segi að það sé frá stúlku. Þórður heldur að það sé frá einhverjum hrepps- nefndarkarlinum. Skárri væri það karlmanns- höndin. Ég var komin að því að rífa það upp, en Þórður kom í veg fyrir það með siðavendninni eins og vant er“. „Alltaf eruð þið nógu forvitnar, konurnar“, sagði Jón og leit á bréfið. „Ég skal lofa þér að lesa það, þegar ég er búinn að fara yfir það sjálfur“. „Nei, ég fyrst“, sagði hún hlæjandi. „Annars held ég, að það sé frá stúlku“. „Ég skrifast aldrei á við kvenfólk. Þú skalt fá koss, ef þú sleppir bréfinu“. )rÉg hef ekki þurft að kaupa kossana þína hingað til. Ég fer að halda, að þér sé ekki sama um það“. „Ég skal sýna þér undirskriftina, þegar ég hef lesið það“. Anna sleppti bréfinu og þau settust að borðinu. Hann hló. „Ætlarðu ekki að fara að opna bréfið?“ spurði hún. Hann stakk bréfinu í vasa sinn. Nú mundi hann allt í einu, hvaðan bréfið var. „Ekki fyrr en ég er búinn að borða. Ég set ekki matinn til hliðar“. „Þið ættuð bara að sjá, hvað er orðið vistlegt í kofanum hjá honum Sigga og henni Rósu“, sagði Þórður, þegar hann var byrjaður að borða, og svo fór hann að lýsa öllu, sem þar var innanhúss svo skemmtilega, að allir voru komnir ofan í kofann hans Sigga á svipstundu, að Þórði undan- teknum. Gróa tók við, þegar Jón hætti að tala, og lýsti því, hvernig hún hefði haft inni hjá sér, þegar hún átti heima í þessum sama bæ. Enginn mundi framar eftir bréfinu nema sá, sem hafði það í vasanum. Honum fannst það brenna sig gegnum fötin og flýtti sér að komast burt til þess að lesa það. DREGIÐ FYRIR í SELÁNNI Næstu daga eftir að hreppstjórinn hafði lesið bréfið var hann fálátari en hann var vanur. Einn morguninn í glaða sólskini var húsmóðirin að rangla eitthvað í kringum bæinn og varð af til- viljun gengið fram hjá skemmudyrunum yzt á hlaðinu. Þórður sat innan við dyrnar og aðgætti reipin. Nú var farið að nálgast sláttinn. Stór hrúga af samanhnýttum reipum lá fyrir utan dyrnar og annað eins innan við þröskuldinn. „Góðan daginn, Þórður minn“, sagði Anna. „Ég var einmitt að gæta að því, hvort ég sæi þig ekki einhvers staðar. Ósköp ertu búmannslegur innan um öll þessi reipi. Hvað á nú svo sem að gera með þetta allt saman? Ég er viss um, að þetta er nóg á fimmtíu hesta.“ Hún sparkaði ögn í reipahrúguna. Þórður hló ánægjulega. „Þetta eru nú samt ekki nema tólf pör. Það fer mikið fyrir reipum. En hvers vegna varstu að svipast um eftir mér — áttirðu eitthvert erindi við mig?“ „Já, heldurðu að það sé kominn silungur í Selána. Ég er orðin uppgefin á þessum súra og saltaða mat, en fiskurinn er búinn, sem kom heim um daginn“, sagði hún. „Ég efast ekki um, að áin sé full af silungi“, sagði Þórður. „Heldurðu að þú getir ekki farið í dag og dregið fyrir með Steina. Það væri gott að fá nýjan silung“. „Það held ég geti skeð, að ég fari í fyrirdrátt, en varla með Steina. Jón neitar sér varla um þá ánægju að sulla í ánni. Við höfum þá kannske gert það nokkrum sinnum hér áður fyrr“. „Ég veit nú bara ekkert, hvar hann er að finna, hef ekki séð hann í allan morgun“. „Þess vegna ertu svona ákaflega mjúkmál við Þórð þarna í dyrunum“, var sagt innan úr skemmunni. „Hvað, ertu þarna í hálfmyrkrinu, steinþegj- ándi aldrei þessu vant, og lætur mig ekki heyra til þín. Nei, að sjá hann með alla klyfberahrúguna fyrir framan sig. Þetta er þó svei mér hlægilegt“, sagði hún og kom alveg að skemmudyrunum. „Heldurðu ekki, að þessir klyfberar séu á fimmtíu hesta eins og reipin?“ spurði hann hlæjandi. „Hún hefur nú kannske ekki farið fram hjá þér, mín fávizka“, sagði Anna og hló líka. „Ég er nú alltaf svolítið inn í búskapnum. En mig er bara farið að langa í nýjan silung og þess vegna var ég að leita að ykkur“. „Ég skal fara að draga fyrir strax og búið er að borða. Það hefur alltaf verið mín bezta skemmtun að busla í vatni frá því er ég man fyrst eftir mér. Bæjarlækurinn var nú góður leikbróðir í æsku. Einu sinni datt ég í hann, og það voru nú meiri ósköpin, sem þá gengu á. Finni náði í mig og dró mig til lands. Þvílíkt þó, sem ég gat orgað“. „Borghildur hefur oft sagt mér frá þessu“, sagði Anna. „Ég held hún svitni í hvert skipti, sem hún minnist á það“. „Þar hefði kvenfólkið misst mikið, hefðirðu kafnað í læknum“, sagði Þórður. „Kvenfólkið“, tók Anna upp eftir honum. „Hefði það orðið skaði fyrir aðrar en mig — eða því ertu svona háðskur í augunum?“ „Því var víst spáð einhvern tíma, að hann yrði fjórgiftur“, sagði Þórður. „Heldurðu að ég líði það að hann giftist aftur, ef ég dey á undan honum? Nei, þú mátt reiða þig á það, að ég fæ leyfi hjá himnaföðurnum til að vera alltaf nálægt honum. Mér gæti ekki liðið svo vel, að ég vildi yfirgefa hann. Ef hann yrði góður við nokkra konu aðra, veit ég hreint ekki, hvað ég gerði“. „Auðvitað kæfðirðu hann“, sagði Þórður og kastaði einu pari til viðbótar í reipahrúguna. „Ósköp er að heyra til þín, Þórður. Þú ert alveg ómögulegur í dag. Svo vond yrði ég aldrei. En ég skyldi mölva hverja einustu vínflösku, áður en hann gæti smakkað á henni“. „Þú hefðir áreiðanlega ekki mikinn frið í gröfinni. Ég er alveg hissa, hvað þú ætlar að verða að verða umsvifamikil eftir dauðann, svona hæg- lát kona“, sagði Þórður brosandi. „Komdu út í sólskinið, góði minn“, kallaði hún inn í skemmuna. „Sittu ekki lengur þarna í myrkrinu. Heyrirðu hvernig hann Þórður dregur okkur bæði sundur í háði?“ „Ég hélt að ég mætti ekki heyra“, sagði Jón og kom út í dyrnar, „en hef nú samt líklega heyrt það. Þórður hefur það til að vera hlálegur í orðum stundum, þótt hann sé ágætur maður. Góðan daginn, elskan!“ Hann kyssti hana lauslega á kinniná. „Þetta er ósköp lítilmótlegur 'koss“, sagði hún hlæjandi. „Mér finnst þú eitthvað fálátur núna í nokkra daga“. „Jæja, góða, þig er farið að langa í silung. Því hefurðu ekki talað um það fyrri? Við förum þá strax eftir matinn. Jakob getur svo náð í hestana og komið með þá seinna. Þeir eru víst ekki langt frá“. „Getur ekki hann Steini eða hún Manga gert það — þarf Jakob að fara að stússa í því?“ „Ég er búinn að segja Steina að gera annað. Drengurinn er nú kominn á tólfta ár, svo að honum er engin vorkunn að sækja hestana og koma með þá fram að Seli. Þú gerir hann að kveif með þessu dekri. Hann hefði átt að vera stúlka. Á hans aldri var ég farinn að temja folana hans pabba sáluga. Auðvitað hjálpaði Tóti minn mér svona öðruhvoru. Það er nú líka svo, að Jakob hefur engan stoltan strák til að vera með. Björn litli í Hvammi á aldrei frjálsa stund. Hann hefði verið góður leikbróðir, eins og mamma hans var ágæt leiksystir“. „Æ, þú varst nú alltaf svoddan slarkari, elskan mín, seint og snemma, en það má Jakob ekki verða“, sagði Anna og smeygði hendinni undir handlegg hans og leiddust þau heim hlaðið. „Það er einmitt svo, að allir strákar þurfa að vera slarkarar, annars verða aldrei menn úr þeim. Ég get ekki hugsað mér, að Jakob verði annað en bóndi á Nautaflötum“. „En ég hef hugsað mér, að hann yrði prestur“. „Ég man það“, sagði hann fálega, „en það er samt víst ekkert á móti því, að hann nái í hestana. Það hefur sjálfsagt margt prestsefnið gert“. Það var liðið fram undir miðaftan, þegar fyrirdrættinum var lokið. Silungurinn lá í smá- hrúgum meðfram ánni, en veiðimennirnir sátu hálfklæddir og biðu eftir Jakob og hestunum. „Það er notalegt að liggja svona og láta sólina verma sig. Þetta hefur verið reglulega skemmti- legur tími“, sagði Jón. „Maður verður ungur í annað sinn við að fara í fyrirdrátt og fá sér kalt bað“, sagði Þórður. „Bara að nú væri til heitt kaffi í Seli. Alltaf kann ég illa við að sjá aumingja kofana tóma og hrörna með hverju árinu, sem líður. Það er mikið, hvað þeir standa uppi“, bætti hann við og leit yfir að bæjarhúsunum, sem voru rétt á móti þeim. „Já, það væri þó notalegt að fá kaffi núna. Það var yfirsjón að láta ekki Borghildi koma fram eftir með ketilinn“, sagði Jón. Eftir litla stund bætti hann við: „Ég skal byggja þér Selið, Þórður minn. Þú mátt búa þar endurgjaldslaust ævilangt, og ég skal hjálpa þér til að byggja bæinn að nýju, ef þú verður svolítið bónþægur við mig“. „Er þig farið að langa til að losna við mig af heimilinu?“ spurði Þórður kíminn. „Öðru nær, vinur. Það er af allt öðrum ástæðum. Ég var ekki búinn að tala út. Ég ætla að leggja til húsfreyjuna í Selið og hringana skaltu fá ókeypis. Finnst þér þetta ekki sæmileg kjör, sem ég býð þér?“ Jón gaf vini sínum gætur út undan sér og sá, að hann var hættur að brosa. „Jú, því verður ekki neitað“, sagði Þórður. „En ég gæti trúað, að það byggi eitthvað á bak við þetta kostaboð. Ég hef hugsað mér að velja sjálfur húsfreyjuna í Selið“. „Já, náttúrlega verður þú að vera ánægður með hana. Þú þekkir hana vel. Það er indæl stúlka, bráðmyndarleg, þrifin, blíðlynd og geðgóð. Ketilríður, sú fróða kona, sagði það einu sinni, að sér litist vel á hana, enda er hún lagleg stúlka“. Þórður reis snögglega upp, þreif sokkana sína og fór að klæða sig í. Svipur hans var orðinn þungur. Það varð löng þögn, sem báðir hikuðu við að rjúfa. Jón varð þó fyrri til. Hann bjóst við að heppilegast væri að tala í spaugi, það gafst jafnan bezt. „Þér liggur ekkert á að fara að klæða þig, vinur. Hún er ekki svo nálæg, að hún sjái þig, konuefnið". „Ætli þú sért ekki búin að venja hana af því að vera feimin við fáklæddan karlmann!“ svaraðí Þórður í breyttum málrómi. „Skeð getur, að þú segir það satt, en hún er jáfngóð fyrir það. Þú tekur hana að þér, góði. Ég skal gera hana vel úr garði“. „Ertu nú orðinn leiður á henni, helvítis flagarinn þinn!“ sagði Þórður og svipur hans vor orðinn þungur. „Vertu ekki svona stórorður, Þórður minn. Ég vildi helzt hafa hana fyrir ástmey allt lífið. Hún er ágæt stúlka. Þú getur ekki trúað því, hvað ég er eyðilagður yfir því að þú varst þar annars vegar. Það var meira óhreinlyndið í ykkur báðum að segja mér þetta ekki, fyrr en allt var komið í ótíma“. „Mér heyrist þér ekki vera það ókunnugt". „Hún skrifaði mér það núna fyrir nokkrum dögum, því að ekki gat hún stunið því upp við mig sjálf. Þvílíkir vesalingar, sem þetta kven- fólk er“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.