Lögberg - 25.08.1955, Page 6

Lögberg - 25.08.1955, Page 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 25. ÁGÚST 1955 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF „Hún á aldrei að héyra það“, flýtti hann sér að segja. „Reyndar hef ég aldrei leynt hana neinu, og mér fellur það illa. En hann Vill það ekki — vill ekki að hún viti það, sem ykkur hefur orðið á. Bara að segja henni að — sjáðu til — við höfum komið okkur svona fljótt saman. Hann óttast, að Helga á Hóli geti kannske haft það upp úr mömmu. Helga er alveg dæmalaus manneskja. Hún veiðir upp úr manni það, sem maður — það, sem maður ætlar sér þó að þegja yfir. Það er eins og hún sjái, hvað maður er að hugsa. Þú átt eftir að heyra í henni, Lína. Þú skalt vara þig á henni. Hún getur veitt fleiri en mig. Það er áreiðanlegt“. ' Lína settist upp og ætlaði auðsjáanlega að taka til hrífunnar, sem var reist upp við sætið. En Doddi færði sig nær með snöggum hreyfing- um. Hann hafði lengi langað til að slöngva hand- leggnum utan um þetta tággranna mitti, en aldrei vogað það, en nú hafði hreppstjórinn veitt honum einkaleyfi til þess. „Hann bað mig að taka mál af fingrunum á okkur. Hann ætlar svo sem að láta mig hafa hringana ókeypis — og margt fleira, sem hann ætlar okkur“, sagði Doddi um leið og hann kyssti konuefnið fyrsta kossinn. Lína tók atlotum hans hlýlega og hallaði sér að barmi hans. Hún þurfti stuðnings við. Það var sama hvort það var Doddi eða sætið. Allt var þetta ákaflega fáfengilegt, en þó svo þýðingarmikið, að hana langaði helzt til að hlægja og gráta í senn, en gerði hvorugt. En hún gekk rösklega að Ijánni á eftir og lauk við hana á svipstundu. Erlendur bóndi á Hóli rjátlaði ánægður um bæjarhlaðið þetta kvöld. Taða og úthey var komið í sæti allt í kringum hann. Ilmandi heylykt lá í loftinu. Þá liggur vanalega vel á sveitabónd- anum. Eldri sonur hans stóð í bæjardyrunum, nýþveginn og greiddur, hraustlegur brúnaþungur snáði, eins og föðurættingjar hans. Erlendi hafði ekki dottið annað í hug en að láta frumburð sinn heita eftir föður sínum, þó að ástríkið hefði verið heldur lítið milji þeirra feðga. Hann mundi svo vel æsku sína, að hann lét syni sína aldrei komast í kynni við „vöndinn“ eða hnefa sína. „Þú verður einhvern tíma stæltur, drengur minn“, sagði Erlendur og strauk drengnum bros- leitur um háls og herðar, „enda veitir ekki af, þegar þú ferð að slá hólana hérna — þeir hafa lengi þótt harðir“. Drengurinn roðnaði við hólið. „Það er nú svo sem ekki víst, að ég verði hér alltaf“, sagði hann. „Jú, auðvitað verðurðu bóndi á Hóli, góður- inn. Hvað ættirðu annað að taka fyrir? Það er óvíða betra að búa en hérna í dalnum okkar“, sagði Erlendur. Helga kom vaggandi frá bæjarlæknum og stanzaði hjá þeim við bæjardyrnar. „Það eru nú meiri sætin, þessi hjá Dodda“, sagði hún, þegar hún hafði blásið mæðinni. „Hann verður búinn að heyja handa kindunum fyrir íún“. y „Já, Doddi gerir það gott eins og fyrrí. Hann talaði við mig um daginn. Það er mikill búhugur í honum, aumingja stráknum. Hann ætlar sér að setja vel á í haust. „Já, hann á ekki bágt með að setja á lömbin. Það eru ekki hjá honum eins og hérna þessar botnlausu, bölvuðu skuldir alltaf“, sagði hún ergileg. „Hún hugsar meira um vinnuna, hún Hildur, heldur en að láta sjóða allan daginn á katlinum". „Og Doddi flytur víst færri vínflöskurnar og tóbaksbitana heim en þú“, sagði hún. Þá hló Erlendur og tók ánægjulega í nefið. „Jæja, kelli mín, við erum hæfileg hvort handa öðru“. Helga horfði á tvo menn, sem gengu fram eyrarnar. Steingrár hestur gekk við hlið annars þeirra. Það voru fáir dagar síðan hún hafði séð þá ganga þessa sömu leið. Hún gleymdi alveg gremjunni, sem hafði 'hlaupið í hana við ertni Erlendar. „Nú þykir mér skrítið“, sagði hún, „er þá ekki Doddi farinn að ganga á kærleiksgötu með hrepp- stjóranum í hvert sinn, sem hann er á ferðinni“. „Það stendur heima“, svaraði Erlendur. „Hann leitar alltaf ráða til hans, ef Þórarinn á Hjalla er ekki fær um að ráða fram úr vandanum. Nú hefur hann verið að bera það undir hann, hvort hann eigi að voga sér að biðla til Línu“. „Mér heyrist það nú bara á kerlingunni, að hún telji það sjálfsagt, að það verði par úr þeim“, sagði hún. „En ég held, að Lína sé svo áfjáð í að giftast, að hún láti glepjast af stráknum". „Ég tel það bara sjálfsagt. Það er algengt að vinnukonur, sem ráða sig þar, sem ógiftir bændur og bændasynir eru, verða konur þeirra. I þeim tilgangi fara þær í vistina. Þú manst nú, hvernig það gekk fyrir þér“, sagði Erlendur og hneggjaði af hlátri. Helga hnussaði og hvarf inn um dyrnar. NÝ TRÚLOFUN Doddi skáraði á túninu brosleitur yfir björt- um framtíðarvonum. Hildi fannst hann talsvert breyttur. Hreyfingarnar voru skarplegri og vand- ræðasvipurinn og hikið var að hverfa.. Oft leit hann til Línu með einkennilegum glampa í aug- unum. Stundum bar hann undir hana eitt og annað: „Finnst þér ekki ráðlegast að binda í dag?“ — eða: Finnst þér ekki þessi flekkur nógu vel þurr, Lína?“ Áður hafði nafnorðið alltaf verið „mamma“. En Hildur var ekkert særð yfir þessari breytingu, vegna þess að Lína sagði alltaf: „Hvað finnst þér, Hildur mín?“ Svo réðu þær báðar fram úr vandanum. Skyldi hann hafa nokkra von? Hún gat eiginlega ekkert talað við hann einslega. Þær fáu stundir, sem hann var inni við, snerist hann kringum Línu. Hún þvoði stundum af sér svuntu eða kjól á kvöldin. Þá sat hann frammi í eldhúsinu hjá henni og fylgdi henni út að snúrunni og horfði á hana, meðan hún var að klemma það upp. Hildi fannst nóg um þetta. Skeð gat, að hann spillti fyrir sér með því að vera svona nærgöngull. En Lína var alltaf jafn glaðleg. Stundum heyrði Hildur hann hlæja hátt, en hún spurði þau aldrei’ um það, hvað hefði kætt þau. Vonaði bara að þetta spáði góðu. Næsta vika hafði verið jafngóð hinni. Nú var allt útheyið komið í tótt og mikið af töðunni. Náttúrlega var þetta mikið meira en vanalegt var á þessu fámenna heimili. Á laugadagskvöldið var herppstjórinn á ferð neðan af Ós. Doddi brá sér í veg fyrir hann. Þeir töluðust eitthvað lítið eitt við. Svo kom Doddi heim aftur, flýtti sér inn í baðstofu og stakk ein- hverju ósköp fyrirferðarlitlu ofan í handraðann á koffortinu sínu og hélt svo áfram að ganga frá heyinu. Á sunnudagsmorguninn var hlý þoka og dögg- vott grasið, en auðséð var, að birta myndi upp úr hádeginu. Lína var að mjólka ærnar, en Hildur var að hreyta kúna, þegar Doddi kom fram og bað um rakvatn. „Nú skal ég halda mér til í dag og vera fínn“, sagði hann kankvís. „Nú, nú, stendur nokkuð til fyrir þér, Dodda- drengur?“ spurði móðir hans brosleit. „Ætlarðu nú að stynja upp bónorðinu?“ „A-ha! Ég tala við þig bráðum“, sagði hann hlæjandi og fór inn með vatnið. Hildur var forvitin. Hann var eitthvað svo glettnislegur á svipinn. Skyldi hann vera búinn að bera það í mál yið hana — eða hvað gat það annað verið? Hildur gat ekki stillt sig um að fara inn og vita vissu sína, áður en hún bragðaði á könnunni eða ræki kúna frá. Doddi var búinn að raka sig og var að þurrka rakhnífinn sinn, lét hann í hulstrið og stakk honum undir sperruna, eins og hann var vanur, en drýgindalegt bros lék um varir hans. „Nú, hvað var það svo, sem þú ætlaðir að segja mér? Ertu eitthvað að fara á bak við mig?“ spurði hún óþolinmóð. Hann fór ofan í koffortið og tók upp litlar, rauðar öskjur og sýndi henni. „Hvað heldurðu að hér sé?“ Hún vissi það ekki. Hann opnaði þ®r varlega og sýndi henni innihaldið: tvo glóandi gullhringa í bómullarbing. „Þessa á nú að setja upp í dag skal ég segja þér, mamma mín“, sagði hann og réði sér varla fyrir kæti. „Hvenær hefur þetta gerzt á milli ykkar?“ spurði hún hissa. „Ja, núna síðan slátturinn býrjaði“. „Hvernig gaztu fengið hringana svona fljótt?“ „Jón hreppstjóri kom með þá í gærkvöldi- Hann hefur nú verið mér betri en ekkert í þessu máli“, sagði Doddi, en hætti snögglega, en þó var auðheyrt, að hann hafði ætlað að segja meira. „Það var honum líkt“, sagði hún. „Hann minntist nú líka dálítið á það við mig um daginn, þegar við sátum hérna tvö ein inni“. „Talaði hann við þig, mamma?“ spurði Doddi og horfði alvarlega framan í hana. „Hvað sagði hann?“ Hann talaði bara um það svona í gamni, hvort mér fyndist Lína ekki ákjósanleg tengdadóttir, og sagði að það væri kannske hægt að koma því í kring, að hún yrði það. Ég tók það nú svona eins og hvert annað spaug. En hann hefur ekki látið sitja við orðin tóm frekar en vanalega". „Sagði hann ekkert meira?“ spurði Doddi hugsandi. Svo bætti hann við: „Hún á nú bara tólf ær fram frá. Reyndar eru það ekki allt ær núna, en þær verða það næsta vor, og svo á hún hryssu með folaldi. Svo það fjölgar hjá mér. En það verður ekki mér neitt viðkomandi, þó að eitt- hvað komi fyrir hér í vetur“. Aftur þagnaði hann jafn snögglega og áður, því að nú var hann að komast í ógöngur. En Hildur var því svo alvön, að hann ræki í vörðurnar, að hún tók ekkert mark á þessu, lagði bara hendurnar um hálsinn á hon- um og sagðist vona, að þetta yrði þeim öllum til blessunar. I „Ojá, ojá“, sagði Doddi hreykinn, ég er nú svo sem ekkert hræddur um, að það verði ekki blessunarríkt þetta og annað eins“. Um hádegisbilið voru hringarnir settir upp- Doddi fór í sparifötin og setti upp hálstau í annað sinn á ævinni. Lína lét það fara nógu snyrtilega. Svo breiddi hún hvítan, fínan dúk á borðið, alveg eins og þegar hreppstjórinn kom, og postulíns- pörin voru líka tekin upp, alveg eins og þá, og ekki var vínflöskunni gleymt. Svo var drukkið súkkulaði og borðaðar pönnukökur með þeyttum rjóma. Slíkt hnossgæti hafði Doddi aldrei fyrr bragðað. Lína fékk sér vel út í kaffið, sem var drukkið á eftir. Þetta var líka hálfvegis erfis- drykkja margra fagurra framtíðardrauma og brennheitra, nautnaríkra sælufurida. En vínið og bjartsýni hennar gerðu hana ókvíðna. Hún átti þó víst, að einn draumur sinn rættist — sá, að hún yrði húsfreyja í dalnum. Og aðalpersónan í ^þeim draum var Hildur. Það hafði verið vani Hildar, þegar eitthvað kom fyrir hana, sem hún gladdist af og vildi þess vegna gera sér dagamun, að „breiða á“ hvítan klút til merkis um að nágrannakonurnar ættu að koma og drekka með henni kaffi. Nú gat hún ekki stillt sig um að „breiða á“ til þeirra beggja, Sigþrúðar á Hjalla og Helgu á Hóli. Þær komu von bráðar og urðu því fyrstar til að óáka Línu og Dodda til hamingju. En báðar voru þær jafn hissa. Það þykja alltaf skemmtilegar fréttir, er hringar hafa verið settir upp, og þá ekki sízt, ef það kemur öllum á óvart, eins og trúlofunin á Jarðbrú. En það var fáferðugt milli bæja dagana næstu. Á miðvikudagskvöldið kom Sigþrúður á Hjalla fram að Nautaflötum og sagði Önnu frétt- irnar. Hún var ein í bænum. Borghildur hafði brugðið sér út á túnið. Það gerði hún oft, þegar mikið var undir að þurrka. Um miðaftansbilið fóru allir heim til að fá sér kaffi. Þá var gesturinn farinn. „Nú get ég þó svei-mér sagt ykkur fréttir“, sagði húsfreyja, þegar allir voru setztir við borðið. „Jæja, sagði Sigþrúður einhverjar fréttir?“ spurði Borghildur. „Já — og það trulofun. Getið þið nú“.

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.