Lögberg - 24.11.1955, Blaðsíða 6

Lögberg - 24.11.1955, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 24. NÓVEMBER 1955 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF Þá leit Doddi til konu sinnar og brosti, en hún var að snúast við vélina og mátti ékkert vera að líta við honum. Henni leið hræðilega illa. Hún var fljót að fara fram, þegar gestur barði að dyrum. Það var Erlendur á Hóli. Hann var oft gestur á Jarðbrú og alltaf kærkominn, en þó aldrei eins og nú. Hann talaði lengi og skrafaði. Hann vildi láta Önnu verða sér samferða að Hóli. Jón gat alveg eins tekið hana þar. En hún sagði, að það færi svo vel um sig hérna hjá litlu stúlkunni, að hún ætlaði að sitja hér lengur. Seinna ætlaði hún að koma til hans. í hvert sinn, sem Lína gekk fram, sneri hún sér að barninu og fór að skoða það með augunum, og í hvert sinn var eins og logandi járni væri stungið í brjóst henni. Voru það aðeins fötin, sem urðu þess valdandi, að hún taldi þetta vera barnið sitt, sem dáið var? Hún gat varla trúað því, að Lína, þessi ágæta stúlka, hefði gefið sig í að lifa þannig með giftum manni. Það gat varla verið. Stúlkur, sem höguðu sér svoleiðis, hlutu að bera utan á sér eitthvað ógeðfellt, og hún gat ekki komið hugsun að því, en það var eitthvað, sem ekki tilheyrði Línu. Hún var svo stillt og hálfhikandi í framkomu. Erlendur kvaddi með þeim ummælum, að þau Anna og Jón kæmu við hjá sér í heimleiðinni, það væri nógu langt kvöldið og hann ætti út í handa Jóni. Hún þakkaði honum heimboðið, en hugsaði sér ekki að þiggja það. Hún hafði enga longun til að koma að Hóli, og ekki bætti það úr, að hann ætlaði að gefa Jóni út í kaffið. „Það lítur út fyrir, að hún ætli ekki að lofa mér að sjá sig vakandi, litla stúlkan“, sagði Anna við Hildi, sem sat inni hjá henni. Lína þurfti svo oft að fara fram á þessum degi. „Hún var nýsofnuð, þegar þú komst“, sagði Hildur. „Svo vakir hún heila og hálfa nóttina. En þú þarft að sjá hana vakandi. Hún hefur svo falleg augu“. „Þú kveikir, þegar hún vaknar, Hildur mín, svo að ég geti séð hana vel. Það er svo dimmt í þessari baðstofu“, bað Anna í hvíslandi málrómi, sem kom Hildi dálítið kynlega fyrir eyru. En barnið svaf sem fastast. Næst þegar Lína kom inn, var hún búin búin að skipta um föt, komin í hreinan kjól með hvíta, blúndulagða svuntu. Hún skipti um vyfin á litlu stúlkunni án þess hún vaknaði. Anna stóð fast við rúmið og horfði á, hvað henni fórst það höndug- lega. „Ekkert er eins elskulegt og lítið, saklaust barn“, andvarpaði Anna. „Heldurðu að þú tímdir að gefa mér þetta barn?“ bætti hún við. „Hvorki þér né nokkrum öðrum“, sagði Lína. „Samt verða sumar mæður að þola það, að dauðinn taki börnin þeirra“, sagði Anna rauna- lega. „Ég held að ég yrði brjáluð, ef ég missti hana“, sagði Lína. „Ó-nei, það er engin hætta á því, þú ert svo stillt", sagði Anna. „Hvar eru eldspýtur, Lína?“ spurði Hildur. „önnu langar til að sjá hana vakandi“. „Hún er steinsofandi og ég veit ekki um neinar eldspýtur“, flýtti Lína sér að svara, en þó var hún með stokk í barmi sínum. Nú heyrðist að gestur var á ferðinni framan göngin. Það var Jón. Skyldi Lína hafa vitað, að hann var kominn og þess vegna skipt um föt? Jón heilsaði glaðlega og stanzaði fram við dyrnar. Hann ætlaði auðsjáanlega ekki að setjast. „Sælar verið þið, allar konur. Hestarnir bíða tilbúnir, góða mín. Þú hlýtur að vera búin að horfa nógu lengi á barnið1', sagði hann. Honum finnst það ekki eiga við að heilsa mér öðruvísi en svona, hugsaði Anna, en upphátt sagði hún: „ Hún hefur alltaf sofið, svo að ég er ekki farin að sjá, hvað augun í henni eru falleg“. „Heldurðu kannske að þú bíðir eftir því að barnið vakni?“ sagði Jón óþolinmóður. „Þú drekkur kaffið, blessaður“, sagði Doddi. „Auðvitað seturðu þig niður og drekkur kaffi. Ég var að reyna að hafa það gott“, sagði Hildur og brosti kankvíslega. „Og svo býst ég við, að Lína eigi eitthvað út í kaffið handa þér, eins og vant er“. Það var svo sem auðheyrt, að hann hafði komið hér áður og þegið góðgerðir, hugsaði Anna og óskaði þess, að það væri búið að kveikja, svo að hún gæti séð, hvernig fólkið liti út. „Er hann vanlegur gestur hjá þér, Hildur mín?“ spurði Anna. „Hann kemur allt of sjaldan“, sagði gamla konan. „Mér þykir hann svo skemmtilegur gestur“. „Ég kem nógu oft til að eyða kaffinu frá þér, Hildur mín“, sagði Jón. „Það má til með að kveikja“, sagði Hildur. „Hvar skyldu eldspýturnar eiginlega vera?“ Doddi þreifaði í öllum vösum sínum, en fann engan eldspýtustokk. Lína hafði setið inn á rúm- inu í þeirri von, að hjónin færu án þess að þiggja kaffið, en nú fann hún, að gestrisnin krefðist þess að hún hagaði sér ekki eins og einhver rola. Hún fór fram að eldavélinni og laumaði eldspýtu- stokk í lófann á Hildi um leið og hún þrýsti fast að hendi hennar, eins o gtil að biðja hana að vera varkára, en gamla konan skildi það ekki. Hún brá upp ljósi á týru og kveikti síðan á litlum lampa, sem gekk ofan úr mæninum rétt yfir borð- inu. Hann var gljáfægður og hreinn, eins og allt í þessum lélegu húsakynnum, og bar góða birtu. Nú gat Anna virt allt fólkið fyfir sér. Doddi stóð í hálfgerðu hnipri upp við baðstofuhurðina. Lína fór að taka bollapör upp úr kommóðuskúffu. Hún var rauð í andliti og Önnu sýndist óstyrkur á höndunum, þegar hún handlék leirinn. Þegar Lína var komin fram að vélinni aftur sá Anna, að þau töluðust við með augunum, Jón og hún. En hvað það var, gat hún ekki vitað. Hildur var sú eina, sem hafði hreinan skjöld og kom fram eins og hún var vön — glöð og skrafhreifin. Hún bauð Jóni sæti víst í þriðja sinn, en hann settist samt ekki. Hann vildi víst vera þarna fram við eldavélina sem næst Línu, hugsaði Anna og blóðið fór að renna hraðar eftir æðum hennar, og nýtt ljós rann upp í huganum. Hér var víst ráðn- ing þeirrar gátu, hvers vegna Lína hafði trúlofazt þessu vesalmenni, sem stóð þarna fram við dyrnar eins og ráðalaus krakki, sem veit ekki, hvers hann má vænta á næstu augnablikum. Líklega var nú kominn sá tími, að það ætti að koma fram í birtuna, sem hefði átt að hylja í myrkrinu, því að nú gaf litla stúlkan frá sér hljóð. Hún var áreiðanlega vöknuð. Anna gekk hiklaust að rúm- inu, tók mjúka reifastrangann og bar hann yfir að borðinu rétt undir lampann í sama bili og Lína ætlaði að breiða kaffidúkinn á það. „Anna!“ kveinaði Lína. „Hún þolir ekki svona mikla birtu í augun“. Anna hló lágt og titrandi. „Þolir ekki barnið þitt að koma í birtuna? Ætlarðu að fela það upp í rúmshorni alla ævina? Mig langar til að sjá augun í henni. Ég hef heyrt, að þau væru falleg“. En litla stúlkan opnaði ekki augun fyrr en Hildur skyggði fyrir ljósið með höndinni. Þá opnuðust litlu, bláu augun og svöruðu hrópandi spurningunni í augum konunnar, sem hafði beðið svo lengi eftir þessu svari: Það voru augun háns Jakobs! Það voru augu hennar eigin barna! — En nú varð hún að vera stillt. Hún kyssti á enni barnsins og sagði í gæluróm: „Þú ert yndislega falleg, blessað ljósið litla“. Svo leit hún til manns síns, sem stikaði fram og aftur um gólfið, sem þó var alltof lítið fyrir hann. „Jón“, sagði hún, „ætlarðu ekki að sjá barnið — þú, sem hefur svo gaman af smábörnum?“ En ekki tók betra við þá, því að Hildur sagði brosandi: „Hann er nú búinn að sjá hana og gleðja hana heldur rausnarlega“. Jón gekk hiklaust að borðinu og leit á barnið. „Hún hefur nú víst hvítnað og fríkkað mikið síðan um daginn“, sagði Hildur hreykin. Hvert orð, sem hún sagði, var eins og eldfimur dropi í afbrýðislogann, sem kviknaður var í brjósti Önnu Friðriksdóttur. „Þetta er mesta myndarkona", sagði hrepp- stjórinn og snerti varlega við silkimjúku hárinu á höfði barnsins. Doddi stóð enn fram við dyrnar og hristi höfuðið framan í konu sína. Hún stóð eins og á nálum með borðdúkinn í hendinni. „Hvenær yrði þessu lokið? Hvern endi ætlaði þetta að hafa?“ hugsaði hún. Jón brosti til Línu. „Ég sé ekki annað en þú verðir að gefa Önnu barnið; henni lízt svo vel á það“, sagði hann. „En hvað hann getur verið kaldur“, hugsaði Lína. Hildur varð fyrir svörum: „Ég er hrædd um að hún tímdi því ekki — henni þykir svo vænt um hana“. Anna bar barnið að rúminu aftur og kom því fyrir í hlýju hreiðrinu, sem hún hafði tekið það úr, kyssti það á ennið og sagði: „Blessað litla, saklausa barn. Vertu sæl!“ Hildur skildi ekkert í Línu, hvað hún gat verið ólík sjálfri sér, hafði ekki einu sinni hug á að fara að breiða dúkinn á borðið, þegar það var orðið autt. Hildur minnti hana á kaffið, og þá tók hún líka rögg á sig — tók allt það fínasta fram, postulínspörin og fín brauðföt. Þegar kaffið var komið í bollana, spurði Anna Línu, hvort hún ætlaði að gleyma flöskunni. Lína stokkroðnaði og svaraði hikandi: „Ég þekki það, að þér er ekki vel við návist flöskunnar“. „En það gerir náttúrlega ekkert til, þótt hún sé á borðinu, þegar ég er ekki nálæg“, sagði hún. Rómurinn var mjúkur eins og vant var, en samt duldist engum kuldinn og beiskjan, sem var inni fyrir. • Það kom djúp hrukka milli augna hreppstjór- ans. Lína leit til hans biðjandi augnaráði, sem ekki fór fram hjá konunni hans. Hann varð því fyrir svörum. „Ég get nú sagt þér það, kona góð, að það er áreiðanlega ekki til vín hjá sveitungum mínum, ef mér er ekki boðið út í kaffið, þar sem ég kem, og ég er ekki svo hlýðinn við þig, að ég neiti því. Mér er oft ónotalegt á þessum ferðum, en þú situr heima í hlýindunum og getur hitað þér kaffi, þegar 'þú vilt“. „Erlendur á Hóli var líka að bjóða okkur að koma við og sagðist eiga vel út í handa þér. En það verð varla ég, sem verð þér samferða þangað“. „Það gerir ekkert til, ég get alltaf fundið Ella. Hann yrði varla eins nærgætinn við þig og Lína að fara að fela flöskuna, þó að þú værir með“. Svo varð óþægileg þögn. Það var lítið borðað af fína brauðinu, sem Borghildur hafði látið niður í töskuna. Doddi reyndi að miðla málum, þótt honum léti það ekki sem bezt. „Blessuð vertu, þetta var ekki nema eitthvað einu sinni, sem hann fékk út í kaffið, og það var ekki nokkur skapaður hlutur, sem hann lét í bollann. Þú mátt vera róleg þess vegna“, sagði Doddi. Lína var hissa, hvað honum sagðist vel. En það tóku ekki fleiri til máls. Kveðjurnar urðu heldur kaldar hjá ungu konunum, en Hildur þakkaði Önnu fyrir komuna og bað hana velvirðingar á viðtökunum. Það hafði tengdadóttir hennar látið ógert. „Þú kemur mér út, Doddi minn“, sagði Anna og greip undir handlegg honum. Lína andvarpaði af feginleik, þegar baðstofu- hurðin féll að baki þeim. „Hamingjan hjálpi þér, Hildur, að þú skyldir fara að minnast á að Jón hefði fengið vín hérna“, sagði Lína, þegar þær voru orðnar einar inni. „Heldurðu að henni hafi mislíkað það?“ spurði Hildur hissa. „Þú þekkir ekki, hvað hún er voðalega erfið við hann. Ég er viss um, að hún talar ekki við hann alla leiðina heim. Guð veit, hvað af þessari heimsókn hlýzt“. „Hvernig getur það verið, þar sem allir tala um þetta ástríka hjónaband, sem þessar mann- eskjur lifi í“, sagði Hildur. „Það er honum að þakka, en ekki henni. Það má ekkert út af bera, svo að hún verði fýld og tali ekki við hann fyrr en hann hefur gengið lengi á eftir henni eða gefið henni eitthvað eins og óþekktum krakka“. „Ja, hvað er að heyra þetta!“ sagði Hildur. „Mér datt ekki í hug, að þetta væri svona. Þú hefur aldrei minnzt á þetta einu orði“. /

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.