Lögberg - 01.12.1955, Page 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 1. DESEMBER 1955
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
DALALÍF
Önnu fannst maður sinn taka svo fast og
hranalega á sér, þegar hann lyfti henni í söðulinn.
Næst mátti hún sjálfsagt búast við, að hann færi
að finna að því að hún hefði komið fram sem
ókurteis gestur við Línu. Það var heldur ekki
laust við að henni fyndist það sjálfri. En að hann
talaði um það, gat hún ekki þolað. Hún var búin
að ofbjóða stillingu sinni svo mikið seinasta hálf-
tímann, sem hún hafði setið inni í baðstofunni á
Jarðbrú — þessari andstyggilegu kytru, sem hún
hataði meir en allt annað þessa stundina.
Kvöldhúmið lá eins og þunn slæða yfir daln-
um og svalan andvara lagði framan af fjöllunum,
sem nísti þessa veikbyggðu konu inn að hjarta.
Hún reið úr hlaðinu, meðan Jón var að kveðja
Dodda. „Segðu Línu, að hún skuli bara vera róleg.
Þetta lagast allt á heimleiðinni eins og vant er“,
sagði hann lágt um leið og hann steig á bak.
Stjarni fór að stíga hraðara, þegar hann heyrði
til Fáika á eftir sér. Anna bjóst við ávítunarræð-
unni, en hún varð þá engin. Jón reið fram með
hlið hennar og talaði við hana í sínum hlýjasta
málrómi: „Við verðum að láta hestana stíga liðugt
fram eftir, það er farið að kólna — og þú svona
illa-búin um höfuðið“.
Hún anzaði engu. Þá fór hann að skila kveðju
frá frú Matthildi og einhverjum boðum. En hún
heyrði þau ekki. Orðin buldu eins og haglkorn
utan á höfði hennar, en inn í hlustirnar komust
þau aldrei. Hún sat eins og hálfsofandi í söðlinum,
en hélt sér þó fast, því að hestarnir skeiðuðu fram
rennsléttar eyrarnar. Þegar þeir hægðu á sér,
spurði Jón, hvort henni fyndist of hart farið.
Ekkert svar ennþá. Svo riðu þau hlið við hlið
nokkra stund. Hann snart handlegg hennar og
fann, að hún titraði og skalf.
„Anna, þú skelfur af kulda og nefnir það
ekki“, sagði hann og flýtti sér af baki, þreif hana
úr söðlinum, fór úr kápunni og klæddi Önnu í
hana. Hún hafði ekert á móti því. „Þetta sagði ég
þér í mörgun, að betra væri fyrir þig að hafa sjal
yfir þér. Þú hefðir átt að fá það lánað á Jarðbrú“.
Hana langaði helzt til að slá hann á varnirnar
fyrir að láta þetta bæjarnafn út fyrir þær. En
hún stillti sig ennþá. Hann lét hana í söðulinn og
reyndi ekki til þess framar að fá hana til að tala,
heldur hvatti hestana, svo að þau kæmust sem
fyrst heim. Hann efaðist ekki um, að hún væri
að veikjast.
Þegar Jón og Anna komu heim, stóð Þórður
á hlaðinu, alveg eins og hann hefði vitað, á hvaða
mínútu húsbændur hans riðu í hlaðið. Jón kastaði
á hann kveðju, en Anna steinþagði.
„Er eitthvað að konunni?" spurði Þórður.
„Henni varð kalt á heimleiðinni“, sagði Jón.
Hann tók hana af baki og bauð henni að bera
hana inn, en hún losaði sig úr fangi hans og
slagaði inn göngin. Jón fylgdist með henni. Það
var ljós og ylur í eldhúsinu. Borghildur var ný-
komin með mjólkina úr fjósinu. Jón heilsaði
henni, en Anna talaði ekkert, stóð bara eins og
hræða í dragsíðri stóru kápunni rétt við eldhús-
dyrnar.
„Hefurðu ekki heitt á könnunni, Borghildur
mín? Önnu er svo kalt“.
„Er orðið svona kalt?“ spurði Borghildur
skilningslaus. Hún var nýlega komin að utan.
Anna fór að toga af sér vettlingana, kastaði
þeim á borðið og fór að hneppa frá sér kápunni.
Það hlaut að vera hræðilegt að sjá hana í þessu,
var það eina, sem hún gat hugsað. Hún rétti úr
handleggjunum og kápan seig ofan á gólfið. Hún
sparakaði í hana með fótunum. Borghildur greip
kápuna og hengdi hana upp, en leit spyrjandi
augum á húsmóður sína: Hvað svo sem gat hafa
komið fyrir manneskjuna?
„Seztu, góða mín, það er heitt á könnunni“,
sagði Borghildur og kyssti Önnu hlýlega.
„Ertu lasin?“
„Já“, sagði Anna og settist, en sneri sér undan
ljósinu.
Kaffið var komið í bollana eftir nokkrar
mínútur. Jón tók upp vasaglasið og hellti út í
bollann sinn.
Borghildur sá að hann var skjálfhentur. „Þér
er þá líka svona kalt. Þú ert líka kápulaus".
„Nei, mér er ekkert kalt“, svaraði hann og
rétti glasið til konu sinnar. „Fáðu þér saman við.
Þér hlýnar af því“.
Hún bar höndina yfir bollann, eins og hún
óttaðist, að hann hellti úr glasinu hvort sem hún
vildi eða ekki. Varir hennar titruðu áður en hún
fékk komið upp orði: „Drekktu vínið þitt sjálfur.
Þú nýtur þess betur en ég. Ég get hlýjað mér á
kaffinu eins og ég er vön. Mér er alltaf svo hlýtt
og notalegt heima“.
Hann kannaðist við, að hann hafði sagt þetta
við hana ekki alls fyrir löngu. „Vertu ekki svona
óánægð, góða mín“, sagði hann óþolinmóður og
hrukkaði ennið.
„Það er vel hlýtt inni“, sagði Borghildur.
Anna stóð upp og reikaði í áttina til bað-
stofunnar. „Hamingjan gæfi, að ég kæmist inn
hjálparlaust“, óskaði hún í huganum. Hún fann,
að kraftarnir voru að þverra. Borghildur hljóp
til hennar og studdi hana inn í hjónahúsið, en
maður hennar sat kyrr og fékk sér meira kaffi
og hellti því, sem eftir var í glasinu, saman
við það.
Vinnufólkið glápti alveg forviða á húsmóður
sína, sem hafði ekki einu sinni haft rænu á því
að heilsa, heldur gekk eins og í svefni við hlið
Borgihldar gegnum baðstofuna. Gróa flýtti sér á
eftir þeim. Hún hjálpaði Borghildi að koma
henni í rúmið. Jakob og Dísa stóðu lafhrædd í
húsdyrunum. Borghildur hughreysti þau með því
að henni myndi batna í nótt. Svo ýtti hún þeim
fram úr dyrunum og lokaði hurðinni.
Gróa þeyttist fram í eldhúsið, fyllti hverja
vatnsflöskuna eftir aðra af heitu vatni og lét
þær í rúmið kringum húsmóður sína. Dísa gekk
um gólfið og háorgaði af hræðslu við að mamma
sín væri að deyja. En Jakob leitaði til Þórðar í
raunum sínum. Þar fannst honum alltaf huggun
að finna. Pabba sinn sá hann hvergi. Hann var
horfinn, og það spurði enginn eftir hónum. Allir
höfðu um annað að hugsa. .
Gróa hafði hlaupið frá hálfumbúnu rúminu
og tók nú til við það aftur. Hún setti undirsæng-
ina á annan endann og barði hana með krepptum
hnefunum. kastaði henni svo flatri og sléttaði
hana. Hún var kafrjóð af ákafa og geðshræringu.
„Blessaður Kristján minn, farðu að hátta áður
en stelpuóhemjan gerir þig vitlausan“.
Allir horfðu á fjarskann í Gróu. Magga ein
vogaði sér að spyrja eftir því, sem alla langaði
til að vita: „Hvað er eiginlega að henni, hús-
móðurinni?"
„Ja, guð má vita það. Hún er fallin í yfirlið
eða ég veit ekki hvað. Það væri óskandi, að ekkert
alvarlegt væri á næstu grösum, en ekki þætti
mér það ótrúlegt. Það var bara eins og ég sæi
hann föður hennar sáluga eins og hann leit út
seinustu dagna í þessu lífi, þegar hún kom inn í
baðstofuna", svaraði Gróa og hamaðist á
koddunum. /
„Hvers konar fjas er þetta í þér, manneskja“,
sagði Þórður önugur.
Gróa varð rólegri við ávítur Þórðar. „Farðu
að hátta, Dísa. Ég skil ekki, að neitt batni við það
að láta svona“, sagði hún.
En Dísa grét ennþá meira, því að nú fann
hún, að enginn hugsaði um að hugga hana. Hún
var munaðarlaust tökubarn, þegar Borghildur eða
hjónin voru ekki við. En þá kom Manga til hennar
og strauk af henni tárin. „Vertu ekki svona
óánægð, Dísa mín. Það verður sóttur læknir og þá
batnar mömmu þinni. Sjáðu hvað Jakob er
stilltur“.
„Það er líka setið með hann, en enginn situr
með mig“, sagði Dísa snöktandi, en fór þó að
hátta og hætti ótrúlega fljótt að skæla.
Borghildur kom fram fyrir og sagði að Anna
svæfi nú vært. Það væri bezt fyrir Jakob að fara
að hátta. Hann lædist að rúminu og kyssti mömmu
sína á kinnina, þegar hann kom inn. Hún opnaði
augun og sagði: „Biddu hana Borghildi að sofa
hérna hjá mér í nótt. Ég vil engan annan en
þig og hana“. Svo lokaði hún augunum aftur, og
drengurinn hélt, að þetta hefði verið einhver
vitleysa. Faðir hans kom líka inn rétt í þessu og
settist á stólinn við ofninn, sem mamma hans sat
alltaf á. Drengurinn fór að hátta og hugsaði alltaf
um það sama, hvað allir væru undarlegir og
töluðu í hálfum hljóðum, nema Gróa. Hann hafði
ekki skilið, hvað hún átti við, ep hann bara kveið
fyrir einhverju, sem kæmi bráðlega fyrir, væri á
næstu grösum, eitthvað alvarlegt, hafði Gróa sagt.
Jafnvel pabbi hans var svo undarlegur. Fallegu
augun hans voru svo köld og starandi og djúp
hrukka milli þeirra. Hann fór til föður síns og
bauð honum „góða nótt“ með kossi, eins og hann
var vanur. Faðir hans var eins og úti á þekju, eins
og Borghildur kallaði það, ef einhver tók ekki
eftir því, sem gerðist í kringum hann. Og eftir að
drengurinn var lagztur út af, hugsaði hann um
það sama. Mamma hans hlaut að vera mikið veik,
fyrst allir voru svona. Kannske færi hún bráðlega
að deyja — þess vegna var pabbi svona. Hann
fylgdi honum með augunum. Hann gekk nokkrum
sinnum um gólfið, svo klæddi hann sig úr jakkan-
um, aflæsti hurðinni og stakk lyklinum undir
koddann sinn. Því gerði hann þetta? Það hafði
drengurinn aldrei séð hann gera fyrr, að láta lykil-
inn undir koddann. Svo skrúfaði hann niður í
lampanum, en það var samt ekki niðamyrlcur.
Ljósið blakti og titraði — barðist við dauðann,
kallaði Manga það, þegar ljósið var að slokkna.
Loks hvarf það alveg og myrkrið grúfði sig yfir
rúmið hans eins og hræðileg vofa. Hann barðist
við hræðsluna, sem greip hann allt í einu. Vana-
lega var hann sofnaður áður en ljósið var slökkt.
„Pabbi“, kveinaði hann með gráthljóði, „ég er
svo hræddur við myrkrið, þegar þú ert svona
langt frá mér“.
Líklega hafði faðir hans ekki verið kominn
upp í rúmið, því að hann heyrði að hann gekk
eftir gólfinu og nálgaðist rúmið. „Því ertu
hræddur, góði minn?“ spurði hann lágt áður en
hann var kominn alla leið til hans. „Ég er svo
oft að heiman og þá ertu einn hjá mömmu og ert
víst ekkert hræddur". Hann var nú kominn alveg
að rúminu hans og strauk yfir hárið á honum í
myrkrinu, en hann talaði ekki eins hlýlega og
hann var vanur, að drengnum fannst.
„Þá er Borghildur oft hjá okkur og mammá
lætur ljósið lifa“.
„Á ég að kveikja ljósið, elsku, kjarklausi
drengurinn minn?“ Nú talaði hann eins og
vanalega.
„Ekki ef þú situr hérna hjá mér — alveg
héma“.
Jón laut niður að andliti drengsins og hann
vafði handleggjunum um háls honum. „Heldurðu
að mömmu batni ekki aftur, pabbi? Því sóttirðu
ekki lækninn í kvöld?“ hvíslaði Jakob.
„Henni batnar, þó að hann komi ekki. Hún
verður orðin frísk á morgun“, hvíslaði faðir hans
á móti. „Farðu nú að sofa, vinurinn. Ég sit hjá
þér. Þú þarft ekki að vera órólegur, mömmu er
ekkert mikið illt, hún er bara dálítið lasin. Þú ert
nú orðinn svo stór maður, að þú mátt ekki alltaf
vera lítið barn — eins og hún mamma þín“.
Seinustu orðin talaði hann ekki upphátt.
GLERSKÁLIN BROTNAR
Borghildur vaknaði fyrst af öllum morgun-
inn eftir, eins og vanalega. Þó hafði hún eins og
flestir aðrir á heimilinu átt bágt með að festa
svefninn vegna kvíða fyrir komanda degi. En
nú var hann runninn upp, og ekkert sérstakt hafði
borið við um nóttina. Hún var nýbúin að láta
ketilinn yfir eldinn, þegar Jón kom fram. Hann
var alltaf árrisull, en nú fannst henni, að hann
hefði kannske ekki átt gott með að sofa frekar
en hún.
„Hvernig líður Önnu?“ spurði Borghildur
áhyggjufull og horfði athugul á húsbóndann.
„Hún hefur sofið í alla nótt — eða að minnsta
kosti hef ég ekki orðið þess áskynja, að hún vekti“,
svaraði Jón fálega.