Lögberg - 01.03.1956, Blaðsíða 6

Lögberg - 01.03.1956, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMTMUDAGINN 1. MARZ 1956 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF Helzt hefði Anna kosið að svara henni líkt og skáldkonan Agnesi sakakonu, að hún þyrfti ekki að vera undrandi, þó að hún fyndi eitthvað til eftir það, sem hún hefði frá henni tekið. En hér voru helzt til margir tilheyrendur til þess að svoleiðis orðbragð gæti átt sér stað, enda var það jafn- auðmýkjandi eins og að láta hana sjá aðskilin hjónarúmin. Hún ætlaði ekki að játa ósigur sinn fyrir nokkurri manneskju, nema Þóru. Hún hafði alltaf verið henni góða systirin, sem allt mátti vita. Hún svaraði því svo stillilega sem hún gat: „Nei, ég hef ekkert verið lasin“. Samtalið yfir kaffidrykkjunni var slitrótt. Aðallega voru það Erlendur á Hóli og presturinn, sem töluðu. Hreppstjórinn var eins og úti á þekju og lagði lítið til þess, sem um var rætt. Doddi horfði oft til hans með spyrjandi augnaráði. Anna settist inn í búr, þegar hún hafði borið kaffið fram. Uppgerðarþrek hennar var að bila. Borghildur vildi að hún háttaði, en það mátti hún ekki fyrr en gestirnir væru farnir. Bara að þeir kæmu sem fyrst að kve&ja. Konurnar komu nú inn og kvöddu. Lína varð af einhverri ástæðu síðust. Þegar Anna heyrði til hennar, flýði hún bak við búrhurðina í þeirri von, að hún skýldi sér. Lína spurði Borghildi ef-tir henni. Hún bjóst við, að hún hefði farið inn. Lína fór svo inn og bankaði á húshurðina með miklum hjartslætti, en óskaði samt helzt, að henni yrði ekki boðið inn. Og henni varð að ósk sinni. Þá kom hún aftur fram -og bað Borghildi fyrir kveðju til Önnu með þakklæti fyrir kransinn og alla fyrirhöfnina sín vegna. Svo fqr hún að kjökra. Borghildur leitaði í huga sínum að einhverju huggunaryrði handa þessari syrgjandi móður, en fann það ekki, en kveðjunni lofaði hún að koma til skila. „Eins ætla ég að biðja þig að skila kveðju til Þórðar fyrir það, hvað hann bjó vel um litlu kistuna mína“, bætti hún síðar við. „Hann vinnur nú allt vel, hann Þórður“, sagði Borghildur. Borghildur skilaði kveðjunni og þakklætinu til Þórðar, en ekki Önnu, því að hún hafði heyrt, hvað Lína sagði. Borghildur þóttist nú hér um bil viss um, að grunur sinn væri á rökum byggður. „Það er víst óþarfi fyrir hana að vera að þakka mér fyrir eitt eða annað“, sagði Þórður stuttlega. „Hún hefur mér ekkert að þakka“. DODDI TALAR „Allir dagar eiga sér kvöld — og gott er að þessi dagur er liðinn“, sagði Lína, þegar hún var komin heim í kofana sína frá jarðarförinni. Hildur skipaði henni að hátta strax. Sjálf ætlaði hún að leggja í vélarangann, svo að það hlýnaði inni. Lína þáði það. Hún var dauðuppgefin á sál og líkama. Hún sofnaði og vaknaði við það, að Hildur kom inn með rjúkandi nýmjólkurkönnu. Doddi sat á rúmstokknum og raulaði vísu. „Það er gott, að þú hefur getað sofnað, góða mín“, sagði Hildur. „Hérna kemur nú mjólkin handa ykkur. Ég geri ráð fyrir, að þið kærið ykkur ekki um meira. Maður er svo vel haldinn af þessu bakkelsi. Það er nú meiri rausnin og myndarskapurinn á því heimili“. „Ég hef góða lyst á hræringnum, eins og vant er“, sagði Doddi brosleitur. „Annars voru kökurn- ar ágætar. Er það Borghildur eða Anna, sem bakar svona gott?“ spurði hann og laut yfir Línu, svo að hún tæki eftir því, sem hann var að segja. Hún var stundum utan við sig nú í seinni tíð. „Það hefur sjálfsagt verið Borghildur“, anzaði Lína. „Hún er nú ekki þessleg, húsmóðirin, að hún geri mikið“, gegndi Hildur fram í, „enda sagðist hún hafa verið við rúmið undanfarið“. „Hún ætti nú að geta keypt sér meðul, nóg er ríkidæmið“, sagði Doddi og hristi höfuðið. „Þvílík prakt á öllu“. Lína klappaði Dodda á höndina og spurði: „Gafstu ekki Grána mínum vel, þegar hann kom heim aftur?“ Hún vildi sízt af öílu, að talið bærist að húsmóðurinni á Nautaflötum. „Jú, það gerði ég áreiðanlega, og hann tók lystuglega í“. Svo fór hann að kveða gjallandi hátt gamla vísu, meðan mamma hans var að ná í hræringinn fram í búrið: „Upplitshár með eyrun sperrt, ánægður þó skipti um vist, klippir heyið Sokki svert, sýnist mér hann hafa lyst“. „Hvaða kveðskapur er þetta í þér, maður“, sagði Hijdur í umvöndunartón, þegar hún kom inn. „Komdu svo fram í fjósið og brynntu fyrir mig, þegar þú ért búinn að borða“. „Mér datt þessi vísa svona í hug“, sagði Doddi,, „pabbi sálugi kenndi mér hana einu sinni, þegar þú varst að leita að gula kettinum okkar. Þú hlýtur að muna eftir honum“. Hildur var farin fram, áður en hann hafði lokið við þetta heimskuþvaður, sem hún nefndi svo í huga sínum. líún þurfti að tala við hann í einrúmi. Doddi kom líka fram í fjósið rétt á eftir, greip vatnsfötuna og raulaði glaðklakkalega ein- hverja lagleysu. „Ég skil ekkert í þér, Doddi minn, hvað þú tekur þetta öðruvísi en þú átt að gera. Þú mátt ekki vera svona hress í anda, Lína er syo syrgj- andi, auminginn. Móðurhjartað er alltaf tilfinn- ingarnæmara“, sagði hún ávítandi. „Hún er alltaf að hugsa um hana, barnið. Hún segist vilja sofa ein, svo að sig dreymi hana. Ég var að vona, að hún hætti að hugsa um hana, þegar búið væri að flytja kistuna burtu, en hún er alveg eins hrygg og áður“, sagði hann, „og þó lofaði hún því einu sinni að verða jmér góð kona“. „Hún verður það líka, hún hefur ekki annað til. En þú ert bara ekki nógu alvarlegur — henni leiðist það. Ég hélt þó, að þér myndi þykja vænt um að verða faðir, en það lítur út fyrir að þér hafi staðið á sama, hvort barnið þitt lifði eða dæi“. „Já, en mamma, þetta var ekki mitt barn“, var Doddi búinn að segja, áður en hann vissi af sjálíur. Svo hristi hann höfuðið og sló utan í sjálfan sig fyrir lausmælgina.,, Nei, eiginlega ætlaði ég ekki að láta þetta út úr mér, þótt mér hafi leiðzt að fara á bak við þig með þetta, en „hann“ ráðlag^i mér það. En nú veiztu það, mamma, og þú mátt engum segja það“. „Guð komi til!“ var það fyrsta, sem Hildur sgaði eftir langa þögn. „Nú fer ég að skilja margt, sem hefur verið mér ráðgáta. Aumingja Lína! Ekki var furða, þó að hún væri óánægð í fyrra sumar. Mikið hafa þessir menn á samvizkunni“. „Ég hef ekki sagt þér, hver hann er“, sagði Doddi. „Þú þarft þess ekki, góði minn, ég fer nærri um það“. „En þú mátt ekki láta Línu vita, að ég sagði þér þetta, eða vera kaldari við hana en þú hefur verið. Og ekki máttu heldur vera snúin við „hann“, þó að hann komi. Hann ætlar að koma vel fram við okkur“, sagði Doddi hálflúpulegur. „Sei-sei“, sagði Hildur. „Ég vona, að þeirra viðskiptum .sé nú lokið. Hann þarf varla að gefa með henni Sigurlínu hingað; hún vinnur fyrir sér sjálf. En mér þykir jafnvænt um hana, þótt ég viti þetta. Ef svona hefði ekki staðið á fyrir henni, hefði hún sjálfsagt aldrei orðið húsmóðir á Jarð- brú. En við verðum að vera góð við hana, meðan sár hennar eru að gróa“. ÞÓRA KEMUR TIL KIRKJU Presturinn gisti á Nautaflötum nóttina eftir jarðarförina og messaði daginn eftir. Það komu vanalega þó nokkuð margir til kirkju, þó að færðin væri ekki góð. Þóra í Hvammi kom til kirkju, en það var þó ekki vanalégt. Heimilisannirnar tóku allan hennar tíma. En þennan sama morgun hafði nágrannakonan Sigþrúður á Hjalla komið allra snöggvast að Hvammi. Erindið var ekki annað en að fá lánað ofurlítið af matarsalti. Hún stóð stutt við, en minntist þó á, að hún hefði verið við jarðarförina daginn áður. „Ég er hrædd um“ ,sagði Sigþrúður, „að það sé ekki allt sem ákjósanlegast með heilsufar hennar Önnu okkar Friðriksdóttur. Það er óskap- legt að sjá útlit hennar. Og svo tók ég eftir óvæntri breytingu í hjónahúsinu“. Meira . sagði hún ekki, þessi fáorða kona, enda var krakka- hópurinn kringum þær konurnar eins og venjulega. Vegna þessa stutta samtals var Þóra við kirkju þennan dag. Hún þóttist sjá, að Sigþrúður hefði ekki sagt of mikið um ljótt útlit Önnu, enda var það ekki vani hennar. Eftir messu gekk Þóra út í kirkjugarðinn og að nýja leiðinu. Helga á Hóli fylgdist með henni. Hún var hálfkindarleg á svipinn, þegar hún spurði Þóru, hvort henni fynd- ist ekki skrítið að taka gröfina hérna í Nautaflata- grafreitnum. ,Það hefur sjálfsagt verið einna minnst fönnin hérna, enda fer nú að verða þröngt í garðinum“, svaraði Þóra köld og fráhrindandi. „Það var Jón, sem réð því, sagði Hildur mér“, bætti Helga við meinfýsin. „Það fer sjálfsagt hvergi betur um börnin en við hliðina á Lísibetu Helgadóttur“, sagði Þóra og gekk snúðugt burtu. Borghildur var ein í eldhúsinu, þegar hún kom inn. Kirkjugestirnir voru í bæjardyrunum og úti á hliðinu og spjölluðu saman um góða veðrið, eins og alvanalegt er. „Hefur Anna verið í rúminu undanfarið?“ spurði Þóra strax og hún hafði heilsað. Borghildur stundi mæðulega. „Já, hún hefur að minnsta kosti verið við rúmið“. „Hvað er að?“ spurði Þóra. Borghildur leit í kringum sig eins og til að fullvissa sig um, að enginn væri nálægur, en svo sagði hún í hvíslandi róm: „Það er einhver voða- skuggi kominn á milli þeirra hjónanna. Þau talast víst aldrei við. Ég segi engum manni, hvað mér ‘ hefur dottið í hug. Farðu inn til Önnu, Þóra mín. Hún situr ein inni. Hún forðast alla og allir sneiða hjá henni. Þvílík mæða!“ Það var nú í fyrsta sinn, sem Þóra hafði heyrt þessa ströngu, köldu konu missa vald á rödd sinni. Hún sneri sér undan og strauk yfir augun með handarbakinu. Þóra gekk beina leið inn í hjóna- húsið, eftir að hafa bankað á hurðina, en ekki fengið neitt svar. Anna sat við gluggann og horfði út, án þess að sjá nokkuð af því, sem fyrir augun bar. Þóra lagði heita kinnina að ísköldum vanga hennar. „Hvað hefur komið fyrir?“ spurði hún blíðlega, en hefði þó sjálf getað svarað þeirri spurningu, eftir að hafa séð breytinguna, sem orðin var í hjónahúsinu. Anna færði sig til í sætinu, svo að Þóra gasti setzt við hlið sér, og hjúfraði sig að brjósti hennar eins og hryggt barn. „Hugsaðu þér, Þóra, það hefur verið leikinn skollaleikur í kringum mig lengi — lengi — kannske í mörg ár — kannske alla ævina. Ég veit það ekki. Ég hefði ekki getað verið blindari, þótt það hefði verið bundið fyrir augun á mér. Það er maðurinn minn, sem hefur gert það. Ég fékk fyrst sjónina, þegar ég sá barnið hans“. Hún grét sárt og ákaft. Þóra reyndi að hugga hana. Þegar Anna var orðin rólegri, spurði hún: „Því segirðu ekkert, Þóra, heldurðu að ég se ekki með fullu viti?“ „Ég efast ekki um, að þú sért með fullu viti, og ég fer nærri um, hvað þú átt við. Ég sá barnið líka“. • „Sástu hana! Fannst þér hún ekki lík henni Lísibetu minni? Heldurðu að það hafi ekki verið voðalegt fyrir mig að sjá það, og svo ab sjá, hvernig Sigurlína horfði á hann? Og líka gloprað- ist það upp úr gömlu konunni, að hann hefur víst komið þar ekki ósjaldan og fengið vel út í kaffið- Ég get sagt þér það, að ég óttaðist að ég missti vitið, en það varð ekki fyrr en kvöldið eftir, þegar hann játaði sekt sína fyrir mér, vegna þess að hann gat ekki annað. Ég man það bara, að ég hlo eins og vitfirringur og barði á hendina á honum, þegar hann reyndi að tala rólega við mig. Síðan hef ég verið læst inni á nóttunum og hafðar gætur á mér á daginn. Ég lifi í sífelldum ótta við að vakna brjáluð einhvern morguninn. Við tölumst lítið við, en það gerir ekki mikið til. Ég fer til Ameríku í vor með Jakob“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.