Lögberg - 27.02.1958, Page 6

Lögberg - 27.02.1958, Page 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 27. FEBRÚAR 1958 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Ég skil það, að þú hefðir verið ánægðari, hefði það verið þinn sonur. Þú getur ekki orðið glöð yfir minni gleði. Þú getur ekki gleymt því, að hann er sonur annarrar konu, þó að þú dáist að drengnum. Það var skemmtilegra, meðan ég átti þetta leyndarmál einn með veskinu“, sagði hann. „Það er ekki svo gott eða auðvelt að gleyma því og öllum þeim hörmungum, sem af því leiddi að komast að því. Það var leiðinlegt, að þú fékkst ekki að njóta þeirrar ánægju í friði, sem það veitti þér að fara á bak við konuna þína“. „Svona góða, við skulum ekki tala meira um þetta“, sagði hann og tók upp lyklakippu, sem hún kannaðist vel við, þó að hún hefði aðeins einu sinni handleikið hana á óheillastundu. Hún sá það út undan sér, að hann tók upp veskið góða, opnaði það og lét myndina í það. Þau fundu vel, að þau höfðu sært hvort annað. Hann reyndi að bæta fyrir sitt brot með því að tala til hennar í sínum blíðasta málrómi: „Ósköp er hárið þitt alltaf mikið og fallegt, góða mín!“ „Já, það er mikið, hvað það er, eins og ég hef liðið og líð enn. Þarna státar þú af því að eiga hálærðan son í Vesturheimi, en minn drengur er of veikbyggður til að læra það, sem ég var búin að ætla honum. Svona er mín mæða með öllu móti, Drottinn minn góður!“ andvarpaði hún. „Ég hef ekkert státað af mínum syni. Kannske verður Jakob svo heilsugóður næsta vetur, að hann geti farið á búnaðarskóla — og svo fáum við að hafa hann hérna hjá okkur alltaf, en ég sé al- drei minn dreng nema á myndum. Og reyndu svo að vera ekki svona mæðuleg á svipinn og biðja ekki eins mikið fyrir þér eins og Páll Þórðarson væri kominn“, sagði hann brosandi. „Þú ert upp- gefin af því að láta stelpuna hafa þig til að ganga svona langt“. „Ég kunni ekki við að fara ríðandi, þegar Dísa hafði engan hest nema að biðja Þórð. Það er alltaf svo stirt á milli þeirra. Ég hélt, að ég væri duglegri en ég er“. „O, hún hefði víst getað gengið með hestinum, stúlkan sú, ekki er hún svo grannholda, eða þá að Jakob hefði riðið með þér. Annars er það dálítið, sem ég þarf að minnast á við þig við- víkjandi Dísu. Hún verður að fara héðan það fyrsta, ef hægt er að koma henni burt“. „Hún hefur ekkert komið leiðinlega fram, síðan hún kom af skólanum- Ég býst við, að hún hafi lagazt talsvert þar. Hún er ólík nú eða í fyrra vetur, þá var hún óþolandi. Mér finnst leiðinlegt að ýta henni í burtu, fyrst hún vill vera hér og kemur alltaf heim aftur eins og strokuhestur“, sagði Anna. „Þú mátt vera viss um það, að hún væri jafn geðvond og merkileg og hún var í fyrra, ef það væri ekki Jakob, sem heldur henni í skefjum. Hún hefur oft gefið það í skyn, að hún ætli að verða húsmóðir hér, því að skynsemin er ekki mikil“. „Þér dettur þó ekki í hug, að hann fari að skipta sér eitthvað af henni? Kannske þú haldir, að hann sé álíka ástleitinn við kvenfólkið og þú varst á hans aldri? Það þarf varla að senda kven- fólkið úr nágrenninu til Vesturheims hans vegna“, sagði hún fálega. Svo bætti hún við: „Svo er góðum Guði fyrir að þakka, að hann er ekki líkur þér“. „Nei, hann er ekki líkur mér í því fremur en öðru. Á hans aldri var ég búinn að njóta ástar- innar í fyllsta máta. En einu sinni óskaðir þú þess þó, Anna mín, að hann líktist mér meira en þér. En hvað um það, hann er þó karlmaður, þó að þér finnist hann barn ennþá. Og það get ég sagt þér, að hann sefur aldrei fyrir ólæstum dyrum nú í fullt ár. Það höfum við Borghildur séð um. Þú ættir að sjá augun í Dísu stundum, þegar hún horfir á hann. Þau eru svipuð augum kattarins, þegar hann ætlar að hremma lítinn, saklausan fugl. Það væri óskemmtliegt, ef hún næði honum á vald sitt“. „Það er tæplega hægt að trúa þessu, að þú læsir hann inni eins og óvita barn. Þér dettur þó líklega ekki í hug, að nokkur kvenmaður leiti á karlmann að fyrra bragði? Þar að auki er Dísa svo mikill unglingur ennþá“. Hann hristi höfuðið. „Mikið barn ert þú alltaf, Anna mín. Dísa er orðin fullorðin fyrir löngu — leiðinlega fullorðin, og hún hefði verið búin að fara til hans oft, ef hún hefði getað það. En kannske ert þú ánægð með að fá hana fyrir tengda- dóttur? Móðir hennar var mikil vinkona þín og bað þig fyrir hana- Þú hefur kannske ekkert á móti því, að hún setjist í sætið þitt — húsfreyju- sætið á Nautaflötum? Þá mættirðu þó sannarlega öfunda mig af minni tengdadóttur". „Þú veizt ekki upp á hverju þú átt að finna til að þreyta mig“, sagði hún andvarpandi. „Þú heldur, að Jakob velji sér göfugt kvonfang — dóttur sauðaþjófa og uppalin á sveit“. „Það er hún ekki, skinnið. Ég hef aldrei tekið neitt með henni. En láttu hana fara burtu. Hún er leiðinleg og það getur margt komið fyrir í sambandi við hana“. „En mér datt það nú einu sinni í hug, þegar Jakob veiktist, að það væri hefnd fyrir það, að hún var hrakin burtu nauðug í fyrra vetur. Þó get ég ekki borið á móti því, að ég varð hálffegin að hún fór. En nú er hún allt öðruvísi og ég læt hana vera hér fyrst um sinn og ábyrgist afleið- ingarnar“. „Jæja, ég hef gefið þér bendingar. Þú minnist þess vonandi“, sagði hann. Hún svaraði þessu engu, en rakti varlega upp seinni fléttuna. Hann settist við skrifborðið, opn- aði það og fór að aðgæta eitthvert blaðadrasl. Þau þögðu bæði lengi. Hann tíndi úr bréf og reikninga, stóð á fætur og kastaði því í ofninn. Hún var ennþá að greiða úr fléttunni. Það leit helzt út fyrir, að hún væri of þreytt til að geta haldið á greiðunni. „Þú hefðir ekki átt að vera að heiðra Línu með heimsókn þinni í þetta sinn. Það hefur orðið þér of erfitt“, sagði hann hálfhranalega. „Hvenær skyldi það vera til annars en erfið- leika og kvalar fyrir mig að heimsækja hana“, svaraði hún með beiskju. „Þá ættirðu að láta það ógert- Þú sérð aldrei svipinn minn á börnunum hennar framar“. „Þú getur ekki búizt við því, að ég treysti þér eftir allt, sem þér hefur orðið á“. „Það er þér þó óhætt. Ég kem þangað aldrei. Það var allt búið, þegar hún giftist“. „Doddi er náttúrlega það meiri persóna en ég, að það er óhæfa að hafa fram hjá honum“. „Nei, það er hann ekki, langt frá því. En þau eignast barn svona annað og þriðja hvert ár. Það er engin ástæða til að líta fram hjá svo duglegum og ástríkum manni. Eru þau kannske ekki nógu myndarleg, börnin hans Dodda?“ „Ætli þig varði svo sem nokkuð um það, hvernig þau líta út“, sagði hún önug. „Sjálfsagt hefði þó frumburðurinn verið laglegastur“. „Viltu nú ekki hætta þessu tali?“ greip hann fram í fyrir henni. „Þú bauðst einu sinni fram sættir í því máli og ættir því ekki að vekja þras og deilur á ný“. „Varst það ekki þú, sem byrjaðir? Ég var að- eins að svara. Þú byrjaðir á að hæðast að því, að ég hefði heiðrað Línu með heimsókn minni“. „Já, það er alltaf talinn heiður fyrir fátækl- ingana, þegar þeir ríku koma í heimsókn til þeirra. Það var svo sem ekkert háð“. „Þú heiðraðir Línu víst ekki svo sjaldan fyrsta árið, sem hún var á Jarðbrú, að þér má vera það kunnugt, hvaða heiður hún hafði af þeim heim- sóknum“, sagði hún og hló skjálfandi hlátri. Hann gekk út að glugganum og stanzaði þar. „Konur ættu ekki að telja sér trú um, að þær gætu fyrirgefið. Þær geta það aldrei — ekki þó að þær séu eins biblíufróðar og þú“, sagði hann svo stillilega, að hún varð hissa. Hún hafði búizt við, að hann ryki upp í ofsa- Nú opnaði Kristín hurðina og masaði í gætt- inni: „Er það meiningin, að hvorugt ykkar ætli að bragða á miðdegismatnum? Hann er þó víst vel ætur núna, því að Borghildur brúnaði kjötið, meðan ég hengdi upp þvottinn. Það er ólíklegt annað en að húsmóðirin finni það fljótlega á bragðinu, ekki síður en á kaffinu, þegar hún kom heim. Þú hlýtur þó að vera matlystugur, Jón, þó að hún búi kannske að góðgerðunum hjá ná- grannakonunni, — lakast, ef hún verður rúmföst á morgun“. „Ég er óvanur því að heyra hjúin tala svona við Önnu“, sagði Jón reiður. „Viltu gera svo vel og hafa þig fram“. Kristín skellti aftur hurðinni. „Svona talar hún við mig, — svona kvelur hún mig með háði og lítilsvirðingu daglega”, kvartaði Anna. „Hún verður að fara og það strax. Ég þoli þetta ekki lengur. Hún kann ekki nokkra kurteisi og veður inn án þess að gera vart við sig. Það er hún, sem á að fara, en ekki Dísa. Hún er alltaf svo góð við mig og vill gera mér allt til geðs“. „Hún er ekki ráðin lengur en til krossmessu“, sagði hann. „Ég gat ekki verið að biðja hana að vera lengur, því að ég þóttist sjá, að hún væri ekki í uppáhaldi hjá ykkur, en hún er bráðdugleg við útivinnuna“. „Hún er víst ekkert duglegri en Dísa, býst ég við“, hnusaði í Önnu. „Dísa er bæði löt og áhugalaus, alveg eins og Páll gamli. Kristín vinnur tvöfalt á við hana“. „Hún verður samt að fara í burtu og það strax — eða ég fer bara. Það væri kannske það bezta“. „En það er þó ekki meiningin, að þú viljir að hún sé rekin burtu af heimilinu? Slíkt hefur aldrei komið fyrir hérna“. „Hvað heldurðu að mamma sáluga hefði sagt við svona vinnukonur, sem hefðu klæmzt og blótað eins og sjómenn?" „Það var heldur annað þá, þegar hvert rúm var setið af völdum vinnuhjúum eða núna. Þær fara að verða hálferðir vandræðageplar, þessar vinnukonur, ef þær verða jafn erfiðar og þetta árið“, sagði hann. „Kannske þú ætlir að kenna mér um það, hvernig þessi manneskja lætur?“ „Það er sagt, að það valdi sjaldan einn, þegar tveir deila. Mér er ekki kunnugt, hvað þið hafið mnotabitizt um, en fullorðnar konur eiga bágt með að taka upp nýja siði. Kristín hefur alizt upp við þetta óheflaða orðbragð. Henni finnst sjálfsagt, að þið Borghildur séuð nokkuð kröfuharðar að ætlast til, að hún taki upp ykkar varfærnislega talsmáta“. Hún hló óviðkunanlega hlátrinum, sem hann kannaðist við frá fyrri tíð. „Það er ekki í fyrsta sinn, sem þú heiðrar vinnukonurnar þínar með því að taka málstað þeirra móti mér“, sagði hún skjálf- rödduð. „Dísa er kannske ekki með öllu glám- skyggn, þó að ég hafi verið að reyna að telja sjálfri mér trú um það. Það er þess vegna, sem þú vilt að hún fari“. Hann stappaði í gólfið af reiði. „Þetta er sví- virðileg lygi!“ hrópaði hann. „Hún má sjá allt, sem ég geri, og heyra allt, sem ég tala, en fyrst þú hefur hana til að færa þér tilhæfulausar sögur, skaltu reyna að halda í hana. Þú getur þá verið viss um, að heimilislífið verði ekki of skemmti- legt. Svona vesöl hélt ég að þú værir ekki“. Svo skall hurðin á eftir honum. —

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.