Lögberg - 17.04.1958, Blaðsíða 6

Lögberg - 17.04.1958, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 17. APRÍL 1958 GUÐRtTN FRA LUNDI: DALALÍF Anna var heldur hressari. Hún minntist á ferða- lagið suður. „Heldurðu að það verði til nokkurs annars en ég komi ekki lifandi heim aftur“, spurði hún kvíðandi. „Mér finnst sjálfsagt að reyna það, þegar þú ert farin að hressast. Svona lasna flytur þig enginn burtu“, sagði Þóra vingjarnlega. „Finnst þér ann- ars ekki sjálfsagt að fá meðöl frá lækninum í Stapavík, ef þér batnar ekki af þessum“. „Jú, það mætti reyna það. Það þarf líka margt að sauma á mig. Ég á efni í undirföt, en hef aldrei komið því í verk að sauma þau. Svo þarf Jakob að fá milliskyrtur. En ég verð ekki í vandræðum fyrst ég fékk eins góða stúlku og Hólmfríði". Þóra samsinnti þessu öllu. Hún stóð stutt við í þetta skipti. Dísa spurði hana eftir Kristínu. Hún var komin ofan á Ós og þaðan ætlaði hún vestur til átthaganna, var svar Þóru. Svo fór hún. Svo liðu nokkrir dagar. Allir læddust næstum um bæinn og töluðu í hálfum hljóðum. Gróa þeytti rokkinn frammi í eldhúsi, því að Anna þoldi engan hávaða. Ef Lísibetu varð það á að skella hurðunum, hrökk hún við og titraði. Dísa stakk upp á því, að stelpan yrði látin fara til Siggu. Hún gæti aldrei hagað sér eins og hún ætti að gera- Borghildi fannst það óþægileg til- hugsun. Hún minntist á það við Jón. Hann sagði að það væri bezt að Anna réði því. Það var borið undir dóm veiku konunnar. En hún vildi ekki að hún færi. Það var á við hlýjan sólargeisla að sjá hana smjúga inn um dyrnar kvölds og morgna til að bjóða „góðan dag“ og „góða nótt“, oftar kom hún ekki- Hún var búin að yfirgefa litla rúmið sitt og svaf hjá Borghildi. Dísa leit á alla, sem gengu gegnum eldhúsið með drýgindalegu brosi í von um ,að þeir töluðu um það, hvað hún væri búin að umskapa það, en enginn var svo athugull að sjá það nema Gróa. Og Borghildur sagði oft, að það liti vel út hjá henni. Hún fór sjaldan inn til fóstru sinnar vegna þess hvað henni var lítið gefið um Hólmfríði eins og allt frá Ásólfsstöðum. Hún var líka alltaf svo broshýr framan í Jakob; ef hún hefði ekki verið harðgift kona, hefði mátt ætla að hún ætlaði sér eitthvað með hann. .,Hvar re Jón alltaf?“ spurði Hólmfríður þriðja daginn, sem hún var þar. „Er hann farinn að hugsa um matarverkin eða er hann ekki heima?“ „Hann fór yfir að Ásklfsstöðum í morgun og er ekki kominn aftur“, sagði Jakob. Hann las upp- hátt fyrir mömmu sína, þegar hún óskaði eftir því. Þess á milli var hann vanalega fram í herbergi eða hann fór á skíði. Anna gegndi engu glensi Hólmfríðar, svo að hana fór að gruna að eitthvað væri bogið við hjónasambúðina ennþá og minntist ekki á Jón framar. Hún fór heim á hverju kvöldi og kom aftur eftir fótaferðartíma, svo að hún vissi því ekkert um það, hver svaf fyrir innan hjá sjúklingnum. Dísa hafði ætlað sér að sofa fyrir innan, en Jakob aflæsti húsinu áður en hún var laus við verkin. Einn morguninn, þegar Borg- hildur var að leggja í ofninn og Hólmfríður var enn ókomin, gaf Anna henni bendingu um að koma til sín. „Hvar sefur húsbóndinn?“ spurði hún, þegar Borghildur var komin til hennar. „Hann sefur frammi í herbergi í rúminu hans Jakobs, góða mín“. „Einmitt það“, sagði Anna- „Kristín telur ekki eftir sér að snúast í kringum hann“, bætti hún við lágt. „Kristín er ekki lengur hér, góða mín. Ég hef víst ekki sagt þér frá því; hún fór burtu kvöldið, sem þú veiktist. Gróa er hérna og svo er Dísa búin að taka við eldhúsinu, og henni ferst það vel úr hendi“. „Var Kristínu vísað burtu?“ spurði Anna. „Nei, áreiðanlega ekki“, sagði Borghildur- Svo sagði hún henni frá því hvað það hefði verið, sem kom henni til að ganga í burtu og einnig frá bréfinu. „Ég er viss um, að við höfum haft hana fyrir rangri sök þar“, bætti hún við. Svo að hann hafði sagt þetta, að Kristín væri ekki þess verð að taka af henni skóna, hugsaði Anna .Svo fór hún að rifja upp öll þau ósköp, sem hann hafði sagt við hana, þegar hún lá milli heims og helju. Það voru fögur orð. Skyldi hann bara hafa sagt það, af því að hann hélt að hún væri að deyja. Skyldi hann nokkurn tíma spyrja um líðan hennar. Kannske bíða þess með óþreyju, að hún hresstist, svo að hún gæti farið í burtu. „Er hann alltaf á bæjum?“ spurði hún Borg- hildi. „Það lítur ekki út fyrir að hann ætli að hafa fyrir því að líta inn til mín“. „Við höfum gert allt til þess að þú kæmist ekki í geðshræringu. Hann hefði komið inn til þín strax fyrsta morguninn, ef þú hefðir leyft það“. Sama dag spurði hún Jakob, hvort hann vildi spyrja pabba sinn að því, hvort hann væri að hugsa um að líta aldrei inn til sín. „Nei, mamma. Þú mátt ekki gera honum svona boð“, sagði Jakob. „Ég skal segja honum, að þig langi til að sjá hann- Hann er svo daufur og niður- dreginn alltaf, aumingja pabbi. Ég er svo sorg- mæddur yfir því að þetta skyldi koma fyrir á milli ykkar. Hann er góður og öllum þykir vænt um hann“. „Já, ég finn það að ég var ekki sanngjörn við hann. Það hef ég oft verið áður“, sagði hún dauflega. Hann laut ofan að henni og kyssti hana bros- andi- „Þú ert að hressast, mamma mín; það er ánægjulegt fyrir alla“, sagði hann og fór fram. Hólmfríður sat frammi í eldhúsi og skrafaði við mann sinn. Hún færi ekki strax inn aftur, hugsaði Jakob. Hann fann föður sinn úti í hesthúsi, þar sem hann var að kemba hestunum. „Mömmu langar til að finna þig, pabbi“, sagði hann. „Er hún eitthvað lakari en hún hefur verið?“ spurði Jón. „Nei, langt frá því. Hún er með bezta móti“. Anna beið þess með talsverðum hjartslætti, að hún heyrði fótatak manns síns. Kannske yrði það henni ofraun að sjá hann. Stóra klukkan sló fimm þung högg. Áður en síðasta slagið dó út, var hann kominn inn, án þess að hún heyrði fótatakið. Hann kraup niður við rúmstokkinn og rödd hans var hás af geðshræringu, þegar hann byrjaði að tala. „Anna mín, ætlarðu enn einu sinni að fyrirgefa mér? Ég skal reyna að láta þetta verða í síðasta sinn, sem ég þarf að betla um fyrirgefningu eins og ódæll strákur, að minnsta kosti ekki í svona stórum stíl. Ég skal aldrei aftur koma heim drukkinn og stríða þér. Aldrei, aldrei“- Hún rétti honum hvíta silkimjúka höndina. Hann tók hana varlega milli handa sinna. Hún átti bágt með að koma upp orði. „Við verðum að sættast, Jón. Kannske hefur drottni þóknast að lofa mér að hressast ofurlítið, svo að ég kveddi ekki lífið með hatri og beiskju í huga. Helzt hefði ég viljað sofna þarna um kvöld- ið, þegar ég heyrði þig segja svo margt dásamlegt um mig. Ég heyrði þá, að ég hafði verið þér ein- hvers virði“. „Ég skal taka þau öll upp aftur, ef þú óskar þess“, sagði hann, „ég var frávita af sorg og sam- vizkukvölum yfir því að skilnaður okkar ætti að verða svona hræðilegur. En nú birtir til. Við eig- um vonandi eftir að fylgjast að lengi. Kannske eins lengi og búið er. Við skulum alltaf leiðast. Handa- bandið má ekki slitna, svo að við töpum ekki hvort af öðru í annað sinn“. „Það verður erfið ganga fyrir okkur bæði. Þú ert hraðstígur og óþreytanlegur. Ég er sein og úthaldslaus. Þannig hefur okkar samfylgd verið“, sagði hún raunaleg á svipinn. „Þú varst svo lengi þolinmóður að bíða eftir mér, svo að ég þreyttist ekki eins fljótt. En það má öllu afbjóða, einnig þolinmæðinni þinni. Ég finn það, að ég var þér erfið. Svo fannstu aðra, sem var þér betur að skapi og fylgdist fúslega með þér- Meira að segja var svo eftirlát að súpa á flöskunni með þér . . . „Já, já“, greip hann fram í fyrir henni. „Þetta er allt satt og rétt hjá þér, góða mín. Ég játa það núna, að svona gekk það til- En þetta tilheyrir allt fortíðinni, og það er ekki holt fyrir þig núna að rifja það upp. Hér eftir má ekkert skyggja á okkar sambúð. Ég skal doka við eftir þér, góða mín“. Hún hlustaði á hann með lokuðum augum, og veikt bros færðist um varir hennar. Hún hafði svo oft heyrt það áður, að „þetta“ skyldi aldrei koma fyrir aftur, en samt hafði það endurtekið sig eins og hjá óþekktum dreng. Eins yrði sjálfsagt í þetta skipti. Samt fann hún til sælu fyrirgefningarinnar. „Nú eru bjartir tímar fram undan“, hélt hann áfram. „Nýtt hús verður byggt á næsta sumri. Svo eignumst við nýja dóttur, sem færir okkur kannske falleg barnabörn, sem bæta okkur upp þá innri fátækt, sem orðið hefur okkar hlutskipti“. „Svona eru þínar hugsjónir bjartar af því að þú ert hraustur og heilsugóður. Mínar eru dimmar eins og köld gröfin. Samt kvíði ég engu fyrst við skiljum sátt, þótt það hefði óneitanlega verið gaman að sjá sumarið enn einu sinni“, andvarpaði hún. „Þú átt eftir að sjá mörg sumur ennþá, vina mín, Þú mátt ekki deyja. Vonandi geta þeir eitthvað meira þarna í Reykjavík en hann Halldór minn. Hann hefur víst aldrei verið álitinn neinn sér- stakur læknir, þó að hann sé ágætur að öðru leyti og góður félagi og vinur. Þú verður bara að hressast vel, áður en við getum hugsað til að leggja upp“. „Ætlar þú að koma með mér?“ spurði hún. „Þá mun ég ekki kvíða ferðalaginu lengur“. „Svo að þú berð þá eftir allt saman betur traust til mín en Jakobs okkar, þó að hann sé þér allt í öllu“. „Þú ert svo mikið duglegri en hann, enda getur hann tæpast talizt annan en unglingur ennþá, sem alltaf hefur notið þinnar góðu umhyggju“, sagði hún þreytulega. „En hvað þýðir að tala um ferðalag, meðan heilsan mín er eins bágborin og hún er nú- Borghildur greiðir mér alltaf, kraft- arnir eru nú ekki meiri en þetta. Ég get ímyndað mér að það eigi langt í land, að ég muni verða ferðafær". „Þetta fer að lagast, góða“, sagði hann og brosti hughreystandi. „í kvöld koma meðölin að vestan, og þá vonum við að batinn sé nálægur“. Jakob sat frammi í eldhúsinu. Hann vildi gefa foreldrum sínum tíma til að ræðast við í einrúmi. Hann ræddi við unga bóndann á Ásólfsstöðum dágóða stund. En svo kvaddi hann og fór, og kona hans fylgdi honum til dyra. Nú voru þau tvö ein, hann og Dísa. Hún bjóst við að hann færi að dást að því, hvað eldhúsið liti vel út hjá henni og sagði brosandi: „Sýnist þér ekki svolítill sjónarmunur á eldhúsinu frá því sem það var hjá Kristínu?“ „Ég var víst ekki neitt að hugsa um það“, svaraði hann fálega. „Ekki það“, sagði hún. „Það má þó sjá minna“. Hann svaraði engu. „Ertu reiður við mig fyrir það, að ég var að leika mér við þig þarna um nóttina?“ spurði hún kafrjóð. „Það var illa valinn tími til leikja, þegar mamma var fárveik“, sagði hann jafn stuttlega- „Mér fannst sem við værum orðin krakkar“. „Það var einkennileg hugsun“, sagði hann, „eða réttara sagt ákaflega einfeldningsleg". „Þú verður að fara að drífa í þessu, að hún mamma fari suður“, sagði hún og þóttist haga sér röggsamlega. „Þú sérð það, að „hann“ ætlar ekkert að gera í því, svo að við verðum að gera það. Reyndar sagði nú hin góða vinkona ykkar, hún Þóra í Hvammi, að við værum nú svo mikil ráða- leysishjú, að okkur væri ekki trúandi fyrir henni. Svona talar hún um þig á bakið“. „Það var mjög skynsamlega talað af henni“, sagði Jakob, „en hvað ertu eiginlega að tala um „okkur“?“ „Ég fer sjálfsagt með henni“, sagði Dísa- „Flest er það jafnheimskulegt, sem þér dettur í hug. Kannske heldur þú, að það verði farið með hana svona veika eins og hún er núna?“

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.