Lögberg - 11.09.1958, Side 6

Lögberg - 11.09.1958, Side 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 11. SEPTEMBER 1958 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Ja, það er nú meiri leiðin þetta“, dæsti Helga. „Mér fannst þetta ekki mjög langt í sumar. Mikið hlýtur þér að leiðast í þessum óbyggðum. Ómögu- legt væri mér að vera svona langt frá öðru fólki. Ég yrði vitlaus í óyndi“. „Ja, nei, nei, okkur leiðist ekkert. Við erum öll vel frísk og höfum nóg til alls“, sagði Hildur og leiddi gestinn í eldhúsið. Helga skimaði í kringum sig. Það var svo sem nógu rúmgott hér, allt málað og ekki var ómyndin að umgengninni heldur en vant var hjá Línu. „Ég fer nú ekki lengra. Það er svo hlýtt og notalegt hérna“, sagði Helga. „Er ekki kalt í þessu stóra húsi hjá þér, Hildur mín?“ bætti hún við í með- aumkunartón. „Ekki aldeilis", sagði Hildur hreykin, „það er ofn í báðum stofunum“. „Ja, svona. Hafið þið þá nógan eldivið? Hann vill nú stundum vanta hjá frumbýlingunum. Þar sem engar skepnur hafa verið hér áður, hefur líklega heldur lítið sauðatað verið á jörðinni“. „Það er svo yndislegur mórinn hérna, alveg eins og bezta sauðatað. Svo hefur líka verið keypt dálítið af kolum“. „En þau „flottheit“ að brenna kolum“, sagði Helga. „Það er líka farið að spá því, fólkið út í dalnum, að Þórður fari á höfuðið með öllum þessum tilkostnaði". „Það vona ég að ekki verði“, sagði Hildur. „Það yrðu viðbrigði fyrir mig. Ég hef nú aldrei kynnzt eins miklu eftirlæti með öllu móti eins og hér þetta ár“. Helga gægðist forvitnislega inn um hálfopnar dyrnar. Þar var Lína að keppast við að prjóna á vélina. „Sæl og blessuð, vinkona góð“, kallaði Helga. „Komdu blessuð“, sagði Lína. „Ég er að fella af hérna, svo kem ég fram. Þú mátt ekki taka það svo, að ég sé orðin merkileg og mannfælin, þó að ég komi ekki strax fram“. „Slíkt dettur mér nú líklega ekki í hug. En lík- lega verð ég nú að byrja á því að biðja þig að lofa mér að vera í nótt. Það er farið að togna úr bæjarleiðinni á milli okkar“. „Já, hún hefur lengzt mikið síðan í fyrravetur, Helga mín“, sagði Lína. Nokkru seinna kom hún fram í eldhúsið og heilsaði Helgu vingjarnlega. Helga virti hana fyrir sér með dularfullu brosi og leit með vand- lætingarsvip til Hildar. Hún lét sem hún sæi það ekki — var jafnhreykin og áður. Alltaf var hún lík sjálfri sér, þessi kerling. Ekki vantaði ánægj- una yfir hlutskipti sínu, enda var ekki hægt að sjá annað en að það væri viðunanlegt eins og fyrri, hugsaði Helga. Lína bar fram mat á stórt borð, sem stóð á miðju eldhúsgólfi. Það var liðið að kvöldi og Þórður kom bráðlega inn úr húsunum. Svo sett- ust allir að snæðingi. „Þú hlýtur að vera orðin uppgefin af að ganga alla þessa leið“, byrjaði Hildur samtalið. „Já, það er ég. Þetta er svei mér drjúgt. En ég tafði lengi á Ásólfsstöðum. Það er orðið langt síðan ég hef rölt fram eftir. Yfirleitt fer ég lítið út af heimilinu, síðan Jarðbrú fór í eyði. Ég «r bara hálfgröm við þig, Þórður, fyrir að taka þær frá mér. Það er óskemmtilegt að sjá kofana yfir- fennta“, sagði Helga. „Þetta er mikið skemmtilegra fyrir þig að fara hingað“, sagði Þórður. „Þá geturðu gist og verið dag um kyrrt hjá þeim“. „Hefurðu ekki komið að Nautaflötum í vetur, síðan farið var að búa í nýja húsinu?“ spurði Hildur. Jú, ég hef komið þar tvisvar, síðan það flutti í það“, sagði Helga dræmt. „En það er nú svona, að manni ofbýður praktin og fínheitin hjá því og verður svo hálfu óánægðari en áður með kofa- skrattana heima hjá sjálfum sér“. „Það farið nú að drífa í að byggja“, sagði Hildur. „Ójá, það hefur svo sem komið til mála að bað- stofan yrði byggð í vor“, sagði Helga. „Hvort það kemst í framkvæmd er eftir að vita“. „Já, þetta kalla ég nú fréttir“, sagði Hildur. „En hvernig er það þá á Ásólfsstöðum — er ekki Hlíf farið að langa til að fá steinhús, þegar dóttir hennar er setzt að í nýju höllinni á Nautaflötum? Það vænti ég, að þau séu nú ánægðari með hennar giftingu en systur hennar. Það væri nú líka annað hvort að þau fyndu það, hvað hún komst í in- dæla fjölskyldu“. „Já, þau eru ósköp lukkuleg yfir því, hvað það gengur vel, samlyndið. Hún kveið því svo mikið, að það myndi verða vandlifað fyrir hana hjá Borghildi og tengdamóðurinni, en nú sagði Hlíf mér, að það bæri hana hreint allt á höndum sér. Ég óskaði þess bara, að það gerði hana ekki að öðrum eins vesaling og Önnu“. „Það var víst engin hætta á því, að hún gæti ekki lynt við Borghildi“, gegndi Þórður fram í, „aðra eins ágætiskonu“. „Það var nú víst ófagur vitnisburður, sem Kristín bar þeim konunum. Hún var sí og æ að þvælast yfir að Ásólfsstöðum. Það var eini bær- inn ,sem hún kom á í dalnum“, sagði Helga. „Maður talar nú ekki um svoleiðis breddur. Ef Elín hefði líkzt henni, hefði hún sjálfsagt ekki orðið tengdadóttir á því heimili“, sagði Þórður. „Eitthvað kvartaði Dísa skinnið yfir því, að hún fengi ekki miklu að ráða“, sagði Helga hálf- meinfýsin, „og alltaf var verið að reyna að koma henni burtu af heimilinu". „Það var eðlilegt, því að það gat engin liðið hana á heimilinu. Hún var svo illa innrætt — og vildi helzt aldrei gera ærlegt handtak, nema seinasta vetrarpartinn, sem hún var heima. Þá fórst henni sæmilega að hugsa um eldhúsverkin. Svo var hún sífellt á þönum um dalinn til að veiða slúðursögur og bera þær heim. En slíkt hefur nú aldrei verið í eftirlæti hjá Borghildi. Það var regluleg plága að hafa hana á heimilinu“, sagði Þórður. „Ójá, greyið, hún líktist víst dálítið foreldrun- um. Hún er gift þarna fyrir vestan og búin að eignast dóttur. Þess vegna var hún ekki í brúð- kaupsveizlunni“, sagði Helga. Svo braut hún upp á öðru umtalsefni. „Það lítur út fyrir að þetta ætli að verða mesta giftingar- og trúlofunarár. Björn frá Hvammi og Fríða eru harðtrúlofuð. Það er sagt, að þau ætli að opinbera á sumardgginn fyrsta“. — Þórður mundi þá eftir því, að Jón hafði sagt honum það einu sinni, en hann hafði ekki nefnt það við neinn í Seli. Helga hélt áfram: „Það er víst heldur lítil hrifningin hjá þeim Hvammshjónum yfir trúlofunni þeirri. Þóra hefur nú sjálfsagt ætlað honum eitthvað annað, þessu eftirlætisgoði sínu, en rétta og slétta vinnukonu. Ég hef heyrt, að Sigurður hafi sagt það við Jón hreppstjóra, að sízt hefði sér dottið það í hug, að Björn ætti það erindi til hans að taka að sér bláfátæka stelputusku og hana föðurlausa. En Jón hafi þá sagt, að hún myndi áreiðanlega eiga föður og hann ekkert ómyndarlegan. Það sýndi hún sjálf. Ef hann hefði ekkert annað út á hana að setja, væri kannske hægt að bæta úr því. Ekki veit ég hvort þeir hafa talað fleira þar um, en nú er hún búin að eignast föður og hann er bara kaupmaður og lætur hana hafa þessa litlu fjár- fúlgu. Þessu hefur Jón garfað í. Svo það fór nú heldur að lyftast brúnin á Sigga gamla. Þóra vildi láta Björn fá hálfan Hvamm, því að hann vill hann hafa og komast í hjónabandið og búa, en Sigurður var nú kannske ekki alveg á því. Hann ætlar hvorki að minnka við sig eða víkja fyrir krökkunum sínum, maðurinn sá. Segist vera búinn að taka helzt til mörg handtök í Hvammi til þess að fá ekki að njóta þeirra til æviloka. Svo að Björn fer að búa á Hjalla í vor. Þau hætta, Þórarinn og Sigþrúður. Hann hefur náttúrlega aldrei verið hneigður fyrir búskap — allur við smíðarnar. Andrés er kvæntur vestur á landi og tekur þar við búi, því að konan er einbirni. Stebbi er orðinn heilsutæpur — haldið að það sé snertur af tæringu. Þau flytja á Ósinn í vor. Það er sjálfsagt heppilegast fyrir hann að vera undir læknishendi“. „Ja, skárri eru það nú fréttirnar, sem þú segir,' Helga mín“, sagði Hildur. „En heyrist enginn nefndur sem búandi á aumingja kotinu mínu — Jarðbrú?“ Helga brosti drýgindalega. „Ekki er það ó- mögulegt, að þar sé einhver nefndur. Það er nú bara Erlendur á Hóli, sem þar er. Hann ætlar að kaupa kotið. Hvað viltu nú hafa það meira, Hildur mín?“ „Hvað ætlar hann að gera með tvær jarðir? Þú hlýtur að draga eitthvað undan, Helga. Það er eitthvað í brugggerðinni hjá ykkur — nýtt konu- efni eða eitthvað ennþá stórfenglegra“. „Ekki ber ég á móti því, að það sé ekki eitthvað svoleiðis á leiðinni. Sigurður minn kemur með kærustu að sunnan í vor“. Hildur hló ánægjulega. „Datt mér ekki í hug. Ég óska þér innilega til hamingju“. „Ég er nú ekki ósköp hrifin af þessum sunn- lenzku stelpum“, sagði Helga fálega. „Hvaða ósköp eru að heyra þetta — eins og þær séu eitthvað lakari en þær norðlenzku. Ég vona, að þú verðir jafnánægð og ég með tengda- dótturina. Það er mikill munur að fá unga og fína dóttur á heimilið“. „Ég er nú svo sem ekkert hrifin, hefði heldur viljað, að hann hefði tekið einhverja úr sveitinni sinni. En líklega reyni ég að búa sæmilega við hana“, sagði Helga dauflega. „Ég verð, hvað sem öllu öðru líður, að muna eftir, hvernig hún var við mig, tengdamóðirin“. „Já, það var nú einmitt það, sem ég ætlaði að segja þér“, sagði Hildur glettnisleg á svip. Þegar búið var að bera af borðinu, kom hús- bóndinn með spil og sagði, að það yrði líklega að taka eina vist, fyrst gest hafði borið að garði. „Það er nú ekki óvanalega að snert sé á spilum, þó að ekki sé gestur“, sagði Hildur og leit ánægju- lega til Helgu. Það var svo sem ekki hægt að sjá annað en að hún væri ánægð með þetta allt saman — eða skyldi hún ekki vera búin að sjá, hvernig ástatt var fyrir Sigurlínu? hugsaði Helga. Hún brann í skinninu yfir því að geta talað við hana einslega, en það var aldrei tækifæri til þess. Hún vonaði, að næsti dagur bætti úr því, en svo varð ekki. Hún stakk up á því við Hildi, að sig langaði til að sjá kýrnar, en þá eltu stelpuangarnir þær, svo að ekkert var hægt að tala þar, nema um kýrnar og svoleiðis. ,,Kanntu nú eins vel við þig núna eins og í sumar, þegar ég kom að heimsækja þig?“ „Já, mér líður ágætlega og okkur öllum, eins og þú hlýtur að sjá með glöggu gestsauga“, sagði Hildur. „Það er gaman að sjá, hvað litlu systkinin hafa stækkað mikið í vetur“, sagði Helga. Lína vildi láta Helgu vera um kyrrt þennan dag, en hún þorði það ekki. Hún hafði ráðgert að koma heim þennan dag. En hana langaði bara til að Hildur gengi með sér út á eyrarnar. Hún ætlaði sér ekki að fara svo, að hún gæti ekki talað við hana — opnað augun á henni fyrir þessu regin- hneyksli, sem var að gerast á hennar heimili. En þegar hún fór að kveðja sögðu þær báðar, litlu systurnar, að þær ætluðu að fara með ömmu út á eyrarnar, en þær skokkuðu á undan út túnið. Helga studdi gömlu konuna með því að smeygja handleggnum undir handlegg hennar. „Þetta er nú meira ófrelsið“, sagði hún, þegar þær gengu úr hlaði, „það er ekki hægt að tala nokkurt orð við þig, sem allir mega ekki heyra. Ég get svona vel hugsað mér, að þú sért ekki alls kostar ánægð með siðferðið hjá henni tengdadóttur þinni. Ég heyrði eitthvert kvis um þetta á Ásólfsstöðum, en svei mér, ef ég gat trúað því, að hún væri þessi aumingi. Fyrr má nú vera lausaglopruhátturinn“. „Ojá, það gengur svona, Helga mín“, var það eina, sem Hildur sagði.

x

Lögberg

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.