Lögberg-Heimskringla - 28.04.1960, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 28.04.1960, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 28. APRÍL 1960 GUÐRÚN FRA LUNDI: ÞAR SEM BRIMALDAN BROTNAR „Svona ætlar það að neyða okkur til að fara í burtu, með því að fjölga svona mönnum og skepnum," sagði Maríanna þrásinnis. „Við þurfum svei mér ekki að sjá eftir því.“ Eitt haustið kom Þorbjörn gamli á Stekknum í austurbæ- inn til að skila bók, sem hann hafði fengið lánaða hjá Marí- önnu. Henni hafði verið send hún að sunnan. Það var spenn- andi ástarsaga. Högum gömlu hjónanna á Stekknum var nú svo komið, að Lilja hafði oftar verið í rúminu þetta haust en á fótum, og hann dróst áfram við staf, en geðsmunir hans voru jafn ákjósanlegir og þeir höfðu verið. Hann hældi sög- unni mikið og sagði, að það hefði verið dægrastytting að lesa hana. Hann hefði lesið hana upphátt fyrir Lilju sína. Hún hefði verið í rúminu núna í þessu kuldakasti, en hefði farið á fætur strax og hlýnaði. Það væri orðið ólíft í kof- unum. i „Þú verður að fara að byggja upp, Þorbjörn minn. Það fer að verða ómögulegt fyrir ykkur að vera í þessu greni,“ sagði Maríanna. „Ég hef nú einu sinni tekið það í mig að byggja ekki upp. Karlinn, sem á kotið, hefir aldrei viljað hjálpa til við að byggja upp, en tekur hverja spýtu, sem rekur. Nú hef ég von um að geta flutt burtu í vor, og þá veit ég að kotið fer í eyði. Ekki verður honum meira úr því þá,“ sagði Þor- björn glaðklakkalega. „Hvað hugsarðu þá að gera við þig, ef þið lifið af í vetur, sem ég efast mikið um?“ spurði Maríanna. „Ég ætlaði að flytja inn í kaupstað, þó að það sé allt annað en álitlegt. En þá kom Gunnar mágur þinn og bauð mér húsmennsku í Stóru-Vog- um. Ég var nú ekki lengi að gleypa við því, eins og þú get- ur ímyndað þér,“ sagði Þor- björn. „Hvað kemur til að hann fer að bjóða ykkur húsmennsku. Ég er ósköp hrædd um, að ykkur þyki ærið ónæðissamt í kringum ykkur. Strákarnir eru óskaplegir frekjuvargar," sagði Maríanna. „Það verður að hafa það,“ sagði Þorbjörn. „Ég get vel hugsað, að við heyrum lítið í þeim,“ bætti hann svo við. „Svo það er þá satt, að hann sé búinn að kaupa Stóru- Voga,“ sagði Maríanna á- nægjuleg á svip. Það hafði borizt fregn um það ekki alls fyrir löngu. Það hafði heldur létzt brúnin á Halli. Loksins var Gunnar orðinn uppgefinn á margbýýlinu. Hann vonaðist þá eftir því, að gamli maður- inn hætti þessu hokri eða hefði svo fátt, að hann fyndi lítið til þess. Hann var alltaf á sjónum, gamli maðurinn, ef á hann gaf. Ingibjörg var enn þá hjá honum og Toni sonur hennar á vorin og sumrin. Hallur kom inn frá gegn- ingunum, heilsaði gestinum og spurði hvernig heilsan væri hjá þeim gömlu hjónunum á Stekknum. Þorbjörn lét vel yfir því. Þá greip Maríanna fram í og sagði manni sínum, að þetta væri svo sem satt sem heyrzt hefði, að Gunnar væri búinn að kaupa Vogana, og það sem meira væri, búinn að bjóða Þorbirni húsmennsku hjá sér, og hann væri svo fagnandi yf- ir því. „Það verður nú líklega dá- lítill munur að búa þar í ný- byggðri baðstofunni, og allur bærinn svona ágætur, eða húka í kofunum okkar,“ sagði Þorbjörn. „En ég var nú að segja hon- um, að honum myndi ein- hvern tíma þykja þeir hávær- ir frændur þínir, Hallur,“ sagði Maríanna. Þorbjörn hló glettnislega. „Ég bjóst við, að við heyrðum lítið til þeirra, því að hann ætlar sér ekki að flytja að Vogum, heldur hafa þá jörð með, og hann verður því sár- feginn að einhver verði í bæn- um. Því að kofarnir eru fljótir að láta á sjá, ef enginn er í þeim.“ „Svo þau ætla sér þá að sitja í þessari þvögu hérna nokkur árin enn þá. Kannske alla æv- ina,“ sagði Hallur, og rauk upp af rúminu og var horfinn út á næsta augabragði. Maríanna sagði gamla ná- grannanum frá því, hvað þau væru þrautpínd af þessu sam- býli. Það væri hægt að hugsa sér að þau byggju á þriðjungi, en ekki hálflendu jarðarinnar. Svo misjöfn væru afnotin, sem þau hefðu. Dúnninn og eggin væru þessi ósköp á hinu bú- inu. Gunnar væri svo laginn við varpið. Og svo þetta ófrelsi með öllu móti. Því væri ekki hægt að lýsa. Strákarnir væru uppvöðsluseggir og eindæma göslarar, sem enginn maður gæti liðið í návist sinni, nema foreldrar þeirra. Og svo væri karlinn hann Jóhann svo kveljandi ánægður yfir þess- um skara og áliti þá einhver mannsefni. En að hann spyrði nokkurn tíma eftir honum Tómasi þeirra, þessum prýðis- pilti, sem allir dáðust að. Nei, það gerði hann ekki. Svo tíndi hún enn einu sinni fram allar myndirnar af syni sínum til að sýna Þorbirni. Hann leit á þær, en hafði þó séð þær oft áður. „Já, hann er laglegur pilt- urinn, ekki er nú hægt annað að segja, og alltaf er hann að læra. Hvað er langt síðan hann byrjaði?” „Það er nú auðvitað langt síðan, en það verður að vanda það, sem vel á að standa, Þor- björn minn,“ sagði Maríanna. „Já, það mun vera svo. Ég öfundaði hann af því að fá að setjast á skólabekkinn, þegar hann byrjaði, en nú er ég far- inn að kenna í brjósti um hann og föður hans. Þetta fer alveg með ykkur. Mér er vel kunnugt, hvað Hallur hefir þröngan skó vegna þessa lær- dóms. Sú var tíðin, að mig langaði til að læra, en ef það hefði átt að verða svona lang- sótt, hefði mér sjálfsagt verið farið að leiðast þófið,“ sagði Þorbjörn. „Varla hefir þú nú látið þér detta í hug að læra lögfræði, Þorbjörn minn,“ sagði hún. „En þetta fer nú að styttast þangað til hann verður út- skrifaður. Þá flytjum við nú líklega til hans og förum að hafa það náðugt. Það er mál til komið að hætta þessu búskap- arbasli. Ég hef aldrei verið gefin fyrir sveitabúskapinn. Ég er alltaf að nauða við Hall um að selja hálflenduna.“ „Þú ert nú samt búin að búa hér í meira en tuttugu ár, það er hreint ekki svo stuttur tími af mannsævinni,“ sagði Þor- björn glettnislega. Maríanna dæsti þreytulega. „Já, það hefir verið langur og erfiður tími. Eiginlega hefir þetta eina haldið í mig, vonin um að verða eigandi allrar jarðarinnar. En það verður víst seint, sem sá draumur rætist.“ „Já, það er áreiðanlega ekki útlit fyrir að það verði á næst- unni,“ sagði Þorbjörn. „En það gerir ekki svo mikið til. Þetta gengur friðsamlega á milli ykkar,“ sagði Þorbjörn. Svo kvaddi hann Maríönnu, þakk- aði fyrir góðgerðirnar og haltraði út. Hann ætlaði af gömlum vana að líta inn í vesturbæinn. Alltaf kunni hann betur við sig á því búinu. ARFSVON OG ERFIÐ- LEIKAR Seinna þennan sama dag kom Jóhann gamli inn í aust- urbæinn og gekk hiklaust alla leið inn á hvítþvegið gólf hjónahússins. Þar inni sat son- ur hans við bréfaskriftir. Það var óvanalegt, að hann liti inn hjá mótbýlisfólkinu. Hann flutti með sér sterkan þef af súrheyi og saltfiski og grút, fannst Maríönnu. Samt fylgd- ist hún með honum inn til að vita hvað honum væri í huga, því að erindislaust kæmi hann varla. Kannske kæmi hann með þessa sparisjóðsbók, sem Björg á Básum og fleiri töldu sjálfsagt, að hann ætlaði Tóm- asi. En hún sá hann ekki með neitt nema ruddalega tóftar- vettlingana, sem hann hélt á í annarri hendinni. Hún ótt- aðist, að hann legði þá á hvít- an dúkinn á kommóðunni. Það var ekki ólíkt honum. En hann vöðlaði þeim þá á hné sér og lagði hramminn yfir þá, til að fyrirbyggja að þeir kæmu nokkurs staðar við, þar sem þeir væru óvelkomnir. „Hvað kemur til að þú kem- ur hingað, pabbi?“ spurði Hallur og lagði frá sér penn- ann. „Það hlýtur að vita á eitthvað." „Ekki ætti það að vera. Ég finn þig nú svo oft að máli úti á hlaðinu og í bæjardyrunum, að engin þörf er að rölta hing- að inn til að setjast á skraf- stóla. Ekki kemur þú oftar inn til okkar,“ sagði faðirinn. „Ég kom seinast inn í gær,“ gegndi Maríanna fram í sam- talið. „Ég var að vita hvernig kerlingaranganum henni Ingi- björgu liði. Er hún ekki eitt- hvað betri af gigtarskömm- inni?“ „Það er víst lítið,“ sagði gamli bóndinn tómlega. „Það er þá líklega bezt fyrir þig að segja sveitinni að hirða hana, ef hún ætlar að fara að taka upp á því að liggja í rúm- inu og gera ekkert dag eftir dag,“ sagði Hallur. „Hvað skyldi hreppsnefndin svo sem gera fyrir hana annað en bíta í hennar bága bak,“ sagði Jóhann og hló hátt. „Nær væri víst að finna lækni, og það gerði dóttir hennar. Það kom maður áðan með meðul. Kannske getur það eitthvað bætt henni.“ Hallur hagræddi sér í stóln- um. „Satt að segja finnst mér þú hafa lítið með hana að gera. Ég skil ekkert í þér að vera að basla við þennan búskap, sem þú hefir ekkert með að gera. Hvort ég léti ekki krakk- ana mína hugsa um mig, væri ég í þínum sporum,“ sagði hann. „En ef þau langaði nú ekk- ert til að hafa þig hjá sér og hlynna að þér,“ sagði gamli maðurinn og glotti kíminn. „Mér þykir líklegt, að flest- ar manneskjur telji það skyldu sína að hugsa um for- eldrana ,“ sagði Hallur. Kannske hann ætli nú að fara að tala um að fara til okkar og láta okkur hafa alla jörðina, hugsaði Maríanna. Hún vissi ekki, hvort hún ætti að gleðjast eða ekki. „Ef öll börnin þín verða eins lengi ómagar á þér og hann sonur þinn, verður þú búinn að leggja inn fyrir því hjá þeim, að þau hlynni eitthvað að þér. En ætli þú hafir þá ekki lítið til að gefa með þér til þeirra. öðruvísi undirhalda börnin ekki foreldra sína leng- ur. Ef þeir geta ekki gefið með sér sjálfir, verður sveitin að gera það.“ „Það getur nú ekki gengið lengur, að ég kosti hann til náms. Ef hann lýkur ekki við lærdóminn í vor, verð ég ann- að hvort að minnka stórlega bústofninn eða selja jarðar- partinn," sagði Hallur gremju- lega. „Það er alveg rétt hjá þér að selja jörðina,* sagði Marí- anna. „Ég hef ekkert þrek til að eiga við sveitabúskap. Þú hefðir áreiðanlega gott af því líka að hætta að vinna.“ „Ojæja, mörg konan hefir nú haft það erfiðara en þú í búskapnum,“ sagði tengda- faðirinn. „Mér hefir sýnzt sonur minn reyna að veita þér flest, sem þú hefir óskað eftir, og ekki hafa krakkarnir hang- ið utan í þér margir í einu. Ég er smeykur um, að Sifa hafi heldur erfiðari stöðu, og er hún áreiðanlega ekki að kvarta eða hugsa um að gef- ast upp við búskapinn.“ „Það er nú meiri krakka- hrúgan, sem þar er,“ sagði Hallur. „Ég skil ekki hvernig þú getur verið innan um þessa varga.“ „Ég er nú lítið innan um þau skinnin litlu, nema þá helzt úti. Þetta eru efnisstrák- ar. Þeir munu hjálpa pabba sínum, þegar þeir komast á legg, enda er hann farinn að lýjast. Hún er líka alveg ein- stakur unglingur, hún Lóa litla, dugleg og lagin til allra verka. Þið gætuð verið ánægð, ef hún dóttir ykkar væri eins rösk,“ sagði gamli maðurinn, óhlífinn að vanda. „Ég hef nú hugsað mér, að hún lærði eitthvað annað en að hreinsa dún og raka hey,“ sagði Maríanna þykkjulega. „Það er nú alltaf þessi lær- dómur í kollinum á þér. Þú ættir að geta kennt henni eitt- hvað, skólagengin manneskj- an,“ sagði hann stuttlega. Maríanna kjagaði fram í baðstofuna. Hún gat ekki skil- ið, hvað karlinn væri að ráfa þangað inn, einungis til að hæla krakkayrðlingunum hans Gunnars. Það leit út fyrir að hann áliti, að þau sæju ekki hvernig krakkaormarnir hans litu út, alltaf skítug og þvæld- ust niðri í fjörum heilu og hálfu dagana, án þess að undr- azt væri um þau. Af þessu og öðru eins gat karlvargurinn verið hrifinn. Maríanna settist hjá Helgu, sem þeytti rokkinn á rúmi sínu. Hún hafði komið norður aftur eftir þriggja ára veru sunnanlands. Frændfólk henn- ar var flutt burtu af æsku- stöðvum hennar. Þá fannst henni hún vera einmana og sneri heim að Látravík. Marí- anna tók henni eins og góðri systur og sagðist alltaf hafa vitað, að hún sæi það fljótlega, hvað hún hefði átt góða hús- bændur á Norðurlandi. „Ekki veit ég hvað karl- skepnan er eiginlega að rangla hingað inn,“ hvíslaði hún í eyra Helgu. „Ég er ákaflega hrædd um, að hann vilji fara að komast til okkar, því að heimilislífið þarna í hinum bænum er víst ekki ákjósan- legt, en mér ofbýður þessi þefur, sem með honum kom inn í húsið áðan.“

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.