Lögberg-Heimskringla - 07.02.1963, Page 6

Lögberg-Heimskringla - 07.02.1963, Page 6
6 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 7. FEBRÚAR 1903 GUÐRÚN FRA LUNDI: ÖLDUFÖLL Skáldsaga „Sjáum til. Hún hefur rausnast til þess að bjóða þér reiðfötin sín. Og þau fara þér svo anzi vel. Það þarf að láta fólkið hérna skilja meiningu sína, svona einstöku sinnum“, sagði hún. „Mér þykir leiðinlegt, ef henni hefur mislíkað. En ég gat ómögulega sent hestinn aftur. Mér fannst það ókur- teisi“, sagði Sigga. „Ég hefði nú aldrei liðið það“, sagði Gunnvör. „Þú ert víst búin að sitja nógu oft heima í sumar, þegar aðrir hafa riðið út til að skemmta sár. Það er lítil meining í því, að láta fara svoleiðis með sig, þó að maður sé ekki nema vinnukona. En þær eru smáar í augum sumra húsmæðranna, trúi ég, ekki sízt, þegar þær eru prestdætur eins og Frið- rika. Reyndu bara að eignast hest sjálf, eins og ég. Þá þarft þú ekki að vera upp á neinn komin, þó að þig langi til þess að bregða þér bmjarleið“. „Ætli það verði nema þetta árið, sem ég get talizt vinnu- kona“, sagði Sigga og hresstist eins og vanalega við fjasið í Gunnvöru. Hún hafði verið henni eins og eldri systir síðan hún kynntist henni. Hún var fullum áratug eldri en Sigga og mikið þrekmeiri til allrar vinnu. Stundum heyrðist þó, að húsmóðurinni þætti nóg um framhleypni hennar, þó að hún léti það í ljós, svo að Gunnvör heyrði. Sigga fór inn til að kveðja húsmóður sína og yngsta krakkann. Vermundur gamli ætlaði líka að verða heima. Systkinin voru farin á undan þeim. En Skjóni var þýðgeng- ur og vilja góður, svo að þær náðu þeim fljótlega. Steinunn heimasæta horfði dálítið háðs- lega á skjótta gæðinginn og spurði Siggu, hvort hann væri ekki ákaflega eftirlætislegur eins og eigandinn. „Eigandann þekkir þú nú víst betur en ég“, svaraði Sigga. „En hestinn fellur mér vel við“. „Ég vildi bara að hann Tvistur minn væri orðinn eins ganggóður“, sagði Gunnvör. „Hann hefur náttúrlega aldrei vakur verið, enda er búið að jaska svo á honum, að hann má heita illgengur". Það var víst ekki of sagt, því að klárinn hlunkaðist svo á- fram, að Sigga skildi ekkert í því að Gunnvör skyldi telja það til skemmtana að ríða út á honum á hverjum sunnu- degi. Það var byrjað að draga féð, þegar þær komu að réttinni. Þær voru rétt 'stignar af baki, þegar Hrólfur kom brosandi út undir eyru til þeirra' og heilsaði þeim með handa- bandi. „Hvernig fellur þér við þann skjótta?“ spurði hann. „Ágætlega“, sagði Sigga og kafroðnaði af feimni. Hún sá að Steinunn var að benda ein- hverri kunningjastúlku á þau með augunum. Og þær skelli- hlógu báðar. „Hvernig datt þér í hug að fara að senda mér hest, án þess ég talaði um það?“ spurði Sigga. „Ég fór svona nærri um að þig mundi langa til þess að ríða í réttirnar eins og aðrar ungar stúlkur“, stamaði hann fram. „Sveinki sagði, að þú hefðir verið hálf hikandi að taka við honum“. „Það var nú bara svoleiðis, að það voru svo fáir eftir heima hjá húsmóðurinni. Og svo var ég svolítið hissa“. „Það verður víst ekkert að henni, þó að hún sé heima þessa dagsstund, þar sem karlinn er þá líka hjá henni“, sagði Hrólfur. „En ekki hafa þau líklega boðið þér hest. Nei, ég þóttist vita það. Þau ætla ekki að jaska klárunum sínum út undir þig“. „Ég hef heldur aldrei beðið þau um hest“, flýtti Sigga sér að segja, því að hún vissi að systkinin hlytu að hlusta á samtalið, og segðu svo frá því, þegar heim var komið. Gunnvör var búin að spretta söðlunum af fyrir'þær allar og taka beizlin fram af klár- unum, áður en nágranninn greiðvikni vissi af. „Ég ætlaði nú að spretta af þeim skjótta fyrir þig. En Gunnvör er nú kannske eins og hún er vön með dugnaðinn og skerpuna", sagði Hrólfur. Þau gengu heim að réttinni. Gunnvör heilsaði á báðar hendur, því að hún var mörg- um kunnug, en Sigga þekkti ekki nokkurn mann. Hún sett- ist á réttarvegginn eins og svo margar aðrar stúlku^. og börn. Það var helzt gangnastjórinn, sem hún veitti eftirtekt. Hann hafði komið að Grund um vor- ið, þess vegna þekkti hún hann. Hann var myndarlegur eldri maður, með grá stálhörð augu. Gunnvör hafði sagt henni margar sögur af honum. Hann hét Bárður og átti heima á Fjalli. Var sá bær hinum megin í dalnum, beint á móti réttinni. Þetta var faðir Bensa í Bakkabúð, enda svipaður honum. Hann kallaði hátt, svo að það heyrðist yfir hávaða réttarinnar: „Þið skreppið yfir um og fáið ykkur kaffi eftir hentug- leikum“. Þetta hafði hann gert alla sína búskapartíð, þessi gest- risni bóndi. Aðallega voru það gangnamennirnir, þreyttir og þyrstir, sem þáðu boðið, en mörg konan fór líka yfir um með krakka sína. Áin var lítil í þetta skipti, og svo höfðu tveir sterkir plankar verið lagðir samhliða yfir hana, svo að ekki þurfti að taka hesta fyrir þennan smáspöl. Gunnvör hafði verið vinnu- kona á Fjalli. Hún hnippti í Siggu og sagði henni að koma með sér yfir um til þess að fá sér kaffi. Þetta væri ekki nema til að liðka sig eftir reiðtúrinn. En Sigga kunni ekki við það, að fara að troð- ast heim á ókunnuga bæi til að sníkja sér kaffi, og sízt á þetta heimili. Hún hafði heyrt of margt um Bárð á Fjalli til þess að fara að drekka kaffi hjá konu hans, þar að auki óboðin. Náttúrlega voru þær fréttir henni óviðkomandi. Þær voru aðeins um það, hvernig hann hafði komið fram við Bensa og Hallfríði. En til þeirra tók hana jafn sárt og foreldra sinna og bræðra. Þegar Bensi var að fara í göngur fyrir Björn á Sléttu, og var þreyttur og kaldur við þessa rétt, hafði þessi faðir hans látið sem hann sæi hann ekki. Hann bauð öll- um kaffi, alveg eins og núna. Og það sem meira var, hann hafði alveg sérstaklega boðið Birni á Sléttu að koma yfir um. Og hann hafði farið, en Bensi vildi ekki verða honum samferða. Þá var kuldi og rigning. En Bensi var of stór- látur til þess að þiggja góð- gerðir af þeim föður, sem ekki virti hann einu sinni viðlits. Einn ertinn gangnamaður spurði Bensa einu sinni, hvort hann ætlaði ekki að hafa sig heim til föðurhúsanna til að fá sér kaffisopa. Af svarinu mátti heyra, hvernig honum mundi vera innan brjósts. „Þær götur myndi ég seint troða, hversu kaldur sem ég væri“, sagði hann. Aumingja Bensi, að eiga svona slæman föður, hugsaði Sigga. „Hún sér varla eftir kaffi- bolla ofan í þig, húsmóðirin á Fjalli, þó að hún þekki þig ekki“, svaraði Gunnvör. En Sigga vildi ekki fara. Henni hafði líka sýnzt Tryggvi bróðir hennar vera þar uppi á grundunum. Hann varð hún þó að hitta. Gunnvör var byrjuð á því að setja ofan í við Siggu fyrir gikksháttinn eða hlédrægnina, hvort heldur sem réði fyrir henni í þetta sinn, þegar fyrirferðarmikill kvenmaður kom í áttina til þeirra. Gunnvör rak að henni rembingskoss. Hún þekkti líka aðra hvora manneskju og heilsaði þeim eins og systkin- um sínum. „Er þetta nýja vinnukonan á Stóru-Grund?“ spurði þessi aðsópsmikla kona. Og Sigga fann að hún var mæld og veg- in með frekjulegu augnaráði. CANADA YFIR HÁLF MILLJÓN MANNA HAFA GERZT KANADISKIR BORGARAR síðan þegnréttarlög landsins voru samþykkt 1947. Á árinu 1962 einu tóku 72,000 innflytjendur þegnskapareiðinn og öðluðust full borgaraleg réttindi. Þetta er vingjarnlegt boðsbréf til allra innflytjenda, er fengu löglega inngöngu í þetta land sem innflytjendur fyrir fjórum árum og níu mánuðum, að saekja um kanadísk borgararéttindi nú þegar. Njótið allra þeirra réttinda er með þessu bjóðast til fullkom- ins þegnskapar á meðal Kanada þjóðarinnar. • Réttinn iil atkvæðagreiðslu. • Réllinn til kanadísks ferðaleyfis. • Rétiinn til opinberrar skrifstofuþjónustu. • Réttinn iil fullrar þátttöku í kanadískum sljórnmálum. Þér getið fengið umsóknarskjal til þessa frá skrifstofu þegn- réttar, county eða district dómara, sem næst er, eða The Registrar of Canadian Citizenship, Ottawa. Minister of Citizenship and Immigration

x

Lögberg-Heimskringla

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.