Lögberg-Heimskringla - 07.04.1966, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 07.04.1966, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 7. APRÍL 1966 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: I Tengdadóttirin Skáldsaga ■■■ ■■■ - " ■ ' ■ '-vr:■ ■ - .■■"7 INGA Á FELLSENDA KEMUR AÐ HRAUNHÖMRUM Þrem dögum seinna riðu þau út í Skerjavík Þorgeir og Sigurfljóð. Gunnhildur hafði viljað að Hjálmar færi með henni ,en hann sagðist ekki kunna að velja álnavöru — þar væri faðir hans heldur betri. Þau voru rétt horfin út fyrir Fellsenda, þegar Inga tók á sig rögg og fór fram að Hraunhömrum. Hún var orðin forvitin eftir að kynnast því, hvað væri að gerast á því heimili. Hún hitti Siggu úti. „Það er orðið langt síðan þú hefur sézt hér“, sagði Sigga fjörlega. „Maður getur varla látið sjá sig, meðan þessi fröken er hér, svona fjandi fín og merkileg“, sagði Inga. „En hún er nú bara ekkert merkileg, skinnið, en hún er náttúrlega sallafín, alltaf í upphlut og honum gullslit- um“, sagði Sigga. „Hvernig er það eiginlega", spurði Inga dálítið merkileg á svip, „hvor þeirra feðganna er trúlofaður henni? Karlinn þeysir með hana um sveitina, en Hjálmari er þó eignuð hún“. „Nú get ég ekki svarað þér. Ég veit ekki um neina trúlof- un hérna þér að segja. En eftir framkomu hennar er hægt að trúa því, að hún sé trúlofuð hverri manneskju á heimil- inu“, sagði Sigga. „Þú getur nú kannske ekki talað eins og annað fólk“, sagði Inga gröm. „Hvernig er hægt að svara svona spuringum? •Hvernig dettur þér í hug, að hún sé trúlofuð Þorgeiri, giftum manninum?“ sagði Sigga. „En Hjálmari?“ „Dettur þér í hug, að það yrði farið að segja mér frá því, þó að svo væri? Nei, seinast yrði ég að frétta það, Allir vita, að minn sjóður er rifinn“, Sigga flissandi. „Greyið mitt, talaðu nú al- mennilega við mig“, sagði Inga óþolinmóð. Þú hlýtur að sjá það, ef eitthvað er á milli þeirra“. „En það er einmitt það, sem ég sé ekki“, sagði Sigga. „Ætl- arðu ekki að ganga í bæinn og heilsa því, sem heima er af fólkinu?“ „Ég veit ekki. Ég hef skömm á öllum þessum sög- um og fréttum, sem ég heyri héðan“, sagði Inga. „Ekki get ég gert að því“, sagði Sigga. „Það getur náttúrlega verið að ég líti inn í stofuna til hans Hjálmars rníns", sagði Inga með drýgindalegu brosi. Svo bætti hún við: „Hvernig fór þetta með Ástu fögru? Kemur hún ekki aftur hingað á þetta heimili?“ „Líklega ekki. Hún var of fögur fyrir okkur“, sagði Sigga. „Segðu mér nú satt, Sigga mín, var hún rekin í burtu vegna þess að karlinn og kerl- ingin óttuðust, að Hjálmari litist of vel á hana?“ „Aldrei hef ég heyrt það, þó að ég sé nær en þú. Ég held að það hafi bara ráðizt svo- leiðis, að hún yrði hér næsta sumar, en heima hjá foreldr- um sínum í vetur“, svaraði Sigga. „Það er eitthvað á bak við þessa sögu hjá þér, kerling mín“, sagði Inga. „Til hvers ertu þá að spyrja mig, fyrst þú trúir mér ekki?“ „Ég veit ekki“, sagði Inga. „Mér finnst, að þú gætir sagt mér það, sem þú veizt, tæfan þín“. „Ég hef gert það. Nú skaltu fara inn og spyrja húsmóður- ina, ef hún kynni að vita bet- ur“. „Svei, sú held ég segi nú I satt frá“, sagði Inga. Valka kom nú fram í dyrn- ar með bala fullan af undnum þvotti. Gvendur bar hann með henni. Inga heilsaði henni vinalega. „Þú ert að ganga úti í góða veðrinu, Inga mín“, sagði Valka til að segja eitthvað við gestinn. „Já, mig var farið að langa til að sjá hann Hjálmar minn“, sagði Inga kankvís. „Ætli hann sé ekki inni í stofunni eins og hann er Vanur að vera?“ „Ekki get ég svarað því“, sagði Valka og byrjaði að klemma upp þvottinn. „Líkar þér það kannske illa, að ég er að eigna mér hann?“ spurði Inga. „Það er nú líklega eitt af því, sem mér kemur lítið við, hver eignar sér hann“, anzaði Valka, „því að varla dettur þér það þó í hug, að ég ætli mér hann. Nógu verða þær sjálfsagt margar, sem vilja ganga með honum, piltinum þeim“, bætti hún við áhuga- laus eins og vanalega. Það var aldrei hægt að heyra, hvort hún tæki eftir því, sem talað var um eða ekki. „Þú ert víst ekkert ólíklegri til þess en þessi langvía, sem hingað er komin og verið er að gefa honum“, hélt Inga áfram. „Þú getur klemmt þetta þarna á endann hjá þér, Sigga“, sagði Valka. „Heyrðirðu ekki hvað ég var að segja, Valka?“ spurði Inga. „Það held ég ekki“, svaraði hún. Sigga flissaði. „Það er verið að gefa hon- um Hjálmari þess Sigurfljóð eða hvað hún heitir, sem er hér að sauma“, sagði Inga. „Jæja, hann gæti víst valið lakara“, sagði Valka. „Þið eruð hræðilega leiðin- legar báðar tvær“, andvarpaði Inga. „Við erum nú ekki betur gerðar frá fyrstu hendi en þetta, Inga mín. Það er varla ómaksins vert að heimsækja okkur“, sagði Valka. „Þið búið yfir einhverju, það er ég viss um“. „Hvað ætti það svo sem að vera?“ „Hefurðu frétt nokkuð frá Ástu?“ spurði Inga og virti þær fyrir sér. Það var ekki hægt að sjá að þeim brygði neitt. „Er nokkuð sérstakt frá henni að frétta?“ spurði Valka. „Nei, ekki annað en hvort hún er heima þarna í kot- skrattanum eða hún vinni annars staðar“. „Um það veit ég ekkert“. „Jæja, þá er ekkert á ykkur að græða‘‘, sagði Inga og gekk inn í bæinn. Það var enginn í stofunni, en Gunnhildur var í eldhúsinu. Inga heilsaði og spurði eftir Hjálmari. „Ég býst við, að hann sé eitthvað við skepnuhirðingu. Þorgeir er ekki heima“, svar- aði Gunnhildur. „Jú, jú, maður sá nú svona aðeins til hans í morgun, þeg- ar hann þeysti hjá með henni, þessari saumakonu þinni“, sagði Inga stuttlega. „Þau hafa nú kannske ekki látið lötra“, sagði Gunnhildur dálítið hreykin. „Hvað verður hún lengi hjá þér, þessi Sigurfljóð? Það er meira ónefnið". „Mér finnst það ósköp til- komumkiið nafn og á vel við hana“, sagði Gunnhildur. — „Komdu nú inn í búrið og fáðu þér sæti, Inga mín. Þú ert svo sjaldséður gestur hérna í vetur“. Inga settist á búrkistuna. „Ég er að verða svo vonlítil um að ná í Hjálmar — þess vegna kem ég svo sjaldan“, sagði hún brosandi. „Mér fer líka að lítast hálf- illa á það“, sagði Gunnhildur. „Jæja, er þá búið að ákveða, hver verður tengdadóttir hér á Hraunhömrum?“ „Nei, en það er verið að gefa þig Simba í Gröf, heyri ég sagt“. „Ég lít nú varla við honum, meðan Hjálmar er hringlaus“. „Ekki það“, sagði Gunnhild- ur og fór að mala kaffi. Ingu sýndist hún brosleit. „Mér finnst það ótrúlegt, að Hjálmar láti ginnast af auðn- um þarna á Hálsi og taki þessa konu að sér, sem er mikið eldri en hann og langt frá því að vera skemmtileg“, sagði Inga. „Það er nú hægt að gangast fyrir fleiru en auðnum þar, Inga mín. Hún er bráðferðug til allra verka og allt leikur í höndunum á henni“, sagði Gunnhildur og fór að hella á könnuna. „Ja, sei-sei, er Hjálmar kannske hrifinn af henni?“ spurði Inga. „Því geta sjálfsagt fáir svar- að“, sagði Gunnhildur. „Hann er nú enginn oflátungur, hann Hjálmar minn. Nú ætla ég að kalla á stúlkurnar ,svo drekk- um við hérna kaffi“, bætti hún við og fór fram. Það er einhver drýldni niðri fyrir hjá kerlingarálkunni, hugsaði Inga. En ómögulegt var að láta hvorki hana né aðra tala eins og annað al- mennilegt fólk. Líklega ætlaði það Hjálmari þessa sauma- konubrenglu. En mikið var hér allt orðið þrifalegt, hvar sem litið var. Hana langaði til að líta inn í baðstofuna. — Líklega var hún búin að um- snúa þar öllu, þessi perla, sem komin var á heimilið. Hún var nógu kunnug til að taka sér bessaleyfi til að líta inn fyrir, meða Gunnhildur var að kalla á stúlkurnar. Þarna sat Sól- veig gamla framan á rúminu eins og hver önnur manneskja og prjónaði í ákafa. „Nei, ert þú nú bara farin að klæða þig, Sólveig gamla? En sú framför, sem hér er yfir öllu. Þarna er þá kominn ofn og er kappkyntur. Ja, ég er nú aldeilis hissa. Líklega er það sá, sem var inni í húsinu. Hvernig skyldi líta þar út?“ Hún reif opna hurðina og gægðist inn. Þarna var þá kominn þessi stóri og fallegi ofn. Skyldi það vera munur? Hún skellti aftur hurðinni og færði sig til Sólveigar gömlu. Það varð að tala nokkuð hátt við hana, heyrnin var orðin sljó: „Er það þessi Sigurfljóð, sem ræður þvr, að hér er kom- inn nýr ofn og margt orðið breytt frá því, sem áður var? Þess var nú náttúrlega full þörf“, sagði hún fast við eyrað á kerlingunni. „Já, það eru áreiðanlega hennar ráð. Hún ætlar sér að breyta öllu, þykist ég heyra“, svaraði gamla konan. Sú held ég heyri, hugsaði Inga. „Það á víst að kaupa prjónavél og vefstól, heyrðist mér hún vera að tala um við Þorgeir nýlega. Þau eru sífelt að ræða og ráð- gera. Hjálmar er utan við það allt ennþá, enda er hann nú alltaf fátalaður“. Inga fann til andþrengsla. Það var svo sem auðheyrt, hvað myndi vera í ráðagreð. En þarna var þá manneskja, sem hægt var að fá almenni- leg svör hjá. „Er hún komin hingað fyrir fullt og fast og farin að ráða öllu á heimil- inu?“ spurði hún áköf. „Ekki held ég, að það sé, að minnsta kosti hefur Sigga aldrei minnzt á, að neinn flutningur hafi komið og alltaf er hún eins klædd, eins og drottning, í upphlut. En hún sezt áreiðanlega hér að, sem betur fer, segi ég, og það munu fleiri segja. Það er orð- in sú stórkostlegasta breyting á öllu á heimilinu strax. Þessi blessaður ylur hérna við rúm- ið mitt“, sagði Sólveig gamla broshýr eins og barn. „Þetta er gamli ofndrösull- inn, sem var inni í suðurhús- inu“, sagði Inga með lítils- virðingu. „Já, en hann hitar vel. Hún er nú heldur ekki spör á eldi- viðnum, blessunin“, sagði Sól- veig. „Eru þau bara trúlofuð, bóndasonurinn og hún?“ spurði Inga. „Ekki sé ég nein merki þess“ sagði gamla konan og brosti. „Hún er ósköp hrifin af honum, það leynir sér ekki. Hann er nú víst svipaður móður sinni — lætur víst sjaldan í ljós, hvort hann er með eða móti því sem talað er um. Satt að segja sýnist mér mestar líkur til þess, að húsbóndinn sé bráðskotinn í henni“. Hún tísti af niður- bældum hlátri. „Hvar er Guðbjörg gamla eiginlega?“ spurði Inga. „Er búið að láta hana í poka og hengja hann upp í eldhús? Hún hefur ekki haft fyrir að koma til okkar það sem af er vetrarins". „Hún fór yfir að Gröf af því að veðrið er svo gott“. Gunnhildur kom nú með kaffi handa gömlu konunni og bauð Ingu að koma fram í búrið til að drekka kaffið — nú væri Hjálmar kominn inn. Þær fylgdust að fram göngin. Hjálmar sat á búrkistunni við hlið Siggu. Þau voru eitthvað að hnippa hvort í annað sýnd- ist henni, þegar hún kom í búrdyrnar. „Sæll vertu, Hjálmar minn“, sagði hún og rétti honum höndina. „Má ég ekki óska þér til hamingju?“ bætti hún við. Hann roðnaði. „Því er nú verr, að við getum ekki árnað hvort öðru heilla ennþá — Simbi fór út í kaupstað í morgun, líklega til að sækja hringana“, sagði hann stríðn- islega. „Fyrir þig?“ „Nei, fyrir sjálfan sig, þyk- ist ég vita“. „Ó, hvað þú getur verið hræðilega illgjarn og leiðin- legur að leggja trúnað á þenn- an þvætting“, sagði hún. „Þú versnar alltaf“. „Það er ekki að búast við að mér fari fram úr þessu“, sagði hann. „Ég hef heyrt þetta og þá verður manni á að trúa því“. „Nú skuluð þið fara að drekka kaffið og hætta allri stríðni“, sagði Gunnhildur. „Ég læt hann ekki stríða mér“, sagði Inga og litaðist um eftir sæti. Valka sat á bekk öðrum megin við borðið. Þar var henni ætlað sæti, en henni líkaði það ekki. „Sigga getur setið þarna — ég vil fá hennar sæti“, sagði hún. „Ég vil sitja kyrr“, sagði Sigga hlæjandi. „Það er svo gott að sitja hérna hjá honum Hjálmari“.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.