Lögberg-Heimskringla - 05.01.1967, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 05.01.1967, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 5. JANÚAR 1967 „Vertu sæl, amma mín!“ sagði hann og fann til and- þrengsla. „Guð fylgi þér alla tíma,“ sagði gamalmennið og hélt á- fram að kjökra. Hjálmar hlustaði á nöldur samvizkunnar í sínum eigin barmi um að hann hefði verið kaldur og afskiptalítill drumb- ur við þessa konu, sem hon- um hafði borið að elska og virða. Hann bætti við hlýjum kossi og sagði, að það væri áreiðanlegt að hún væri óðum að hressast og gæti því orðið mömmu hans til mikillar á- nægju, meðan hann væri fjar- verandi. Feðgarnir lögðu alla þá alúð sem þeir gátu í kveðjurnar, en samt fannst þeim báðum þær vera kaldar. Svo gekk Þorgeir burtu og stefndi upp í fell. Honum var þungt í sinni. Gunnhildur beið hjá Jarp suð- ur í tröðinni. Hún ætlaði að fylgja syni sínum úr garði. Það hefur vanalega orðið hlut- skipti móðurinnar. Þegar hún hafði kvatt hann með árnaðar- óskum og beðið hann að vera viljugan að skrifa, gekk hún upp með túngarðinum og hvarf inn í hamrana. Þaðan gat hún lengi séð til ferða hans. Eftir nokkra stund sá hún, hvar Guðbjörg gamla kom stautandi heiman frá bænum áleiðis til sín. Hún ætlaði að reyna að uppfylla síðustu ósk frænda síns, þó að ólíklegt væri að hún gæti létt aumingja Gunnhildi lífið að einhverju leyti, því að nú fyndist henni hún vera orðin einmana, þegar eftirlætisson- urinn væri farin. Gunnhildur kom á móti henni, svo að hún þyrfti ekki að leggja það á sig að ganga síðasta spölinn, því að hann var á fótinn. „Hann er nú horfinn, bless- aður drengurinn. Guð má vita, hvort við sjáum hann nokk- urn tíma aftur,“ sagði hún lágt og mæðulega. Vestur að Hálsi. Hjálmari fannst óviðkunn- anlegt að hugsa til þess að koma að Hálsi eftir allt það, sem gerzt hafði þennan vetur, en hjá því varð ekki komizt. Það var verið að slóðadraga með tveimur hestum syðst á túninu. Hann fór af baki við hliðið, tók niður taumana á púlshestunum og teymdi þá heim tröðina í blíðasta nátt- málaskini. Hann var varla kominn heim á hlaðið, þegar Sigurfljóð geystist út úr dyr- unum brosandi. „Það er þó ekki hægt annað að segja en að það sjáist til míns manns, þegar hann kemur,“ sagði hún og heilsaði honum með remb- ingskossi og bætti öðrum við með þakklæti fyrir síðast og bauð hann velkominn. „Ef þú hefðir ekki komið mér til hjálpar, væri ég nú þrjár álnir undir grassverðinum í stað þess að njóta þessarar indælu vorblíðu, sem nú er á degi hverjum.“ „Það hefði einhver annar fundið þig,“ sagði Hjálmar og þótti nóg um alúð hennar. „Ég kom með þessa hesta með mér, þeir eru vanir plæging- um, svo að ég verð kannske eitthvað fljótvirkari en ég var í haust, enda þarf svo að vera, því að nú er ég ferðbúinn til Noregs — búinn að kveðja Hraunhamra.“ „Nel, ertu að tala í alvöru, vinur? En hvað ég samgleðst þér. Lét nú karlinn þig hafa farareyri eins og þú þarft?“ sagði Sigurfljóð hlæjandi. „Já, það var ekki skorið við neglurnar á sér,“ sagði Hjálm- ar, en hann brosti ekki, því síður hló henni til samlætis. „Sko tengdapabba, hann er hreint ekki svo afleitur. Ég segi þér það satt, að það hefði orðið myndarlegur búskapur hjá okkur, ef við hefðum bor- ið gæfu til að búa saman,“ sagði hún hlæjandi. „Og nú skaltu reyna, vinur minn, að vera ekki neitt öðruvísi en þú varst í haust, þó að við höfum verið trúlofuð þessar vikur. Eða ertu kannske reiður við mig fyrir þetta launpukur, sem við brugguðum þér og ég var svo hreinskilin að játa fyrir þér? Þér hefði verið betra að skrifa ekkert og lofa samvizkunni að nöldra.“ „Nei, mikil ósköp, ykkur var velkomið að byggja ykkur skýjaborgir,“ sagði Hjálmar. „Ég bauð pabba að lesa bréfið og það hefur hann víst gert og líklega eyðilagt það, því að ég hef hvergi séð það síðan.“ Hún var hætt að hlæja. — „Hvað sagði hann yfir þessu?“ spurði hún. „Hann hefur aldrei minnzt á það einu orði.“ „Og þú ekki heldur?“ „Nei, ég ekki heldur." „Leitaðirðu ekki að bréfinu eða spurðir eftir því?“ „Nei, hann hefur sjálfsagt kastað því í ofninn, þykist ég vita, fyrst hann lét það ekki þar, sem það var. — Svo lang- ar mig til að vita, hvað ég á að gera við alla þessa hesta til morguns,“ sagði Hjálmar. „En mig langar til að vita, hvað þú gerðir við hin bréfin tvö, sem ég skrifaði þér, eða kannske þú hafir aldrei fengið þau? Samt var ég ekki búin að útvega mér annan mann — átti alltaf von á þér. Þú mátt trúa því, að það hefur verið horft í norður- og austurátt nú í seinni tíð af fleirum en mér. Þú ert heldur latur að skrifa kærustunni, þykir mér. Ætlarðu að verða eins feim- inn og hlédrægur við hana og þú varst við mig?“ „Ég átti ekki gott með að koma bréfum til hennar. Það er fáferðugt að Heiðargörðum. Það er stutt síðan ég frétti, að hún væri komin hingað, og ég kann svo illa við að þú takir hana á þitt heimili og kunni heldur ekki við að skrifa henni meðan hún er hjá þér,“ sagði hann fálega. „Ég er nú hrædd um að þú verðir samt að sætta þig við það, vinur, því að héðan fer rún ekki fyrr en þú kvænist henni. Ef þú gerir það ekki, verður hún hér alla ævina eða að minnsta kosti barnið henn- ar,“ sagði Sigurfljóð kafrjóð af ákafa. „Ég gerði ráð fyrir, að hún yrði í Heiðargörðum meðan ég væri í burtu,“ sagði hann. „Hvernig svo sem ætti barn- ið að kúldast þar? Heldurðu að það fari ekki nokkuð betur um þau hérna í nýja húsinu?“ sagði hún. „Mér sýnast þau ekkert ves- aldarleg, systkinin í Heiðar- görðum," var það eina, sem Hjálmar lagði til málanna. Ekki eitt einasta þakkarorð fyrir umhyggjuna og gæðin við kærustuna hraut af vörum hans. Hún fann til sömu sáru gremjunnar og þegar hún var að fara frá Hraunhömrum. — „Ég hef nú bara ekki komizt að með að spyrja, hvernig heilsan sé hjá þér, Sigurfljóð?“ sagði Hjálmar. „Hún er fram yfir allar von- ir. Ég er náttúrlega dálítið hölt, að öðru leyti líður mér sæmilega eftir allar hrakfar- irnar,“ sagði hún. Hann fór að spretta af hnakknum, og koffort og kassa, sem var á einum hest- inum, tók hann ofan. „Það er eitthvað í þessum kassa, sem þér heyrir til, Sigurfljóð, lík- lega einhver föt, býst ég við,“ sagði hann. „En þetta koffort ætla ég að fá að láta einhvers staðar inn. 1 því eru fötin mín.“ „Ójá, mömmu þinni hefur þótt ólíklegt, að ég kæmi norð- ur eftir þessu,“ sagði hún og brosti beisklega. „Henni hefur sjálfsagt ekki dottið slíkt í hug,“ sagði hann og teymdi hestaþvöguna aust- ur túnið, þar sem hann þóttist þekkja húsbóndann við túná- vinnsluna. Hann teymdi ann- an hestinn, en Ella litla trítl- aði með hinn. Fósturdóttirin og stúlka, sem hann þóttist sjá að væri heimasætan á heimil- inu, rökuðu eftir slóðaðnum. Hjálmar kastaði kveðju á fólk- ið, nema húsbóndann, honum rétti hann hendina. „Það er ekki hægt að segja að þú sért gangandi, Hjálmar minn,“ sagði bóndi, „þvílíkur hestahópur, sem fylgir þér.“ „Ég kom með þessa hesta að heiman. Þeir eru vanir að vinna saman og vona ég því, að mér gangi betur við flagið en í haust. Ég hef nauman tíma,“ sagði Hjálmar. „Ef þú vilt síður hafa þá, á ég ekkert við flagið.“ „Nú, nú,“ sagði bóndi, „ég var víst ekkert farinn að hafa á móti þeim. Reyndar finnst mér lítið liggja á að fara að saxa það í sundur, en það stendur kannske svoleiðis á fyrir þér, að þú vilt koma því af?“ „Já, það er einmitt svoleiðis, annaðhvort strax eða aldrei,“ sagði Hjálmar. „Nú, jæja, ætli þið verðið þá ekki að ráða eins og vant er, þetta unga fólk,“ sagði bóndi og svipur hans þyngd- ist. „Þá skaltu láta þá þarna í girðinguna, annars rjúka þeir norður aftur í gróðurinn og rólegheitin.“ Sigurfljóð beið úti á hlað- inu þangað til Hjálmar kom heim aftur. „Þið hafið náttúr- lega verið búin að vinna á þarna fyrir norðan, sem ekki er heldur þakkandi, þetta eru engin tún hjá ykkur hjá því, sem er hérna á Hálsi og víð- ar.“ „Já, það er stórt túnið ykk- ar og veitti áreiiðanlega ekki af fleiru fólki en þið hafið til að vinna á því,“ sagði Hjálmar. „Þér hefur nú líklega fund- izt fátt við útivinnuna,“ sagði Sigurfljóð og brosti, „en við reynum að nota-okkur liðlétt- inga, þó að þið hafið hálfvax- inn strákinn hann Bjössa bara til að láta hann éta.“ „Mér finnst nú Ella litla tæplega geta kallazt liðlétting- ur, heldur barn,“ sagði Hjálm- ar. „Þó teymir hún allan dag- inn, anginn litli. Ég gæti hugs- að að mömmu þinni þætti það heldur erfitt fyrir átta ára gamlan krakka.“ „Það þætti áreiðanlega erfitt á Hraunhömrum, pabba engu síður en mömmu. Hann er góð- ur við unglinga, man vel að hann var einu sinni foreldra- laust barn, sem átti víst ekki neitt sérlega gott atlæti,“ sagði Hjálmar og kvað fast að orð- unum. Sigurfljóð hafði fylgt gesti sínum inn í maskínuhúsið. Þar var Halldóra húsfreyja. Hún svaraði því, sem Hjálmar hafði sagt um atlæti föður hans: „Það var nú ekki mikið hugs- að um vandalausu börnin á þeim árum hjá húsbændunum, næstum verst á ríkisheimilun- um.“ „Vonandi hefur það eitthvað skánað," sagði Hjálmar. „Ekki þætti mér ólíklegt, að sá ósið- ur héldist við, að það væri einna lakast á ríkisheimilun- um. Sigurfljóð lagði á borðið og raðaði matardiskum fyrir gest sinn með fátkenndum handa- hreyfingum, litverp í andliti. Hjálmar þóttist vita, að það hefði fokið í hana við sig, en honum var það ósárt, svo mjög kenndi hann í brjósti um litlu stúlkuna, sem trítlaði með hægfara klárinn á eftir sér rétt á móti glugganum, sem hann sat við. Þegar hann hafði matazt, sagði Sigurfljóð, að nú væri bezt fyrir hann að fara fram í gestaherbergið og hvíla sig, hann hlyti að rata. Hann stóð upp og þakkaði þeim mæðg- um fyrir matinn. Svo fór hann fram í herbergið, opnaði hurðina án þess að banka, því að hann bjóst ekki við nein- um inni. En þarna sat þá Ásta hans í geislaflóði kvöldsólar- innar með saumavél fyrir framan sig á borðinu og ó- sköpin öll af allavega litri álnavöru. Hann stanzaði í dyr- unum, svo hverft varð honum við að sjá hana. Þó vissi hann, að hún var á heimilinu. Hann bjóst við að hún væri í rúm- inu, fyrst hún kom ekki til hans brosandi og sæl yfir end- urfundunum. Ásta leit upp frá saumunum, þegar hún heyrði hurðina opnaða. Hún varð auðsjáanlega jafnhissa og hann. „Nú er ég hissa. Ert þú kom- inn hingað?“ sagði hún og kom til hans brosandi. „Vissirðu ekki að ég var komin, Ásta?“ spurði hann, þegar kveðjurnar voru af- staðnar að mestu leyti. „Sástu ekki til mín með hestaþvög- una?“ „Varst það þú?“ sagði hún. „Sigurfljóð sagði, að þetta væri áreiðanlega plæginga- maður, sem hún ætti von á, svo að ég aðgætti hann ekk- ert frekar. Hvað svo sem varð- aði mig um hann, sem ég hélt að væri bara einn af þeim mörgu gestum, sem koma án þess að éig þekki nokkurn þeirra. En það varst þá þú, elsku vinur! Því hefurðu ver- ið svona latur að skrifa mér síðan þú varst frjáls að því?“ „Þú átt víst bréf heima í Heiðargörðum. Ég var búinn að senda það áður en ég frétti að þú værir farin þaðan.“ „Ertu óánægður yfir allri þessari ráðsmennsku Sigur- fljóðar í þessu máli?“ sagði hún. „Ég minntist ekki á það með einu orði að hún léti mig hafa hringinn, eins og þú get- ur skilið. Hún bara lét hann á fingurinn á mér og sagði, að ég mætti ekki hreyfa hann þaðan, nema með sínu leyfi'. Hvað segirðu um það?“ Hann tók hönd hennar og horfði á hana brosandi: „Hann fer ólíkt betur þarna. Ég er ánægður að öllu leyti, nema ég hefði helzt ekki viljað að þú værir hérna. Ég ætlaði ein- hverja nóttina austur eftir til að reyna að ná fundi þínum, en þá frétti ég, að þú værir komin vestur að Hálsi.“ Spakmæli dagsins. Það grillir í smásyndir þeirra, sem ganga í götóttum lörfum. Skikkjur og loðfeldir skýla öllu slíku. — Shakespeare.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.