Lögberg-Heimskringla - 12.11.1970, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 12.11.1970, Blaðsíða 6
LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 12. NÓVEMBER 1970 GUÐRÚN FRA LUNDI: NÁTTMALASKIN Skáldsaga „Það held ég varla. Það er ekki gripið upp fólk, sem hægt er að trúa fyrir svona löguðu. Ég kom þar um daginn. Þau létu bara vel yfir því, að þau myndu kunna við sig," sagði gesturinn. „Þó það nú væri. Þau hafa víst ekki undan neinu að kvarta, bíst ég við," sagði Hrólfur. „Eru þetta dálítið bærilegar manneskjur?" spurði Friðgerður. „Hann er hraustlegur, karlinn. En hún er tals- vert dauflegri," svaraði Þorkell. „Er þá Bergljót gamla kominn í próventu- hornið til þeirra spurði Hrólfur. „Nei, nei. Þetta er engin próventa. Þau eru bara í húsmennsku eða leiguliðar, hvað svo sem verður með vorinu. Svo þakka ég kærlega fyrir blessaðan matinn og nú skulum við fara að snúa okkur að spilunum," sagði gesturinn. Sigríður var kölluð inn fyrir til að vera fjórða manneskjan í vistinni. Ráða þeytti rokkinn, svo að ekki var hægt að grípa hana. Hún var því sárreið yfir því að þurfa að sitja við spunarokk- inn frammi í baðstofu og missa þar með af spila- mennskunni. Hún lét geðvonzku sína bitna á Simma, sem lá uppi í rúmi sínu, harðánægður með að fá svefnfrið. „Ekkert skil ég í þér að geta legið og sofið hverja stund, sem þú ert inni. Það er meiri bölv- aður ávaninn. Það hefði nær fyrir þig að hafa þig inn fyrir til þess að spila, þá einu sinni að gestur kemur," sagð hún. „Það er víst hægt að spila, þó að enginn gestur komi," umlaði í Simma. „Ég var ekki kallaður og fer því ekki að troðast inn fyrir. Þá er heldur betra að hvíla sig." „Hvíldu þig, hvíld er góð, segir sá lati. Ég heyrði eitthvað í það að gesturinn var að segja, að eitthvað nýtt fólk væri flutt að Grænumýri. Þá þarf Jónanna skinnið ekki að 'sitja yfir karl- inum," sagði Ráða. „Þau eru nú ekki eins og dótið hérna, sem lætur eins og því sé boðið blávatn, þó að það geti fengið heila jörð og bústofn fyrir sama og ekki neitt. Páll er búinn að bjóða mér jörðina til ábúðar í næstu fardögum, og ég er að hugsa um að taka því ágæta boði. Það gæti verið nógu gaman að vera frjáls maður eitt ár," sagði Simmi. „Með hvaða ráðskonu ætlarðu að búa, því að þá yrðirðu að taka Bergljótu gömlu og hugsa almennilega um hana. Þú fengir að vita af því, karl minn," sagði Ráða. „Það er víst ekki mikill vandi að hugsa um hana. Hún getur áreiðanlega eldað matinn ofan i okkur," sagði Simmi. „Þar komstu með það. Ég á nú engin orð yfir vitleysuna í þér. Það verður lagleg þvæla utan um þetta allt saman. Ég vil ráða þér heilt og vera ekki að skipta þér neitt af þessu dóti, sem enginn maður þekkir nema Páll," sagði Ráða. Þá tísti hláturinn í hálsinum á Simma aldrei þessu vant. „Spurðu Sæju eftir því og vittu hvað hún segir," sagði hann kankvíslega. „Nú veit ég að þú ert að Ijúga laglega að mér. En skrítið var það, að ég held að hún hafi staðið á hleri við búrdyrnar áðan, meðan karlinn var að segja fréttirnar yfir baunadiskinum. Hvað skyldi Páll ætla að hafa gott af þeim? Eitthvað er það sjálfsagt. Hann er ekki allur þar sem hann er séður, sá maður. Ég er víst sú eina, sem sé yfir hverju hann býr," sagði Ráða. „Það má nærri geta, annar eins mannþekkjari og þú ert," sagði Simmi. „En það er bara það, að Páll verður aldrei annað en ágætis náungi." Þá kom Sæja fram úr húsinu með bók í hendi. „Ég ætlaði svo sem að Jesa þessa sögu í kvöld, en það hefur þá svo hátt yfir spilunum, að ég get ekki fylgzt með efninu," sagði hún. „Þú hefðir átt að koma svolítið fyrr fram fyrir til þess að heyra það, sem Simmi var að segja mér," sagði Ráða. Simmi sletti í góm. „Þú getur nú kannski ekki þagað lengi yfir því, sem þú heyrir, skrafskjóðan þín," sagði hann. „Það er nú sjálfsagt eitthvað, sem Sæju er ekki ókunnugt um." „Hvað var það, sem þú varst að segja, Simmi minn, sem gerir Ráðu svona skrítna á svipinn. Þú ert þó ekki vanur að tala margt," sagði Sæja. „Ég var bara að segja henni, hvaða fólk væri flutt að Grænumýri. En ég býst við að þú vitir það," svaraði Simmi hæglátlega. Sæja roðnaði. „Ég heyrði Þorkel vera að segja það frammi í búrinu áðan. Er það virkilega satt?," sagði hún. „Ég sá þau, þegar þau komu með skipinu. Mér var sagt að það væru foreldrarnir hans Svein- bjarnar, sem þér hefur verið eignaður að ein- hverju leyti," sagði Simmi. „Ég verð að komast út að Svelgsá fljótlega," sagði Sæja. „Þetta hefur Páli þótt betra en fara eftir því, sem ég vildi. Reyndar var það pabbi, sem eyðilagði það allt saman. En Pál þarf ég að skamma duglega fyrir þessa frammistöðu," sagði Sæja með nokkurri þykkju. „Hann ætti víst heldur skilið að fá ykkar, heldur en hitt. fyrir að láta karlgarminn ekki vera einan í kofunum og umhirðulausan. Ég skal fylgja þér yfir hvenær sem þú vilt. En næsta ár verð ég líklega búandi á Grænumýri," Sagði Simmi og bylti sér á hliðina til að fara að sofa. 46. Næsta dag heimtaði Sæja að Simmi fylgdi sér yfir ána. Hann sagðist ekki vita, hvort það væri kominn það traustur ís á hana ennþá, að hann væri fær. Hún hermdi þá upp á hann tilboðið, sem hann hafði gert henni kvöldið áður. Hann rausaði eitthvað um bölvaðan þráann í henni. Hún yrði þó líklega að bíða, meðan hann gæfi morgun- gjöfina. Það yrði þá að hafa það. Hún gekk um gólf með vettlinga á höndum. „Hvað er um að vera fyrir þér?" spurði faðir hennar. „Ég ætla út að Svelgsá að lesa, yfir Páli þakkir mínar fyrir að vera búinn að fylla bæinn á Grænumýri af fólki, sem á þar ekki að vera," sagði hún. „Já, hvað finnst þér? Hann er svo sem ekki að ráðgast við þig um það. Bara tekur til sinna ráða, pilturinn," sagði faðir hennar stúrinn. „Hann skal líka fá að heyra það," sagði hún. Þá birtist Simmi í dyrunum. Ingunn frænka tók á móti henni á hlaðinu á Svelgsá. „Mér finnst nokkuð langt síðan þú hefur kom- ið, Sæja mín. Hefurðu ekki verið vel frísk?" sagði Ingunn. „Jú, ég hef verið vel frísk, en það hefur dreg- izt svona dag frá degi að heimsækja ykkur. Áin hefur verið hálf keipótt undanfarið, alltaf á ó- traustum ís. Svo sagði Simmi í gær, að loksins væri ísinn orðinn það traustur, að hann væri fær hestum. Hann hefð víst getað sagt það fyrri," sagði Sæja. Svo kom Jónanna fram í bæjardyrnar, þegar hún heyrði hver komin var, og svo fylgdust þær allar að inn í baðstofuna. Þar sat Bergljót gamla með prjóana sína. Hún tísti ánægjulega, þegar hún sá hver gesturinn var. Hún talaði um, að sér fyndist Sæja sín ekki vel glaðleg á svipinn og spurði, hvort hún væri lasin. „Ég hef verið stálhraust, en það er nú heldur dauflegt heimilisfólkið á Bakka eins og þið vafa- laust þekkð. En mikið er hún Fríða litla orðin stór og falleg. Aldrei gæti ég látið hana líta svona vel út," masaði Sæja. „Hvað er nú að heyra til þín. Þú ert líklega ekki ólíklegri en aðrar mæður til þess að ala upp börn," sagði Bergljót gamla. „Reyndar var móður þinni akaílega lítið gefið um að hugsa um ykkur fyrstu árin. Það var móðir hennar, sem gerði það." „Þá sæki ég það náttúrlega til hennar. Mér finnst ég tæplega geta tekið á nýfæddum krökk- um," sagði Sæja. „Er það nú konuefni," sagði Ingunn. „Það lítur út fyrir að það hafi verið skipt ójafnt á milli ykkar systranna. Jónanna á ekki bágt með að snerta á þeim." „Hún er nú líka búin að læra það," sagði Sæja. „En hvar eru karlmennirnir? Erindið var nú að jagast við Pál." „Langaði þig meira til þess en að sjá barnið þiít?" spurði Ingunn dálítið stuttlega. „En hvar heldurðu að karlmennirnir í sveitnni séu á þess- um tíma dags nema við að hirða skepnurnar. Voru þeir búnir við gegningarnar á Bakka?" „Nei, það voru þeir ekki. Simmi flýtti sér að gefa morgungjöfina áður en hann fór til að fylgja mér yfir ána," sagði Sæja. „Þú ert orðin eitthvað svo utangátta, Sæja mín, að ég þekki þig varla fyrir sömu manneskju," sagði Bergljót. „Hvað hefurðu verið að gera, sem gerir þig svona æsta, góða mín?" bætti gamla konan við. „Ég var nú bara að spinna. Það eru öll mín vinnubrögð," svaraði Sæja. „Það er nú verk, sem róar skapsmunina, en æsir þá ekki," sagði gamla konan. „Mér sýnist þú yngjast alltaf í hvert sinn, sem ég sé þig. Og svo ert þú farin að prjóna alveg eins og meðan þú varst fullfrísk heima á Bakka," sagði Sæja. „Ég er líka alltaf að styrkjast í hendinni. Nú er ég að prjóna á fæturna á honum Júlla mínum á Grænumýri. Hartn er ráðsmaðurinn minn eða að minnsta kosti fjármaður. Það má ekki minna vera en hugsa um að hann hafi góð plögg á hend- ur og fætur. Það er nú búið að sjá um, að hann hafi nóg að borða. Auðvitað er hann mjólkurlaus ennþá. En það lagast bráðlega. Ég fylgist með búskapnum hjá honum. Það er líka það eina, sem ég get gert," sagði gamla konan. Sæja jankaði bara og beið þess með óþreyju að Páll kæmi inn, svo að hún gæti jagast við hann. Það leið heldur ekki langur tími, þangað til Níels kom inn og hún heyrði til Páls frammi í bæjargöngunum. Þá rauk hún á dyr og fram í göngin. Þar sat Páll á kassa og var að kveikja í pípunni sinni. „Sæl vertu, Sæja mín. Þú ert að prísa góða veðrið og gangfærið. Það er orðið þó nokkuð langt þú hefur látið sjá þig hérna," sagði hann. „Já, það hefur nú mest hindrað mig hvað áin hefur verið óþjál. Alltaf þessi bloti, svo að hana hefur ekki getað lagt almennilega," sagði hún. Hann stóð upp og labbaði í hægðum sínum inn í búrið. Hún fylgdist með honum. Hann sett- ist á stoppaðan bekk við borðið og bauð henni sæti. Hún hefði helzt kosið að sitja við hlið hans, en henni var eitthvað svo gramt í geði, að hún seítist sem lengst frá honum. Hún var allt í einu búin að gleyma mest öllum ásökununum, sem faðir hennar hafði verið búin að ráðleggja henni að demba yfir hann. Það var þá hann, sem byrjaði samtalið. „Er ekki heilsan að lagast?" spurði hann. „Jú, það má víst heita svo. Ég er farin að sofa inni fyrir löngu og líður vel," sagði hún. „Það er ágætt," sagði hann. Þá kom Jónanna fram og setti bollapör á borð- ið. Kaffikannan stóð á eldavélinni. „Þú færð þér kaffi með Páli, Sæja mín. Hann fær sér alltaf sopa, þegar hann kemur heim úr húsunum," sagði Jónanna og hellti í bollana. „Eruð þið farin að búa sér?" spurði Sæja. „Já, svona að miklu leyti," sagði Jónanna. Svo fór hún fram fyrir aftur. Þá hugsaði Sæja með sér, að nú yrði hún að fara að tala, meðan þau væru ein. „Ég heyri sagt að þú sért búinn að fá búanda á Grænumýrina?" sagði hún. „Já, það er komið fólk þangað, en það er ekki ábúendur, heldur húsmennskufólk. Það kann ú- gætlega við sig," sagði hann sýnilega áhugalaust.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.