Dagur - 27.04.1984, Blaðsíða 6

Dagur - 27.04.1984, Blaðsíða 6
27. apríl 1984 - DAGUR — 7 t i i' „ÞÁ VARÐ ÉG RÍKUR(( -Theodór Júlíusson, söngvari, bakari, leikari, leikstjóri og sjómaður með meiru í helgarviðtali Myndir og texti: GS Sœlasta stundin Ég byrjaði að leika með skólahljóm- sveit þegar ég var 13 ára gamall og sá hljómsveitarferill stóð í ein 4-5 ár. Fyrst lék ég á trommur, en þótti víst ekki sérlega góður á því sviði. Þess vegna var annar fenginn til að lemja húðirnar, en ég var skikkaður í sönginn. Við spiluðum á skóladans- leikjum til að byrja með, en ekki vor- um við allir búnir að ná tilsettum aldri þegar hljómsveitin var farin að leika á almennum dansleikjum. Petta var á Bítlaárunum margfrægu og ég hellti mér út í þetta; fílaði það í botn eins og sagt er. Og þessi ár voru stórkostleg, en námið sat oft á hakanum vegna hljóm- sveitarinnar. Þegar hljómsveitarmeðlimirnir höfðu allir náð 16 ára aldri helltum við okkur út í sveitaballabransann. Við lék- um í félagsheimilum víðs vegar á Norðurlandi, en að líkindum oftast á Ketilási og þar var oft dúndrandi stuð. Það vildi líka hitna heldur betur í kol- unum, því það voru aðallega Ólafsfirð- ingar og Siglfirðingar sem sóttu staðinn og það virtist ekki þurfa mikið til að þessum fylkingum slægi saman. Eitt sinn ætluðum við að halda ball á Ketilási, en þá var hljómsveit frá Ólafs- firði búin að festa húsið. Við hugsuðum okkar ráð og mundum þá allt í einu eft- ir litlu húsi í Ólafsfirði innanverðum, sem hét og heitir sjálfsagt enn Hringver. Við hringdum í ráðamann hússins og hann var yfir sig hrifinn ai hugmyndinni, enda höfðu ekki verið haldnir dansleikir í húsinu í ein 20 ár. Þarna varð hörkustuð; við seldum yfir 200 miða, og það var dansað inni og allt umhverfis húsið, því gólfrými var lítið. Að vísu var hver einasta rúða í húsinu mölbrotin. En húsráðandanum þótti það nú ekki tiltökumá! því hann var al- sæll með stemmninguna og vildi endi- lega fá okkur aftur! Það varð ekki úr, en ljúft þótti okkur að frétta af tómu húsi á Ketilási þetta kvöld. Toppurinn á ferli þessarar hljóm- sveitar, sem hét „Stormar“, var ferð suður á land. Sælasta stundin var að komast á sviðið í Glaumbæ. Það þótti toppurinn þá. En hljómsveitarbransinn var ekki arðsamur. Við lögðum metnað okkar í að eiga góð tæki og í það fóru allir okkar peningar og gott betur. Það kom sér því vel fyrir mig að komast í bakaranám hjá Steindóri Hannessyni, yfirbakara hjá Kaupfélagi Siglfirðinga. Hann útskrifaði mig sem bakarasvein vorið 1969 og sama árið kvæntist ég Guðrúnu Stefánsdóttur. Hún er einnig Siglfirðingur og við vorum ung þegar samband okkar hófst og það samband höldum við enn.“ Með straubretti frá Ítalíu - Gerðir þú þá ekkert annað með tím- ann en kyrja bítlalög og baka brauð? „Jú, blessaður vertu, enda þótti ég fyrirferðarmikill á mínum uppvaxtarár- um og mikið villidýr. Þar að auki átti ég til að gera samborgurum mínum lífið leitt með ótrúlegustu prakkarastrikum, en ég held að það fari best á því að þau falli í gleymsku. Ég var líka áhuga- samur um knattspyrnu, var í fyrsta 6. flokknum sem Knattspyrnufélag Siglu- fjarðar setti á fót. Ég man eftir frægð- arferð sem við fórum til Akureyrar til að leika við jafnaldra okkar í KA. Við spiluðum tvo leiki og unnum þá báða með tveimur mörkum gegn engu. Knattspymuna lagði ég á hilluna þegar ég var 16 ára gamall, en þá hafði ég þó náð að vera einu sinni varamaður með meistaraflokki! Ég má heldur ekki gleyma karla- kórnum Vísi, en til liðs við hann gekk ég 16 ára gamall. Ég lifði það með kórnum, að Gerhard Smith reif hann upp og gerði að einum vinsælasta karla- kór landsins. Við fórum vítt og breitt um landið og alls staðar sungum við fyrir fullu húsi, fylltum meira að segja Austurbæjarbíó í þrígang. Toppurinn var Frakklandsferð, til Cannes þar sem við vorum heiðraðir fyrir best seldu plötuna á íslandi það árið. Margir Sigl- firðingar fóru þar í sína fyrstu og jafn- vel síðustu utanlandsferð. Og við fór- um víðar en til Frakklands, því við heimsóttum einnig Mónakó og Ítalíu. Þar komumst við á markað og það var alveg ótrúlegt hvað mínir menn létu sig hafa að kaupa. Einn lét sig meira að segja hafa það að kaupa straubretti, sem hann síðan þvældist með til Frakk- lands og þaðan heim. En þó það þreytti mig stundum unglinginn, að starfa með ráðsettum mönnum í karlakór, þá sá ég ekki eftir þeim tíma þegar upp var staðið. Þarna var ekkert kynslóðabil þó elstu félagarnir væru komnir um sjötugt, og þetta var þroskandi fyrir mig.“ Snemma beygist krókurinn - En Theodór, hvenær heltók Ieik- bakterían þig? „Ætli þessi baktería hafi ekki alltáf lifað með mér, þó hún næði ekki yfir- höndinni á meðan mótstöðuaflið var sterkt. Pabbi var á kafi í leiklistinni, lék mikið á Siglufirði, í Ólafsfirði, já og í tvígang komst hann á fjalirnar hjá Leikfélagi Akureyrar í Samkomuhús- inu. í fyrra skiptið tók hann þátt í gam- anleik sem hét „Skóli fyrir skattgreið- endur“, en seinna lék hann Bör Börs- son í samnefndu leikriti. Ég fékk að þvælast með honum á æfingar pattinn og í barnaskóla tók ég fyrst þátt í leik- sýningum og síðar þegar ég var í gagn- fræðaskóla. En leikfélagið á Siglufirði lognaðist út af um leið og síldin hvarf. Að vísu var gerð tilraun til að endur- vekja það þegar ég var 17 ára gamall og Bjarni Steingrímsson var fenginn til að leikstýra. Hann var í tvær vikur á Siglu- firði, en gafst þá upp og fór, því honum tókst ekki að manna leikritið." - Giftur bakari, kominn undir tvítugt, hvað gerðist næst? „Við ákváðum að skella okkur til Noregs. Það þótti nú ekki sérlega gáfu- legt, en við vorum ákveðin, og nokk- urra mánaða gömul dóttir okkar var ekki til að hefta förina. Þar vorum við hálft annað ár og það var hreint óskap- lega skemmtilegur tími. Ég vann í „konditori" til að afla mér aukinnar þekkingar í bakaralistinni. Við höfðum nóg að bíta og brenna og ef við vorum ekki búin með vikukaupið mitt daginn fyrir útborgunardag fór kvöldið í að borða á góðum veitingastað eða rabb yfir könnu af öli. Þetta var dásamlega afslappaður tími, ólíkur stressinu hérna heima. En heimþráin gerði vart við sig eftir 18 mánuði, ef til vill vegna þess að þá leið að jólum í annað sinn fjarri ætt- ingjum og vinum. Við drifum okkur þá heim aftur og til Siglufjarðar, en ég held að heimþráin hafi verið búin eftir að við vorum búin að labba einn hring umhverfis mömmu. Enda var ekki að miklu að hverfa á Siglufirði árið 1971, ekkert nema eymd og volæði og enga atvinnu að fá fyrir bakara. Ég auglýsti þá í Mogganum og fékk ein 15 atvinnu- tilboð. Eg var allt að því búinn að ráða mig í Glæsibæ í Reykjavík, en féllst á að skreppa til ísafjarðar og líta á að- stæður í gamla bakaríinu þar. Það er ekki að orðlengja það, að Ruth Tryggvason, sem þá var orðin ekkja og rak bakaríið, heillaði mig upp úr skónum og ég skrifaði undir samning um að veita bakaríinu forstöðu. Ég hringdi því í Guðrúnu mína til Siglu- fjarðar og bað hana að pakka og taka næsta skip til ísafjarðar." Fjörmikil leiklist á ísafirði - Á ísafirði hellir þú þér út í leiklist- ina? „Já, ég var ekki búinn að vera marga daga á lsafirði þegar ég var beðinn að koma á æfingu hjá Litla-leikklúbbnum með það fyrir augum að taka að mér hlutverk. Ég var til með að koma og kynna mér málið, en ekki leist mér á blikuna þegar í ljós kom, að ég átti að taka að mér aðalhlutverkið í Ærsla- draugnum. En það varð samt úr og eft- ir það varð ekki til baka snúið. Ég hellti mér út í leiklistina og þá var fjörmikil starfsemi hjá Litla-leikklúbbnum og svo er enn. Ef ég man rétt komst klúbburinn upp í að setja upp fimm verk á leikári, sem mun vera einsdæmi hjá áhugamannafélagi. Á þessum árum var mikið að brjótast í mér, að fara í leiklistarskólann Sál í Reykjavík og Guðrún hvatti mig eindregið til þess. En ég hafði ekki kjark í mér til þess að fara út í nám og safna skuldum. Ég ákvað því að halda mig við áhuga- mennskuna og sætti mig fullkomlega við það. Við bjuggum á ísafirði í tvö ár, en þá bauðst mér að taka á leigu bakaríið á Siglufirði. Þá var kaupfélagið þar far- ið á hausinn og SÍS hafði eignast brauð- gerðina. Hana gat ég fengið leigða fyrir smápeninga og ég stóðst ekki boðið. Og reksturinn gekk vel í bakaríinu, enda samkeppnin engin. Þá eignuð- umst við peninga hjónin, aldrei þessu vant, og svei mér þá ef ég fékk ekki aðeins að kynnast því hvemig það er að vera ríkur.“ - Én af hverju hætti þú þá að vera „ríkur“? „Já, það er von þú spyrjir, en satt best að segja held ég að það eigi ekki við mig að vera ríkur. Það var ekkert leikfélag starfandi á Siglufirði þegar ég kom þangað, en stuttu eftir heimkom- una hóaði ég saman fólki og við stofn- uðum leikfélag. Fyrsta sýningin var Deleríum bubonis, sem Hörður Torfa- son leikstýrði, og síðar setti ég upp „Ertu nú ánægð kerling“. Ég var sem sé komin á kaf í félagsmálin, og það var ekki nóg með að ég væri formaður leik- félagsins; ég tók einnig að mér for- mennsku Knattspymufélags Siglufjarð- ar. Endirinn varð sá, að ég tók að mér starf æskulýðs- og íþróttafulltrúa hjá Siglufjarðarkaupstað og gaf bakaríið upp á bátinn, enda var það orðið gam- alt og úrelt og SÍS vildi ekki endurnýja. í þessu statfí var ég í tvö ár, en þá komst ég að raun um að bæjarstarfs- menn hafa ekki efni á að sjá fyrir fjöl- skyldu. Þess vegna fór ég að hugsa mér til hreyfings og þegar mér bauðst að gerast meðeigandi í brauðgerð á Dal- vík sló ég til. Og þar fór á sömu leið, ég var kominn á fulla ferð með Leikfélagi Dalvíkur áður en ég vissi af. En ég kunni aldrei við mig á Dalvík. Þar er ekki sami bæjarbragurinn og á ísafirði og Siglufirði, ef til vill vegna nálægðar- innar við Akureyri. Ég fann aldrei að Dalvík væri sjálfstæður kaupstaður, hann vantaði allan karakter til þess. Þar að auki em Dalvíkingar margir hverjir svolítið íhaldssamir og við féll- um ekki inn í þetta samfélag. Þrátt fyrir það eignuðumst við marga góða vini á Dalvík. En starfið með Leikfélagi Dal- víkur kom mér í kynni við leikara hjá Leikfélagi Akureyrar. Það leiddi síðan til þess að ég var fastráðinn leikari hjá félaginu haustið 1978 eftir mikið um- brotatímabil hjá félaginu. Þar með var ég kominn til Akureyrar og hér er ég enn. Settum markið hátt - Hvemig stendur Leikfélag Akureyr- ar í dag? „Það stendur vel í lok þessa leikárs, eftir að hafa lent á botninum í lok leikársins á undan. Þá fengu flestar sýningar okkar lélega aðsókn og í lokin fengum við kjaftshögg, þegar Spékopp- ar kolféllu. Þeir vom okkar lélegasta uppákoma fyrr og síðar. Sem betur fer fengum við aukafjárveitingu, því ann- ars hefði ekki verið annað til ráða en segja upp öllu starfsfólki. Þá voru góð ráð dýr. Útslagið var að spila djarft, velja umfangsmikil verkefni sem ætla mætti að féllu fólki í geð. Þetta tókst og ef til vill hefðum við átt að reyna þetta löngu fyrr. Það var alltaf verið að spyrja okkur; af hverju sýnið þið ekki söngleik. Það varð fátt um svör og ekk- ert gert. Slfkt má ekki koma fyrir aftur. Leikhús er fyrir fólkið og það verður að hlusta á raddir þess. Annars fer illa. Það dugir ekki að segja eingöngu á svið verk sem leikararnir hafa gaman af, enda lítið gaman að leika slík verk til lengdar ef enginn kemur til að sjá leik- inn. Leikfélag Akureyrar hefur fyrir löngu sannað tilverurétt sinn sem at- vinnuleikhús, því hér hafa verið settar upp margar mjög góðar sýningar á undanförnum árum, þó aðsókn hafi verið misjöfn. En með þessum góða ár- angri á þessu leikári held ég að okkur hafi tekist að breyta viðhorfum fólks til þess sem við erum að gera. Það er líka ánægjulegt að finna að okkar starfsemi dregur fólk til bæjarins og lyftir þar með undir atvinnustarfsemi í bænum.“ - My Fair Lady er lykillinn að þess- ari velgengni, ekki satt? „Jú, það má segja það. Ég held að Sunna Borg hafi upphaflega átt hug- myndina að þessari sýningu í leikhús- ráði. Mér leist ekkert á hugmyndina til að byrja með, ég skal viðurkenna það, en talsmenn hennar höfðu slíkan sann- færingarkraft, að ég hreifst með. Og allir vita hvernig til tókst.“ Annar söngleikur - Nú hafið þið ákveðið að setja upp annan söngleik á næsta leikári. Um hvað fjallar hann? „Hann fjallar um lífshlaup söngkon- unnar Edith Piaff, sem allir miðaldra menn ættu að muna og margir þeir yngri hafa heillast af söng hennar af hljómplötum. Þetta er afskaplega sjarmerandi saga, bæði skemmtileg og sorgleg í senn. Leikurinn byrjar þar sem Edith er á götunni og hefur í sig og á með því að selja blíðu sína eða syngja. Á endanum kynnist hún klúbb- eiganda nokkrum, sem fær hana í prufusöng. Þar með er frægðarferill hennar hafinn. Tónlistin í leiknum er yndisleg og það koma fleiri söngkonur fram en Edith Piaff, því Marlene Dietrich lætur til sín heyra í leiknum.“ - Er þetta fjölmenn sýning? „Nei, hún er ekki eins fjölmenn og My Fair Lady, ætli við komumst ekki af með 12 leikara í hlutverkum og auk þeirra verður 8 manna hljómsveit, skipuð blásurum, píanóleikara, bassa- leikara og harmonikuleikara. Þessi leikgerð er bresk að uppruna og gekk m.a. í Osló í tvö ár. Þar sáu 200 þúsund manns sýninguna og loks var hún tekin upp fyrir norska sjónvarpið. Þá upp- töku sáum við og heilluðumst af.“ - Hver á að leika Edith Piaff? „Að líkindum Hanna María Karls- dóttir, sem er fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Við höfum legið yfir lista með nöfnum allra leikara af kvenkyninu og Hanna María reynd- ist álitlegust. Hún er mikill leikari og ágætur söngvari, auk þess sem hún kemur til með að líkjast Edith Piaff glettilega mikið á sviðinu. Það er ekki búið að ráða í önnur hlutverk, en við verðum ekki í vandræðum með það, við eigum meira að segja Marlene Dietrich á Akureyri, en ég get ekki sagt þér hver það er.“ - Þið hafið verið gagnrýnd fyrir að leita „suður“ eftir leikurum, í stað þess að leita áhugamanna meðal heima- manna. Hvers vegna er oftast horft suður? „Við sem hér vinnum erum í Félagi íslenskra leikara og samkvæmt samn- ingi þess og Leikfélags Akureyrar er leikhúsið skuldbundið til að nota full- gilda félaga í FÍL í 4 hlutverk af hverj- um 6. Og það er stefna okkar að fara eftir þessu, því við rekurn atvinnu- leikhús og viljum setja upp góðar sýn- ingar. Það teljum við okkur tryggja best með atvinnumönnum í listinni. Þar að auki eigum við ekki svo marga sviðsvana áhugaleikara nema þá af eldri kynslóðinni og þeir hafa tekið misjafnlega undir þegar til þeirra er leitað.“ Gott samstarf við áhugafélögin - En er ástæðan fyrir því að við eigum svo fáa sviðsvana áhugaleikara ekki einmitt sú, að áhugafólk fær fá tækifæri til að reyna sig? „Jú, vissulega, en úr því verður ekki bætt nema til komi áhugamannafélag í bænum. Að mörgu leyti væri slíkt félag æskilegt, en vegna húsnæðisskorts er slíkt ekki mögulegt eins og er. Hins vegar eru áhugamannafélög í sveitun- um umhverfis Akureyri, sem við höfum átt mjög gott samstarf við og frá þeim höfum við fengið leikara." - Þið viljið ekki taka lærlinga? „Það er ekki svo auðvelt vegna þeirra samninga sem ég sagði þér frá áðan. Og nú er kominn sá tími, að það verður enginn félagsmaður í FÍL nema hafa gengið í leiklistarskóla. Það eina sem við getum því gert er að vekja áhuga hjá ungu fólki til að gera slíkt.“ - Þó flestir hafi lofað Ladyina og Kardemommubæinn hefur það verið gagnrýnt, að meiri áhersla hafi verið lögð á leik en söng. Er það réttmæt gagnrýni? „Já, að einhverju leyti á hún rétt á sér, því að í umræddum verkum er í mörgum tilfellum um margslungin leik- verk að ræða, sem verða ekki leyst ein- göngu með góðum söng. Þess vegna var lögð áhersla á leikinn, en við val í hlutverkin höfðum við samt vissu fyrir því að viðkomandi leikari gat sungið þokkalega. En þetta er fyrst og fremst spurning um þjálfun og söngþjálfun hefur algjörlega verið vanrækt hjá okkur, því miður. Á þessu þarf að ráða bót.“ - Nú komu fram mörg ný andlit í „Ladyinni“ í stadistahlutverkum. Nýt- ist þeirra reynsla? „Já, það vona ég, því með sýning- unni komst á gott samstarf við Tónlist- arskólann, dansflokk Alice og Passíu- kórinn. Vonandi verður þarna fram- hald á, t.d. hefur komið til tals að stofna leikhúskór, sem æfði reglulega og héldi síðan söngskemmtun að vori með lögum úr vinsælum söngleikjum, auk þess að taka þátt í sýningum félags- ins. Ég held að félagið sé á réttri leið í þessum efnum og vona að okkur takist að halda stefnunni.“ - Að lokum Theodór, hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu? „Ég ætla að byrja á því að fara á leiklistarnámskeið í Osló og síðan hef ég hug á að kynna mér Ieiklistarlíf í Noregi og Danmörku. Síðan verður af- slöppun, nema hvað ég vonast til að komast einn til tvo túra með góðum togara eins og undanfarin sumur,“ sagði Theodór Júlíusson. - GS. 6 - DAGUR - 27. apríl 1984 „Ætli það séu nokkrar ýkjur, að okkar My Fair Lady hafi slegið heims- met í aðsókn, að sjálf- sögðu ef miðað er við fólksfjölda. Það komu nærri 13 þúsund manns til að sjá leikinn, sem samsvarar því að nær hvert mannsbarn á Ak- ureyri hafi komið í leikhúsið. Geri aðrir betur og að sjálfsögðu er ég mjög ánægður með þessa velgengni í vetur, ekki síst vegna þess að ég held að leikhúsið okkar hafi unnið sér stærri sess í hugum bæjarbúa, já og raunar hjá landsmönnum almennt. “ Það er Theodór Júlíusson sem hefur orðið í helgarviðtali við Dag. Hann er leikari og leikstjóri með meiru og ný- lega var hann kosinn formaður Leikfé- lags Akureyrar. Samkvæmt góðum og sígildum sið var hann fyrst spurður um uppruna og æskuár. Náði í skottið á síldarstúlkunum „Ég er fæddur og uppalinn á þeim margfræga stað, Siglufirði, sonur Júl- íusar Júlíussonar og Svövu Baldvins- dóttur. Síldarævintýrið stóð enn þegar ég var að alast upp, en það var hafinn síðasti þáttur. Ég var ekki hár í loftinu þegar ég byrjaði að þvælast með mömmu í síldarsöltun, en hún saltaði hjá Hrímni. Ég reyndi að hjálpa henni eins og ég gat og þegar ég var níu ára gamall var eftir því tekið. Þar með var ég ráðinn til að útdeila hringjum, gefa merki og til annarra snúninga. Þá þótt- ist ég nú maður með mönnum. Þarna var ég í tvö sumur, en þegar ég var ellefu ára réði ég mig til síldarverksmiðj- unnar „Rauðku". Þar var ég settur í að stjórna inntakinu, en það þótti eitt ómerkilegasta starfið hjá verksmiðj- unni og fólst ekki í öðru en stjórna ein- um rofa. En við þennan rofa stóð ég samt í heilt sumar og átti að sinna sama embættinu næsta sumar á eftir. En þá vildi mér það til láns, að ég var settur í að skipa út mjöli. Það þótti mér mikill heiður og ég gekk nærri að mér dauð- um til að vinna mig í álit hjá verkstjór- anum. En það tókst og ég var fastráð- inn í mjölhúsið þau sumur sem ég átti eftir að starfa í „Rauðku". Þar var oft rólegt, því það var liðið að lokum síld- arævintýrisins á Siglufirði. En síldarævintýrið var þó ekki alveg búið og síldarrómantíkin var ekki dauð, að minnsta kosti ekki í Hvann- eyrarskál. Þangað læddumst við gjarn- an strákamir á síðkvöldum og höfðum þá sjónauka með í farangrinum. Þar sáum við það sem 12 ára guttum er ekki ætlað að horfa á, en það gerði þetta ennþá meira spennandi. Það liðu held- ur ekki mörg ár þar til við fórum að gera hosur okkar grænar fyrir stelpun- um í síldarbröggunum. Þar var fjöl- skrúðugt mannlíf, en því miður hvarf síldin og síldarstúlkumar með.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.