Dagur - 28.08.1985, Blaðsíða 2

Dagur - 28.08.1985, Blaðsíða 2
2 - DAGUR - 28. ágúst 1985 Á að láta hermenn á Keflavíkurflug- velli og þeirra skyldulið kaupa ís- lenskt kjöt? Katrín Pálsdóttir: Auðvitað eiga þeir að kaupa íslenskt kjöt. Páll Hlöövesson: Að sjálfsögðu eiga þeir að gera það. Anna Freyja Eðvarösdóttir: Gin og klaufaveiki hafa ekki fundist í Bandaríkjunum en við vitum ekkert hvaðan kjöt- ið kemur sem þeir flytja hing- að og þess vegna á að banna þeim að flytja það inn. Elín Kjartansdóttir: Já, ef þeir vilja éta kjöt á ann- að borð. - Ragnheiður „Elísa Doiittle“ Steindórsdóttir í Viðtali Dags-ins Það var ekki fyrir alllöngu að hún var á allra vörum, ef segja má svo. - Allir töluðu um hana, allir þekktu hana þar sem hún gekk á götu, hvort sem það var á Akureyri eða Reykjavík. Margir sneru sér að henni og þökkuðu fyrir síðast, og vildu tala við hana um það sem þeir áttu sameig- inlegt með henni. Allir voru á sama máli um það, að hún hafi verið sú sem „átti kvöldið“ sem þau áttu saman í gamla leikhúsinu á Akureyri. Hún sem Elísa Dolittle á sviðinu, en hann sem leikhúsgestur úti í sal. En tíminn er fljótur að líða og sýningin um My Fair Lady er löngu liðin undir lok, þótt ekki sé hún liðin úr minnum allra sem hana sáu. En hvað hefur orðið um þessa lífsglöðu og fjörugu Elísu Dolittle? - Jú hún býr í Reykjavík með manni sínum Jóni Þórissyni leikmyndateiknara, og síminn þeirra er, - nei það er ekki rétt að gefa hann upp. Engu að síður veit undirritaður hvert númerið er og hringir. - Hvernig hefur „Elísa“ það í Reykjavík? „Hún hefur það virkilega gott og ekki hægt að segja annað en að hún blómstri. Hún er mjög al- þýðleg stúlka eins og flestir vita, og getur þar af leiðandi talað við hvern sem er. En því er ekki að leyna að hún saknar Akureyrar og ykkar þarna fyrir norðan, og það mikið.“ - Af hverju kemur hún þá ekki norður? „Það er eins og gengur, það hefur ekki unnist tími til þess. Það stóð til að reyna að komast stutta ferð í sumar, en einhvern veginn fór það svo að það reynd- ist ekki mögulegt." - Hefur söngfuglinn Elísa ver- ið eitthvað að syngja fyrir fólk þarna fyrir sunnan? „Það hefur verið tiltölulega lít- ið sem hún hefur gert af því. Að vísu brá hún sér í annað leikrit, því þeir áttu í einhverjum vand- ræðum í Þjóðleikhúsinu, það þurfti að hjálpa þeim lítillega í söngleiknum Gæjar og píur. En lítið annað hefur hún sungið nema þá heima hjá sér.“ - Syngur hún fyrir manninn sinn? „Hún gerir mjög lítið af slíku, því það er álitið að þá væri hann ekki lengur maðurinn hennar. Þess vegna er það helst fyrir sjálfa sig, og svo á baðherberg- inu. Nú er hún að fá sturtu þann- ig að hún getur sungið í sturtu, annars var það bara baðker.“ - Hefur hún hitt herra Higgins nýlega? „Það er mjög takmarkað sem við sjáumst. Hann virðist hafa öðrum hnöppum að hneppa. Þegar hann var búinn að gera það sem hægt var að gera úr Elísu, held ég að hann hafi farið að finna sér önnur álíka verkefni. Annars er hann veikur fyrir stúlkum sem þurfa á hjálp að halda. Og það er nóg af slíkum stelpum hér í Reykjavík, mun fleiri en á Akureyri. En hann lítur á þetta sem vinnu og er þar af leiðandi mjög háttvís gagnvart þessum stelpum. Svo er hjá hon- um ráðskona sem heitir Þórhild- ur og hefur góð tök á honum.“ - Hvaða verkefni eru fram- undan hjá Elísu í Reykjavík? „Það er á hreinu að Elísa fer ekki að vinna alveg í bráð, því hún hefur verkefni um þessar mundir sem ekki verður hlaupist frá.“ - Hvaða verkefni er svo bind- andi. Eða er það kannski leynd- armál? „Nei það er ekkert leyndar- mál, enda ekki möguleiki að leyna því lengur. Sannleikurinn er sá að hún ætlar að fara að fjölga mannkyninu í fyrsta skipti." - Má kalla það svo að það sé frumsýning fyrir hana? „Ég held að það sé óhætt því tilfinningin er svipuð. Það er sem sagt mikill spenningur, til- hlökkun og kvíði.“ - Hvenær rennur stóra stundin upp? „Það verður í kringum 20. Ragnheiður „Elísa Dolittle“ Steindórsdóttir. Mynd: KGA. september, svo þetta er að bresta á.“ - Er mikill undirbúningur vegna þessa? „Það er að sjálfsögðu undir- búningur, því ekki þýðir að láta sem ekkert sé. En aðalmálið hjá Elísu núna er að hún er að taka íbúðina sína í gegn, eins og það er kallað, svo það er allt á öðrum endanum. En það verður von- andi búið fyrir þennan tíma.“ - Það hefur heyrst norður yfir heiðar að verðandi afi barnsins, Steindór „Dolittle“ Hjörleifsson sé í svo mikilli sæluvímu, að hann gangi þvert yfir Tjörnina í Reykjavík af eintómri ánægju og tilhlökkun. Er það satt? Nú hlær Ragnheiður „Elísa“ Steindórsdóttir. - „Ég held að þetta sé mjög nálægt því sem satt er. Hann er orðinn mjög fram- settur eins og málin standa í dag. Annars er beðið eftir stóru stund- inni með mikilli eftirvæntingu, svo ég veit ekki hvernig væntan- legt barn á að standa undir öllu því sem vænst er af því.“ - Hefur Elísa gert ráðstafanir í þá áttina að koma aftur norður yfir heiðar og leika fyrir Norð- lendinga? „Það gæti vel verið, ef eitthvað skemmtilegt stendur til. Þá er ég viss um að hún tekur vel í slíkt. Það sakar aldrei að tala við hana.“ - Þýðir þetta svar að Elísu langi að koma aftur? „Já, það er alveg á hreinu, því hún hafði það svo gott þarna fyrir norðan. Eins og hún sagði áðan þá saknar hún bæði staðarins og fólksins, sem tók alveg sérstak- lega vel á móti henni. Og það er mjög gaman fyrir hana að finna það jafnvel enn í dag hvað fólk man vel eftir henni og því sem hún gerði. Fólk talar um að það verði að koma því að, hversu ánægjulega ferð það átti til Akur- eyrar að sjá Elísu og Co. Og þá er það ekki bara sýningin, heldur ferðin öll. Það virðist hafa fengið svo mikið út úr þessari helgarferð sinni til Akureyrar. Það væri von- andi að hægt væri að halda þessu áfram, svo fólk sjái hversu gott leikhús er starfrækt á Akureyri.“ - Þú telur þá að Elísa sé ekki gleymd þó hún sé flutt í annan landshluta? „Alls ekki, fólk virðist muna vel eftir henni þrátt fyrir það, og ég held að hún eigi eftir að lifa lengi meðal fólksins, þótt hún sé ekki mikið á ferli.“ - Lifir hún lengi með Ragn- heiði Steindórsdóttur? „Ég býst við að hún lifi enda- laust með mér.“ - Takk fyrir spjallið Heiða, og gangi þér allt í haginn, og þó sér- staklega í kringum 20. septem- ber. „Takk fyrir það, og ég bið að heilsa norður." - gej „Stappa“ í Sjallanum Mikið hlýtur að hafa verið skemmtilegt í gær - sagði maður- inn ég man ekki neitt. - Þá er spurningin var maðurinn í Sjall- anum eða ekki. Það má segja að það sé í algjörri örvæntingu sem ég sest niður og hripa þetta á blað, því ég er með pennalötustu mönnum norðan Alpafjalla. En ástæðan er Sjallaferð sem ég fór með fleira fólki, þar á meðal útlendingum. Það er ekki þar með sagt að þeir eigi skilið eitthvað betra en við sem búum þetta land. Ferðin varð okkur öllum mjög eftirminnileg, eða kannski ætti hún að vera gleymd strax á næsta degi, það er líklega réttast þannig. En það sem Sjallinn býður fólki upp á er vítavert. í fyrsta lagi er biðröð utan við húsið. Það er kannski það sem enginn ræður við. í öðru lagi er slíkur fjöldi af fólki inni í húsinu að fólki liggur við yfirliði. Er mögulegt að það sé heimilt að hleypa inn í húsið öllum þeim fjölda gesta sem þar er um helgar? Það þarf að sjálfsögðu að fá borð til að sitja við. Fólk er látið væflast um, á milli hæða, milli sala. Það er vægt til orða tekið að segja að fólk sé misjafnlega á sig komið á þessum ferðalögum sín- um um húsið. Það er hellandi úr glösum sínum yfir annað fólk vegna þrengsla sem skapast ein- faldlega vegna alls þess fjölda sem selt er inn í húsið. Fólk er látið óáreitt þrátt fyrir að það sé ósjálfbjarga vegna drykkju. Slíkt fólk á ekki heima innan um aðra gesti. Svo er atriði sem vakti at- hygli okkar, en það var á þá leið að rétt eftir að við vorum búin að biðja þjón um borð sem við sáum að var autt, og þjónninn sagði að öll borð væru upptekin, kom einn af svokölluðum heldri mönnum bæjarins gekk rakleiðis að borð- inu og settist þar með fylgdarlið sitt. Okkur var sagt síðar að þessi maður ætti hlut í húsinu. Þetta er það helsta sem mér datt í hug er ég rifjaði upp þessa slæmu ferð mína í annars ágætt veitingahús, sem Sjallinn getur verið. Eitt í lokin: Góðir forráða- menn Sjallans, burt með ósnyrti- legt fólk úr húsinu. Sjallinn getur verið, og á að vera snyrtilegur skemmtistaður, þar sem fólk get- ur skemmt sér án þess að vera troðandi á næsta manni, og skvettandi yfir hann úr glasi sínu. Einn sem vill Sjallanum vel.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.