Dagur - 07.10.1986, Blaðsíða 2

Dagur - 07.10.1986, Blaðsíða 2
2 - DAGUR - 7. október 1986 ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI SlMI: 24222 ÁSKRIFT KR. 480 Á MÁNUÐI LAUSASÖLUVERÐ 50 KR. RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR: HERMANN SVEINBJÖRNSSON FRÉTTASTJÓRI: GYLFI KRISTJÁNSSON RITSTJÓRNARFULLTRÚI: BRAGI V. BERGMANN BLAÐAMENN: ÁSLAUG MAGNÚSDÓTTIR, EGILL BRAGASON, EGGERT TRYGGVASON, GESTUR E. JÓNASSON, GESTUR KRISTINSSON (Blönduósi vs. 95-4070 hs. 95-4368), HELGA JÓNA SVEINSDÓTTIR, INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR (Húsavík vs. 41585 hs. 41529), KRISTJÁN KRISTJÁNSSON, RÚNAR ÞÓR BJÖRNSSON, STEFÁN SÆMUNDSSON, ÞÓRHALLUR ÁSMUNDSSON (Sauöárkróki vs. 95-5960 hs. 95-5729) AUGLÝSINGASTJÓRI: FRlMANN FRÍMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: HAFDÍS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASÍMI 25165 FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT HF. rJeiðari Gífurleg landkynning Segja má að höfuðborgin sé á öðrum endan- um þessa dagana og ástæðan er að sjálf- sögðu fyrirhugaður fundur leiðtoga risaveld- anna, þeirra Reagans og Gorbatsjovs, um næstu helgi. Að sjálfsögðu vona menn að þessi fundur verði árangursríkur, enda ekki á hverjum degi sem þessir tveir valdamestu menn heimsins hittast. Það eitt að taka ákvörðun um að hittast er stórmál og þá ekki síður hvar fundir af þessu tagi eru haldnir. Reykjavík varð fyrir valinu að þessu sinni og það er rétt að segja hvern hlut eins og hann er: Þetta er stórkostlegt tækifæri fyrir þjóðina að kynna sig fyrir umheiminum. Vik- una sem framundan er verður ísland í sviðs- ljósinu, augu alls heimsins munu beinast að þessari eyju í norðurhöfum. Að sjálfsögðu er athyglin fyrst og fremst bundin við leiðtog- ana tvo og það sem hugsanlega gæti komið út úr viðræðum þeirra. Hins vegar er óhjá- kvæmilegt að annað fylgi með og reyndar hef- ur það þegar komið fram í erlendum fjölmiðl- um að landið, þjóðin og menning hennar eru þar til umfjöllunar. Aðilar í útflutningsiðnaði hafa þegar séð sér leik á borði og ákveðið hefur verið að efna til kynningar á útflutningsvörum okkar fyrir þann stóra hóp erlendra fréttamanna sem hér verður í tengslum við leiðtogafundinn. Þá gera menn sér miklar vonir um að þetta geti orðið til þess að auka mjög verulega áhuga erlendra ferðamanna á landinu. Ferðaþjón- usta er mjög vaxandi atvinnugrein hér á landi og vafalaust mætti hafa enn meiri tekjur af þjónustu við erlenda ferðamenn en nú er. Það er þó rétt að taka fram, að ekki er hættulaust með öllu að stefna til landsins gífurlegum fjölda ferðamanna yfir sumartímann. Mesti ávinningurinn af þessari miklu kynn- ingu á landinu erlendis gæti orðið sá, að ísland yrði þekkt og vinsælt ráðstefnuland. Það sem fyrst og fremst vantar hvað varðar komu erlendra ferðamanna til landsins er lenging á ferðamannatímabilinu. Stærstur straumur ferðamanna kemur á þremur til fjór- um mánuðum yfir hásumarið. Ef unnt væri að efla ferðaþjónustuna á öðrum tímum ársins, einkum yfir vetrartímann, þá væri ávinning- urinn af þessari miklu landkynningu, í tengsl- um við fund leiðtoga stórveldanna, mikill og góður. Á þetta þarf að leggja megináherslu. HS -viðtal dagsins. Einn besti staður á landinu Pétur Þorsteinsson skóiastjóri á Kópaskeri í viðtali dagsins: Blaðamaður Dags kom við í grunnskólanum á Kópaskeri fyrir nokkrum dögum, það var skömmu áður en kennsla átti að hefjast við skólann og starfsliðið var á fullu við að undirbúa komu barnanna, þvo og þrífa húsnæðið frá gólfi til lofts. Skólastjórinn, Pétur Þorsteinsson var á þönum en gaf sér þó tíma til að setjast niður í nokkrar mínútur. - Hvað eru margar bekkjar- deildir við skólann? „Það er forskóli og sex bekkir, í vetur mun 31 nemandi stunda nám við skólann en börnin fara héðan og í skólann í Lundi þegar þau byrja í sjöunda bekk. Við erum fimm sem kennum bókleg fög í vetur, að vísu er þar um hlutastörf að ræða að töluverðu leyti.“ - Var erfitt að fá kennara til starfa og eru þeir allir með rétt- indi? „Við erum öll réttindalaus, þetta er einn réttindalausasti skóli sem um getur, hins vegar er þetta allt saman fólk sem hefur töluvert mikla kennslureynslu og ég tel mig vera með mjög gott starfshð." - Skólinn er í nýlegu húsnæði, mjög sérstæðu að útliti, hvernig nýtist það ykkur? „Þetta verður fimmti veturinn sem við kennum í húsinu, það er 550 fm að stærð og það sem gerir það sérstakt er þríhyrningslögun- in. Hún veldur því að húsið nýtist geysilega vel, allt húsið nýtist en ekkert fer í ganga eða dauð rými. Hér eru þrjár almennar kennslu- stofur og auk þess salur sem við notum fyrir leikfimi, söng, mat- reiðslu, kaffisölu og annað sem rýmra húsnæði þarf til og síðan er smíða- og handavinnustofa. Vinnuaðstaðan er góð í húsinu. Hér vinna saman börn á ólíkum aldri og alls ekki er ætlast til að allir fari í gegn um allt það sama. Við teljum að það skipti meira máli að vinna vel og af áhuga heldur en að börnin þvælist nauð- ug viljug í gegnum allan pakk- ann. Hugtakið opinn skóli er í raun villandi því flestir skólar eru eitthvað að reyna að brjóta upp sitt skipulag og þá hlýtur skipu- lagið í hverjum skóla að ráðast af þeim aðstæðum sem þar eru og nánast af þeirri sérvisku sem er í þeim kennarahópi sem þar vinnur. í raun er ekki hægt að tala um þetta sem eitthvert ákveðið form eða fyrirkomulag, það er ákveðin hugmynd á bak við en síðan er útfærslan það ólík að tæpast er hægt að tala um þetta með einu yfirheiti. Síðan við fluttum í þetta hús höfum við verið að þreifa okkur áfram með þetta kennslufyrirkomulag og gert skipulagsbreytingar einu sinni til tvisvar á ári. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt starf, skemmtilegra er að brasa svolítið úti á hálum ís heldur en að hafa allt á þurru. Það er mikið auð- veldara að henda bekkjunum í kennarana og segja: „Þú sérð um 11 ára börnin og þú sérð um 10 ára börnin.“ En þessi aldurs- blöndun er mjög gefandi bæði fyrir krakkana og kennarana og kennararnir einangrast ekki hver í sínu skoti heldur verða þeir að vinna saman og kennslan verður miklu félagslegra verkefni heldur en að annars væri.“ - Starfar ekki tónlistarskóli samhliða grunnskólanum hérna? „Hann er ekki í beinum form- legum tengslum en hefur haft aðstöðu hér inni og við höfum haft mikið samstarf um stunda- skrárgerð og annað slíkt, svo ekkert stangaðist á, þetta er mjög góð samvinna.“ - Eru mörg börn í tónlistar- skólanum? „Það hefur verið mjög mikil aðsókn, mig minnir að um þrjá- tíu manns hafi sótt skólann. Við höfum verið að reyna að fá hing- að tónlistarmenn, bæði til að flytja tónlist af léttara taginu og klassíska tónlist. Tæpast er dæmi um að aðsókn fari niður fyrir þrjátíu manns og þegar flest var komu 160 manns á eina tónleika. Ég er viss um að þetta þætti gott í bæ þar sem væru fimm til tíu þúsund íbúar. Við getum reiknað með að fá þrjátíu til fimmtíu manns á hverja tónleika, eða um fjórða hvert mannsbarn á staðn- um og þetta er dæmi um ákveðið viðhorf til tilverunnar sem ég er mjög sáttur við.“ - Hvernig eru börnin á Kópa- skeri? „Börn á Kópaskeri eru framúr- skarandi sjálfstæð og dugleg, þau gera miklar kröfur en eru ákaf- lega virk og jákvæð. Til dæmis hafa þau haft mikinn aðgang að húsnæði skólans, við opnum hús- ið kl. 8 á morgnana og lokum því kl. 7 á kvöldin og allan þennan tíma hafa börnin frjálsan aðgang að húsinu. Eftir að kennslu og undirbúningsvinnu kennara lýkur eru þau kóngar í ríki sínu hér því enginn situr yfir þeim og til dæm- is um hve börnin eru ábyrgðarfull má nefna að ég held að þau gangi betur um eftir að við kennararnir erum hættir og ástæða er til að hæla börnunum fyrir þetta.“ - Er Kópasker góður staður til að alast upp á? „Ég hef haldið því fram alveg í fúlustu alvöru að Kópasker sé einn besti staður á landinu og að hér sé alveg óvenju jákvætt og gott mannlíf. Kópasker er komið til með svolítið öðrum hætti en flest þorp, hér hefur aldrei skap- ast gullgrafarastemmning. Við höfum alveg sloppið við síldar- bölið og hér er mikið rólegra og samheldnara samfélag heldur en í öðrum þorpum þar sem ég þekki til. Það má orða þetta svo að það éti allir sama grautinn úr sömu skál hérna, það er enginn afgerandi munur á afkomu manna, ekki þessi himinhrópandi munur sem sums staðar þekkist. Umhirða á börnum er afar góð og mikill skilningur ríkjandi á að búa vel að æskulýðsmálum. Þó að við höfum ekki haft peninga til að byggja íþróttahús og gera allt sem okkur langar til má segja að skólarnir hafi fengið alla þá peninga sem hægt er að reikna með að eitt svona lítið sveitarfé- lag geti útvegað. Ég tel að það hafi verið tekið sem forgangs- verkefni að búa vel að börnum hérna.“ - Eitthvað sérstakt sem þú vildir koma að að lókum Pétur? „Mér stendur mikill stuggur af þessum niðurskurðaráformum bæði á skólaakstri og sérkennslu og sé ekki annað brýnna en að reyna að koma þeim málum í skynsamlegra horf. Það er aldeil- is alveg óþolandi að fagleg vinna sérfræðinga, eins og sálfræðinga og námsráðgjafa á Fræðsluskrif- stofunni á Akureyri sé gerð dauð og ómerk með einu pennastriki suður í Reykjavík.“ IM

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.