Dagur - 07.09.1988, Síða 4
4 - DAGUR - 7. september 1988
ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS
SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31,
PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI, SÍMI: 24222
ÁSKRIFT KR. 800 Á MÁNUÐI
LAUSASÖLUVERÐ 70 KR.
GRUNNVERÐ DÁLKSENTIMETRA 530 KR.
RITSTJÓRAR:
ÁSKELL ÞÓRISSON (ÁBM.)
BRAGI V. BERGMANN
BLAÐAMENN:
ANDRÉS PÉTURSSON
(Reykjavik vs. 91-17450, pósthólf 5452, 105 Reykjavík),
ÁSLAUG MAGNÚSDÓTTIR, BJÖRN JÓHANN BJÓRNSSON
(Sauöárkróki vs. 95-5960), EGILL BRAGASON,
FRÍMANN HILMARSSON (Blönduósi vs. 95-4070),
INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR (Húsavík vs. 41585),
JÓHANN ÓLAFUR HALLDÓRSSON, KRISTJÁN JÓSTEINSSON,
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON (íþróttir), MARGRÉT ÞÓRA ÞÓRSDÓTTIR,
STEFÁN SÆMUNDSSON, VILBORG GUNNARSDÚTTIR,
LJÓSMYNDARAR: GUÐMUNDUR HRAFN BRYNJARSSON,
TÓMAS LÁRUS VILBERGSSON,
AUGLÝSINGASTJÓRI: FRÍMANN FRÍMANNSSON
ÚTBREIÐSLUSTJÓRI:
HAFDlS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASÍMI 25165
FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON
PRENTUN: DAGSPRENT HF.
Hnin Ávöxtunar sf.
Hrun Ávöxtunar sf. hefur orðið til þess að ýta
óþyrmilega við mörgum sparifjáreigendum, sér-
staklega þeim sem eiga fjárhæðir í vörslu fyrir-
tækisins. Viðbrögð þeirra sem gerst þekkja til á
verðbréfamarkaðinum koma einnig spánskt fyrir
sjónir nú, eftir að Ávöxtun sf. hefur verið lokað
með stjórnvaldsaðgerðum.
Þegar Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþýðu-
bandalagsins, lýsti því yfir á fundi í Kópavogi fyrir
þremur vikum að eitt eða fleiri verðbréfafyrirtæki
stæðu það tæpt, að hætta væri á að almenningur
glataði fjármunum sem þar voru lagðir inn til
vörslu, voru viðbrögð forráðamanna ávöxtunarfyr-
irtækjanna öll á einn veg. Þeir kröfðust þess að for-
maður Alþýðubandalagsins nafngreindi viðkom-
andi fyrirtæki þegar í stað, því svo sannarlega ætti
þeirra fyrirtæki ekki í hlut! Meðal þeirra, sem svo
létu, voru forráðamenn Ávöxtunar sf. Fréttastjóri
Stöðvar 2 gekk meira að segja svo langt að lýsa því
yfir að fréttamenn þar hefðu ekkert við Ólaf Ragn-
ar að tala fyrr en hann nafngreindi viðkomandi
fyrirtæki, en með þeirri yfirlýsingu dæmdi hann orð
Ólafs Ragnars í raun dauð og ómerk.
En nú hefur sem sagt komið á daginn að Ólafur
Ragnar Grímsson hafði rétt fyrir sér, þótt ummæli
hans hafi e.t.v. orðið til þess að flýta því að Ávöxt-
un sf. mætti örlögum sínum. En nú bregður svo
einkennilega við að forráðamenn hinna verðbréfa-
fyrirtækjanna keppast við að lýsa því yfir að hrun
Ávöxtunar sf. komi ekki svo mjög á óvart: Fyrir-
tækið sé nefnilega svo sér á báti hvað alla upp-
byggingu varðar. Sú spurning vaknar óhjákvæmi-
lega í framhaldi af því: Hversu margir vissu, en
þögðu þó?
Hvort Ávöxtun sf. verður eina fyrirtækið á þess-
um markaði sem leggur upp laupana á næstu
vikum, skal ósagt látið. Þó er ljóst að verðbréfa-
fyrirtækin standa á mistraustum grunni; sumum
virðist fyllilega hægt að treysta, öðrum ekki. Að
sjálfsögðu er það átakanlegt að stór hópur einstakl-
inga komi til með að glata umtalsverðu fé vegna
hruns Ávöxtunar sf. Við því er hins vegar lítið
hægt að gera úr þessu. Viðskiptavinum verðbréfa-
fyrirtækjanna ætti að vera ljóst að hárri ávöxtun
fylgir ákveðin áhætta og að tafarlaus innlausn
verðbréfa er langt í frá sjálfsagður hlutur, þrátt
fyrir gylliauglýsingar sem gefa annað í skyn.
Hrun Ávöxtunar sf. er hins vegar ótvírætt merki
til stjórnvalda um að láta málefni verðbréfamark-
aðarins og „gráa markaðarins" í heild til sín taka.
Þau fyrirtæki sem þar eru þurfa að lúta mun
strangari reglum og eftirliti en nú er. Þeir sem fara
með stjórn peningamála í landinu verða að byrgja
brunn frjálshyggjunnar áður en fleiri detta ofan í.
BB.
Jóhannes Sigurjónsson:
ÖU blöð eru
héraðsfréttablöð
í fjölmiðlaflórunni íslensku þrífst
hinn fjölbreytilegasti gróður. Þar
má finna fjölmiðla sem eru
skrautrósaígildi og þar með án
næringargildis, aðrir eru hið
mesta þarfaþing, sannkallaðir
kálhausar fjölmiðlanna. Mest er
þó auðvitað um arfa í túni
íslenskrar fjölmiðlunar.
Óskilgreindur lággróður í fjöl-
miðlaflórunni eru hin svokölluðu
héraðsfréttablöð, sem sumir
kalla landsmálablöð af einhverj-
um undarlegum hvötum. Margir
kannast við nöfnin á nokkrum
þessara rita, Víkurfréttir, Víkur-
blaðið, Vestfirska fréttablaðið,
Bæjarpósturinn o.s.frv. En
flestir, a.m.k. á SV-horni
landsins, telja sig ekki hafa barið
héraðsfréttablöð augum. Sem er
að sjálfsögðu alrangt.
Staðreyndin er sem sé sú að
Moggi, DV, Þjóðvilji, Tími og
Alþýðublað, eru auðvitað ekkert
annað en héraðsfréttablöð. Þau
eru útgefin í Reykjavíkurhéraði,
fjalla einkum um fréttir úr því
héraði og brúka svo fréttir úr
öðrum héruðum heimsins, s.s.
Afghanistan eða Eyjafirði, sem
uppfyllingarefni.
Ritstjóri eins héraðsfrétta-
blaðsins í Reykjavík, Árni
Bergmann á Þjóðvilja, reit eitt
sinn pistil í blað sitt um hin
óháðu landsbyggðarblöð, sem
hann kallaði svo. Ritstjórinn
fann þessum blöðum allt til for-
áttu, taldi að þau tækju aldrei á
neinu sem máli skipti og fjölluðu
einkuni og aðallega um opnun
nýrra hamborgarastaða eða
snyrtistofa í viðkomandi byggð-
arlagi. Þessi túlkun getur svo sem
staðist, einkum ef menn hafa
ekki lesið viðkomandi lands-
byggðarblöð, en það er líka
næsta auðvelt að snúa henni upp
á dagblöðin, ekki síst Þjóðvilj-
ann. Á ritunartíma þessa Berg-
mannspistils var annar ritstjóri
Þjóðviíjans, svo og fréttastjóri að
reyna í fyrsta skipti að fjalla sjálf-
stætt um innanhússerjur í Al-
þýðubandalaginu og verkalýðs-
hreyfingunni. Og það var að
sjálfsögðu ekki þolað að tekið
væri á einhverju sem máli skipti í
blaðinu og þegar upp var staðið
voru ritstjórinn og fréttastjórinn
látnir fjúka. Og hvað það varðar
að litlu landsbyggðarblöðin fjalli
einkum um skyndibitastaði og
snyrtistofur, þá ber að hafa það í
huga að opnun matsölustaðar í
smábæ úti á landi eða minkabús í
nærsveitum, hefur hlutfallslega
jafn mikil áhrif í atvinnulífi á við-
komandi stöðum og tilkoma
Kringlunnar í Reykjavík suður,
sem héraðsfréttablöðin í höfuð-
borginni hafa fjallað um í máli og
glansmyndum.
Þetta er sem sagt spurning um
stærðarhlutföll og stigsmun, ekki
eðlismun á héraðsfréttablöðun-
um í Reykjavík og úti á landi.
Litlu landsbyggðarblöðin
þjóna mikilvægu hlutverki á
hverjum stað, á sama hátt og
dagblöðin í Reykjavík og Dagur
á Akureyri. Þar gefst íbúum
byggðarlagsins kostur á að koma
á framfæri skoðunum sínum, rit-
deilur fara þar fram, sveitar-
stjórnarmenn miðla þar upplýs-
Erindi flutt á Fjórðungs-
þingi Norðlendinga á
Húnavöllum 3. september
sl., undir dagskrárliðnum
„Fjölmiðlun á landsbyggð-
inni.“
ingum til lesenda og blaðamenn
fjalla um það sem fréttnæmt þyk-
ir hverju sinni. Og síðast en ekki
síst þá halda burtfluttir, fyrrum
íbúar byggðarlagsins, sambandi
við sína gömlu heimabyggð með
lestri þessara blaða. Litlu blöðin
þjóna einnig hlutverki sem dag-
blöð Reykvíkinga hin ríkis-
styrktu, sem gefa sig út fyrir að
vera blöð allra landsmanna, yrðu
ella að þjóna. Þetta er auðvelt að
sýna með dæmum.
í Víkurblaðinu á Húsavík fór
fram fyrir nokkrum árum, hörku-
ritdeila múrara um lélegan frá-
gang á tiltekinni byggingu í bæn-
um og hver bæri þar höfuð-
ábyrgð. Deilan stóð í margar vik-
ur og lesendur fylgdust með af
áhuga og höfðu af nokkra
skemmtan þegar byggingamenn
veifuðu múrskeiðum og létu
dólgslega á síðum blaðsins. Það
er hins vegar næsta ólíklegt að
múrarar á Húsavík hefðu fengið
inni í Reykjavíkurblöðunum
með þessi sín hugðarefni, ef Vík-
urblaðið hefði ekki verið til
staðar.
Annað dæmi. í kringum bæjar-
og sveitarstjórnarkosningar eru
Reykjavíkurblöðin full með
greinar eftir frambjóðendur í
Reykjavík. Þetta eru ógurlegar
langlokur og skipta hundruðum.
Greinar af sams konar toga birt-
ast í héraðsfréttablöðum um land
allt, þar sem sveitarstjórnarmenn
á hverjum stað útmála eigið ágæti
í löngu máli. Ef litlu landsbyggð-
arblöðin væru ekki til staðar, þá
væru Reykjavíkurblöðin eini
vettvangur greinaskrifa allra
frambjóðenda á landinu. Og blöð
allra landsmanna gætu auðvitað
ekki mismunað mönnum eftir
búsetu. Tilvonandi sveitarstjórn-
armenn á Grundarfirði, Raufar-
höfn, Húsavík og um land allt,
fengju því að sjálfsögðu inni með
greinar sínar í Mogga á sama hátt
og borgarstjórnarkandídatar.
Sem leiddi til þess að Mogginn
teldi, lauslega áætlað, 1347 blað-
síður daglega síðustu vikurnar
fyrir kosningar!
Á þennan hátt, m.a., spara
llitlu landsbyggðarblöðin, blöðum
|allra landsmanna ómælda fjár-
muni, og spurning hvort ákveðið
hlutfall af auglýsingatekjum
stóru blaðanna ætti ekki að renna
til landsbyggðarfjölmiðla, sem
greiðsla fyrir veitta þjónustu í
þágu þeirra stóru.
Ríkisvaldið áttar sig auðvitað
ekki á þessu þjónustuhlutverki,
frekar en öðru, og til ríkisvalds-
ins höfum við ekkert að sækja.
Þannig t.d. bannaði Albert Guð-
mundsson, þáverandi fjármála-
ráðherra, bæjarfógetaembættum
að auglýsa í héraðsfréttablöðum
úti á landi. Og fyrir nokkrum
árum rakst ég á auglýsingu í
Alþýðublaðinu um bann við
rækjuveiðum í Öxarfirði. Þess
skal getið að áskrifendur Alþýðu-
blaðsins á Húsavík þá, voru 21,
þar af amma mín níræð með
heiðursáskrift og auðvitað enginn
rækjusjómaður. Ég hringdi í við-
komandi ráðuneyti og bauð aug-
lýsingu í Víkurblaðinu með sína
500 áskrifendur og alla rækjusjó-
menn á staðnum í þeim hópi.
Eftir mikið japl og jaml og fuður
var kveðinn upp sá úrskurður
suður í ráðuneyti að það væri
búið að auglýsa bannið í Alþýðu-
blaðinu, punktur og basta.
Við þetta er svo því að bæta að
Jón nokkur Baldvin var ritstjóri
Alþýðublaðsins á þessum árum
og rækjuveiðibannið í Öxarfirði
fór að sjálfsögðu framhjá öllum
rækjusjómönnum á svæðinu.
Að einu leyti má segja að
landsbyggðarblöðin séu tíma-
skekkja og það er í sambandi við
vinnsluferli þeirra. Fyrir nokkru
varð Blaðamannafélag íslands 90
ára og var þá gefið út veglegt
afmælisblað. í þessu blaði birtist
m.a. viðtal við gamlan fréttahauk
sem lýsti því hvernig blaðaútgáfu
var háttað og starf blaðamanns
vaxið, fyrir 40-50 árum. Lýsing
hans var eitthvað á þessa leið:
Á þeim árum voru oft ekki
nema 1-2 menn á blöðunum.
Sami maður þurfti að skrifa af
skynsamlegu viti um allt milli
himins og jarðar, hann þurfti að
taka myndir og framkalla þær,
safna auglýsingum og áskrift og
rukka hvorutveggja. Hann fylgd-
ist með uppsetningu blaðsins, las
próförk og sá jafnvel um dreif-
ingu blaðsins. Allt vinnsluferli
blaðsins frá því hugmynd að frétt
kviknaði þar til blaðið kom í
hendur lesenda, hvíldi á herðum
eins manns. „Já, svona var nú
blaðamennskan fyrir 50 árum,“
sagði þessi aldni blaðamaður sem
mundi tímana tvenna í þessum
efnum.
Mér þótti þessi grein einkar
merkileg, einkum og aðallega
fyrir þær sakir að uppgötva að ég
og margir kollegar mínir á litlu
landsbyggðarblöðunum, vorum
50 árum á eftir tímanum. Myndin
sem dregin var upp af starfi
blaðamannsins fyrir 50 árum, var
sem sé nákvæm lýsing á mínu
starfi á því herrans ári 1988.
Góðir áheyrendur.
Ég hefi hér af handahófi drep-
ið á ýmislegt er lýtur að útgáfu og
hlutverki svokallaðra héraðs-
fréttablaða. Vonandi vekur þessi
pistill einhverjar spurningar sem
unnt verður að fjalla um í
umræðunni hér á eftir.
Höfundur er ritstjóri Víkurblaösins
á Húsavík.