Þjóðviljinn - 11.01.1976, Síða 9

Þjóðviljinn - 11.01.1976, Síða 9
Sunnudagur 11. janúar 1976. ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 9 Sveinn Skorri Höskuldsson: AÐ HALDA DÓMÞING... Inngangsorö aö Pétri Gaut, flutt í útvarpið 26. des. Ibsen Um fá skáldverk á Norðurlöndum hafa bókmenntafræðingar og ritskýrendur oftar notað hástig lýsingarorða en Pétur Gaut, leikrit Henriks Ibsens, sem hér verður nú flutt i útvarpið. Francis Bull sagði að það væri norskast og frumlegast allra skáldverka Ibsens, og eitt sinn heyrði ég hann flytja fyrirlestur um ljóðleikina Brand og Pétur Gaut þar sem hann lýsti hlutverki þessara bók- menntaverka i lifi norskrar þjóðar á þá lund að Brandur væri skáldrit, sem norð- menn leituðu til i mótlæti, en til Péturs Gauts sneru þeir sér, þegar lifið léki við þá. Brandur og Pétur Gautur: Þessir tveir ljóðleikir og þessar tvær persónur eru ná- tengdar i hugum allra, sem þekkja til verka Henriks Ibsens. Þeir eru stórvirki, sem birta okkur tvo meginfleti á lifsskilningi og lifsafstöðu einhvers mesta skálds, sem Norðurlönd hafa alið. Jafnframt skiptu þessir tveir ljóðleikir sköpum i höfundarsögu Henriks Ibsens. Honum var ekki fremur en mörgum öðrum stórskáldum tekið með neinum fagnaðar- ópum lýðsins við upphaf skáldferils sins. Allt frá þvi milli fermingar og tvitugs hafði hann ort kvæði og samið leikrit, einkum um efni úr rómverskri og norrænni sögu. Hann hafði starfað við leikhús bæði i Björgvin og ósló, eða Christianiu eins og hún nefndist þá, en þótti ekki hafa sýnt sannfærandi hæfileika sem leikhúsmaður. Lágt veraldargengi heima i Noregi olli þvi að Ib- sen fór nánast landflótta til ttaliu 1864 og settist að i Róm. Þar syðra samdi hann báða þessa ljóð- leiki sina og kom Brandur fyrr út eða 1866. Með Brandi sigraðist Ibsen á tregðu norskra lesenda. Fyrir það verk hlaut hann viðurkenningu þjóðar sinnar sem annað helsta skáld samtiðarinnar. Þessi veraldarframi hafði mikið gildi fyrir Henrik Ibsen, og lærðir menn hafa þóst sjá gleði hans og sjálfstraust birtast i gáskasömum og ærslafullum tiltektum Péturs Gauts, og sliku efni fylgdi meiri létt- leiki i ljóðformi verksins en fundinn verður i öðrum leikritum Ibsens i bundnu máli. Ibsen hóf samningu Péturs Gauts i janú- ar 1867, og hann kom út i bókarformi 14. nóvember sama ár. Verkið hlaut fljótlega miklar vinsældir og hefur siðan verið gefið út i fleiri og stærri upplögum en flestar eða allar aðrar norskar bækur. Pétur Gautur bar undirtitilinn ,,drama- tiskt kvæði”, og Ibsen hugsaði hann upp- haflega til lestrar, enda hefur verið sagt um þetta verk að það sprengdi og hæfi sig yfir öll form leikhússins. Brátt tók þó Ibsen að hugleiða sviðssetningu leikritsins og i þvi skyni fékk hann Edvard Grieg til að semja tónlist við það, og i fyrsta sinn var Pétur Gautur leikinn i Christiania Theater 24. febr. 1876. Er þvi skammt i aldarafmæli fyrstu sviðssetningar leikritsins. Sem leik- húsverk hefur Pétur Gautur siðan farið sigurför um heiminn. Utan Noregs var hann fyrst sýndur i Kaupmannahöfn 1886 og utan Norðurlanda i Paris 1896. A Islandi var Pétur Gautur fyrst sýndur 1944 af Leik- félagi Reykjavikur með Lárus Pálsson i titilhlutverkinu. Hann var aftur sýndur i Þjóðleikhúsinu 1962 og iék þá Gunnar Eyjólfsson Pétur Gaut, en hann fer einnig með það hlutverk i þessari útvarpssend- ingu. Þegar Pétur Gautur var fyrst sýndur i Kaupmannahöfn var Einar Benediktsson þar ungur stúdent, og hlýtur hann að hafa haft veður af þeirri sýningu, hvort sem hann sá hana eða ekki. Hann tók siðan að þýða leikritið veturinn 1888-89 og gerði að þvi verki nokkrar atlögur á næstu árum. Árið 1897 var svo langt komið að hann lét hefja prentun þýðingar sinnar, en hætti við þá útgáfu, og það var fyrst 1901 að Pétur Gautur kom á prent i þýðingu Einars. Þessi þýðing hefur maklega hlotið mikið lof sem eitthvert ágætasta verk islenskra bókmennta þýddra. Kemur þar hvort- tveggja til mikill trúnaður við norskan texta leikritsins og kynngimagnað islenskt tungutak Einars sjálfs. Mesti blæmunur þýðingar og frumtexta er sá að viða er mál- far Ibsens mun ljóðrænna og léttara en Ein- ars, svo að þýðingin ber þyngri svip, sem reyndar fellur vel að alvarlegum undirtóni leikritsins, en jafnframt glatast nokkuð af flugléttum leik imyndunaraflsins, sem er mikið aðalsmark þessa verks. 1 þrengingum sinum samdi Henrik Ibsen Brand um hugsjónamanninn, sem fórnar öllu fyrir köllun sina, um mann hinnar af- dráttarlausu kröfu: allt eða ekkert. Með Brandi ætlaði Ibsen sér að kenna löndum sinum að hugsa miklar hugsanir, ,,tænke stort” eins og hann orðaði það. Raunar er tilgangur leikritsins Péturs Gauts i innsta eðli hinn sami, en i persónu Péturs birtir Ibsen okkur ranghverfu þeirra hugsjóna og þeirrar afdráttarlausu siðlegu kröfu, sem var burðarás Brands. 1 Pétri Gaut eru okkur sýnd svo sem i skugg- sjá óheilindi, mergleysi og tómleiki mann- legs eðlis. „Pétur, þú lýgur,” eru fyrstu orð verksins á norsku. „Það er skrum. Þú skrökvar,” þýddi Einar Benediktsson. 1 þessum fyrstu orðum er fólgin grund- vallarlýsing Péturs. Hann er óheill skrum- ari og stórlygari, en jafnframt er hann þokkafullur, töfrandi og á stundum ómót- stæðilegur persónuleiki. Að byggingu og allri gerð er leikritið Pét- ur Gautur skilgetið afkvæmi rómantiskra viðhorfa. Hvergi er hirt um hinar þrjár klassisku einingar leikhússins. Ljóðformið er blandað að hætti rómantiskrar kynslóð- ar, og frjáls leikur hugmyndaflugsins geis- ar með himinskautum heimshorna á milli, uns höfundur molar þessa hugarveröld mélinu smærra i rómantiskri kaldhæðni til að koma lesendum og hlustendum til sjálfs sin aftur. A sama hátt er persóna Péturs Gauts holdtekja hins rómantiska draumóra- manns. ,,Ég skal verða kóngur, keisari!” hljómar oflætisfull heitstrenging hans við móðurina. En öll persónulýsing og sköpun Péturs er fólgin i afhjúpun þess skap- gerðarveikleika að hann er þess ómegnug- ur að virkja drauma sina i dáð. Þannig skrifaði Henrik Ibsen sig frá rómantikinni með þessu verki, og Pétur Gautur varð striðsyfirlýsing gegn lifsviðhorfi hins imyndaða og draumkennda. Hvers vegna er Pétur Gautur ófær um að framkvæma drauma sina? Meginorsökin er skortur siðferðilegrar einurðar til að taka ákvörðun. Hann hlýðir langa ævi ráði Beygsins um að sveigja hjá. I stað þess að velja um kosti og taka ákvörðun beygir hann af leið. I þessu skilur milli feigs og ófeigs. Brand- ur var maður hinnar skilyrðislausu kröfu: allt eða ekkert — og fórst vegna hugsjónar sinnar sem hetja. Pétur sveigir hjá sér- hverri kröfu, og ég skil verkið svo.að vegna eigin verðleika muni hann aldrei bjargast. Þó lýkur Pétri Gaut i rauninni eins og Brandi á spurningu. Leikritið er fullt af tilvisunum og skir- skotunum i allar áttir menningarsögu og bókmennta heimsins, en kjarni þess og aðalefni er þó sprottið úr norskum sögnum og þjóðlifi, og á sinum tima var það skilið sem miskunnarlaust uppgjör við ákveðin fyrirbæri i norsku samfélagi og þjóðareðli. Jafnframt er þó þetta sérnorska verk svo óbundið stað og tima að ýmis þau fyrirbæri, sem Ibsen beindi spjótum að, hafa i leikriti hans öðlast timalausa og sistæða tilveru. Hirð Dofrans og viðhorf hans svo sem þeim er lýst i Pétri Gaut voru vissulega á sinum tima opinber hirting mikils skálds á norskri sjálfsánægju og ákveðnum þáttum norskra stjórnmála. En einmitt þessi atriði, sem áttu ákveðnar timabundnar forsendur i norskum raunveruleika, hafa i verki Ibsens öðlast almannlegt og alþjóðlegt gildi. Slikt er einkenni mikils skáldskapar. I höll Dofrans fer fram umræða milli Pét- urs og Dofrans um mun þursa og manna, og Dofrinn spyr: „Þekkirðu muninn á þursa og manni?” Og siðan skilgreinir hann þennan mun: „Þar úti, sem nótt fyrir árdegi vikur, er orðtakið: „Maður, ver sjálfum þér lik- ur.” En meðal vor, þar sem myrkt er öll dægur, er máltækið: „Þursi, ver sjálfum þér — nægur.”” Þótt höll Dofrans og siðalögmál ættu sér rætur i norsku þjóðfélagi og stjórnmálalifi á timum Ibsens, standa hallir dofranna við- ar og siðum þeirra er enn játað um viða veröld. Eða hver er sá hlustenda, sem ekki kannast við vigorðin um að menn skuli vera sjálfum sér nógir? I höll Dofrans fremur Pétur Gautur þrátt fyrir allt mestu og e.t.v. einu dáð lifs sins. Hann velur afdráttarlaust þann kost að vera maður, vera hann sjálfur, eða sjálfum sér likur eins og Einar Benediktsson hefur þýtt það. Pétur neitar að láta stinga út augu sin, svo að hann öðlist sýn þursanna á fyrir- bærum lifsins. Nýsloppinn úr höll Dofrans hittir hann Beyginn og hlýðir i fyrsta sinn boðinu um að sveigja hjá. Sú regla verður siðan leiðar- minni lifs hans. Hann sveigir hjá öllum úrslitaákvörðunum, tekur i reynd að lifa eftir lifslögmáli þursanna: að vera sjálfum sér nógur. Eftir þvi sem á liður verður Pétri Gaut þó ljóst að sjálfsumgnægð er valtur grunnur að standa á: „Sjálfdómsins óðal er illa tryggt með auð. —Það er hús á sandi byggt. Við úr og hring menn dilla og daðra, dingla rófunni, skriða og smjaðra. Og höttum er lyft fyrir prjóna og prjál — en persónan er ekki hringur né nál.—” 1 hafsnauð á héimleið til Noregs verður Pétri svo endanlega ljóst að örlög hans sjálfs eru samofin örlögum annarra manna: ,,------um borð? þar skipa menn saman þvi skarra og verra. A skipsfjöl er enginn sjálfs sin hcrra. Krá þili til kjalar menn fylgjast i flokk, ef feigðin sækir á bátsmann og kokk, er jafnframt úti um minn eigin skrokk.” Þótt lifsstefna Péturs Gauts hafi mótast af þvi viðhorfi þursanna að vera sjálfum sér nógur, hefur hann þrátt fyrir allt verið sjálfum sér likur i einu atriði: þvi að sveigja hjá. Hann hefur ávallt skort þann siðlega kjarna, sem þarf til þess að velja sér afdráttarlaust hlutskipti. Sjálfur er hann sömu gerðar og graslaukurinn: „En hvar finnst svj endi á hýðunum ’arna og hvenær skyldi nú bóla á kjarna? Nei, laukurinn flysjast í innsta inni. Eintóm hýði, minni og minni.” Svo gjörsneyddur siðlegri vitund og kjarna hefur Pétur Gautur verið að hann hefur af þeim sökum ekki heldur verið fær um að drýgja neina synd heils hugar, og þetta verður honum jafnvel vörn gegn Hnappasmiðnum, sem segir við hann: „Nei, það er nú sökin, sem ég þekki, syndari i æðra skilningi ertu ekki.” Þótt Pétur Gautur hafi verið hann sjálfur i siðlegu rótleysi ug óheilindum, er hann að leikslokum glataður maður og getur ekki bjargast fyrir eigin verðleika. Höfundur gripur hins vegar til gamalkunnugrar lausnar: að láta söguhetju sina eiga von sakir fórnfúsrar ástar konu. Likt og Be- atrice beið Daníes á himnum og Gretchen barg Fást, þannig hefur og Pétur Gautur verið hann sjálfur i trú, von og ást Solveig- ar. Ef Pétur Gautur á einhverja von i leiks- lok, þá er það vegna þess að lifsregla þurs- anna — að vera sjálfum sér nógur — hefur endanlega brostið, og eina leiðin til bjargar er fær vegna ástar konu, sem er jarðnesk andstæða dofranna. Henrik Ibsen orli eitt sinn: „At leve erkrig með trolde i hjertets og hjernens hvælv: at d i g t e — det er að holde dommcdag over sig selv.” Pétur Gautur er þvilikt verk. Hann auð- veldar njótanda sinum lifsstriðið gegn tröllum heila og hjarta og hann gerir sér- hvern yiðtakanda sinn hæfari til að halda dómþing yfir sjálfum sér. Sveinn Skorri Höskuldsson

x

Þjóðviljinn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.