Þjóðviljinn - 16.09.1986, Blaðsíða 4
LEIÐARI
Leitin að góðærinu
Leitin að góðærinu stendur nú sem hæst.
í síðustu viku fór Þjóðviljinn á stúfana og
spurði fólk á förnum vegi, hvort það hefði orðið
vart við góðærið, þetta góðæri sem nú gengur
yfir og hefur sem mest verið útbásúnað í ýmsum
fjölmiðlum.
( kjallara Seðlabankans, nánar tiltekið í bíla-
geymslunni, ræddi Þjóðviljinn við Ásgeir Þor-
leifsson stæðisvörð. Þrátt fyrir nábýli sitt við
fjármuni þjóðarinnar hafði Ásgeir lítt orðið var
við góðærið. Hann sagði:
„Þetta góðæri er ekki komið í minn vasa, ég
er jafnilla launaður og áður, eins og aðrir opin-
berir starfsmenn.“ Og um góðærið sagði hann:
„Þetta eru happdrættisvinningar sem valda
þessum efnahagsbata og það verður ekki gert
út á þá. Ég vona að minnsta kosti, að þetta skili
sér í gerð næstu kjarasamninga, ekki veitir af.“
Kristbjörg Oddgeirsdóttir afgreiðslustúlka í
kjörbúð Víðis við Austurstræti sagði:
„Það er ekkert merkjanlegt góðæri hér. Fólk
minnist ekkert á að vöruverðið hafi hækkað, því
að það er orðið svo vant verðbólgunni að það
hefur misst allt verðskyn. Allar mjólkurvörur
hækkuðu til dæmis nýlega og enginn hefur
minnst á það. Fólk kaupir heldur ekki neitt meira
af dýrari vöru en það hefur gert, það verslar það
nauðsynlegasta á hlaupum, alltaf að flýta sér.
Það eru auðvitað fyrst og síðast launþegar, sem
eiga að verða varir við góðærið, og það eru þeir
sem eiga að njóta þessara bóta í bættum
kjörum. Þetta góðæri er bara eitthvað sem mað-
ur les um í blöðum, en finnur ekki fyrir í budd-
unni.“
Sömu sögu sagði Anna Friðbjörnsdóttir af-
greiðslustúlka í Garbó:
„Fólk hefur það ekkert betra en áður, það er
helst að það sé meiri skipting á milli hópa. Fólk
kaupir ekki meira af dýrari vörum og það spáir
ennþá mikið í verðlagið. Á meðal þeirra sem ég
umgengst í daglegu lífi er jafnvel kvartað undan
verri afkomu en venjulega."
Og í sama streng tók fleira fólk, sem Þjóðvilj-
inn talaði við. Engin hafði orðið var við góðærið,
nema þá í blöðunum og ekki í buddunni, einsog
Kristbjörg Oddgeirsdóttir komst að orði.
En það sem er satt og rétt í þessu máli er að
góðærið er hér eins og lærðar tölur frá Þjóð-
hagsstofnun sýna og sanna, og það er mikið
ánægjuefni. En það er líka satt og rétt að góð-
ærið hefur ekki skilað sér til almennings.
Fólkið sem Þjóðviljinn talaði við tjáði sig
hreinskilnislega og á einföldu máli, eins og allur
almenningur talar enn í dag, og frómt frá sagt
hafði það ekki orðið vart við góðærið.
Ríkisstjórnin sem nú er við völd rændi að
minnsta kosti fjórðungi af kaupmætti fólks til
þess að lækka verðbólgu. Síðan vildi ríkisstjórn-
inni og almenningi það til happs, að olíuverð á
heimsmarkaði stórlækkaði, en olíuverðið var
einmitt ein meginástæða verðbólgunnar á síð-
asta áratug. Þá mætti ætla að hægt væri að
skila fólki einhverju aftur af því sem frá því var
tekið. En aldeilis ekki!
Síðan eru teknar saman tölur um ráðstöfun-
artekjur heimila, sem sýna það eitt að til að lifa
þrælar fólk einfaldlega ennþá meira en áður.
Konur og börn eru á vinnumarkaðnum í ríkara
mæli en áður. Ekki vegna þess að afkoman sé
svo góð og kauptaxtarnir svo freistandi. Heldur
einfaldlega til að vinna fyrir lífsviðurværi, því að
fólk er staurblankt.
Þetta er góðærið. Þannig kemur ríkisstjórnin
því til almennings.
Og úr því að almenningur er svona staddur í
miðju góðærinu, þá vaknar sú hræðilega spurn-
ing: Hvernig væri ástandið ef olían hefði hækk-
að, markaðir dregist saman og aflinn brugðist?
Úr því að afkoman er svona í góðærinu undir
handleiðslu Sjálfstæðisflokks og Framsóknar-
flokks - hvernig væri hún þá í harðæri?
- Þráinn
KLIPPT OG SKORIÐ
En hitt er beinlínis
hættulegt, að van-
rækja íslenzk fræði í
háskólanum sjálfum
með því að beina vext-
inum og þeirri fjárnær-
ingu sem til hans er
varið í aðrar áttir.
ALD ARAL iv'Æ' ,1
1886 - 14. SEPTEMBER - 1986
Nordalsminning
Það var til sóma á sunnudaginn
að menn minntust þess með ýms-
um hætti að réttri öld áður fædd-
ist í heiminn Sigurður Nordal, rit-
höfundur, heimspekingur, lífs-
listamaður og einn fremstur
fræðimaður um íslenskar bók-
menntir á þessari öld. Almenna
bókafélagið gaf út þrjú fyrstu
bindin í nýju ritsafni Sigurðar,
heimspekistofnun háskólans
boðar aðra útgáfu þeirra Nor-
dalsrita sem snúa að þeirri fræði-
grein. Sjónvarpið sýndi merkan
viðtalsþátt, í dagblöð voru ritað-
ar ágætar greinar, mætir menn
röbbuðu um lífsverk Sigurðar í
útvarpi, og það var haldin Nor-
dalshátíð í Þjóðleikhúsinu að við-
stöddu fjölmenni, - virðuleg at-
höfn en að sögn nokkuð þung-
lamaleg minning um þann sem
skrifaði um Völuspá á fjöl í rúmi
sínu, drakk öðru heldur kakó
með koníaki og kom af stað þeim
ágætum rannsóknaræfingum ís-
lenskumanna þarsem samhengið
milli skemmtunar og fræða er
innsiglað með mjöðdrykkju og
samræmdum málsverði fornum.
En allt var þetta til sóma bæði
Sigurði og þeim sem að stóðu.
Stofnunin
Og svo var gefin út reglugerð
um nýja stofnun sem heitir Stofn-
un Sigurðar Nordals. Það var við
hæfi að stjórnvöld minntust ald-
arafmælisins með þeim hætti að
efla íslensk fræði þarsem Sigurð-
ur er í hópi helstu meistara, - en
því miður bendir margt til þess að
við þennan stofnunargjörning
hafi verið farið offari, að minning
Sigurðar sé ekkert of vel haldin í
þeirri stofnun sem Sverrir Her-
mannsson hefur nú smfðað utan-
um hana.
Að minnsta kosti eru íslensku-
menn í háskólanum ekkert alltof
hressir. Þeir eru hræddir um að
hér sé á ferðinni „pjattstofnun",
fræðaútgerð uppá punt, skipu-
lagslegur skavanki; - og jafnvel
hætt við að þessi Stofnunarstofn-
un muni verða til að draga úr fjár-
streymi til annars fræðistarfs í
háskólanum.
Baggar útí bæ
Athugasemdir arftaka Sigurð-
ar í íslenskum fræðum við há-
skólann hafa ekki farið hátt; síst
eru menn að gera rekistefnu útaf
því að menntamálaráðherra vill
heiðra Sigurð Nordal, í annan
stað er málið viðkvæmt vegna
eðlilegrar ræktarsemi ættingja,
enn telja sumir óráðlegt að vera
að skipta sér af því sem þeir geta
talið sér trú um að þeim komi
ekki við, til dæmis vegna þess að í
háskólanum þurfi menn að sækja
fjárveitingar til menntamálaráð-
herra, sem er stofnandi Stofnun-
arinnar.
Davíð Erlingsson lektor í ís-
lenskum bókmenntum skrifaði
þó grein um málið í Tímann fyrr í
sumar og varar þar við of miklum
stofnanabægslum kringum há-
skólann. Hann telur að hlutverk
Stofnunar Sigurðar Nordals sé
þegar falið ýmsum háskólastofn-
unum öðrum, - og ekki verður
séð að þau orð Davíðs hafi fallið
úr gildi við síðari breytingar á
Stofnunarreglum. Vissulega sé
frumkvæði einsog þetta eðlilegt
þegar átaks er þörf, einsog þegar
Árnastofnun var komið á fót, en
hér fylgi sú hætta
„að háskólinn sjálfur, heim-
spekideild, verði út undan aðfjár-
veitingum, og hlutar af eðlilegu
verksviði íslenzkra frœða þar séu
teknir burt til sérræktar annars
staðar, af því að heimspekideild
fær ekki bolmagnið til. “
Vitanlega amist enginn við
Árnastofnun eða íslenskri mál-
stöð, hinsvegar sé hitt beinlínis
hættulegt
„að vanrækja íslenzk fræði í
háskólanum sjálfum með því að
beina vextinum og þeirri fjárnær-
ingu sem til hans er varið í aðrar
áttir. “
„Það segir sig sjálft“, segir Da-
víð í greinarlok, „að heimspeki-
deild og háskólinn vilja heiðra
minningu Sigurðar Nordals. En
ætli það vœri ekki bœði sœmst og
haldkvæmast að gera það með því
að rækta arf hans innan skólans,
ekki með því að binda háskólan-
um bagga úti í bæ."
Það eru nefnilega til
rannsóknastofnanir í heimspeki-
deild háskólans, ein um íslenska
málfræði, önnurum bókmenntir,
þriðja um sagnfræði, fjórða um
heimspeki..., - en þessum stofn-
unum og þeirra starfi sýnir
menntamálaráðherra litla rækt.
Fé til hverrar þeirra nemur nokk-
ur hundruð þúsundum á ári og
hefur staðið í stað síðan núver-
andi ríkisstjórn komst á legg. Það
fé dugir til að greiða einum manni
árslaun, eða til að gefa út sosum
tvær bækur, til að kaupa svolítið
bókasafn, eða til dæmis meðal-
rannsóknarapparat í hljóðfræði.
Tala og umfang námskeiða á
fræðasviði Nordals hefur staðið í
stað undanfarin misseri, og nýjar
stöður duga varla til málamynda-
grynnkunar á óskynsamlega
mikilli stundakennslu.
Þess óska allir að Stofnun Sig-
urðar Nordals standi undir nafni.
Hinsvegar er málsbúningur eftir-
tektarverður bæði íslensku-
mönnum í háskóla og öðrum við-
skiptamönnum Sverris mennta-
málaráðherra. Ég ræð, segir
Sverrir, án lágmarkssamráðs við
þá sem um eiga að véla, - ég ætla,
ég mun. Um afdrif reikningsins
er síðar allt óvíst, samanber örlög
M-hátíðarinnar á Akureyri í sum-
ar.
Minnismerki
Stofnun Sigurðar Nordals á að
vera einskonar minnismerki um
Sigurð Nordal. Nú er Sigurður
Nordal einn þeirra manna sem
sjálfur reisti sér minnisvayða með
verkum sínum, - og þarf ekki á
öðrum lofkesti að halda, allra síst
slíkum að undirstöðurnar séu ó-
traustar.
Það bendir nefnilega margt til
þess, því miður, að með stofnun
Stofnunarinnar sé Sverrir Her-
mannsson að reisa sjálfum sér
minnisvarða og ekki Nordal. Sá
lofköstur gæti jafnvel orðið á
kostnað Sigurðar þegar fram líða
stundir, vegna þess að ekki er víst
að í framtíðinni verði mönnum
neitt sérlega hugað um að halda
minningu Sverris Hermanns-
sonar á lofti.
Og væri þá verr af stað farið en
heima setið.
- m
DJOÐVIUINN
Málgagn sósíalisma, þjóöfrelsis
og verkalýöshreyfingar
Útgefandi: Útgáfufólag Þjóðviljans.
Ritstjórar: Árni Bergmann, Þráinn Bertelsson, össur Skarphéðihs
son.
Fróttastjóri: Valþór Hlöðversson.
Blaöamonn: Garðar Guðjónsson, Ingólfur Hjörleifsson, Kristín Olafs-
dóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús H. Gíslason, MörðurÁrnason, Sigur-
dórSigurdórsson, SigurðurÁ. Friðþjófsson, Vilborg Davíðsdóttir, Víðir
Sigurðsson (íþróttir), Yngvi Kjartansson (Akureyri).
Handrita- og prófarkaiesarar: Andrea Jónsdóttir, Elías Mar.
Ljósmyndarar: Einar Ólason, Sigurður Mar Halldórsson.
Útlitsteiknarar: Sævar Guðbjörnsson, Garðar Sigvaldason.
Framkvæmdastjóri: Guðrún Guðmundsdóttir.
Skrifstofustjóri: Jóhannes Harðarson.
Skrifstofa: Guðrún Guðvarðardóttir, Magnús Loftsson.
Auglysingastjóri: Sigríður Hanna Sigurbjörnsdóttir.
Auglýsingar: Ásdís Kristinsdóttir, Guðbergur Þorvaldsson, Olga
Clausen.
Símvarsla: Katrín Anna Lund, Sigríður Kristjánsdóttir.
Húsmóðir: Ólöf Húnfjörð.
Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir.
Afgreiðslustjóri: Hörður Oddfríðarson.
Afgreiðsla: Bára Sigurðardóttir, Kristín Pétursdóttir.
Innheimtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson, ólafur Björnsson.
Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn:
Síðumúla 6, Reykjavík, sími 681333.
Auglýsingar: Síðumúla 6, simar 681331 og 681310.
Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf.
Prentun: Blaðaprent hf.
Verð í lausasölu: 50 kr.
Helgarblöð: 55 kr.
Áskriftarverð ó mánuði: 500 kr.
4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Þriðjudagur 16. september 1986