Þjóðviljinn - 21.01.1987, Page 4

Þjóðviljinn - 21.01.1987, Page 4
LEIÐARI Hjálpartækjabankar handa íhaldinu Alþýðubandalagsmenn um allt land hafa nú samþykkt framboðslista sína til næstu alþing- iskosninga. Hjá öðrum flokkum sækist það starf misvel. í röðum krata ríkir óánægja með útkomu þeirra BJ-ara, sem sneru baki við flokki sínum á kjörtímabilinu og gengu í Alþýðuflokkinn - án takmarks og tilgangs að því er virðist. Hinir sviknu BJ-arar sem heima sitja eru nú að undir- búa framboð; sömuleiðis Flokkur mannsins og Kvennalistinn. Allir vita um þau hroðalegu vandræði sem upp hafa komið hjá Framsóknarmönnum í Reykjavík og í Norðurlandi eystra. Ungliða- hreyfing Framsóknarflokksins í Reykjavík nær ekki upp í nefið á sér af reiði yfir því að sjá, hversu þyrnum stráð framabraut Finns Ingólfs- sonar hefur verið upp á síðkastið. Og á Norður- landi eystra eru Framsóknarmenn sundraðir vegna sérframboðs Stefáns Valgeirssonar, sem sjálfur sagðist hafa verið líflátinn af eigin flokki, en stefnir nú á pólitíska upprisu á BB-lista með prestinn á Möðruvöllum í öðru sæti. Vandi Sjálfstæðisflokksins er þungur. For- maðurinn skemmtir sér um þessar mundir við að trúa fjölmiðlum fyrir því að ekki sé nema hæfilegt mark takandi á Steingrími Hermanns- syni forsætisráðherra. En sú stund nálgast að Sjálfstæðismenn þurfi að tilkynna framboð. Og eftir því bíða menn spenntir. Hvað á að gera við Albert? Eða kannski öllu heldur: Hvað ætlar Albert að gera við Sjálfstæðisflokkinn? Því að Albert hefur oftar haft endaskipti á flokknum heldur en flokkurinn á honum. Alþýðubandalagið gengur sterkt til barátt- unnar. Málefnastaðan er góð. Flokkurinn er sameinaður í baráttunni. Þrátt fyrir gífurlega herferð til að gera Alþýðu- bandalagið tortryggilegt vegna innanflokks- átaka hefur hið sanna náð að koma í Ijós: Al- þýðubandalagið stendur sameinað og sterkt í upphafi kosningabaráttu, meðan aðrir flokkar koma sér ekki saman um framboðslista. Þeir sem stóðu í herferðinni á hendur Alþýðubanda- laginu eru nú uppteknir við að ráða niðurlögum elds í eigin húsum. Hin margumtalaða sókn kratanna er að renna út í sandinn. í fyrsta sinn um nokkurt skeið benda skoðanakannanir til að fylgis- aukningin sé búin og „stuðningsmennirnir'1 farnir að búast heim á leið hafandi gert stuttan stans í Alþýðuflokknum. Þær skoðanakannanir sem eru nú mjög í tísku virðast gefa fólki tæki- færi til að láta í Ijósi óánægju sína á hátt sem ekki er jafnafgerandi og að kjósa á móti þeim stjórnmálaflokki, sem maður hefur lengst af stutt. Skoðanakannanir á kjörtímabilinu hafa leitt í Ijós mikið ráp milli flokka. Slíkt flokkaráp er mjög skiljanlegt þegar um hægri flokka er að ræða. Þar eru hugsjónirnar óljósar og hagsmunirnir margvíslegir og breytilegir. Fylgi Alþýðubanda- lagsins er traustara, því að þar er stefnan fast- mótuð. Fólk veit að Alþýðubandalagið er vinstri flokkur. Slíkt hið sama verður ekki sagt um Al- þýðuflokkinn eða Framsóknarflokkinn. Alþýðu- bandlagið er hinn raunverulegi vinstri flokkur. Það eru ekki aðrir flokkar hér sem boða jafn- aðarstefnu. Framsóknarmenn eru miðjumoð, enda hafa bændur nú fengið sig fullsadda af ráðaleysinu, og munu sópa miðjumoðinu úr garðanum og bera út á gaddinn. Alþýðuflokkur- inn gerir út á persónu Jóns Baldvins, orðfimi hans og persónutöfra, rétt eins og fólk muni ekki átta sig á því fyrir kosningar, að nú verður ekki kosið um skemmtilegheit og fjölmiðlafimi heldur um stjórnmálastefnur, um lífskjör fólksins í landinu. Að undanförnu hafa línurnar skýrst í íslensk- um stjórnmálum: Alþýðubandalagið er hið sam- einandi afl vinstri manna. Framsókn og Jón Baldvin bjóða sig fram, sem nokkurs konar hjálpartækjabanka fyrir íhaldið, sem getur þá valið hvora hækjuna það vill styðjast við eftir kosningar. Og það verður þá ekki hækjan sem ræður ferðinni. - Þráinn KUPPT OG SKORK) Mörgum blöskrar Morgunblaðið birtir í gær langa samantekt um Alþýðu- flokkinn og formanns hans, sem ber að ýmsu leyti vott um þann ugg Sjálfstæðismanna, að þeir muni tapa verulegu fylgi einmitt til Krata í næstu kosningum - hvort sem þeir nú vilja kenna þar um lánleysislegu prófkjöri, sem setti Albert Guðmundsson efstan á lista hjá sjálfum þeim í höfuð- staðnum, eða öðru. Það vekur nokkra athygli í samantekt þessari að blaðakonan sem að henni vinnur fær aðeins þrjá viðmælendur sína úr Alþýðuflokknum til að ræða undir eigin nafni um stöðu flokks og formanns og stjórnarmyndun. Enda er það óspart gefið til kynna að staðreynd sem þessi vísi til þess, að ekki muni allar ástir í andliti fólgnar þegar Kratar brosa nú við sínum formanni meðan sæmilega gengur í skoð- anakönnunum. Margir virðast fyrst og fremst bíða átekta og safna orku í stökkkraftinn, þegar rokið verður fram til að „fóma formanninum“ um leið og honum verður eitthvað á. Sá urgur sem er með Krötum út í Jón Baldvin formann er sjálfsagt af ýmsum rótum, en það er ekki úr vegi að vekja athygli á þessum ummælum hér úr Morgunblaðs- samantektinni, sem höfð eru eftir einum „úr kratakjarnanum gamla“: „Mörgum okkar, þessara svo- kölluðu gömlu krata, blöskrar hœgra tal Jóns Baldvin í hástert, sem hefur verið langt til hœgri við það semforingjar jafnaðarmanna í öðrum löndum hafa látið sér detta í hug, t. d. í utanríkismálum. Auk þess finnst okkur það óhæfa hversu illa Jón Baldvin hefur komið sér við jafnaðarleiðtoga á Norðurlöndum og víðar. Manni finnst einkennilegt að upplifa það, að maður sem var nytsamur sakleysingi hjá kommúnistum, skuli nú vera kominn á hinn kant- inn, jafnvel hœgra megin við Reagan. Meira að segja gömlum og gegnum hœgri krötum ofbýð- ur. “ Þeir vilja ekki vinstristjórn En það sem forvitnilegast er í þessari samantekt er reyndar ekki það, hvort fleiri eða færri Kratar hafi horn í síðu Jóns Bald- vins svona á laun. Heldur það, að hvort sem blaðamaður Morgun- blaðsins talar við nafnkennda menn eða nafnlausa í Alþýðu- flokknum, þá virðast þeir svotil allir samdóma um eitt: Þeir hafa ekki minnsta áhuga á neinu því stjórnarmynstri sem kenna má við vinstrið. Þeir vilja Viðreisn - m.ö.o. þeir vilja stjórna með Sjálfstæðisflokknum. Og þar með basta. Jón Sigurðsson, efsti maður á lista flokksins í Reykjavík, vill að sönnu ekki ræða um stjórnar- mynstur fyrir kosningar - en minnist um leið „Viðreisnar“ með trega, segir að hún hafi verið „ein farsælasta ríkisstjórn sem hér hefursetið að völdum undanfarna áratugi". Jón Baldvin formaður segist „ekki vita um nokkurn al- þýðuflokksmann sem sé talsmað- ur þess að vinstri stjórn verði mynduð að loknum kosningum“ - og fer þá vitanlega ekki milli mála hver er hugur formannsins í því máli. Og „gamalgróinn krati“ nafnlaus tekur í sama streng: „Ég held að það sé alveg örugg- lega meirihlutafylgi við Við- reisnarstjórn innan þingflokks- ins, miðstjórnarinnar og almennt hjá flokksmönnum. Þœr raddir innan flokksins sem boða vinstri stjórn eru mjög fáar og hjáróma og ég tel að þœr séu einkum úr röðum verkalýðskrata utan af landi. “ And- stæðingur? Sem sagt: það verður ekki bet- ur séð en Kratar renni eina slóð eftir íhaldssjónum breiðum. Því kann það að vekja nokkra undr- un þegar því er fram slegið undir lok samantektar Morgunblaðs- ins, að þess viðhorfs gæti nú mjög í Sjálfstæðisflokknum, að höfuð- andstæðingur hans í kosninga- baráttunni verði að þessu sinni Alþýðuflokkurinn. Þetta kann að vera rétt að því leyti, að fyrir því er sterk hefð að nokkur prósent kjósenda séu á flökti einmitt milli þessara flokka tveggja. Og þegar einhver gremja er uppi hjá Ihald- inu er flestum í beiskjudeild auðveldast að fá nokkra útrás með því að kjósa Krata. Það kann að vera sérstaklega auðvelt einmitt núna, þegar þeir geta huggað sig við að þeir séu ekki einu sinni að bregða sér af stjórn- arbæ með því háttalagi - svo mjög sem Kratar láta nú uppi ást sína á viðreisnarmynstri. Og þegar svo er - getur Alþýðu- flokkurinn þá með nokkurri al- vöru talist „höfuðandstæðingur“ Sjálfstæðisflokksins? Líklegt er, að þetta við- reisnartal verði fyrst til þess að draga úr þeirri spennu sem verið hefur í kringum Alþýðuflokkinn að undanförnu og híft hann upp í skoðanakönnunum. Ef svo þetta sama tal leiðir síðar til stjórnar- samstarfs við íhaldið, þá hefst upp á nýtt tilvistarharmleikur flokksins: hann verður of fast klemmdur upp við Stóra bróður til hægri til að eignast sjálfstæða tilveru í vitund manna. Það mun ekki einu sinni duga honum til athygli í því samkrulli, að hann segist vera þar til að verja velf- erðarríkið: Sjálfstæðismenn geta talað dólgslega stundum um ávirðingar velferðarkerfa - en þeir eru ekki svo skyni skroppnir að þeir þori í alvöru að eyðileggja þau. Og þegar þær stundir líða fram mun nýjabrum af einstök- um frambjóðendum, sjónvarps- framkoma formanns - að við- bættu heimilisböli íhaldsins, reynast heldur skammgóður vermir í pólitískri nepju tímans. Og loks er eins og ekkert hafi gerst. - ÁB. þlOÐVILJINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Útgefandi: Útgáfufélag Þjóöviljans. Ritstjórar: Ámi Bergmann, Þráinn Bertelsson, össur Skarphéðinsson. Fróttastjórl: Lúðvík Geirsson. Blaðamenn: Garðar Guðjónsson, Ingólfur Hjörleifsson, Krístín Ólafsdóttir, Magnús H. Gíslason, Mörður Árnason, ólafur Gíslason, Siaurður Á. Friöþjófsson, Valþór Hlöðversson, Vilborg Davíðsdóttir, Víðir Sigurösson (íþróttir), Yngvi Kjartansson (Akureyri). Handrlta- og prófarkalesarar: Andrea Jónsdóttir, Elías Mar. Ljóamyndarar: Einar Ólason, Siguröur MarHalldórsson. Utlltstelknarar: Sævar Guðbjörnsson, GarðarSigvaldason. Framkvæmdaatjórl: Guðrún Guðmundsdóttir. Skrifstofuatjóri: Jóhannes Harðarson. Skrifatofa: Guðrún Guðvaröardóttir, Magnús Loftsson. Auglýsinga8tjórl: Sigríður Hanna Sigurbjömsdóttir. Auglýsingar: Ásdís Kristinsdóttir, Guðbergur Þorvaldsson, Olga Clausen, Guðmunda Kristinsdóttir. Símvarsla: Katrfn Anna Lund, Sigríöur Kristiánsdóttir. Húsmóðir: Ólöf Húnfjörð. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Afgreiðslustjóri: HörðurOddfríðarson. Afgreiðsla: Bára Sigurðardóttir, Kristín Pétursdóttir. Innhelmtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson, ÓlafurBjömsson. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjóm: Sfðumúla 6, Reykjavík, aími 681333. Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning: Prentsmið ja Þjóðvl I jans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð f lausasólu: 50 kr. Helgarblöð: 55kr. Áskrtftarverö á mánuðl: 500 kr. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVIUINN Mlðvikudagur 21. janúar 1987

x

Þjóðviljinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.