Þjóðviljinn - 31.01.1987, Blaðsíða 5

Þjóðviljinn - 31.01.1987, Blaðsíða 5
af vídeóóvinum, vídeóglóð og vídeóhúsdýrum heimilisarininn „Heyrðu,“ sagði kunningi minn. „Líttu við hjá mér í kvöld. Mig langar til að sýna þér svo- lítið.“ „Hvað?“ „Ég sýni þér það þegar þú kem- ur. Þetta er mjög merkilegt. MJÖG merkilegt." „Hvað er þetta? Segðu mér hvað það er, annars trúi ég ekki að það sé merkilegt.“ „Það er spóla. Vídeóspóla,“ sagði hann hvíslandi í trúnaðar- róm. „Ertu genginn af göflunum maður? Heldurðu að ég ferðist um borgina endanna á milli til að glápa á vídeóspólur?" „Það er ýmislegt á sig leggjandi til að fá að sjá þessa spólu," sagði hann. „Það væri réttast að senda á þig lögregluna, ef þú ert að þvælast með ólöglegar vídeóspólur." „Þessi spóla er lögleg, væni minn,“ sagði hann. „Eg á meira að segja kvittun fyrir henni.“ „Ég verð nú að viðurkenna, að áhugi minn á dónaskap er mjög takmarkaður, að ekki sé minnst á mannát og ofbeldi.“ „Já, þú ert farinn að eldast." „Ég er allavega of gamall til að nenna að sitja með þér fram á nótt gónandi á vídeó.“ „Láttu ekki svona. Þetta er stórmerkileg spóla. Tímamóta- verk.“ ,Jœja?“ „Sé þig klukkan níu.“ „Þá það.“ „Láttu nú fara vel um þig,“ sagði hann. „Ég ætla bara að ná í framlengingarsnúru, svo að þú getir haft rafmagnsofninn hérna við lappirnar á þér.“ „Láttu ekki svona,“ sagði ég. „Það er funheitt hérna inni. Hef- ur það kannski farið framhjá þér eins ogfleira að það er hitabeltis- loftslag á íslandi um þessar mundir?" „Hann ansaði mér ekki, heldur sótti framlengingarsnúru og setti rafmagnsofninn í samband. „Slappaðu nú verulega vel af,“ sagði hann og kveikti á vídeóinu. „Hér kemur nýjasta nýtt frá Am- eríku.“ A skjánum birtist mynd af arni. Það skíðlogaði í stórum viðardrumbi. Þetta var ágætis- mynd, fallega römmuð og lýst, og á hljóðrásinni var snarkið og þyt- urinn í eldinum. Ég horfði á þetta og beið eftir því að eitthvað gerðist. En það gerðist ekki neitt. Eldurinn hélt áfram að loga. „Hvað á þetta að fyrirstilla,“ spurði ég eftir að fimm mínútur voru liðnar. „Fyrirstilla? Nú, þetta er eldur í arni,“ sagði kunningi minn. „Þú hlýtur að sjá það.“ „Og hvað gerist svo?“ spurði ég- „Það gerist ekki neitt. Sittu bara kyrr og horfðu í eldinn. Svo finnurðu ylinn frá raf- magnsofninum. Er þetta ekki notalegt?“ „Notalegt? Þetta er geðveikt." „Afhverju segirðu það? „Gakktu með sjó og sittu við eld sagði völvan forðum.“ Sagði kunningi minn. „Þetta er nútím- inn. Arineldur á vídeói. Engin eldhætta. Engin fyrirhöfn. Ekk- ert sót. Engin aska. Enginn eldi- viður. Enginn kostnaður. Þetta er nútíminn.“ Hann var greinilega stórhrifinn af þessu. „Sjáðu til,“ sagði hann. „Mig hefur alltaf langað í arin. Það mundi kosta mig sennilega á ann- aðhundrað þúsund að koma upp arni hérna, fyrir nú utan allt ves- enið. Þessi vídeóspóla hefur kostnað mig um fimmtánhundr- uð krónur, og ég þarf aldrei að kaupa mér eldivið. Þetta er þró- unin. Vídeóið er frábært. Sér- staklega fyrir einhleypt fólk eins og mig.“ „Hvað meinarðu með því?“ spurði ég. „Jú, fjölskyldur geta verið mjög truflandi þegar maður er að horfa á vídeó,“ sagði hann. „Það er alltaf einhver umgangur, eða kjaftagangur eða spurningar. Það er aldrei friður. Vídeóið hefur alveg bjargað mér síðan ég skildi. Nú kem ég heim úr vinnunni um sex-leytið og er þá búinn að versla. Aðal- lega kaupi ég tilbúinn mat úr frysti og þarf ekki annað en hita hann upp. Það er ekkert mál að vaska upp eftir einn, og svo fer ég bara að gera það sem mér sýnist, og ef ég þarf á félagsskap að halda þá hef ég vídóið. Ég á fullt af vídeóvinum. Það eru alls konar persónur sem ég veit orðið alla skapað hluti unt og er sífellt að lenda í ævintýrum og lífsháska og ferðalögum og ég fæ að fylgjast með þessu öllu án þess að þeir geri nokkrar kröfur til mín. Ékki er Miss Marple hér inni á gafli að suða í mér að skrifa upp á víxla fyrir sig, og ekki er „Der Alte“ hérna að væla út af konunni sinni eða krökkunum." „Er hann giftur?" „Það kemur málinu ekkert við hvcrt hann er giftur eða ekki. Hann lætur mig alla vega í friði með sín prívatmál. Hann er mér til skemmtunar þegar mér sýnist. Og svo er það búið mál.“ „Og þér þykir þetta Ijómandi skemmtilegt?" „Já, alveg ágætt. Og ég er rosa- lega feginn að vera kominn með arin. Finnst þér ekki kósí?“ „Þú ert kannski að hugsa um að fá þér vídeósundlaug næst?“ spurði ég. „Þá geturðu fengið þér sundsprett án þess að hafa fyrir því að fara úr fötunum." „Heldurðu að svoleiðis sé til,“ spurði hann mjög áhugasamur. Vídeósundlaugar? En varla þó nuddpottar, ha?“ „Hvernig á ég að vita það?“ „En heyrðu, það er annað sem ég ætla að fá mér.“ „Hvað skyndi það nú vera?“ „Ég ætla að fá mér hund. Al- ntennilegan hund, sem maður getur æft og þjálfað og kennt að sækja hluti og svoleiðis.“ „Eg hélt þú værir einmitt svo ánægður með að þurfa engan fé- lagsskap - og svo ertu að tala um að fá þér hund.“ „Vídeóhund - að sjálfsögðu. Sko. Ég sá auglýsta alveg splunkunýja uppfinningu. Það er hundur á vídeóspólu og einhvers konar stjórntæki með. Svo setur maður bara spóluna í vídeóið og þarna er hundurinn og svo gefur maður honum ýmsar fyrirskipan- ir með því að ýta á takka: sendir hann eftir spýtum, lætur hann hoppa gegnum gjörð, lætur hann kúka og allt svoleiðis eins og hundar gera. Og þegar maður verður leiður á honum slekkur maður bara á vídeóinu. Ekki þarf maður að borga neinn hunda- skatt eða fara með hann til dýra- læknis og maður er laus við að öll íbúðin sé löðrandi í hárum. Og það er hægt að fá fleiri húsdýr en hunda á vídeói ef maður vill ein- hverja tilbreytingu, en mig langar samt mest í hund. Eiginlega hefur mig alltaf langað að eiga hund. Ég er bara ekki alveg búinn að ákveða hvaða tegund ég á að fá mér.“ „Af hverju færðu þér ekki Sánkti Bernharðshund, það hlýtur að fylgja honum koníakss- póla.“ „Það er nú meira hvað þú ert gamaldags,“ sagði kunningi minn. Og svo sátum við saman um hríð og horfðum í eldinn, sem var farinn að kulna. „Ég gæti heldur ekki fengið að hafa alvöruhund,“ sagði kunn- ingi minn. „Ekki hérna. Ekki í fjölbýlishúsi. Nágrannarnir mundu gera uppistand.“ „Eru nágrannarnir erfiðir?“ „Nei, alls ekki. Ég hef ekkert af þeim að segja. Maður heilsar þeim bara í lyftunni og er alveg laus við þá að öðru leyti.“ „Umgengstu þá ekkert?“ „Nei, ég get ekki sagt það. Ég skrópa alltaf á þessum húsfund- um. Borga bara skilvíslega í sjóð- inn. Enda er ekkert merkilegt sem skeður á þessum fundum. Það er verið að þvarga um hvort það eigi að mála blokkina, eða taka til á lóðinni og svo framveg- is. Eitthvað sem ég hef engan áhuga á. Ég horfi bara á vídeóið. Þar er alltaf eitthvað að gerast.“ „Heldurðu ekki að þú sért að verða vídcósjúklingur?" „Er það sjúklegt að lifa kyrrlátu og lukkulegu lífi og vera ekki alltaf að argast í öðru fólki? Ég vinn og borga skattana mína og svo les ég og horfi á vídeó. Er þá nokkuð upp á mig að klaga?“ „Klukkan var orðin margt. Drumburinn var brunninn til ösku. Á sjónvarpsskjánum sást í glæðurnar. „Nú get ég farið að sofa án þess að vera hræddur um að kofinn brenni til ösku í nótt,“ sagði kunningi minn. „Þetta er nútím- inn.“ - Þráinn Laugardagur 31. janúar 1987, þjöÐVILJINN - SlÐA 5

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.