Þjóðviljinn - 06.12.1987, Blaðsíða 14

Þjóðviljinn - 06.12.1987, Blaðsíða 14
Hún heitir Jún og stendur þrettán ára á hvítri strönd við gult haf og hörundslitur hennar er eins og blanda þeirra tveggja. Því hún er öðruvísi löndum sínum sem byggja langsótta rönd á austanverðu heimskortinu. Víet- nam og ekki skammt frá borginni sem eitt sinn hét Saigon en er nú kennd við skrýtilegt skegg sem óx eina byltingarævi fyrr á öldinni, er annað iítið hafnarmynni sem Vá Tún heitir og þar á ströndinni stendur Jún okkar sem fyr en er nú byrjuð að selja skeljar hinum sovésku túristum sem þar liggja í forréttindafitu sinni. Því sú er atvinna hennar, þessarar ólæsu gæsku með blábrúnu augun og kínasvarta hárið, sem engan á að né nokkurn samastað í tilverunni meðal hálfþjóðar sinnar. Og hún gengur á milli útlendinganna sem henni finnst hún kannast á ein- kennilegan hátt við um leið og hún finnur vel hve lítið sameigin- legt hún á með þeim. Sem er eðli- legt því þetta eru rússar en ekki bandaríkjamenn. En það voru eins og heimurinn veit einmitt bandaríkjamenn sem hrökkluð- ust héðan kolsigraðir fyrir þrettán árum og skildu Iítið eftir sig annað en brunna skóga og sviðin börn auk nokkurra Jimi Hendrix hljómplatna sem nú eru geymdar á stríðsmunasafninu í Hó Sí Mín-borg. En þetta var auðvitað fyrir aldur Júnar litlu og 'í hennar huga er stríðið aðeins óljós en þó áhrifamikil munn- mælasaga sem skýtur þá helst upp í kolli hennar þegar hún er af þorpsbúum uppnefnd og kölluð af illkvittni „dóttir djöfulsins". Henni sárnar og hefur grátið mörgum sjávartárum marga svit- anóttina í kofanum sínum á ströndinni sem stendur alllangt frá húsunum í kringum höfnina. Hún er utangarðs og hún er ein- mana og hún veit ekki hvað hún er. Hún veit aðeins að hún er öðruvísi en allir hinir. Ó Jún. Og þaðan af síður gerir hún sér grein fyrir því þegar franskur ljósmyndari kemur einn daginn ranglandi niður ströndina í leit að mótívum og finnur hana, að hið smáa klikk undan fingrum hans á tökutakkanum er sú stóra stund lífs hennar sem síðar á eftir að breyta því svo gjörsamlega. Eitt ÁÞAKKAR- lítið klikk og eitt lítið líf. Því svip- ur hennar er síðan framkallaður á filmu sem endar að Iokum í einni af hæstu skrifstofubyggingunum á Manhattan, hinumegin á hnett- inum. Jún er komin á síður Lífs, hins bandaríska stórtímarits og brosir þar óafvitandi framan í þann heim sem hún þekkir ekki. Og af einhverri rakarastofurælni pikkar einhver okkur áður ó- kunnur Jeff upp þetta blað úr gulnuðum bunka á biðstofuborði í miðríkjunum miðjum og rekur ögn í rogastans þegar hann flettir í frekari rælni uppá síðu 52. Þar er hún, það er Jún, og einhver gömul taug á mörkum kyns og þindar neðarlega í þéttvöxnu kviðarholi hans tekur við sér og svipur hans aflagast smáa stund og verður eins og ekki hans eigin heldur einhvers annars. Hennar. Þetta er svipurinn. Þetta er ég, hugsar hann og skömmu síðar stendur Jeff skjálfhentur með tímaritið útá gangstéttinni. Þetta er ég. Þetta er hún. Þetta er dóttir mín. Það varþá semmig grunaði. Og póstburði síðar fær Jún sitt fyrsta bréf á sinni tilbreyting- arsnauðu ævi og það á ensku, sem að vísu skiptir hana engu því hún er ekki einu sinni læs á sitt eigið móðurmál. En þýðingu finnur hún hjá gömlum suður-vfetnama sem nú drekkur úr sér timbur- menn stríðsins á eina barnum í þessum hreppi kommúnismans. Já þessi maður á myndinni með- fylgjandi er faðir þinn. Banda- rískur, fyrrverandi hermaður sem yfirgaf grátandi móður þína sem skorti vissa pappíra til að flytja með honum til Ameríku. Hún dó skömmu eftir fæðingu þína. Þú ert stríðsbarn. Naminn er vel við skál og ritar þessu út úr sér á milli smóks og sopa eins og fréttaskeyti. En ringluð gengur Jún út úr þessu slorbæli og horfir stíft á Kodak-litmynd af þrjátíu og þriggja ára gömlum þéttvöxn- um og skeggjuðum hvítum manni í velmegandi umhverfi, miðríkja- millistéttarúthverfaborðstofu. Varla djöfullinn sjálfur. Hún finnur þó enga samsvörun með þessum fjarlítandi ókunnuga manni, pabbi? Og hún veltir því fyrir sér hvað pabbi í raun sé. En eftir rúma viku, eftir að hafa horft sig í svefn á hverju kvöldi á þessa ljósmynd fer hún hægt að finna fýrir einkennilegri tilfinn- ingu sem eins og læsir sig lúmskt upp eftir baki hennar í líki örygg- istilfinningar, það er líkt og ein- hver standi á bak við hana, hún finnur fyrir bakgrunni sínum á þó mjög óljósan hátt. Og eftir tvær vikur fer hún aftur á barinn til namans sem nú er ögn drukknari en síðast og les fyrir hann sitt fyrsta bréf til föður síns. Samskipti þeirra feðgina aukast eins og hægt er á milli þessara andstæðu þjóða og eftir áralangt þref í bogagöngum býr- ókratsins í Washington gefst Jeff að lokum upp og ákveður við annan mann að halda nú á fyrri slóðir og hafa upp á dóttur sinni, Jún Patterson. Vikum síðar standa þau augliti til auglits í fyrsta sinn í komusal flugstöðvar- innar í Hó Sí Mín-borg, eins og svart og hvítt þar til bros færist yfir andlit þeirra beggja og fjöl- skyldutengslin koma í lós. Jeff spyr þá túlkinn hvort hann megi faðma dóttur sína að sér og á milli þeirra hverfa þrettán fjarlæg ár fyrir hlýjum straumi faðernis þó víst nokkuð gervilegur sé. Jún fær tímabundinn stimpil í glænýtt vegabréf sitt og saman fljúga þau vestur á bóginn á vit hennar nýju heimkynna. Á þeirra fyrsta þakkargjörðar- degi sitja þau síðan við fylltan kalkún ásamt konu Jeffs og barni hennar frá fyrra hjónabandi og reyna að láta sem þau séu ein fjöl- skylda. En Jún skilur ekki þeirra mál og situr brosandi þögul við borð allsnægtanna, horfir út um gluggann, út í myrkrið og sér þar litla kofann sinn á hvítu strönd- inni við gula hafið þar sem hin þungu blöð mangótrjánna vagga hægt í takt við fallandi öldurnar. Hún er heima. New York City Á þakkargjörðardegi 1987 Hallgrímur Helgason 14 SÍÐA - ÞJÓÐVIUINN Sunnudagur 6. desember 1987

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.