Þjóðviljinn - 10.04.1988, Blaðsíða 9

Þjóðviljinn - 10.04.1988, Blaðsíða 9
Sunnudagur 10. apríl 1988 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 9 Örnólfur: Það má líka segja að við förum nokkuð aðrar leiðir við frágang textans en eldri útgef- endur og þá ekki síður í þeim skýringum sem við látum fylgja Sturlungu og öðrum textum sem með henni eru prentaðir. Þarna eru hátt á annað hundrað skýr- ingarmyndir og um tvö hundruð landakort, allstórt orðasafn, töflur um atburði, bókmenntir og valdsmenn hér heima og annars staðar í álfunni á miðöldum, ítar- legur formáli um bókmenntir og samfélag, og fleira. Þessar skýr- ingar eiga að gagnast þeim sem ekki vilja láta við það sitja að lesa Sturlungu sér til ánægju heldur vilja skyggnast lengra og kafa dýpra. í skýringarbindinu eru líka prentaðir fáeinir textar sem ekki hafa áður verið prentaðir með nútímastafsetningu og sumir hverjir ekki verið tiltækir íslensk- um lesendum áður í handhægum útgáfum. Þeir eru m.a. íslending- abók Ara fróða, ágætlega skemmtileg Veraldar saga frá 12. öld og Leiðarvísir Nikulásar ábóta á Þverá skrifaður fyrir stór- syndara sem þurftu að hitta páf- ann í Róm og létta af sér synda- bagganum. Þessir textar gefa nokkra hugmynd um þær fjöl- skrúðugu bókmenntir sem ís- lenskir rithöfundar og fræðimenn voru að setja saman á 12. og 13. öld. Bergljót: Vegna þess að við vorum ekki gjörkunnug sögunni áður en verkið hófst þurftum við oft að lesa okkur til og leita ráða hjá fróðum mönnum. Stundum vorum við heilan dag að kíkja undir skottið á einu orði, velta fyrir okkur torráðinni vísu eða átta okkur á staðháttum og leiðum manna. Vonandi nýtist sú vinna okkar í skýringunum og greiðir lesendum leið að verkinu. Og eftir að hafa verið á kafi í Sturlungu svona lengi þá verð ég að segja að það voru forréttindi að fá að vinna við að lesa hana! Örnólfur: Jóni þótti hún raun- ar svo skemmtileg að þegar við vorum loks búin sagði hann eitthvað á þá leið að hann óskaði þess heitast að allt þurrkaðist nú út af tölvudiskinum svo við gæt- um hafið leikinn aftur. Skáldmóðir Sturlunga Bergljót: í Sturlungu eru margar merkilegar og skemmti- legar kvenlýsingar. Guðný Böðv- arsdóttir, móðir Snorra, Sighvats og Þórðar, hefur verið óvenjuleg kona. í Eyrbyggju er hún við- stödd þegar grafin eru upp bein Snorra goða. Henni fundust þau smá. f Sturlungu gerir hún sér dagamun eftir að bóndi hennar er dáinn og stingur af í siglingu með Ara sterka og eyðir „föður“arfi Snorra kannski á norsku kránum. Örnólfur: Guðný er mikill skörungur og hefur sjálfsagt skemmt sonarsyni sínum Sturlu Þórðarsyni ungum með sögum af afa hans og nafna í Hvammi og espað skáldgáfuna í Snorra syni sínum. Hún hefur verið sagna- kona og skáldmóðir Sturlunga. En hún er kona höfðingja og bet- ur sett en ýmsar aðrar konur sem sagan segir frá. Jón: í Sturlungu minna kven- skörungar oft á konur í ís- lendingasögum, t.d. konur sem hvetja menn til hefnda og stór- ræða. Guðrún Önundardóttir ber svið á borð fyrir eiginmann sinn og bræður til að knýja fram hefndir eftir föður sinn sem brenndur hefur verið inni. Þetta er hábókmenntalegt og minnir raunar á Guðrúnu Gjúkadóttur sem bar ekki bara svið á borð heldur innyfli úr sonum sínum. Örnólfur: Þessir rithöfundar eru vissulega að skrifa sagnfræði og það samtímasögur en þeir beita þeim bókmenntabrögðum sem þekkt eru t.d af íslendinga- sögum og konungasögum. Kann- ski er munurinn fyrst og fremst fólginn í því að þeir þekkja marg- ar persónurnar. Þetta eru ná- grannar þeirra, ættingjar, kunn- ingjar eða vinir og kunningjar kunningja, eða sjónarvottar og heimildarmenn. Jón: Og þess vegna eru margir nefndir til sögu þótt þeir komi ekki mikið við atburðarásina. I íslendingasögunum eru kannski nefndir fjórir eða fintm af þrjátíu manna hópi en í Sturlungu eru allir nefndir á nafn og sagt hvað- an þeir eru. Ef vantar fylgdar- mann yfir fjall þá er sagt hvað hann heitir ... Bergljót: Og tilgreint hver hjá- kona hans var svo lesandinn rugl- ist ekki eða kanski ... eða kanski bara eins og í hverri annarri kjaftasögu ... Örnólfur: Já og þó að einkalífi mannsins séu gerð svona góð skil kemur hann ekkert meira við sögu. Það er ótrúlegur mann- fjöldi í Sturlungu og margir koma aðeins lítillega við hverja sögu. Það hefur orðið mörgum upp- spretta skemmtunar að draga saman æviferil einstakra manna, tína saman brotin úr mörgum sögum, og þannig geta menn les- ið Sturlungu aftur og aftur og í hvert sinn sem nýja bók. Harmþrungin fór eg hingað Bergljót: Eins og Örnólfur sagði áðan þá hafa Sturlungar skáldskapargáfuna örugglega frá Gúðnýju, Hvamms-Sturla var sjálfur fyrst og fremst tungulipur. í Sturlungu er ákaflega mikið af draumkonum og þær fara með góðar vísur. Það er eðlilegt að konur fáist einkum við tækifæris- kveðskap, karlarnir einir gátu setið við að skrifa. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það skipti al- mennt máli við bók- menntatúlkun hvers kyns fólk er. Þegar allt kemur til alls snýst mál- ið frekar um næmi einstaklinga og hæfni til að lifa sig inn í kjör og reynslu annarra. Þó er ekki óeðli- legt að konur veiti öðrum hlutum eftirtekt en karlar, þær eru öðru- vísi upp aldar. Til dæmis stungu fyrri skýringar á vísum einnar draumkonunnar mig mjög. Hún birtist í túni í Sandvík í Höfða- hverfi, mikil, þrýstileg og dapur- leg og boðar mönnum dauða og hörmungar. í vísunum er ítrekað að hún er ekki glöð. Þar segir hún beinum orðum: Harmþrungin fór eg hingað. Samt hafa vísurnar verið skýrðar þannig að harmur konunnar hefur nánast farið for- görðum og hún hefur fyrst og fremst birst sem ill vættur. Ef- laust er skýringin sú að konur bera gjarnan váleg tíðindi í þjóð- trú og raunar oft í miðaldabók- menntum. Ég reyndi að taka alla vísuna upp og sícýra hana upp á nýtt svo persónuleg tjáning henn- ar um harminn kæmi fram ekki síður en ógnin. Örnólfur: í vísnaskýringunum höfum við reynt að halda okkur sem mest við varðveittan texta handrita pg leiðrétta eins lítið og unnt er. í því sambandi má rifja upp sögu sem Jakob Benedikts- son sagði okkur. Verið var að ganga frá texta til útgáfu og það var eyða í handritinu þar sem vfsa eða hluti vísu átti að vera. Jón Helgason reyndi því að ráða í eyðuna og orti vísuna eins og honum fannst skynsamlegast. Þetta varð auðvitað góður skáld- skapur. En því miður liggur manni við að segja fannst vísan og vitanlega var hún miklu lakari skáldskapur en vísa Jóns. Til þess eru vítin að varast þau og þess vegna höfum við reynt að yrkja sem minnst upp. Enda erum við ekki skáld á borð við Jón Helga- son. Bergljót: Menn halda oft að dróttkvæði og annar forn kveð- skapur sé leiðinlegur og jafnvel enginn skáldskapur. Kveðskap- urinn í Sturlungu er ákaflega fjöl- breyttur. Þar eru kersknivísur og gamanvísur, ljóðrænar draumvís- ur, lofkvæði og skammarvísur. Hver ný kynslóð skilur þessar vís- ur auðvitað sínum sérstaka skiln- ingi. Ef okkur tækist að vekja dá- litla athygli á vísum í Sturlungu og bæta dálitlu við það sem áður hefur verið sagt um þær yrðum við ánægð. Stríð og friður Örnólfur: Sturlunga er sagan af einu borgarastyrjöldinni á ís- landi, hún segir frá því hvernig við misstum sjálfstæðið. Menn segja oft að hún sé ófriðarsaga, hún lýsi hörmungum styrjalda og ógæfunni sem reið yfir íslensku þjóðina er bræður fóru að berj- ast. Hún er ekki síst kölluð harm- saga Sturlunga. Þegar mikið liggur við í pólitíkinni núna segja menn: Upp runnin er öld Sturl- unga. En þetta er bara ein hliðin á málinu. Það finnst Jóni að minnsta kosti. Hann lítur á Sturl- ungaöldina sem friðaröld. Jón: Borgarastyrjöldin stendur í rauninni yfir frá 1237 - 1246. Þá er Sturla Sighvatsson að slást við Gissur Þorvaldsson og Kolbein unga. Þegar Sturla og Sighvatur eru fallnir á Örlygsstöðum kemur Þórður kakali heim og á í styrjöld við Skagfirðinga, þá Kolbein unga og Brand Kolbeinsson til 1246 en þá nær hann undir sig öllum völdum. Síðan koma frið- artímar fyrir utan Flugumýrar- brennu og Þverárbardaga. Sturla Sighvatsson er tæplega fertugur þegar hann fellur. Hann tekur ekki þátt nema í tveimur stóror- ustum, Bæjarbardaga 1237 og Örlygsstaðabardaga 1238, þar á undan drepur hann aðeins tvo menn í Hundadal 1232. Kalla menn það borgarastyrjöld eða hvað? Örnólfur: Og Vatnsfirðingana drepur hann í Hundadal til hefnda eftir Sauðafellsför 1229, þegar þeir fóru heim til hans og gengu að varnarlausu fólki, rændu og rupluðu, særðu og drápu svo blóð flaut um allar gáttir. Bergljót: Fyrsti hluti Sturlungu lýsir því í rauninni hvernig menn vaxa upp til höfðingja í alls konar smákrytum, hvernig þeir herja sér þingmenn með því að berja á nágrönnum sínum og halda rausnarlegar veislur, og koma ár sinni vel fyrir borð í deiluni um arf og eignir. Jón: Það ergott dæmi um slíkar þrætur í fyrstu sögunni í safninu, Þorgils sögu og Hafliða. Hún lýs- ir deilum á svipaðan hátt og í ís- lendingasögum. Þar eru tveir höfðingjar sem eigast við með ýmsum hætti, aðallega með því að drepa minni háttar menn hvor fyrir öðrum. Bergljót: Flugumenn og hú- skarla. Örnólfur: Ekki ósvipað og í Njálu. Deilurnar enda svo á þann dramatíska hátt að annar höfð- ingjanna særist á fingri. Síðan sættast þeir fyrir tilstilli klerka og góðgjarnra manna og aftur er komið á jafnvægi í samfélaginu. Jón: Sögurnar lýsa vissulega margvíslegum deilum og átökum milli höfðingja um landsvæði, landamerki, barnsgetnað og allt milli himins og jarðar. En það er yfirleitt sæst. Örnólfur: Sturlunga lýsir ekki neinum stórorustum nema á þessu erfiða tímabili, þessum tíu árum. Snorri er t.d. ekki þekktur að því að vera sérstakur ófriðar- maður. Jón: Og Þórður er friðsemdar- maður. Hann lét drepa tvo menn. Sighvatur lætur drepa aðra tvo í Eyjafirði, þá Hall og Hafur á Hrafnagili og er smávegis að pota í Guðmund góða. Bergljót: Það segir ekki allt þó þeir hafi sjálfir bara drepið tvo. Jón: En sjáðu hvað þetta er lítið á þrjátíu ára tímabili. Bergljót: Auðvitað eru Sturl- Ömólfur Thorsson: Hugsið ykkur að menn væru að bjóða sig fram til þings fyrir Eyfirðinga og kæmu úr Dölunum. En þetta gerir Sighvatur og er tekið sérstaklega fram að hann hafi orðið því vinsælli sem hann sat lengur í Eyjafirði. Nokkrir forngripir virða fyrir sér Sturlungu nýkomna úr prentun ásamt útgefandanum Birni Jónassyni. Fr.v. Jón Torfason, Sverrir Tómasson, Bragi Halldórsson, Björn Jónasson, Ornólfur Thorsson og Guðrún Ása Grímsdóttir. Mynd Sig.

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.