Dagblaðið - 26.01.1977, Blaðsíða 15

Dagblaðið - 26.01.1977, Blaðsíða 15
DAGBLAÐIÐ. MIÐVIKUDAGUR 26. JANÚAR 1977. 15 Enginn veit hvert stefnir Jóhann Hjálmarsson: DAGBÖK BORGARALEGS SKÁLDS. Hörpuútgáfan 1976. 98 bls. Taka má eftir því að bók Jóhanns Hjálmarssonar frá í haust heitir ekki Dagbók, og ekki Dagbók skálds, heldur Dagbók borgaralegs skálds. Það sem meira er: þetta er réttnefni á bókinni. Hvernig skyldi nú standa á því: af hverju auð- kennast þessi ljóð af orðinu „borgaralegur" fremur en ein- hverju öðru lýsingarorði, eða alls engu? Það má allt eins spyrja hvers konar hugarhorfi, eða ásigkomulagi, ljóðin eigin- lega lýsi. Það var engu líkara en ein- hvers konar ,,hvörf“ yrðu í ljóðagerð Jóhanns Hjálmars- sonar með næstsíðustu ljóða- bók hans, Athvarfi í himin- geimnum, sem út kom 1973. 1 þeim ljóðum var eins og höf- undinum opnaðist nærtækur hversdagsheimur að yrkja í efnivið hans persónulega reynslu og tilfinningalíf. Styrk- ur bestu ljóðanna í bókinni lá í hinu náttúrlega myndmáli þeirra, næmu sjón reykjavíkur- lífs og landslags, húsanna, garð- anna, gatnanna og birtunnar í bænum kannski frekar en mannlífs á götum og í húsunrí og í látlausu, hversdagstrúu orðfæri ljóðanna. Það sem best gafst í bók Jóhanns frá í fyrra, Myndinni af langafa, var af þessum sama toga persónu- legrar reynslu, endurminn- ingar úr bernsku skáldsins á Sandi, lýsing ljóðanna á föður höfundarins, miklu frekar en hin pólitíska saga sem bókin líka vildi láta uppi. En því er ekki að neita að það er ansi tæpur stígur sem Jóhann Hjálmarsson freistar að feta í þessum bókum á mörkum ljóðs og lausamáls, látlausrar frá- sagnar dagsdaglegra atvika og persónulegrar skáldsýnar, skáldsköpunar þessa efniviðar. Nýju bókinni er skipt í fjóra hluta og er hinn fyrsti bæði lengstur og mestur fyrir sér. Þar yrkir Jóhann með sama hætti og áður í Athvafi í himin- geimnum um hvérsdagslíf í Reykjavík líðandi stundar: heiti ljóða eins og „Marsdagur, Sunnudagsmorgunn í Um- ferðarmiðstöðinni, Helgar- þankar, Ekið vestur Hring- braut, Aðventa gefa þennan efnivið þeirra þegar nógsam- lega til kynna. í stað þess að reyna að lýsa og ræða nánar um ljóðin almennum orðum er lík- ast til jafngott að tilfæra eitt þeirra í heilu líki, Ég nýt þessa dags nefnist ljóðið: Föstudaginn 1. febrúar 1974 kl. 15.35 hef ég skrúfað fyrir útvarpið sest í stól til að hiusta á tíst fuglanna i garðinum og horfa á dóttur mína leika sér á gólfinu. Þegar ég skrifa þessar línur sækir hún sér biað og teiknar innri rödd sína. Ég heyri öðru hvoru í strætisvagninum og í flugvélum sem fljúga yfir. Heimurinn er hér inni. Fyrir utan veit enginn hvert stefnir. Þetta ljóð er hér einkum til- greint til dæmis um yrkisefni og aðferð Jóhanns Hjálmars- sonar, ekki af því að mér finn- ist það út af fyrir sig „betri texti“ en margt annað í bók hans. En líka held ég að síðustu hendingarnar hér að ofarí megi hafa fyrir einhvers konar „markorð" um hugarheim og viðhorf ljóðanna. Sú veröld einkalífs, oft og einatt með börn og barnleiki í sjónarmiðju ljóðs, sem hér er víða svo næmlega og fínlega teiknuð, virðist nefnilega til- komin í vísvitaðri andstöðu við ys og umsvif hins stóra heims „fyrir utan“ þaðan sem öll tíðindi eru ill. Ástundun einka- lífsins, hins innri heims hugar og tilfinninga, dagsdaglegrar reynslu, kann þá að fela í sér einhvers konar vörn gegn allri óvissu umheims sem enginn veit hvert stefnir, en líka til- raun til að höndla og koma orðum að varanlegum verðmæt- um, einhverju sem raunveru- lega skiptir máli í lífi manns. Og þetta viðhorf og mat verð- mæta má vel vera réttmætt að kalla „borgaralegt", en lesand- anum áreiðanlega hollara að hugsa sig tvisvar um áður en hann tekur að áfellast ljóðin eða skáldið fyrir það. Þessar andstæður einkalífs og umheimsins, hið varasama jafnvægi þeirra, kemur aftur skýrt fram í síðasta ljóðinu í bókinni um „fréttirnar frá Víetnam og Kambódíu“ sem lika snýst um lýsingu barna — barna í fréttunum og barna á stofugólfi fyrir framan sjón- varpið: Þegar sjónvarpsfréttirnar frá Víetnam og Kambódíu hef jast kiukkan átta verður sú yngri sofnuð með brúðuna sem hún fékk á italíu í sumar við hlið sér. sú eldri bíður eftir Ugla sat á kvisti. Hún steypir sér koilhnís á gólfinu meðan stríðið geisar á skerminum. Við snúum okkur undan! Það er kominn timi til að fá sér kaffibolla og dást að mynd garðsins þegar rökkvar, síðustu sólargeislunum sem falla á borðið, bækurnar og máiverkin eins og á safni. Það sem máli skiptir í þessum ljóðum Jóhanns Hjálmarss. held ég að helgist af einlægni þeirri, trúnaði við raunverulega reynslu og til- raun til að koma að henni einföldum orðum. Það er hvar- vetna fjarska stutt í milli hins friðsæla einkaheims sem hann yrkir og umheimsins þar sem ótíðindi gerast, og þó var það bil kannski enn minna í fyrri ljóðum hans af sama tagi. Aftur á móti lætur Jóhanni miklu miður að yrkja berum orðum út af heimsfréttunum eins og hann reynir í fáeinum ljóðum í fjórða þætti bókarinnar. Og fjarska eru erlendar ferða- myndir hans í þriðja þættinum dauflegar ásýndum, rétt eins og skyldukvittun túristans: hér hef ég líka komið. Aftur á móti eru sum bestu ljóðin í bókinni á meðal innlendra ferðamynda í öðrum þætti hennar, landslags- og náttúrulýsing þeirra kemur heim og saman við reykjavíkur- lýsinguna i fyrsta þætti. Það er lika mála sannast að reykvískt landslag verður Jóhanni frjórra yrkisefni en mannlíf í bænum. Ég held að megi til sanns vegar færa að bestu ljóðin í þessari bók séu það sem Jóhann Hjálmarsson hefur best ort: hann hefur augljóslega vaxandi vald á sínum vandmeðfarna, „opna“ og einfalda ljóðræna stílshætti. Til marks um það eru ljóð eins og Kaktus, Endur- fætt land, Ljóð dagsins í fyrsta þættinum, eða prósaljóðin síðast í þeim þætti, eða Páskar í Borgarfirði, Gömul verstöð undir Jökli f öðrum þætti hennar, svo nokkur dæmi séu nefnd, og nöfn ljóðanna látin duga til sannindamerkis. En því er ekki að neita að þessi stílsháttur á fjarska mikið komið undir nákvæmni orð- færis og hugsunar, þeirrar ljóð- rænu skyngáfu sem textinn á líf sitt undir. Þar má engu skeika til að ljóðið fari ekki út um þúfur, og að vísu held ég að Dagbók borgaralegs skálds hefði orðið betri bók ef nokkuð hefði verið vinsað úr efni hennar fyrir birtingu. Hér skal að lokum tilfært dæmi þar sem mér finnst þess- háttar bilbugur á orðfæri og þar með skynjunarhætti verða til að spilla ljóði sem annars hefur ótvíræðu efni að miðla. Textinn er nafnlaus en stendur sem eins konar inngangur að bókinni: Ég vaknaði snemma í morgun til að yrkja ljóðið sem ég lengi hafði ætlað að yrkja. Ég settist við borðið, stakk blaði í ritvélina og beið þess að orð og setningar hyldu hvítt tómið. Dyrnar voru opnar og þegar dætur mínar vöknuðu komu þær inn til mín með teiknibiöð sfn og liti. Þær hófust þegar handa. Biöðin voru ekki lengi auð heldur þakin húsum, skýjum, bílum, flugvéium, fólki og köttum. Þær máttu ekki vera að þvi að borða morgunverð. Ég stóð upp frá borðinu, fór út úr herberginu og skildi þær eftir i fögnuði sköpunarinnar. í ritvélinni var biaðið autt. Á gólfinu breiddu mörg ljóð úr sér skráð á græn teikniblöð á drungalegum febrúarmorgni. Frásagnarefnið f pessum texta liggur ljóst fyrir, og reynsla sem hann vill miðla: það má kannski segja sem svo að í þessum formála sé orðuð einskonar stefnuskrá „fagn- andi sköpunar“ í ljóði. En hvað er þá að — eða er kannski ekkert að? Er þetta „gott ljóð“ eins og það stendur á blaðinu? Það er eins og hér vanti herslu- mun. Hvers vegna beið skáldið þess að orðin og setningarnar „hyldu hvftt tómið“, hvað á hann við með þvf að dætur sfnar hafi hann skilið eftir „í fögnuði sköpunarinnar. Hann á við autt blað í ritVél og börn að leik á stofugólfi. En á báðum stöðum kemur slitleg glösa máls í stað eigin upplifunar, raunhæfrar skynmyndar sem gerði frásagnarefnið að nýjum veruleika fyrir lesandanum, frásögn, skoðun að skáldskap. Slíkur bilbugur fyrirfinnst miklu víðar á viðfelldnum texta í þessari bók og öðrum ljóðum Jóhanns Hjálmarssonar. En sem betur fer fjölgar smám- saman þeim ljóðum sem slíkur eða annar undansláttur ekki verður til að lýta. ÖLAFUR JÓNSSON Bók menntir Silvía Svíadrottning væntir sín Drottning Svíþjóðar er ófrísk. Hún væntir sin um miðjan júlí. Opinber tilkynning var gefin út um þetta af sænska konunginum. Þar segir: „Skrifstofa sænska konungs- ríkis.ins hefur þá ánægju að til- kynna að hennar hátign Silvía væntir sfn um miðjan júlf. Allt gengur eðlilega og er drottn- ingin í umsjá prófessors Ulf Borell og yfirfæðingarlæknis dr. John Rytt-Johnson.“ Tilkynningin kemur nákvæmlega 7 mánuðum eftir að Silvia Sommerlath, for- stjóradóttirin frá Heidelberg í Vestur-Þýzkalandi, giftist sænska konunginum Karli Gustaf. Silvia mun verða 33 ára, þegar hún fæðir. Orðrómur hefur verið í Sví- þjóð um að Silvía væri þunguð og fékk hann byr undir báða vængi, þegar drottningin kom fyrir stuttu á flugvöllinn i Stokkhólmi. Hún sagði svo að fleiri fréttamenn heyrðu. að hún vildi ekki ganga fram hjá röntgeneftirlitinu. Sænsku konungshjónin eru nýlega komin heim eftir langt skfðafrí í svissnesku Ölpunum. Þar bjuggu þau í höll Hohen- zollernprinsins Hansis í Klóst- ers. Silvia hefur oft gefið það í skyn við fréttamenn að hún óski þess að eignast stóran barnahóp — eins stóran og mögulegt sé. Hinn ungi konungur Svíþjóðar hefur með- al annars sagt um börn og barnauppeldi: „Barnauppeldi er ekki aðeins sérsvið móðurinnar. Eg mun einnig ekki síður en hún passa börnin sem vera kann að við eignumst. Ég mun líka skipta um bleyjur, þvo þeim og svo framvegis." Silvia hefur á blaðamanna- fundi stuttu eftir brúðkaupið skýrt frá því að hún óski, þess að fyrsta barnið verði drengur. í Svíþjóð er það karlmaðurinn, sem erfir krúnuna. Oven julegir skartgripir Oft berast fréttir af ýmsu furðulegu sem gengur eins og eldur f sinu í Bandaríkjunum. Nú hafa borizt spurnir af því að nýjasta nýtt á vesturströnd- inni sé að láta gera göt f eyrun fyrir eyrnalokka. Ekki bara eitt eins og til siðs hefur verið hing- að til, heldur mörg göt eftir endilöngu eyranu. Sumir láta gera allt að sextán götum og síðan eru eyrnalokkar hengdir f öll götin! Þeir eru líka til sem láta gera gat á miðsnesið, það er þekkt frá ýmsum frumstæðum þjóð- flokkum. í New York kvu það vera ökklarnir sem eru mest í sviðs- ljósinu. Þar er nú hægt að fá alls kyns skartgripi til þess að hengja utan á ökklana, einnig utan yfir hin ómissandi háu stígvél. Sumir ganga svo langt að fá sér „lærhr'ing“, sbr. „arm- hring“. Á meðfylgjandi mynd er einmift einn slíkur. Eg var satt að segja búin að horfa lengi á myndina og sýndist þetta vera handleggur, en við nánari eftir- grennslan kom í ljós að þetta var stúlkulæri!

x

Dagblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið
https://timarit.is/publication/260

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.