Dagblaðið - 13.11.1980, Blaðsíða 13

Dagblaðið - 13.11.1980, Blaðsíða 13
DAGBLAÐIÐ. FIMMTUDAGUR 13. NÓVEMBER 1980. 13 Ufí göfugfyndi stjómmála- manna í verkalýðshreyfingunni Æ, mikil eru vandræði íslenskrar verkalýðshreyfingar orðin. Ég tala nú ekki um vandamál forystunnar, — þau eru meiri en orð fá lýst. Þeim er ekki hægt að lýsa nema á kvikmynda- tjaldi, þar sem svipþrigði, sorg og tár koma hinu talaða máli til aðstoðar. Ó vei. Kratar fórna Karveli... En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Tveir flokkar hafa nú boðist til að rétta hinni deyjandi verkalýðshreyfingu hjálparhönd. Ó, hvílík gæfa aö eiga slika vini að. Báðir hafa þeir nú boðist til að út- vega henni leiðtoga sem geti stýrt henni milli boða ólgandi hafsjóa íslensks þjóðfélags. Alþýðu- flokkurinn býðst nú til að sjá af sín- um málglaðasta þingmanni, og um leið þeim allra skrautlegasta. Karvel Pálmason yrði án nokkurs vafa lit- skrúðugasta táknið sem íslensk verkalýðshreyfing hefur eignast um dagana, og þótt lengra væri leitað. Litmynd af Karveli gæti meira að segja alveg komið í staðinn fyrir félagsmerki ASÍ. Auðvitað vitum við, að það eru ósannindi sem óvinir Karvels reyna nú að breiða út, — að Vilmundur og Co. New Style Kennedy Team vilji gjarnan án hans vera og þetta sé bara dæmi um það sem nefnt hefur verið að „sparka mönnum upp á við”. Þetta getur auðvitað ekki staðist. Og þó að það væri rétt, hverju skiptir það? Ekki er Karvel maður að verri fyrir það. Og auðvitað verður engu illu upp á Alþýðuflokkinn trúað, — þennan flokk sem í 50 ár hefur barist fyrir jhag hinna smæstu og smáðustu. Um það vitna best rikisstjórnarár flokksins við og við síðustu 50 árin. Þá hefur rjómi lekið af hverju strái og allar buddur fyllst. Og verka- lýðurinn hefur í vesæld sinni og seddu sungið „Lifi Alþýðuflokk- urinn”. Nei, Karvel er sko maður sem hefur unnið sig upp í gegnum verkalýðshreyfinguna og upp úr henni inn á Alþingi. Þjóðin hlýtur að istanda i mikilli þakkarskuld við hann að hann skuli vilja snúa aftur úr jíeim glæstu sölum í þröngar kytrur ASÍ. ... og allaballar Ásmundi Og Alþýðubandalagið. Það varð nú fyrra til að bjóða sinn mann til þjónustu reiðubúinn. Auðvitað mátti búast við því besta úr þeirri átt. Þetta er fiokkurinn sem segist vera og hefur gert allt til að bera sæmdarheitið „flokkur verkafólksins”. Allar leiðir hefur það reynt, — verkföll og læti, þegar það sjálft er í stjómarand- stöðu, vinnufrið og sanngirni, þegar það vermir stjórnarstóla. Loforð um samningana í gildi fyrir kosningar — stuðning við kjaraskerðingarlög eftir kosningar. Liðsinni við ýtrustu félagsmálakröfur innan verkalýðs- hreyfingarinnar — magra og illa innpakkaða félagsmálasmápakka innan ríkisstjórna. Já, allt — allt hefur þessi ágætasti flokkur allra flokka reynt til að bæta hag okkar og líf. Ásmundur heitir hann Stefánsson sem Alþýðubandalagið býður okkur til þénustu. Starfsmaður ASÍ. Einhver var að tala um að illt væri að þetta væri maður sem ekki hefði unnið sig upp í gegnum hreyfinguna, heldur komið að henni sem utanað- komandi háskólamenntaður sér- fræðingur. Starfsmaður ASÍ. En þessum mótbárum vísa allir hugsandi menn á bug. Hvað er eðlilegra en að starfsmaður félags verði formaður þess? Þetta þekkist víða. f félagi einu var starfsmaðurinn á skrifstofu verkalýðsfélagsins gerður að varafor- manni. Og hefur gefist vel — ekkert versnað, allt við það sama. Og er það ekki það sem allir vilja? Það skiptir auðvitað engu máli, — eða allavega mjög litlu — að Ásmundur hefur ekki sömu hags- muni að verja og þeir sem hann vill gerast talsmaður og leiðtogi fyrir. Og Ásmundur er blessunarlega búinn að bjarga því í horn, blessaður pilturinn, með því að vera ekki félagi i BHM — Bandalagi háskólamenntaðra manna — heldur Verslunarmanna- félaginu og taka laun eftir lúsarlegum töxtum þess. Ég er viss um að Karvel hefði farið líkt að með þingmanns- launin sín, ef hann hefði baragetað. Ég þarf ekki að nefna það að hvorki Alþýðubandalag né Alþýðu- flokkur gera neina kröfu um að hafa áhrif á stefnu hinnar sjálfstæðu, stefnuföstu, lýðræðislegu og frjálsu íslensku verkalýðshreyfmgar, þótt þeir vilji nú af óeigingirni sjá af sínum ágætustu mönnum. Þeir vita auðvitað sem er að fulltrúarnir á ASÍ-þinginu eru engan veginn færir til að velja sér sjálfir forseta og aðra trúnaðarmenn. Ef stjórnmála- flokkarnir koma ekki til hjálpar hér, yrði þingið ein allsherjar upplausn og óreiða. Það vilja hvorki Karvel né Ásmundur. Og þeim sé þökk. Það er að sjálfsögðu þess vegna alrangt mat, sem sumir hafa verið að flagga með, að þessi og önnur pólitísk framboð til æðstu embætta ÁSl séu móðgun við þingfulltrúana og félagana í verkalýðshreyfingunni almennt. Ekki er ég móðgaður. Nei, svo sannarlega ekki. Ekki vilja aðrir vera síðri En það eru til fleiri ósíngjarnir flokkar í f>essu landi sem eru jafnfúsir til göfugra fórna og þeir tveir sem að framan greinir. Þær fréttir — þær góðu fréttir — berast oss lítilmögnum, að allir flokkarnir keppist nú um að fórna tíma sinna bestu manna ti! að sitja ASÍ-þingið síðar i þessum mánuði. Og þaö i heila viku. Og auðvitað munu allir þessir flokkshollu og fórnfúsu fulltrúar gæta þess vandlega að gleyma þvi hvaða flokki þeir tilheyra, þegar mál og menn verða bornir upp til sam- þykktar. Mönnum eins og mér, sem engan flokkinn á, vöknar næstum um augu við að frétta um þessa miklu fórnfýsi. Ég sagði að fieiri flokkar en Alþýðuflokkur og -bandalag sýndu fórnarlund. Sjálfstæðisflokk- urinn hefur alltaf borið hag hins smáa og arðrænda fyrir brjósti. Allar hans tillögur um lægri laun, verri kjör og skertan samningsrétt hafa miðað að því einu að gera íslenskt þjóðfélag sterkt og lýðræðislegt, svo að velsæld hins vinnandi manns aukist. Það liggur í augum uppi. Það kemur því ekki á óvart, að Sjálf- stæðisflokkurinn vill ekki vera siðri en hinir að fórnarlund. Einhvern allra næstu daga mun hann þvi senda Kjallarinn Guðmundur Sæmundsson fram á sjónarsviðið sinn besta verka- mann, — Björn Þórhallsson, stjórn- arformann og einn aöaleiganda Dag- blaðsins (og formann Lands- sambands verslunarmanna). Þetta er maður sem þekkir málið náið frá báðum hliðum, ekki síður en for- maður Verkamannasambandsins, sem einnig er útgerðarmaður (í stjórn Bæjarútgerðar Reykjavíkur). Án Björns getur forysta ASÍ því ekki verið. Alls ekki. Fyrr mætti nú vera. En líklega hefur Sjálfstæðisfiokk- urinn ekki aðstæður til að fórna hon- um alfarið fyrir lítilmagnann, enda ó- þarft fyrst svo góðir menn eru í boði aðrir. En það er líka stór og göfug fórn að sjá af honum f embætti vara- forseta ASÍ. Þá er Framsóknarflokkurinn eftir. Samvinnuhugsjón hans tekur sko aldeilis til vor smælingjanna. Ólafslögin svonefndu, sem heldur ættu að heita „Lög um vinsamlega skerðingu launa”, eru eilíft dæmi um vinsemd flokksins í garð verkafólks. Það er þvi áreiðanlega ekki vegna skorts á fórnfýsi fyrir verkafólk, sem þeir hafa ekki boðið fram neinn úr sínum hópi í æðstu stöður ASÍ. Og auðvitað er það heldur ekki vegna þess hve fáir framsóknarmenn verða á þinginu. Ástæðan er vafalaust sú að þeir eru yfir sig ánægðir með þau ágætu framboð, sem þegar eru komin fram. En kannski bjóöa hinir flokkarnir þeim einhverjar lægri stöður sem þakklætisvott fyrir stuðninginn og samstöðuna. En það eru meinbugir á En nú hefur orðið dálítið slys. Óhapp, sem auðvitað er engum um að kenna. En óhapp samt, mannleg mistök. Allt vegna ákefðar flokkanna í að sýna og sanna fórnar- lund sína. Óhappið er sem sé það að nú eru komin Jyö flokksleg framboð í sama embættið, — embætti forseta ASÍ. Þessi framboð eru hvort öðru betra, svo að það er gjörsamlega úti- lokað að ætlast til þess að fá- kunnandi og óstaðfastir flokks- leysingjar sem staddir verða á þing- inu geti gert upp á milli þeirra. Af hverju gátu þeir ekki komið sér saman um þetta fyrirfram til að firra okkur tvíli og andlegri úlfakreppu? Úr því að svona er komið, neyðumst við smámennin til að gera eitthvað i málinu. Auðvitað er ó- mögulegt að ætlast til að úrræði okkar verði skynsamleg eða viturleg. Það vita allir. Það er líka næstum þvi útilokað að við getum fundið I okkar röðum — röðum venjulegra þing- fulltrúa — fólk sem hefur hæfni eða kunnáttu til að taka að sér störf for- seta ASÍ. E i við verðum að reyna. Ekki getumviðlátiðmálin fara svo að við stöndum uppi ráöalaus á þinginu og vitum ekki hvort hinna göfugu boða við getum þegið, Alþýðubanda- lagsins eða Alþýðuflokksins. Þeirra fórnarboð verðum við bara að fá að geyma til betri tíma. Þeir hljóta að skilja það, blessaðir öðlingarnir. Ég ætla því að gera það eina sem mér dettur í hug að bjarga málinu. Svo að ég noti hátiðlegt orðalag í stíl þeirra sem áður hafa mælt slik orð: — Ég hef ákveðið að skora á sem flesta — já í rauninni alla sem eru sama sinnis og ég — að gefa kost á sér sem forseta ASl svo að úr nógu veröi að velja. Ég skal riða á vaðið. Þá gæti endirinn orðið sá, að sá skásti okkar aumra og fávísra venjulegra þingfulltrúa verði kjörinn forseti, en hinir sem næst koma fái embætti við sitt hæfi. Vafalaust eru stjórnmálamennirnir til í að hjálpa okkur að koma þessu öllu heim og saman, því að þeir hafa reynsluna í því. Kannski það fari þá svo að það verði ekki þeir, heldur við sem verðum að sitja næturfundi i bakher- bergjum til að semja um málin og ganga frá hlutunum. Ég er viss um að flokkarnir — svo að ég tali nú ekki um drengskapar- mennina sem hafa bo.Sist til að fórna sér — taka þessi framboð engan veginn sem persónuleg eða pólitíska vanþóknun á sér. Slfkt væri fjærst mér af öllu. Að lokum þetta. Ég sé hvergi neitt í lögum ASÍ um það hvernig framboð skal bera að til æðstu embætta. Ég veit að það er orðin hefð — vegna langrar og dyggrar fórnarþjónustu fiokkanna við verka- lýðshreyfinguna — að framboði manna í þessar stöður fylgi meðmæli fiokksstjórna. Mínu framboði geta ekki fylgt slik meðmæli. En vonandi er það þó gilt fyrir það. Og ég fer sömu leið og aðrir við að koma þessu á framfæri, nefnilega í gegnum dag- blöð. Guðmundur Sæmundsson, öskukarl á Akureyri og fulltrúi á 34. þingi ASI. Karvel og Ásmundur. „Viö, smámennin á ASÍ-þinginu, neyö- umst til að taka til okkar ráða.”

x

Dagblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið
https://timarit.is/publication/260

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.