Lesbók Morgunblaðsins - 05.02.1983, Síða 11
þeir hafa öðlast með langtíma
skoðun og sjónrænni upplifun.
Það er því skiljanlegt af hverju
djúpfræðilegar listtegundir eins
og t.d. súrrealisminn og dada-
isminn hafa aldrei höfða til ís-
lenskra listamanna. Aftur á
móti eru þeir fljótir að tileinka
sér expressionisma, lýríska
abstraktion og nú Nýja mál-
verkið þar sem spurningin er
umfram allt að túlka tilfinn-
ingalegt ástand.
Frjálst íslenskt
málverk
Með Nýja málverkinu fær
olíumálverkið uppreisn æru í
bókstaflegri merkingu. Ennfr-
emur hefur nú verið brotin upp
þessi einstefna, ísland — Hol-
land, sem einkenndi hvað mest
Coneeptlistina. Nú sækja ís-
lenskir listamenn menntun til
ólíkra menningarsvæða og þá
sérstaklega til Italíu, Þýska-
lands og Bandaríkjanna.
Um þessar mundir hefur
fjöldi ungra íslenskra lista-
manna tileinkað sér Nýja mál-
verkið eins og sjá má af þeim
sýningum sem renna í gegnum
Nýlistasafnið. En einn sá at-
hyglisverðasti af þessum ungu
listamönnum er eflaust Helgi
Þorgils Priðjónsson, sem einna
fyrstur innleiddi þetta myndmál
hérlendis. Þó listamaðurinn sé
ungur að árum (fæddur 1953) á
hann þegar að baki feril hlaðinn
listaverkum, þar sem í upphafi
má greina ákveðin tengsl við
þekkta erlenda listamenn eins
og t.d. Picasso og Voss en lista-
manninum hefur síðar tekist að
framleiða einkar persónulegan
stíl þar sem frásagnartæknin
brýtur upp og riðlar öll hefð-
bundin gildi um teikningu,
myndbyggingu, víddir og tíma.
Ekki getum við talað um tján-
ingarofsa í verkum listamanns-
ins líkt og er algengt í-Nýja mál-
verkinu, heldur virðast mynd-
verkin þrælskipulögð og hver
hlutur nákvæmlega skilgreindur
og læsilegur. Þá eru athyglis-
verðar þessar fígúrur/styttur,
sem virka líkt og tákn í verkum
listamannsins og minna okkur á
skyldar fígúrur í ítalska nýmál-
verkinu, sem raktar hafa verið
til listmálarans De Chirico en
eins og fram hefur komið hefur
hann haft djúp áhrif á mynd-
heim ítalska trans-avant-
gardsins.
Þá má einnig nefna fleiri nöfn
eins og Kristin G. Harðarson
sem einnig tengist ítalska mál-
verkinu, Jón Axel sem kom fram
með athyglisverð myndverk á
síðastliðnu ári, Valgarð Gunn-
arsson, sem verið hefur í New
York og sýndi í Nýlistasafninu
ekki alls fyrir löngu. Og Kjartan
Ólafsson, sem einnig hefur dval-
ist í New York og væntanlega
kynnst enn einu sjónarhorni á
hið nýja frjálsa málverk. Og
ekki skulum við gleyma sjö ungu
listamönnunum sem sýndu í
Norræna húsinu á síðastliðnu
hausti.
Sagt er að nú sé öll unga ís-
lenska listkynslóðin sest við
trönurnar með léreft, pensla og
liti. Þetta er því málarabylgja
þar sem myndverkin gerjast
Framhald á hl.s. 16
x>
Af skáldsnilld Marquesar
og vizku Císeros
„Sendu mér Rabb, góði Gnð-
mundur,“ sagði Gísli umsjónar-
maður Lesbókar við mig gegnum
rándýran símaþráðinn milli
Reykjavíkur og Selfoss.
„Kannski éggeri það núna, Gísli.
minn góður, ég er svo oft búinn að
neita þér um sams konar bón. En
geturðu stungið upp á einhvurju
efni, sem éggæti hugsanlega rabb-
að um á þremur vélrituðum síð-
um ?“
„Gætirðu ekki skrifað um bæk-
urnar sem þú last um síðustu jól,
það er gott efni.“
„Jæja, þú segir það, vandkvæð-
um er það nú samt bundið. Ég er
orðinn latur að lesa mikið í seinni
tíð. Það er af sem áður var, þegar
ég reif í mig hérumbil allt sem
gefið var út. Ætli ég hafi lesið
meira en svo sem fimm eða sex
bækur núna um jólin. Mér er svo
sem sama þó að ég segi þér nöfn
þeirra, því að þetta eru allt góðar
bækur. En ég ætla að treysta þér
og öðrum sem lesa rabbið til þess
að taka skýrslu mína um lesnar
bækur á síðustu jólum ekki sem
yfirlýsingu þess efnis, að þetta séu
bestu bækurnar sem völ var á.
Margar þeirra mörgu bóka,sem ég
las ekki, kunna að vera eins góðar
eða betri en bækurnar sem ég las.
Kæru skáld og rithöfundar takið
umfram allt ekki orð mín á þann
veg, að ég sé búinn að raða ykkur
eftir gæðum eða greiða ykkur at-
kvæði með tölustöfum, fyrsti, ann-
ar, þriðji, eins og gert er í próf-
kjörum stjórnmálaflokka þessa
dagana vegna væntanlegra alþing-
iskosninga.
Nokkrar þeirra bóka, sem mér
bárust fyrir jólin hefur mér enn
ekki gefist tóm til að lesa, en hér er
skrá yfir þær sem ég hef lokið við:
„Frásögn um margboðað morð“
eftir nýjasta Nóbelsverðlauna-
skáldið Gabriel Carcia Marques,
„Hjartað býr enn í helli sínum, “
grátbrosleg satýra um nútímalíf í
Reykjavík eftir Guðberg Bergsson,
„Misskipt er manna Iáni“, vand-
lega unnir þjóðlífsþættir úr
Skagafirði, eftir Hannes Péturs-
son, „Ragnar í Smára“, litskrúðug
lífssaga Ragnars, í formi 14 við-
tala, afar myndskreytt og fallega
útgefin, eftir Ingólf Margeirsson,
„Ingólfur á Hellu“, merk stjórn-
málasaga og ævisaga Ingólfs, eftir
Pál Líndal, og að síðustu „ Um ell-
ina“ eftir Marcús Túllínus Císero.
Allt eru þetta bókmenntaverk af
besta tagi. Og sem fyrr segir, þá
bíða nokkrar af jólabókum mínum
þess enn, að ég ljúki þeim upp og
að ég ljúki mér sjálfum upp fyrir
þeim.
Þrjár vélritaðar blaðsíður
Rabb-dálks Lesbókar rúma auðvit-
að ekki lýsingar svo nokkru nemi á
þeim bókum, sem nefndar eru hér
að framan, tveimur þeirra ætla ég
þó að víkja svolítið nánar að:
Mikill skáldsnillingur er Col-
umbíumaðurinn Marques, það verð
ég að segja. Þetta er þriðja bókin
sem ég les eftir hann, í afar góðri
þýðingu Guðbergs Bergssonar. Þó
að sagan snúist um morð á glöðum
og góðum dreng og morðingjarnir
tveir séu vinir hans, þá er enginn
glæpur framinn — í venjulegum
skilningi. Morðingjarnir eru að-
eins knúðir til voðaverksins til að
endurheimta það sem þeim er
dýrmætast og þeir geta síst án
verið: heiður sinn og sóma. Þó að
lesandinn viti frá upphafi hvur
drepinn verður og hvurjir það eru
sem ætla að drepa, þá hríslast um
mann mögnuð spenna alla bókina
á enda.
Aðferð höfundarins er sú, að 20
árum eftir að þessir atburðir gerð-
ust, gengur hann milli allra þeirra
þorpsbúa,sem enn muna þessa
sóttheitu brúðkaupsnótt og
ógnarlegar morgunstundirnar sem
á eftir fóru, þegar nálega hvurt
mannsbarn vissi að eftir stundar-
korn mundi blóði verða úthellt,
nema fórnarlambið eitt, sem ekk-
ert grunaði. Höfundurinn týnir
saman endurminningabrot fólks-
ins um það sem fyrir það bar, svo
að þetta minnir dálítið á réttar-
rannsókn, og smátt og smátt rað-
ast brotin saman og verða að heil-
steyptri og áhrifamikilli mann-
lífsmynd. Marques tekst það sem
er á fárra færi: að gera það fjar-
stæðukennda jafn trúanlegt og það
raunsæilega, líkt og víða er að
finna í fornsögum okkar. Þetta á ef
til vill fremur við um skáldsöguna
„Hundrað ára einsemd“ en hinar
tvær, sem Guðbergur hefur þýtt á
íslensku, eftir Marques.
Að lokum vil ég víkja að bókinni
„Um ellina“ eftir Císero.
Meira en tvö þúsund ár eru síð-
an hún var rituð, en ekki virðist
fjarlægð tímans hafa mistrað upp-
runalega heiðríkju hennar, enn er
hún tær. Framsetning höfundar-
ins og boðskapur virðast eiga er-
indi við okkurjafnt sem Rómverja
hina fornu.
Þó að nemendur í menntaskól-
um hafi lengi lesið bókina sem
námsbók í látinu,,, Cato maior de
senectute“, þá hef ég öngvan hitt,
sem man hvað í henni stendur.
Fólk virðist hafa lesið orð hennar
án samhengis og ekki hafa hirt um
efnið. Kjartan Ragnars hefur nú
þýtt hana fyrir „Hið íslenska
bókmenntafélag“, sem gaf hana út
skömmu fyrirjól.
Císeró leggur Cato hinum eldri í
munn speki sína um ellina, vinur
hans Scípíó spyr og hlustar á svör-
in:
„þeir sem ekki hafa tök á að
áorka neinu sér til farsældar í líf-
inu, þeim er sérhvurt aldursskeið
þungbært. Þeir sem á hinn bóginn
leita lífsins gæða hið innra með
sér, þeim verður ekkert það vand-
meðfarið sem lögmál lífsins hefur í
för með sér. Á það einkum við um
ellina, sem allir þrá að höndla, en
fárast svo yfir þegar hennar verð-
ur vart-------Og þar sem náttúr-
an hefur hagað öðrum þáttum
mannlegs lífs við hæfi, þá er ekki
Iíklegt, að hún kasti höndunum til
lokaþáttarins eins og hroðvirkt
skáld.--------Öldungar sem rata
meðalhófið og eru hvorki upp-
stökkir né önugir eiga þolanlega
elli. Fyrtni og önuglyndi eru hins
vegar sérhvurju aldursskeiði til
mæðu.---------Þegar ég hugleiði
þessi málefni kem ég auga á fjórar
ástæður til þess að menn telji ell-
ina ömurlega: Þá fyrst að ellin
svipti menn starfshæfni, í öðru
lagi að hún veikli líkamann, hin
þriðja að hún ræni oss næstum öll-
um lystisemdum, og fjórða að hún
sé fyrirboði dauðans-------“
Allar þessar ástæður eru vegnar
og léttvægar fundnar í vandkvæð-
um rökstuddum ályktunum Císer-
ós. Heyrum að lokum hvað hann
scgir um dauðann:
„Xenófón lætur Kýros eldri
komast svo að orði á banadægri:
„Synir mínir elskulegir, gerið
yður ekki í hugarlund að tilvist
minni sé lokið er ég hverf héðan.
Meðan ég dvaldist meðal yðar,
sáuð þér ekki sál mína, en ályktuð-
uð af athöfnum mínum, að hún
væri í líkamanum. Trúið því fram-
vegis að hún sé enn við lýði, jafn-
vel þótt þér sjáið engan.-----
Ég hef aldrei fellt mig við þá skoð-
un, að önd vor lifi aðeins meðan
hún býr í líkamanum, en tortímist
er hún hverfur þaðan, né heldur að
hana bresti skyn er hún skreppur
úr skynlausum líkama. Miklu frek-
ur held ég að viska hennar dafni
þegar hún hrein og ómenguð losn-
ar úr læðingi. Enn fremur er auð-
sætt hvað verður að efniseindum
líkamans, þegar dauðinn hefur
skilið að hold og anda, enda hverf-
ur það allt til upphafs síns. En sál-
in er ósýnileg jafnt í þessu ljósi
sem öðru.“
Ég verð að setja punktinn hér.
Rabbið á sinn afmarkaða bás í
Lesbók, og líklega er ég orðinn að-
eins of rúmfrekur.
Guðmundur Daníelsson
11