Lesbók Morgunblaðsins - 06.09.1986, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 06.09.1986, Blaðsíða 7
Mynd: Hallgrímur Helgason Lífsvænting Smásaga eftir Hafliða Vilhelmsson að var snemmbært vor og bjartsýnt í sólskininu. Stöð- ugur straumur ánægðra ungmenna lá upp og niður Laugaveginn og bílarnir stóðu fastir í umferðarstíflu með rúðurnar skrúfaðar niður. Unga fólkið er fallegt, hugsaði Jóna sem stóð fyrir utan bakarí og taldi peningana í buddunni. Það verður myndarlegra með hverju árinu sem líður. Ekki áttum við svona föt í mínu ungdæmi. Ekki einu sinni spari- fötin okkar voru eins vönduð og hvers- dagsklæðnaður unglinganna þessa. Herrarnir hugsa so vel um hárið og allir með bindi í stórköflóttum skyrtum og hvítum skóm. Snyrtimennskan virðist þeim í blóð borin og í hávegum höfð hjá þeim flcstum. Ekki eru stúlkurnar neinir eftirbátar, svo shikk eins og dóttir mín segir. Allar með sólgleraugu og sér ekki krumpu á fötunum þeirra. Fijálsar og fallegar í fasi og geisla af gleði. Guð má virta að á þeirra aldri vorum við bara börn. Unga fólkið er svo bráðþroska nú til dags. Naumast það er úrvalið í brauðbúðinni. Varla hægt að nálgast venjulegt brauð. Nú er allt heilsu- og korna. Það vantar ekki að mönnum sé umhugsað uin kroppinn en skyldi ekki sálin verða útundan? Hygginn veit að líkaminn hrörnar, visnar og deyr en sálin lifir. Nei, takk, það var ekki fleira. Jóna smeygði sér út um dyrnar, fékk glýju í augun af glampandi sólskininu og rakst utan í dökkklæddan, ungan mann. Passaðu á þér spaðana, beljan þín! hreytti ungi maðurinn út úr sér án þess að bæra varirnar og Jónu fannst hún mæna í illsku- leg augu fuli af hatri og lífsfyrirlitningu, ena—' IH— samt voru augun skýld með rauðum sólgler- augum. Ungi maðurinn strunsaði áfram, reigingslegur og það brakaði í slitna mótor- hjólajakkanum og small í svörtu leður- buxunum. Það dimmdi yfir Jónu, eins og dagurinn hafði verið ágætur fram að þessu. I vinn- unni hafði forstjórinn hrósað henni fyrir það hvað hún stæði sig vel á símanum og svo þurfti þessi deli að slengjast utan í hana og hreyta í hana fúkyrðum. En Jóna mátti ekki láta neinn dóna verða til að eyðileggja yrir sér daginn. Það var fundurinn til að hlakka til. Hugsa sér þetta fína fólk ætlar að koma í kaffi til mín í kvöld, hjá mér óbreyttri símamær — og ein- stæðri móður! séra Andrés tók engar mótbárur til greina og sótti það fast að fundurinn yrði heima hjá mér. Vonandi verð- ur það mér ekki til hnjóðs að bera á borð fyrir það búðarkökur. Það gafst enginn tími til baksturs, þetta bar nokkuð brátt að. Jæja, ef ég hraða mér niður á Torg ætti ég að ná sexunni heim. Jóna hagi-æddi sér og innkaupapokunum í gluggasæti framarlega í vagninum því hún vildi forðast hugsanleg ólæti unglinga aft- ar. Hún var naumast sest er vagnstjórinn kom arkandi út úr Nýja Smjörhúsinu, með ujipbrettar ermar, reykjandi pípu og hélt á skiptimiðavélinni í hendinni. Vagninn mjakaðist suður Lækjargötuna og hirti upp seinkomna farþega í leiðinni, þar á meðal tvo óartarlega unga menn á slitnum leðuijökkum, úfið hárið hékk niður herðar. Hún þekkti hann strax þótt nú væri hann ekki með rauðu sólgleraugun, þetta var dóninn sem atyrti hana fyrir utan bakaríið. Hann var bólugrafinn og ljótur með dökkan hýjung á eftir vör, marðar- augu. Félagi hans var litlu álitlegri, báðir voru þeir eins og útsukkuð skör þótt ungir væru að árum. Jónu varð ósjálfrátt hugsað til myndanna utan á Filjómplötum dóttur sinnar. Það var nú ljóta hávaðamúsíkin og varð stundum tilefni til ósamkomulags á heimilinu. En Jóna þurfti ekki að kvarta, hver hefur sinn smekk ogyfirleitt kom þeim mæðginum vel saman og á milli þeirra ríkti gagnkvæm- ur trúnaður, engin leyndarmál þar. Hún var heppin að eiga normalt barn. Stína var vel liðin í tískuversluninni þar sem hún hafði unnið í nokkra mánuði og ekki fékkst hún við neitt vafasamt. Auðvitað hafði hún próf- að hass eins og hver annar unglingur á hennar reki, því hafði hún fúslega trúað mömmu sinni fyrir þegar þær ræddu þessi mál í kjölfar sjónvarpsþáttar um eiturlyf. Stína sagðist ekki kæra sig um nein sljóvg- andi eiturefni, að sjálfsögðu smakkaði hún vín svona endrum og eins þegar tilefni gafst en það telst víst engin ósköp nú á dögum. Leðurklæddu ódámarnir þurftu endilega að setjast í sætin beint fýrir aftan Jónu og henni var ekkert um það gefið. Hún horfði í gaupnir sér, las krotið á sætisbakinu fyrir framan. Óttalegt hvað sumir þurfa að opin- bera saurugan hugsunarhátt sinn, það er ekki borin virðing fyrir neinu. Allt skal eyði- lagt, sætin í vögnunum, símaklefar, blómin á Austurvelli, heilu trén rifin upp með rót- um. Það veitti ekki af að veita þessum skemmdarvörgum ærlega ráðningu. Vagninn brunaði upp Túngötuna og um Kristskirkju var búið að slá upp vinnupöll- um. Það varð óbermunum tveimur að baki tilefni til að flimta með trúmál. Sjáðu, sagði dóninn við giuggann. Nú er trúin orðin svo veik að kirkjan þarf að styðj- ast við stillansa. Svo hlógu þeir báðir og rýttu eins og svín. Hey, sagði hinn. Hefurðu heyrt þennan? Veistu af hveiju þeir hafa presta á kaþólsk- um fóstureyðingarstöðvum? Nei, svaraði dóninn. Af því þeir segja að fóstrin hafi sál og því verður að skíra frumuklumpinn áður en honum er sturtað niður. Annars fer allt í Limbó og tja, tja, tja. Jónu blöskraði ósvífnin í þessum ung- mennum og henni var svo heitt í hamsi að hún sneri sér við til að gefa þessum dónum ærlegt orð í eyra en þá voru þeir að hoppa upp úr sætunum og sá fremri sagði við hinn: dinglaðu, mar! Eg skal hringja, sjálfur geturðu dinglað í gálga, skaufinn þinn! Æi, þið íslenskustúdentar getið varla tal- að fyrir málfræði! Jóna sá á eftir þeim þar sem þeir rudd- ust út með hamagangi og látum. Hún var miður sín af hneykslun. Hvar ólust svona dólgar upp? Varla hjá sómakærum foreldr- um. En það má enginn vera að því að sinna uppeldi núorðið, það er bara hugsað um að skemmta sér og bömunum ýtt út á götu. Árangurinn lætur ekki á sér standa. Þetta þurfti ég nú að leggja hart að mér að koma Stínu minni á legg og ekki var mikið um skemmtanir hjá mér, nei ég mátti sko þræla og púla til að skila mínu hlutverki. En ég gerði mér grein fyrir ábyrgðinni. Ég var ekki eins og þetta unga fólk sem lítur út fyrir að vera þroskað en er svo bara ábyrgð- arlaust og göslar áfram hrópandi á frelsi, frelsi. Frelsi til að vera ábyrgðarlaus. Jóna hafði ærinn starfa þegar heim kom, þrífa, þeyta ijóma, baða sig og snurfusa og klæða sig upp. Hún hafði átt von á dótt- ur sinni sér til aðstoðar en klukkan varð átta og níu og ekki bólaði á henni og enn var hún ekki komin þegar fyrstu gestina bar að garði. Við hvetju má svosem búast af ódönnuð- um götustrákum? spurði Jóna gestina sem hlýddu alvarlegir og þungir á brá. Hún var að segja þeim frá viðskiptum sínum við dónann og orðaskiptunum í strætisvagnin- um. Við hvetju er að búast? Þeir enduróma aðeins það sem liggur í lögunum og þessi drápslög eru nú einu sinni samin af okkar háa Alþingi. Já, þetta eru sannarlega guðlausir tímar, erfíðir tímar sem við lifum, tók séra Andrés undir. Á hveiju ári eru um það bil sex hundr- uð böm svipt réttinum til lífsins, það verður að stoppa. Halla, fyrrverandi ljósmóðir kinkaði kolli í samþykki. Einhvem tímann hefði það þótt ámælisvert að frelsið væri svo óbeislað að ekkert sé lengur heilagt. Mér verður hugsað til allra þeirra þúsunda barna sem ég tók á móti. Ekki fæddust þau nú öll inn í góðar félagslegar aðstæður, félagslegar aðstæður, ha! En hvað sýnist mér, flest hafa þessi böm vaxið upp og orðið nýtir þjóðfélags- þegnar. Já, ætli þau væm öll á lífi ef þau væm getin í dag? spurði Örn guðfræðinemi og einn helsti hvatamaðurinn að þessum undir- búningsfundi til stofnunar Lífsvæntingar, félags til aðstoðar ófæddum börnum. Unga kynslóðin veit vel hvað hún er að gera, laus- lætið er viljaverk en ekki sjúkdómur en það er eins og unga fólkið kæri sig ekki um að taka afstöðu til þessara mála. Það flýr raun- vemleikann, þvær hendur sínar, heiglar, liggur mér við að segja. Ekki stóð okkur til boða að láta bara drepa börnin okkar i móðurkviði, skaut Jóna að. Og það er víst að ekki kærðum við okk- ar allar um að ala börn, varla upp úr barnsskónum! Ekki stóð vel á hjá mér þeg- ar ég gekk með hana Stínu mína en að mér hefði hugkvæmst að vilja losna undan afleiðingum gjörða minna. Nei, þá var ekki sífellt verið að hrópa á frelsi, frelsi! Já, hvar er dóttir þín? spurði séra Andrés blíðlega, þó ert þó ekki að fela þessa sextán ára blómarós fyrir okkur? Ætli hún sé ekki í bíó með unnustanum sínum? sagði Öm guðfræðinemi í gaman- sömum tón. Þetta er nú einmitt tími fyrir rómantíkina; fjólublátt kvöld í Reykjavík. Jóna fór hjá sér. Ég hef nú ekki orðið mikið vör við strákastand á henni Stínu minni en þó hef ég haft ávæning að hún ætti vin sem er í háskólanum, eitthvað var hún að ýja að því um daginn, hún dóttir mín. Barasta stúdent? Ánægjan leyndi sér ekki hjá Höllu ljósmóður. Það fer vel á því að hún velji sér menntamann. Frammi var snúið lykli og Jóna heyrði að útidyrnar voru opnaðar. Ætli hún sé ekki að koma heim núna, sagði hún og af- sakaði sig við gestina. Loks var áhyggjunni af henni létt, sannast sagna hafði hún verið farin að undrast um dóttur sína. Hún gekk fram á Stínu í forstofunni. Stína var náföl og lúpuleg og studdi sig upp við ungan ófrýnilegan mann sem bar rauð sólgleraugu. Mamma, hvíslaði Stína, hásum rómi. Mamma, það er dáldið scm ég verð að segja þér. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 6. SEPTEMBER 1986 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.