Lesbók Morgunblaðsins - 21.01.1995, Blaðsíða 1

Lesbók Morgunblaðsins - 21.01.1995, Blaðsíða 1
• ' jr Stofnuö 1925 Aldarafmæli Davíðs Stefánssonar ÆSKAOG ÆSKUSTÖÐVAR eftir Gísla Jónsson DAVÍÐ Stefánsson. Teikning eftír Örlyg Sigurðsson. 3. tbl. 21. JANÚAR 1995 - 70. árg. Davíð Stefánsson skáld fæddist í Fagraskógi 21. janúar, 1895. Af því tilefni er Lesbók helguð honum. Hér segir frá uppvexti Davíðs, æskuheimili, skólanámi, veikindum og svo þeirri ákvörðun hans, sem fram kemur í bréfi til Ólafar húsfreyju á Hraunum þegar hann er 19 ára, að hann ætlar að verða skáld. „Líf fólksins, búskap og aflabrögð, læt ég mig einnig nokkru varða. Allt treystir þetta gömul tengsl við hlíðina og fjörðinn." (í haustblíðunni 1963). Þegar jörð var tekin að grænka á Galmaströnd við Eyjafjörð vorið 1890, giftust Ragnheiður Davíðsdótt- ir og Stefán Baldvin Stefánsson. Nú tók að rofa til eftir mestu harðindi síðari tíma á Norðurlandi. Ungu hjón- in voru vondjörf og hraust og settu bú í Fagraskógi. Þar er skammt til sjávar og gagn af útræði. Brátt fæddust mannvænleg börn og döfnuðu vel, alin á mjólk og sauðakjöti, fiski sjódregnum og þar með lifur og lýsi. Fyrst fæddust meyjar þrjár með skömmu millibili: Þóra, Sigríður og Guðrún; síðan fjórir sveinar: Davíð, Stefán, Valgarður qg (miklu yngstur) Valdimar. Stefán Stefánsson prests Árnasonar, bóndi í Fagraskógi, naut mikils trúnaðar sveitunga og sýslunga. Á tíunda hjúskaparári þeirra Ragnheiðar var hann kosinn á þing, en þar átti hann um það bil tvítuga setu, þó ekki óslitna. Hann stundaði bæði landbúskap og sjósókn. Hann átti bæði sexæring og fjórróið far. Skömmu fyrir aldamót var bú hans orð- ið með blóma. í Fagraskógi var til dæmis margt sauð- fjár á út-eyfirskan mælikvarða. Árið 1895 galt Stefán mest til almannaþarfa allra bænda í Arnarneshreppi, enda var þá tvíbýli á Möðruvöllum. Elsti sonurinn í systkinahópnum í Fagraskógi fædd- ist 21. janúar 1895. Hann hlaut nafnið Davíð. Ekki veit ég hvort foreldrunum hefur verið kunn merking þessa fornfræga nafns: elskaður, kær, en þó er það lík- legt. Og vafalaust hefur hann verið kærkominn. En ekki þarf að seilast um hurð til lokunnar. Sveinninn hét auðvitað eftir móðurföður sínum, Davíð Guðmunds- syni prófasti á Hofi í Hörgárdal. Sá þótti bæði mikill af sjálfum sér og var vel kvæntur. Hann átti Sigríði, dóttur Ólafs Briems, hins fjölgáfaða og listhaga timbur- meistara á Grund í Eyjafirði. Ólafur þótti mest prýða bóndastöðuna í Eyjafirði um sína daga. Hann var ein- kennilega vel hagmæltur, en ætlaði sér ekki hátt sæti á skáldabekk. En gáfan bjó í blóðinu. Sigríður maddama á Hofi og Hannes Hafstein ráðherra voru þremenning- ar. Amma Davíðs skálds var slík kona, að sr. Matthías Jochumsson, sem tíðum komst minnilega að orði, sagð- ist ætla að dansa við hana fyrsta dansinn í himnaríki. Sonur þeirra sr. Davíðs og frú Sigríðar var Ólafur nátt- úrufræðingur og þjóðfræðasafnari. Oft átti Davíð Stef- ánsson ungur dvöl á Hofi. Umdi þá kringum hann tónn þjóðvísunnar sem hann endursöng í fyrstu ljóðum sínum af sérkennilegri list og háttvísi. II „Faðir minn hafði yndi af fögrum kveðskap og las þannig. . . að aðdáun hans leyndi sér ekki." (Kynni mín af séra Matthfasi 1959.) Davíð hefur lýst því, svo að ekki gleymist, er faðir hans las fyrir hann einan áheyrenda Víg Snorra Sturlu- sonar eftir séra Matthías. Þá var Davíð átta ára, og

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.