Alþýðublaðið - 28.06.1983, Blaðsíða 6

Alþýðublaðið - 28.06.1983, Blaðsíða 6
6 Þriðjudagur 28. júní 1983 Það var þungbúinn sunnudag- ur þegar síminn hringdi vestur á Hjarðarhaga, færandi þá fregn að hann Vilmundur væri dáinn. Ekki hef ég í annan tíma staðið jafn skelfdur andspænis lögmálum lífsins. Hvers vegna fékk hann ekki að vera lengur hjá okkur? Spurningarnar sóttu á hugann meðan horft var út í rigninguna. Leiðir okkar Vilmundar Gylfa- sonar lágu saman þegar hann var tæplega þrítugur. Þótt hann væri þá röskum áratug eldri urðum við fljóttgóðir vinir. Þau ár sem siðan eru liðin hef ég orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa náið með honum, bæði i pólitík og blaða- mennsku. Fyrst í Alþýðuflokkn- um og á Alþýðublaðinu en síðar á Nýju landi og í Bandalagi jafnað- armanna. Félagsskapurinn við þennan greinda og góðviljaða mann hefur verið mér ómetanleg- ur og lærdómsríkur. Með honum var auðvelt að deila sorgum sínum og gleði, enda stóð hann alltaf eins og klettur við hlið vina sinna. Sumurin á Alþýðublaðinu gerð- ust stundum nokkuð lífleg, full lífleg fannst sumum. Vilmundur gat ekki hugsað sér að kröftunum væri eytt í smeðjuleg viðtöl við flokksmenn. Hann vildi vera ær- legur og setja réttlætistilfinning- una ofar flokkshagsmunum. Þeg- ar aðrir hvísluðust ætlaðist hann til að við töluðum tæpitungulaust svo enginn færi í grafgötur með hvað við væri átt. Éigi einhver þá einkunn skilið að hafa verið hamhleypa til vinnu þá er það Vilmundur. Sínar bestu blaðagreinar skrifaði hann gjarn- an á tíma sem venjulegir menn þurfa til að setja sig í stellingar. Hann skildi að stór orð eru nauð- synleg til að ýta við fólki og fá það til að hugsa. Þetta segir lítið um hann en mikið um okkur. Rit- skoðun og tálmanir hvers konar voru eitur i beinum Vilmundar. Aðgangur að fjölmiðlum átti að vera einn helgasti réttur hvers manns. Þegar Vilmundur ritstýrði og andstæðingarnir vildu koma höggi á hann var ekki við annað komandi en að slá greinum þeirra myndarlega upp á besta stað — helst í hátíðarramma ef pláss leyfði. Vilmundi sárnaði þegar dagblöð fóru óvirðulega með greinar gagnrýnenda sinna. Fyrir þrennar alþingiskosning- ar fylgdi ég Vilmundi á vinnu- staðafundi hér í Reykjavík. Oft var hann baráttuglaður en aldrei eins og núna í vor. Á síðustu þrem vikum kosningabaráttunnar hélt hann fleiri tugi áróðursfunda í borginni. Eins og gengur reyndu andstæðingarnir einstaka sinnum að hrópa hann niður í upphafi funda. Á slíkum stundum fór Vil- mundur á kostum og tókst best upp. Nær undantekningalaust urðu þetta bestu og ánægjuleg- ustu stemmningsfundirnir, end- uðu með dynjandi lófataki. Ekki svo að skilja að gömlu íhaldsjálk- arnir hefðu nú allt í einu turnast og hætt að vera ósammála Vil- mundi. Nei, skýringin var sú að þeir fundu að þessum manni var alvara og honum gekk gott til. í stað þess að hafa í frammi fagur- gala sagði Vilmundur aðeins: Við viljum reyna og mér finnst það til- raunarinnar virði. Án fjármagns, flokksvélar og málgagns vildi hann bjóða fjórflokkunum byrg- inn. Nú skyldi hann standa og falla með sjálfum sér og vinum. sínum. Þegar við í nóvember síðast- liðnum ræddum fyrst um það í al- vöru hvort gerlegt væri að stofna nýja stjórnmálahreyfingu sem byði fram um allt land í komandi kosningum töldu flestir öll tor- merki á hugmyndinni. í fyrsta lagi allt of naumur tími. Ekki tækist að töfra fram 120 frambjóðendur ásamt hundruðum meðmælenda í öllum kjördæmum á þessum skamma tíma. í annan stað fengi hann ekki liðsauka á þingi og lík- legast myndi tiltækið fella hann sjálfan. Þegar síðast taldi mögu- leikinn var nefndur sagði Vil- mundur: Þá stend ég bara upp, þakka fyrir mig og tek til við ljóð- in og skákina. Það virðist kannski þverstæðukennt en honum fannst alls ekki óþægilegt að velta þess- ari hugsanlegu niðurstöðu fyrir sér. Hann tók þátt í stjórnmálum til að afla skoðunum sínum fylgis. Gengi það ekki eftir voru vegtyll- urnar einskis verður hégómi. Þótt Vilmundur hafi fyrst og fremst verið kunnur vegna stjórn- málaþátttöku sinnar átti hún síð- ur en svo hug hans allan. Mér eru ógleymanlegar þær stundir þegar setið var yfir kaffibolla og spjall- að um lífið og tilveruna. Þegar talið barst að innihaldsríkri ljóð- list færðist Vilmundur allur í auk- ana. Ljóð eins og Yngismey eftir Davíð, þar sem ort er um mann- legar tilfinninga'r, þótti honum vænst um. Sjálfur var hann mjög tilfinninganæmur, en þó laus við það sem við köllum tilfinninga- semi. Seinustu misserin var Vilmund- ur óþreytandi við að útskýra fyrir mér mannkærleik anarkismans, þessarar misskildu stjórnmála- stefnu sem ranglega hefur verið kennd við stjórnleysi. Ég hygg að menn hafi almennt ekki gert sér grein fyrir því hve frjálslyndi var ríkur þáttur í lífsafstöðu hans. Honum fannst óskir manna, von- ir og þrár svo margbreytilegar að dauðlegir valdsmenn hefðu ekki rétt til að setja fólki úrslitakosti í lifinu. Innst inni hafði hann óbeit á öllu valdi. Fyrir kom að stjórnmálabarátt- an varð miskunnarlaus og olli sár- um. Þó að lagt væri til Viimundar með ósæmilegustu vopnum minnist ég þess ekki að hann hafi borið kala til nokkurs manns. Þvert á móti fannst mér það nokkrum sinnum horfa til hreinna vandræða hve fljótur hann var að fyrirgefa og gleyma. Vilmundur velti mikið fyrir sér heimspekilegum og siðferðilegum spurningum, spurningum um gott og illt, rétt og rangt. Þá var það ekki síst sjálft lífið, hamingja þess og harmar, sem honum fannst mikilvægt að brjóta heilann um. Mannlífið var honum óþrjótandi uppspretta til íhugunar. Vilmund- ur leitaði víða fanga og var stór- fróður um hinar aðskiljanlegustu lífsskoðanir manna. Hann sagði til dæmis að einar skemmtileg- ustu stundir námsára sinna í Bret- landi hefði hann átt í rökræðum um eilífðarmálin við katólska presta. Virðing fyrir fólki var Vil- mundi í blóð borin. Þótt hann gagnrýndi af hörku neitaði hann að trúa því að maðurinn sjálfur væri slæmur í hjarta sínu. Trúin á mannfólkið og traustið til sam- ferðamannanna var með ólíkind- um. það er þyngra en tárum taki að þurfa nú að kveðja Vilmund og þola þá tilhugsun að eiga ekki eft- ir að hitta hann framar. Við sem höfum óttast að dauðinn sé lífsins grimmi vetur reynum í dag að halda höfði og trúa hinu gagn- stæða. Þegar ég nú kveð hann Vimma í síðasta sinn langar mig að láta fylgja ljóð sem stundum var haft yfir á Haðarstígnum. Frœndi, þegar fiðlan þegir, fuglinn krýpur lágt að skjóli, þegar kaldir vetrarvegir villa sýn á borg og hóli, sé ég oft í óskahöllum ilmanskógum betri landa, Ijúflíng minn sem ofar öllum íslendíngum kunni að standa, hann sem eitt sinn undi hjá mér einsog tónn á fiðlustrengnum, eilíft honum fylgja frá mér friðarkveðjur brottu geingnum. Þó að brotni þorn í sylgju, þó að hrökkvi fiðlustreingur, ég hef sœmt hann einni fylgju: óskum mínum hvar hann geingur. (HKL) Sé Guð til þá treysti ég honum fyrir vini mínum. Megi þessi góði drengur sofa rótt í kyrrð hinnar hljóðu nætur. Garðar Sverrisson í dag, er Vilmundur Gylfason er til moldar borinn situr í hjart- anu djúpur harmur og eftirsjá. En samhliða rifjast upp minningarn- ar frá mörgum samveru og bar- áttustundum þau ár er við störf- uðum saman í baráttunni fyrir betra og réttlátara þjóðfélagi. í framtíðinni munu rísa hátt minn- ingar um góðan vin og skemmti- legan félaga, og umfram allt mik- inn hugsjónamann er var tilbúinn til að leggja allt á sig til að koma hugsjónum sínum í framkvæmd. Ég sendi Valgerði og börnunum ásamt foreldrum hans og öðrum ástvinum, mínar innilegustu sam- úðarkveðjur. Garðar Sveinn Árnason Vilmundur Gylfason var skóla- bróðir minn allt til stúdentsprófs, bekkjarbróðir lengst af og vinur alla tið. Síðustu ár hafa samskipti okkar verið tilviljunum háð, en aldrei bar svo fundum saman að ekki gætti þeirrar vináttu, sem allt of lítill tími gafst til að rækja. Núna, þegar einmitt hverfleiki tímans minnir svo rækilega á sig, fyllist hugurinn eftirsjá og alveg nýjum spurningum um virði til- verunnar. Vimmi var hugvitsmaður svo margra uppátækja barna- og ung- lingsáranna að flestar minning- arnar frá þeim tímum eru mér jafnframt minningar um hann. Sú áræðni sem einkenndi hann, var ögrandi en oft örvandi um leið. Hann hafði kjark til að fylgja hugmyndum eftir, oft í einskærri og óvæginni stríðni en oftar vegna þess að hann hafði á þeim óbifan- lega trú og stóð við sína sannfær- ingu. Á þeim árum, þegar strákum finnast stelpur bara asnalegar, gat hann átt sér vinkonu fyrir jafn- ingja. Þegar ekki var þess nokkur leið að horfa beint í augu kennar- ans, stóð hann aldeilis ósmeykur og án þess að hvika. Þegar aðrir strákar söfnuðu Bítlahári, lét Vimmi krúnuraka sig. í harð- snúnum tíðaranda menntaskóla- áranna leyfði hann sér að vera við- kvæmur og tilfinningaríkur. Hann vogaði sér að hæðast að strákunum, sem ég varð skotin í og vissi fyrr en ég hver sá eini rétti myndi verða! Hann sagði mér 12 ára hvað jafnaðarstefna væri og löngu seinna, á háskólaárunum, hittumst við til að gagnrýna enskt skólakerfi og endurtúlka mann- kynssöguna. Heima hjá honum á Aragötunni heyrði ég fyrst lesið kvæði eftir Stein Steinar. Bók- menntir, tónlist, pólitík, saga, menn og málefni... ekkert var Vimma óviðkomandi og engin fór varhluta af áhuga hans. Hug- myndirnar komu oft dálítið flatt upp á okkur hin, en hjá því varð ekki komist að skoða sinn eigin hug nánar. Oftar en einu sinni urðu þær hugmyndir til að opna sýn af nýjum sjónarhóli. Hópurinn okkar, æskuvinir, sem lögðu saman á fullorðins- fjallið í saklausum galsa fyrir — að mér þykir núna — svo óra- löngu síðan, verður ekki samur eftir andlát Vimma. Við slitum barnsskónum saman í væntum- þykju systkina sem þoldi gagn- rýni og hrós, gegnum sömu göt- urnar til þroska og vorum einatt í augsýn hvors annars þótt leiðir skildu. Þessa dagana getum við ekki annað en staðið orðlaust en þéttar saman og treyst þau bönd hlýjunnar, sem bundust í bernsku. Mikið ef það var ekki Vimmi sem kenndi okkur að binda þannig. Ekki síst fyrir það þótti mér vænna um hann en flestar manneskjur aðrar. Ég mun ævinlega minnast hans. Völu, börnunum, foreldrum og bræðrum sendi ég samúðarkveðj- ur sem eru dýpri en svo að ég geti orðað þær nánar. Magdalena Schram Vilmundur Gylfason stóð ætíð skrefi framar okkur skólasystkin- unum. Hann þroskaðist bráðar en við hin, varð fyrr sjálfstæðari í orði og verki, og viðaði að sér þekkingu sem stóð utar og ofar námsbókum og leikjum æskuár- anna. Gáfur hans og skarp- skyggni samfara heiðarleika og ríkri réttlætiskennd gerðu Vil- mund að sjálfkjörnum foringja þegar í barnaskóla. Að hið eðlilega forskot Vil- mundar á tímann myndi einnig gilda um dánardægur hans, kom hins vegar sem reiðarslag. í kjölfar andlátsfregnarinnar siglir vanmáttur og tóm sem kveikir stopular myndir frá horfn- um tíma; strákapör barnaskólaár- anna, brothætt gelgjuskeiðið með ótal upphlaupum, menntaskóla- klikan sem í ófá skiptin sat langa daga og áliðin kvöld á Aragöt- unni, kyrjandi rómantíska skáld- texta og hlýðandi á margleiknar hljómplötur; þýskir búllusöngvar millistríðsáranna, Ink Spots og Golden Gate Quartet. í sömu stofu útskýrði Vilmundur fyrir okkur mónólóg Hamlets: Að vera eða vera ekki. Sú einræða átti eftir að einkenna allt starf hans og hugsjónir. Þetta voru ljúfir dagar, og síðar meir þegar árin höfðu klætt okkur í aðra og hefðbundn- ari leikbúninga, skildum við mik- ilvægi þessara stunda og treguð- um það frelsi sem þær færðu okk- ur. Ég minnist Vilmundar Gylfa- sonar með söknuði; en jafnframt með þakklæti fyrir skemmtilega og auðgandi samferð. Eiginkonu hans, börnum, for- eldrum og bræðrum votta ég dýpstu samúð. Ingólfur Margeirsson Ég kynntist Vilmundi Gylfa- syni árið 1975. Hann var þá að hefja störf í Alþýðuflokknum af fullum krafti. Öllum var þá þegar Ijóst, að þar fór foringjaefni, enda þótt fáa grunaði hve skjótur frami hans átti eftir að verða. Atvik höguðu því þannig til að við Vilmundur störfuðum mikið saman þegar í upphafi. Við sátum báðir í stefnuskrárnefnd flokks- ins, en það var mjög virk nefnd i þann tíma. Vilmundur var allra manna ólatastur til fundaferða- laga út um land og slóst ég oft í ferð með honum. Á slíkum ferð- um kynnast menn vel. Þetta var skemmtilegur tími. Alþýðuflokkurinn var í miklum uppgangi. Einkum var hreyfingin mikil meðal ungs fólks, en hinir eldri smituðust Iíka. Vilmundur var í fararbroddi fyrir ■ þessari hreyfingu, og potturinn og pann- an í flestu því sem upp kom. Það kom strax í ljós í hverju styrkur Vilmundar sem stjórn- málamanns var fólginn. Hann var mælskumaður mikill og gat brugðið öllu fyrir sig; tilfinning- um, fortölum og skynsamlegum rökum. Kjarkur hans og baráttu- þrek var með eindæmum. Þá var annar kostur hans, sem ég mat mikils, en það var sá ásetningur hans að hafa jafnan upp á málefni að bjóða og taka afstöðu. Hann var mjög hugkvæmur á málefni, sem til framfara horfðu og hljóm- grunn gátu fengið, en engu að síð- ur boðinn og búinn að taka undir hugmyndir annarra, þær sem honum fundust álitlegar. Allir þekkja þá útbreiddu tilhneigingu meðal stjórnmálamanna, að víkja sér undan því að hafa skoðanir og jánka því sem að þeim er rétt. Slík lognmolla var ekki að skapi Vil- mundar. Hann tók afstöðu og barðist fyrir henni af óbilandi þreki. Það fór auðvitað ekki hjá því að skoðanir hans og gjörðir yrðu umdeildar og stundum sýndist sitt hverjum. Umræður og fundahöld hafa sjaldan verið eins mikil í Al- þýðuflokknum og Vilmundur var oftast miðpunkturinn. Mælska og málefni voru ekki einu vopn Vilmundar. Þegar þau dugðu ekki beitti hann persónu- töfrum sínum og þar var af nógu að taka. Vilmundur var hrífandi maður i persónulegri viðkynn- ingu, en þeir töfrar streymdu ekki síður frá honum í fjölmenni, á fundum og jafnvel gegnum fjol- miðla. Þessu leynivopni beitti Vil- mundur oft þegar mikið lá við og dugði jafnan vel. Fáa menn þekkti ég, sem ekki báru góðan hug til Vilmundar persónulega, enda þótt menn greindi oft á um skoð- anir hans og athafnir í stjórnmál- unum. Þegar á leið fannst Vilmundi hann ekki eiga þann hljómgrunn hjá forystumönnum Alþýðu- flokksins, sem hann vildi eiga. Hann sagði þá skilið við Alþýðu- flokkinn og stofnaði sinn eigin flokk. Að því verki vann hann með sínum venjulega fítónskrafti. Það var Vilmundi líkt að aldrei varð þess vart í kosningabarátt- unni, sent fylgdi á eftir, að hann veittist að sínum gömlu sam- starfsmönnum sérstaklega eða Alþýðuflokknum yfirleitt. Og var þó ljóst að báðir sóttu fylgi á svip- uð mið. Okkur gömlum félögum Vil- mundar fannst auðvitað mjög miður að sjá honum á bak úr flokknum. Margir litu þó svo til að um tímabundið ástand væri að ræða og Vilmundur kæmi aftur fyrr eða síðar. Hann hélt áfram tengslum við ýmsa félaga sína úr Alþýðuflokknum og mætti áfram á fundum í jafnaðarmannafélag- inu Spörtu, litla málfunda- klúbbnum, sem við stofnuðum, þegar við vorum að byrja að vinna saman í stjórnmálum. Og nú er Vilmundur horfinn. Hann hafði svo djúp áhrif á þá sem þekktu hann, að það er sem eyða hafi komið í tilveruna. Mest- ur er missir ástvina hans, eigin- konu, barna og nánustu ætt- menna. Ég votta þeim mína dýpstu samúð og hluttekningu. Finnur Torfi Stefánsson • Dapur er hugur; dimmir dagar, því dáinn er hann, hinn hugumstóri, er bjarma sló á bæinn, borgina — landið, þá eldsumbrot hjartans bœrðust í brjósti og brutust út. Man ég, man ég margt frá liðnum árum, er svall þér í brjósti sigurvissan. Osammála oft við vorum, en ávallt spratt hlýjan og hugsjónaglóðin úr hástemmdum huga svo ósáttir við aldrei skildum. Horfinn er hlynur hjartaprúður, hugumstór og hlýr í hugsjóna ólgu. Hvernig mátti fuðrandi fífukveikur lífs hans fengið oss lýst til langframa? Baldvin Þ. Kristjánsson Kveðja frá Sambandi ungra jafn- aðarmanna Það skapast ákveðið tómarúm í íslenskri pólitík, þegar Vilmund- ur Gylfason er kvaddur í hinsta sinn. Vilmundur Gylfason var um árabil virkur þátttakandi i starfi ungra jafnaðarmanna. Eldmóður hans og dugnaður hreif fólk. Og jafnvel þótt Vilmundur hafi viljað fara aðrar leiðir í baráttunni fyrir lítilmagnann; gengið úr Alþýðu- flokknum og stofnað ný stjórn- málasamtök, Bandalagjafnaðar- manna, þá fannst okkur sem hann stæði ennþá með okkur, en ekki á móti. Hann var sami jafnaðar- maðurinn og fyrr. Þannig fannst okkur Vilmund- ur áfram samherji, þótt hann hefði breytt um baráttuvettvang. Hann verður því áfram með okk- ur í minningunni, þótt hann hafi nú horfið yfir móðuna miklu. Við þökkum af alhug sam- fylgdina. Hún var lærdómsrík. Éarðu vel vinur. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Samband ungra jafnaðarmanna

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.