Alþýðublaðið - 22.12.1984, Blaðsíða 6

Alþýðublaðið - 22.12.1984, Blaðsíða 6
6 Níu ár í neðra Eftir Svein Einarsson fyrrum leikhússtjóra Sveinn Einarsson var leikhússtjóri í Iðnó á gróskuárum Leikfélags Reykjavíkur 1963—1972. I bók sinni, Níu ár í neðra, segir Sveinn frá þessum árum sínum í hinu þrönga en vinalega leikhúsi. Hann segir frá kynnum sínum og samvinnu við leikara, lífinu á vinnustaðnum Iðnó og lýsir því hvernig leikverkin hlutu þá ásýnd, sem leikhús- gestir fengu að sjá, Níu ár í neðra fjallar um þá Iðnó sem leikhúsgestum er ekki sýnd. Hér á eftir fer kafli úr bókinni. Nýi leikhússtjórinn gaf ekki út neinar eftirtektar- verðar stefnuyfirlýsingar. Hann settist bara niður og fór að vinna. Ég er ekki viss um að allir hafi veitt því svo mikla at- hygli, að Iðnó er í rauninni þrílyft hús. í öðrum kvistin- um efst uppi svaf hún Kristín okkar, sem bjó okkur mat og kaffi allan daginn af þeirri geðprýði og sálarró, að hlýtur að vera umbunað, þegar þar að kemur. Ekki kom einu sinni fát á hana, þegar brann handan við götuna, og ég kom að henni þar sem hún var að bægja burt eldflygsunum, sem leituðu inn um ljórann hjá henni, sagði sem svo, þegar ég vildi drífa hana niður stigann, að það væri óþarfi, því að þetta myndi líða hjá, sem og varð. í kvistinum á hinum endanum héldum við Guðmundur Pálsson svo til á skrifstofu, sem ætti eigin- lega að vera til sýnis í dag (jafnlítil ástæða eins og okk- ur fannst til að hafa hana til sýnis þá, en af allt öðrum ástæðum). Milli kvistanna var svo gangur, og hávaxnir menn gengu ekki hnarreistir þann gang sér að skað- lausu. Hann var auk þess notaður sem þurrkloft fyrir dúka eða annan vofubúnað, og var það mikill kostur, því að það þurfti rukkara með alveg óvenjulegan kjark eða fáránlegt hugmyndaflug til að hafa upp á okkur. Við höfðum tvö skrifborð, sem vissu saman, svo við horfðumst í augu sem grámyglur tvær; annað komst ekki fyrir, utan skjöl og skrár, og viðmælendur okkar þurftu að standa upp á endann, nema við skiptumst á um að leyfa þeim að sitja tímakorn og tímakorn á stól- unum okkar, ef þeir voru mjög taugaóstyrkir eða mjög þreyttir af að ganga alla stigana í leit að okkur. En við Guðmundur urðum hinar samrýmdustu grá- myglur. Gárungarnir sögðu nokkuð snemma, að ég hefði verið í útlöndum að læra til þjóðleikhússtjóra. Hvort það var gert til að vekja athygli á því, að Guð- laugur Rósinkranz hefði ekki lært til þjóðleikhússtjóra og væri ekki einu sinni í faginu, skal látið ósagt, en hitt er jafnt á hreinu, að ég hafði ekki lært leikhússtjórn. Ég tók kandidatspróf með bókmenntasögu sem aðal- grein (og skrifaði prófritgerð um Jóhann Sigurjóns- son), en tók auk þess próf í almennri leiklistarsögu og heimspeki (sem mér hefur alltaf þótt hver maður þyrfti eitthvað að glugga í, ef hann ætlar ekki stöðugt að hugsa hugsanir annarra). Ég var síðan í framhaldsnámi í París, aðallega í samanburðarbókmenntum og franskri leiklist og leikbókmenntum, en þegar hér var komið sögu hafði ég í Stokkhólmi skilað ritgerð um ís- lenska aldamótaleiklist til licentíatsprófs, sem nú er bú- ið að leggja niður og gert að doktorsprófi; ég átti hins vegar eftir að ljúka munnlegum málflutningi og til þess fékk ég tveggja mánaða leyfi vorið 1964 og var svo heppinn að fá ágætiseinkunn. En það heyrði í rauninni meira undir fræðimennsku, þannig að þrátt fyrir allt að átta ára nám hafði ég í rauninni ekki lært leikhússtjórn. Hitt er svo annað mál, að ég hafði lært ýmislegt, sem að gagni mátti koma. Furðumargir skólafélagar mínir hafa hafnað í leikhússtjórastóli og oft tekist vel. Sú kenning, að hægt sé að reka leikhús vel sem viðskipta- fyrirtæki án þess að hafa umtalsverða innsýn í hið list- ræna, hygg ég sé ekki góð kenning; það að vera vel heima í hinu listræna er heldur engin trygging fyrir því að leikhús standi sig rekstrarlega, en best er það leik- hús, þegar þetta tvennt fer saman, og viti menn: það gerist oftar, þegar hinn listræni metnaður er sú menn- ingarlega forsenda, sem gengið er út frá sem tilverurétti leikhússins. Ég neita að aðhyllast kenningar, sem ganga út frá því sem vísu, að smekkur almennings sé a priori lélegur; smekkurinn er breytilegur, en leikhúsin eiga Iíka sinn hlut í þeirri ábyrgð, hvernig hann mótast. Þetta eru atriði, sem ég á eftir að koma að aftur og aft- ur, eftir því sem dæmin skjóta upp kollinum. Ég hef sagt það áður maður við mann og ætla að endurtaka það hér, að af Guðmundi Pálssyni lærði ég meira í Ieikhúsrekstri en af þúsundum fræðibóka. Hann hafði þá haft hið daglega amstur á herðum sér í nokkur ár og ekki alltaf verið metið sem skyldi. Ég held það hafi verið sú staðreynd, að ég sá þetta, sem kom okkur saman í upphafi. Samstarf okkar varð einstakt. Ég get varla ímyndað mér, að svo náið og viðkvæmt samstarf á svo við- kvæmu eldgosasvæði eins og leikhús gjarna er geti far- ið betur fram en okkar, og ég er meira að segja svo bíræfinn, að það hvarflar ekki að mér annað en Guð- mundur sé sama sinnis. Þetta var auðvitað mikil gæfa fyrir mig, því þarna var minn nánasti samstarfsmaður. En ég held líka að það hafi verið gæfa fyrir Leikfélagið. Og ég er ekki viss um, að allir leikararnir hafi alltaf gert sér grein fyrir þessu. Hér bar auðvitað margt til. Guðmundur er maður eðlisgreindur mjög, en kannski ekki hámenntaður í hefðbundnum skilningi, þó að hann sé lesinn vel og hafi til að mynda stórum meiri skilning á sögulegum verðmætum leikhússins en margur sá sem sótt hefur marga háskóla. Hann var harðduglegur og ósérhlífinn, eins og þeir einir hljóta að vera, sem gegna slíku starfi með nokkrum árangri, vakinn og sofinn í málefnum leikhússins, meira að segja í senn hugkvæmur og gæt- inn. Hann þekkti sín takmörk og hegðaði sér sam- kvæmt því; ekki er ég nú alltaf viss um að ég hafi þekkt mín takmörk, en trúlega bættum við vel upp hvor annan. Ég minnist þess ekki, að okkur hafi orðið alvar- lega sundurorða allan þennan tíma, en það jafngildir auðvitað ekki því, að við værum ævinlega sammála. Iðulega vorum við ósammála um ýmsar ákvarðanir og leiðir, enda er sjaldan í leikhúsi, að aðeins eitt auga gefi leið; í leikhúsráðinu gátu menn til dæmis barist fyrir 5 hugsanlegum lausnum, sem allar virtust hafa sitthvað til síns ágætis, hver sem niðurstaðan svo varð. Guð- mundur kenndi mér gullvæga reglu: Þegar búið er að taka ákvörðun, hvort sem hún er í samræmi við þínar tillögur og hvort sem þér að fyrra bragði virðist hún röng, verðurðu eigi að síður úr því að standa með henni af trúmennsku gegnum þykkt og þunnt. Ella er hætt við hún reynist röng, hvað sem tautar og raular, af því henni er aldrei gefið líf, en rétt getur hún orðið, ef hún er studd af heilum hug, þvert ofan í fyrri efasemdir. Þessa gullnu reglu virðist mér ekki allir þekkja né virða í öllum leikhúsum. Nei, leikhússtjórinn gaf ekki út neinar stóryrtar stefnuyfirlýsingar. Ég hef alltaf haft ímugust á inni- haldslitlum kjörorðum og annars konar yfirskriftar- fargani sem þing og ráðstefnur, flokkar og hvers kyns félagsskapur gjarna skreytir sig með. Ég fyllist ævin- lega efasemdum, að ég ekki segi andúð, þegar menn eru að slá sig til riddara í fjölmiðlum með það sem þeir þykjast ætla að hafa á stefnuskrá sinni; fjölmiðlar eru mjög veikir fyrir þessu, enda virðist ekki í þeirra verka- hring að fylgjast með því hverjar efndirnar verða. Þær eru hins vegar oft sorglega litlar, þrátt fyrir upphafs- stafina í byrjun. Nýlegt dæmi: Alþýðuleikhúsið, sem hafði hreinlega sósíalisma og vinstri boðun í orðaðri stefnuskrá sinni, en lifði síðan á anarkistískum skop- Ieikjum Darios Fos, sem áður var nú reyndar rækilega búið að kynna íslenskum leikhúsgestum og að öðru leyti fékkst við venjulega bourgeois Ieikhúsfæðu, eins og gamlan Orton. Það hefur lengi valdið mér furðu, eins og ísleningar eru fljótir til að mynda sér skoðun, einkum í bók- menntum og leiklist, og þar stundum harla dómharðir, hversu ósýnt þeim hins vegar er um að hafa yfirsýn og sjá hluti í samhengi. Þess vegna eru þeir svona ginn- keyptir fyrir spámönnunum með stóru fyrirheitin, en gengur illa að vega og meta gjörðir og draga af þeim lærdóma um hugmyndir og verðmætamat, um stefnu- mið. Það getur verið hverjum listamanni hollt öðru hverju að staldra við og festa á blað hugsanir sínar um það, sem manni þykir mestu skipta, þó ekki væri nema til að hrista upp í skýrleika sjálfs sín. En í flestum tilvikum mega svo þau skrif fara í körfuna eða skúffuna. En þeir, sem eru í fyrirsvari fyrir leikhús, þurfa oft að finna samnefnara hugsana fleiri en sjálfs sín, og þá neyðast þeir, af ofangreindum ástæðum, til að taka sér penna í hönd og senda út eins konar fréttaskeyti. í fyrstu leik- skrá næsta leikárs á eftir standa því þessi orð, sem eins konar eftirmæli mins fyrsta leikárs í Iðnó: „í fyrra vet- ur voru sýnd hér í Iðnó sex leikrit, þriðjungur þeirra var eftir íslenska höfunda. Frumsýnd voru fjögur ný við- fangsefni: eitt var úr hópi sígildra verka Ieikbókmennt-. anna, annað ein skarpasta hugvekjan í samtíma Ieikrit- un, hið þriðja til skapbætis og gleðiauka fyrst og fremst og hið fjórða úr okkar eigin þjóðlífi. Kannski eru þessi hlutföll ekki af tilviljun einni til komin eða óhæfileg, en vel mætti íslensk leikritun auka við sinn hlut“. Veturinn áður en ég kom til starfa hafði að mörgu leyti verið gott ár hjá Leikfélaginu, bæði listrænt séð og aðsóknarlega. Þetta fer nefnilega oft saman, góðu heilli. Dró þar lengst sigurganga þess leikrits Jökuls Jakobssonar, Hart í bak, sem oft hefur verið haft til marks um þá nýöld íslenskrar leikritunar, er síðan hef- ur óslitið staðið, en fáa óraði fyrir þá. Hart í bak kynnt- ist ég í handriti Helgu Valtýsdóttur að mig minnir sumarið 1962 og var það þá ekki fullsmíðað. Náin sam- vinna var milli Jökuls og Gísla Halldórssonar meðan á tilurð verksins stóð og átti Gísli ekki lítinn þátt í þessari sigurgöngu, ekki aðeins á sviðinu heldur og við skrif- borðið. Jökull var erlendis þetta sumar og því fékk ég lánað hlutverkahefti Helgu, en æfingar skilst mér að hafi hafist um vorið. Hart í bak gekk svo allan þann vetur og ekkert lát á, þannig að ég var mjög heppinn að hafa slík spil á hendi, þegar við byrjuðum um haustið. Þá hafði verið sýndur Ástarhringurinn eftir Schnitzler, sem ekki dró að sér mjög marga áhorfendur en gaf 10 ungum leikurum góð tækifæri, og hafði ég verið með í ráðum um það val. Sömuleiðis benti ég Leikfélags- stjórninni á Ieikrit Dúrrenmatts, Eðlisfræðingana, sem þá var alveg nýtt af nálinni og fór eins og eldur í sinu um leikhús Evrópu og varð það til þess, að sá öndvegis- höfundur var þá kynntur hér. En Þjóðleikhúsið kynnti annan Svisslendinginn til og annan höfðingjann í þýsk- um Ieikbókmenntum þessara ára, Max Frisch, með Andorra einmitt þetta sama vor. Hafði Helgi Skúláson leikstýrt Schnitzler en Lárus Pálsson kom sem gestur og stýrði Eðlisfræðingnum og varð það hans síðasta uppfærsla hjá Leikfélaginu. Mér var fljótt ljóst mikilvægi þess að hafa öfluga leikforystu og sömuleiðis, að meiri rækt þyrfti að leggja við skapandi leikmyndagerð en tíðast hafði ver- ið. Eftir endurskipulagninguna upp úr 1950 höfðu ýmsir lagt þar hönd á plóginn, en listrænt séð hafði Magnús Pálsson skilað þar drýgstum hlut. Um þær mundir sem fáránleikastefnan nam land á íslandi með þeim Beckett og Ionesco höfðu verið uppi miklar deilur innan Leikfélagsins, en Mágnús, sem þá var í stjórn að ég held, vildi gera Iðnó alfarið að tilraunaleikhúsi. Hans sjónarmið varð undir, og Magnús varð þá við- skila við félagið og s'tofnaði Grimu með svo sundurleit- um hópi sem Vigdísi Finnbogadóttur, Kristbjörgu

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.