Alþýðublaðið - 22.12.1984, Blaðsíða 7

Alþýðublaðið - 22.12.1984, Blaðsíða 7
Kjeld, Guðmundi Steinssyni, Þorvarði Helgasyni og Erlingi Gíslasyni. Enda fór svo að félagsskapurinn klofnaði og vildu báðir hafa aðstöðu í Tjarnarbæ, sem þá var í umsjá okkar Leikfélagsmanna. Af því tilefni tókst mér að setja saman eina hnyttiyrðið að ég held, sem mér hefur auðnast um ævina: Þegar báðir armarn- ir komu til mín að tala sínu máli, þá runnu á mig tvær grímur! í stað Magnúsar réðst nú til að gera æ fleiri ieik- myndir Steinþór Sigurðsson, sem hafði verið félagi minn í Stokkhólmi þegar við vorum við nám, og gott ef ég hafði ekki bent á hann, því að ég vissi, að hann hafði tekið leikmyndagerð samfara listmáluninni. Þeg- ar hér var komið sögu, var hann fastráðinn hjá félaginu og var það viturleg ráðstöfun, eins og átti eftir að koma æ berlegar í ljós, eftir því sem árin liðu. Leikstjórarnir voru í rauninni aðeins tveir, Gísli Halldórsson og Helgi Skúlason. Helgi hafði tiltölulega nýlega hafið sinn leikstjóraferil og var auk þess í erfiðri aðstöðu sem formaður, en í ótviræðri sókn. Gísli mátti heita lengra kominn á þessu sviði og var eftirsóttur víð- ar en í Iðnó í krafti nokkurra rómaðra og áhrifamikilla sýninga. Það flækti svo málið enn, að báðir voru í hópi bestu leikara félagsins, þannig að oft var illmögulegt að manna vandasöm leikrit án þeirra. Einkum var staða Gísla sterk, þar sem hann gat valið og hafnað að vild (hann hefur aldrei látið efnalegt gæðakapphlaup segja sér fyrir verkum); satt að segja fannst mörgum, að þeir og félagið þyrftu að sitja og standa sem hann vildi. Helgi hafði ekki sama frjálsræðið, þar sem hin félags- lega skylda hvíldi á honum, að finna sáttarorð og miðla málum, finna nýja útvegi, án þess að láta sitt hæfi sitja í fyrirrúmi. Gísli er mikill gáfumaður og handgenginn hinum bestu bókmenntum, en styrkleiki hans fólst ekki síður í persónuleikanum, sem er býsna sérkennilega samsett- ur og getur verið æði fyrirferðarmikill. Gísli er skap- maður mikill og getur tekið upp þunga þykkju og stundum lengi, en svo getur hann verið allra manna spaugsamastur, léttur og hlýr, bóngóðnr með afbrigð- um og hrókur alls fagnaðar. Á þessum árum voru mjög við lýði svokallaðir Iðnó-brandarar; voru margir sleipir í þeirri íþrótt en fæstir þó leiknari Gísla: verður vikið síðar að þessari sérstæðu tegund kímnigáfu. Mér var ljóst, að lífsnauðsyn var fyrir leikhúsið, að gott samstarf tækist með okkur Gísla. Við hófum þreifingar og gengum marga hringi kringum Tjörnina. Þessi samtöl okkar urðu mörg áður varði og bárust leikar meðal annars í Plantasiuna í Þórshöfn í Færeyj- um þar sem við greindum og spáðum í islenska leiklist eina sögufræga Jónsmessunótt. Af þessum samtölum spratt margt það, sem síðan hefur þróast í íslenskri leik- list, af þeim spratt líka vinátta sem stendur enn; það kann að vera við sjáumst varla misserum saman, en við tökum upp þráðinn eins og við höfum síðast hist fyrir nokkrum mínútum. En þarna við Tjörnina haustið 1963 beindust orð mín í ákveðna átt: Eg vildi, að Ieikrit Sartres, Fangarnir í Altona, yrði fyrsta verk, sem heyrði undir mitt val í leikhúsinu, og ég vildi, að Gisli stjórnaði því. Eftir nokkra eftirgangsmuni varð þetta ofaná. Nokkur metnaður fólst í þessu vali, það skal viður- kennt. Leikurinn var eitt helsta stórvirki, sem fram hafði komið í nýrri bókmenntum um nokkurt skeið, svipmikið uppgjör við nýliðna hildarsögu, sem ýmsir virtust þó tilbúnir að gleyma við fyrstu hentugleika. Ég rek hér ekki efnið, en þar segir sögu þýskrar fjölskyldu, auðkýfings, sonar hans, sem hefur lokað sig uppi á háalofti, systurinnar, sem hefur aðgang að honum, bróðurins, sem er kominn á kaf í hið þýska wirts- chaftswunder, og svo mágkonunnar, sem tekst að fá kauða niður; hann hafði aldrei viljað trúa því, að stríð- ið væri á enda. Ég hafði séð þetta leikrit í Stokkhólmi ári eða tveimur áður, og hrifist mjög af rómaðri sýn- ingu Alfs Sjöbergs á Dramaten; hann hafði á að skipa einvalaliði, þeirra á meðal Max von Sydow í hlutverki Franz þess sem lokar sig inni, Lars Hanson í hlutverki föðurins og Gertrud Fridh í hlutverki systurinnar, Lení. Auðvitað áttum við ekki eins sterku liði á að skipa, en leikurinn hafði nýlega komið út á ensku, fékkst í bóka- verslunum heima, einhverjir höfðu að auki séð hann í London og hann var mjög umræddur meðal leikhús- fólks; í stuttu máli: við vorum öll sammála um að leggja í hann. Leikhópurinn var að vísu æði sundurleitur, eins og fyrr, og sárasta blóðtakan var sú, að aðalleikkona félagsins, Helga Valtýsdóttir, sem var góð vinkona mín, hafði ráðið sig upp í Þjóðleikhús um sama leyti og ég átti að taka við; þetta féll konu minni til dæmis miður. Hins vegar hafði Sigríður Hagalín verið á samningi í Þjóðleikhúsinu veturinn áður og staðið sig vel, en kom nú aftur til starfa fyrir félagið. Hún og Helga Bach- mann, sem báðar voru upprennandi leikkonur um þessar mundir og oft voru farnar að bera hita og þunga dagsins, léku þessi stóru kvenhlutverk og Guðmundur Pálsson hlutverk bróðurins, Werners. í hlutverk föður- ins var ekki mörgum til að dreifa nema Brynjólfi, sem þó roskinn væri orðinn hafði árið áður unnið einn sinn stærsta sigur í strandkapteininum í Hart í bak. En Jónatan og þessi harðsvíraði þýski iðjuhöldur eru ólík- ar manngerðir, og þó að Brynjólfur væri manna fræg- astur fyrir að bregða sér í allra kvikinda líki, höfðum við nokkrar áhyggjur, meðal annars af því að textinn var mikill og strembinn og sýningin ákaflega löng: tók 7 nálega fjórar klukkustundir i flutningi. En óttinn reyndist ástæðulaus og Brynjólfur stóð fyrir sínu eins og fyrri daginn. í smærri hlutverkum var svo m. a. Bríet Héðinsdóttir, sem þarna lék sitt fyrsta hlutverk í Iðnó. En auðvitað stóð þetta mikið og féll með hlutverki Franz. Og eins augljóst og var, að leikstjórnin var ekki á færi neins nema Gísla Halldórssonar, jafn augljóst var að fela Helga Skúlasyni hlutverk Franz, enda vann hann þarna einn eftirminnisverðasta leiksigur á öllum sínum leikferli. Þetta tókst sem sagt. Ég hafði verið svo heppinn að fá Sigfús Daðason, sem ég þekkti frá París, til að finna verkinu íslenskan búning. Én bæði var það, að við vor- um svolítið lengi að koma okkur að efninu, verkefnið óvenjulangt, eins og áður segir, jafnt fyrir þýðanda sem þá sem flytja áttu, þannig að það varð að ráði, að við flýttum okkur ekki um of, en hefðum frumsýninguna miili jóla og nýárs. (Þjóðleikhúsið hafði þá „tekið“ annan í jólum af Leikfélaginu sem frumsýningardag, svo við þurftum alltaf að víkja um nokkra daga). Hins vegar vorum við svo heppin, að Hart í bak var í fullum gangi, svo við vorum ekki í vandræðum með sýningar. Helga Valtýs lék þar Áróru spákonu sem fyrr, enda hafði hún ráðið sig uppeftir nteð því fororði. Auk þess hafði hópur Leikfélagsmanna leikið Ærsladrauginn eftir Noél Coward um sumarið í leikför; þessi hópur bauðst nú til að sýna þetta leikrit nokkrum sinnum til ágóða fyrir húsbyggingarsjóð og var það að sjálfsögðu þegið með þökkum. En mér dvelst við sýninguna á Föngunum í Altona, vegna þess að hún var sú fyrsta, sem ég átti val að; ekki óraði mig fyrir því þá, að ég ætti eftir að hafa áhrif á val á þriðja hundrað leiksýninga síðar. Á frumsýning- unni vorum við hjónin svo á nálum, að okkur tókst ekki að haldast við í sætunum seinni hlutann, heldur sátum við í tröppunum upp á loft, þar til lófatakið dundi við. Auðvitað átti maður eftir að sjóast, en þó átti nú þetta eftir að endurtaka sig; ég man sem dæmi fyrstu sýninguna á Kristnihaldi undir Jökli. Þrír þættir i Föngunum gerast í myndarlegri rík- mannlegri stofu niðri, hinir í þakherberginu uppi. Steinþóri, sem gerði leikmyndina, hafði þarna tekist sem svo oft fyrr og síðar á litla sviðinu í Iðnó að koma upp stórhýsi (hvernig sem hann fór að þessu), og Ieik- stjórn Gísla var skóladæmi um vandlega hugsaða upp- byggingu leiksýningar: í þáttunum niðri var kalt og langt á milli persónanna, uppi var stutt í ástriðufull átök. Réttar staðsetningar eru ABC-leiksýningar, þar kemur leikstjóri skýrt frarn í afstöðu, hreyfing og mynd ytra tákn þess kjarna, sem er skilningur hans á verkinu. Þetta er sem sagt 29. desember 1963. Fangarnir í Altona ná til áhorfenda sinna. Og slagurinn er hafinn.

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.