Alþýðublaðið - 15.04.1988, Blaðsíða 2
2
Föstudagur 15. apríl 1988
tiw»inii.m»
Útgefandi: Blaö hf.
Framkvæmdastjóri Valdimar Jóhannesson
Ritstjóri: Ingólfur Margeirsson
Fréttastjóri: Kristján Þorvaldsson
Umsjónarmaður
helgadDlaðs: Þorlákur Helgason
Blaðamenn: Haukur Holm, Ingibjörg Árnadóttir, Omar
Friðriksson, og Sigríður Þrúður Stefánsdóttir.
Dreifingarstjóri: Þórdís Þórisdóttir
Setning og umbrot: Filmur og prent, Ármúla 38.
Prentun: Blaðaprent hf., Síðumúla 12.
Áskriftarsíminn er 681866.
' Dreifingarsimi um helgar: 18490
Áskriftargjald 700 kr. ámánuði. í lausasölu 50 kr. eintakið virkadaga, 60
kr. um helgar.
TRUVERÐUGULEIKI
FRÉTTASTOFANNA
Fréttastofur Ríkisútvarpsins, hljóövarps og sjónvarps
liggja undir miklu ámæli þessa dagana. Útvarpsráö hefur
nýlega samþykkt meö nær samhljóða ályktun þess efnis
aö fréttastjóri Ríkissjónvarpsins njóti ekki traust útvarps-
ráðs. Þessi ályktun var samþykkt í kjölfar ummæla sem
fréttastjóri sjónvarpsins lét eftir sér hafa í einu tímarit-
anna um aðstoðarframkvæmdastjóra Sjónvarpsins.
Fréttastofa Ríkissjónvarpsins hefur fengið þungan
áfellisdóm og sömuleiðis dægurmáladeild Rásar 2 fyrir
fréttaflutning af svonefndu Dag Tangen-máli. Þennan
alvarlega dóm yfir fréttamönnum og dagskrárgerðar-
mönnum sem fjölluðu um málið hefur dr. Þór Whitehead
sagnfræðingur kveðið upp í skýrslu sem hann vann að
beiðni menntamálaráðherra. Sjálfur segir dr. Þór White-
head í skýrlsu sinni, að umfjöllun Ríkisútvarpsins um
Stefán Jóhann Stefánsson, fyrrum forsætisráðherra og
meint tengsl hans við CIA, að hafi ekki aðeins verið rangur
fréttaflutningur vegna mistaka, heldur hafi vísvitandi
fréttafölsun farið fram og stjórnmálaafstaða dagskrár-
gerðarmanna ráðið þar ferðinni. í niðurlagi greinargerðar
sinnar segir dr. Þór Whitehead:
„Líti menn svo á, að víti eigi að vera til varnaðar, virðist
ýmislegt mega læra af þessu leiðindamáli: að gengið sé
rækilega úr skugga um feril og málflutning manna, sem
segja vilja fréttir og skírskota til fræðimennsku og há-
skólatitla; að munnlegur vitnisburður slíkra manna um
heimildir verði ekki talinn sönnun á efni þeirra, hvað þá
jafngildi frumheimildar; að þeir útvarpsmenn sem hér
eiga hlut að máli, reyni framvegis að líta á umdeild sagn-
fræðileg viðfangsefni fráfleiri en einni hliðog finni stjórn-
málaskoðunum sínum vettvang utan fréttatíma."
Birgir ísleifur Gunnarsson menntamálaráðherra segir
um álitsgerð dr. Þórs Whitehead í inngangi að skýrslu
sagnfræðingsins: „Þeir fréttamenn og starfsmenn Ríkis-
sjónvarpsins sem um málið fjölluðu (þ.e. Dag Tangen-mál-
ið) störfuðu ekki í samræmi við þær kröfur sem útvarpslög
og reglugerð um Ríkisútvarpið gera til þeirra." Útvarps-
stjóri óskaði á sínum tíma eftir útskurði siðanefndar
Blaðamannafélags íslands um vinnubrögð fréttamanna
og dagskrárgerðarmanna Ríkisútvarpsins í Dag Tangen-
málinu. Siðanefnd úrskurðaði vinnubrögðin brot á siða-
reglum blaðamanna, endafréttin um meint tengsl Stefáns
Jóhanns og CIA röng og heimildir hvergi finnanlegar í
fórum „sagnfræðingsins" Dag Tangen sem aldrei hefur
tekið háskólapróf í sagnfræði þegar betur er að gáð. Al-
þýðublaðið fjallaði um málið á sínum tíma í leiðara og
benti á, að endanlegurdómur siðanefndar blaðamannafé-
lagsins væri nógur í sjálfu sér, og óþarfi af menntamála-
ráðherra að fara að beiðni alþingismanna um að sagn-
fræöingur væri fenginn til að gera álitsgerð um málið.
Blaðið stendur við þá skoðun sína, enda kemur fátt í Ijós
í skýrslu dr. Þórs Whitehead sem ekki er getið í niðurstöð-
um siðanefndar þótt umfjöllun dr. Þórs sé öll viðameiri og
nákvæmari og að mörgu leyti harðari áfellisdómur yfir
Ríkisútvarpinu.
Eftir stendur sú staðreynd að fréttastofur Ríkisútvarps-
ins; hljóðvarps og sjónvarps hafa með stuttu millibili verið
véfengdar um trúverðugleik. Þetta er mikið áfall fyrir
Ríkisútvarpið sem fréttastofnun. Allt frá stofnun Ríkis-
útvarpsins hefur stofnunin notið óskoraðs trausts lands-
manna. Fréttastofurnar hjá útvarpi og sjónvarpi hafa verið
tákn fyrir áreiðanleika og sannleika. Það er Ijóst að skýr-
inganna á minnkandi trausti almennings á fréttastofum
Ríkisútvarpsins er að finna innan stofnunarinnar sjálfrar.
Hvort sem endanlegaskýringu er að finna í vinnubrögðum
stjórnanda fréttastofanna eða að hin mikla samkeppni
fjölmiðlaorsaki slæglegri vinnubrögð fréttastofu Ríkisút-
varpsins, skal ósagt. En það er skylda útvarpsráðs og út-
varpsstjóra að stuðla að vönduðum vinnubrögðum frétta-
manna Ríkisútvarpsins, svo stofnunin megi á ný njóta
óskoraðs trausts og álits allra landsmanna.
ÖNNUR SJÓNARMIÐ
MENNINGARMAFÍUR
hafa verið margar á íslandi.
Kristján Kristjánsson, blaða-
maður menningarmála Helg-
arpóstsins, hefur nú, fundið
nýjustu menningarmafíuna.
Hún samanstendur af
„vinstri-intellektúölum“ í Máli
og menningu, Svart á hvítu
og rithöfundum þeirra. Eitt
eiga þessir menn allir sam-
eiginlegt að mati blaða-
manns HP, nefnilega að hafa
verið saman í menntó. Krist-
ján setur fram athyglisverð
sjónarmið í samtryggingar-
kenningu menningarmafíós-
anna. Hann skrifar i nýjasta
tölublaö af HP:
„Ein af bókmenntaklíkum
landsins er einmitt upprunn-
in úr menntó en hefur svo
litillega víkkað eftir þvi sem
árin hafa liðið. Þetta er það
sem kalla mætti hina nýju
ráðandi kynslóð innan bók-
menntanna og raunverulega
er það uppakynslóðin sem
verið er að tala um. Nema
hvað þessir menn koma af
vinstri kantinum en hafa
skellt skollaeyrum við hinni
gömlu klisju aö vinstri menn
megi ekki og geti ekki verið í
fyrirtækjarekstri. Þessi klíka
hefur á sér orð fyrir íhalds-
semi, samtryggingu og kven-
hatur (í bókmenntalegum
skilningi orðsins). Hún er lík-
legast sú sterkasta í íslensk-
um bókmenntaheimi í dag,
teygir anga sina í allar áttir,
markaðsiega, fræðilega og
útgáfulega. í henni eru eftir-
taldir: Haildór Guðmunds-
son, mag. art. og útgáfustjóri
Máls og menningar; Örnólfur
Thorsson, háttsettur hjá
Svörtu á hvítu; yngri bróðir
hans, Guðmundur Andri, rit-
stjóri eina islenska bókmenn-
tatímaritsins, þ.e. Timarits
Máls og menningar; Sigurður
Valgeirsson, útgáfustjóri AB;
Björn Jónasson, forstjóri
Svarts á hvítu; Arni Sigur-
jónsson, doktor og ritstjóri
Kiljuklúbbs Máls og menn-
ingar. Svo eru það skáldin,
allar bókmenntaklíkur verða
að hafa skáld innanborðs.
Hér eru það Einar Kárason,
Einar Már og Sigfús Bjart-
marsson. Allt gamlir vinir úr
menntó og raunar miklu fyrr
og þar að auki og ekki siður
úr bókmenntanámi í háskól-
anum.“
Og menningarklíkan fær
eftirfarandi vitnisburð:
„Þeir félagar hafa lagt
undir sig Mál og menningu,
stjórna útgáfu Almenna
bókafélagsins, eiga og
stjórna Svörtu á hvítu og hafa
að auki innanborðs þau skáld
af yngri kynslóðinni (sem var
yngst en er það kannski ekki
lengur, svona ca. næstyngst
kannski) sem einna athyglis-
verðust þykja og helst er
hlustað á af almenningi.
Einar Kára. Kvikk i kjaftinum,
temmilega röff til að passa
við bækurnar sem hann
hefur skrifað. Einar Már.
Nokkurs konar óskabarn
endurnýjunar i íslenskri
skáldsagnagerð, a.m.k. á
tímabili. Ef þetta væru alvöru
krimmar og myndu vilja gera
einhverjum óleik þá væru
hæg heimatökin. Þræðir
hópsins liggja víða og vegir
Einar Kárason: Meðal meölima i
nýju menningarmafiunni.
hans órannsakanlegir eins og
einhvers staðar var skrifað
um einhvern. Innstu koppar í
búri í þremur stærstu for-
lögunum og geta því haft á
það veruleg áhrif hvað kemur
út af bókum og eftir hverja."
Og áfram:
„Arni Sigurjónsson hefur á
undanförnum árum skrifað
tvær bækur um Halldór Lax-
ness, líklega ítarlegustu
fræðibækur sem íslendingur
hefur skrifað um Laxness.
Halldór Guðmundsson hefur
gefið út bók um Laxness,
kom út fyrir síðustu jól og
heitir Loksins loksins. Ekki
þarf að fara mörgum orðum
um stefnu Mals og menning-
ar undir útgáfustjórn Hail-
dórs, hún er sú metnaðar-
fyllsta i forlagi hér á landi,
sérstaklega á sviði nútima-
bókmennta. Á meðan sjá
Björn Jónasson og Örnlólfur
Thorsson um metnaðinn á
sviði fornbókmenntanna, ís-
lendingasögurnar og nú sið-
ast Sturlunga. Á meðan aka-
demían hefur verið mörg ár
að velkjast með þessar
bækur milli handanna drífur
Svart á hvítu þær út á fáum
árum af fullkomnum fræði-,
legurn metnaði, auk þess að
gera þær aðgengilegar fyrir
almenning. Það er nefnilega
líka munurinn á þessum hópi
og eldri mönnum að þeir
skilja eðli og þarfir markaðar-
ins og skammast sín ekkert
fyrir að viðurkenna það og
láta standa sig að verki við
að mata markaðinn. Ekki
frekar en þeir skammast sín
fyrir að viðurkenna að þeir
séu reyfaraaðdáendur og tala
hispurslaust um að islenskir
höfundar ættu margir hverjir
að leggja það fyrir sig að
skrifa afþreyingarbókmenntir
af metnaði frekar en að
sperra sig við listaverk sem
þeir hafa ekki tök á að skapa.
Þannig að þó að háskólinn
hafi hafnað fulltrúum hóps-
ins þá hafa þeir einfaldlega
farið aðrar leiðir til að koma
sér á framfæri.Drifið þetta út
sjálfir i forlögum sem þeir
sjálfir stjórna. En það verður
heldur ekki af þeim skafið að
í þessum hópi eru efni-
legustu fræðimenn okkar og
einn viðmælandi HP, sem
fylgst hefur með þeim lengi,
segir þessa stöðu þeirra í ís-
lensku bókmenntalífi ekkert
undarlega. Þeir eigi hana
skilið vegna þess að þeir séu
andlegir atgervismenn og
það hafi verið Ijóst í menntó
að þetta væru framtíðar-
menningarvitar þjóöarinnar. I
samræmi við það hafa þeir
tekið þátt í klúbbi sem kall-
aður var fílabeinsturninn,
reyndar var hann stofnaður af
öðrum og þar voru fleiri en
þeir sem tilheyra margnefnd-
um hópi. En þessi hópur
hefur samt orðið tákngerv-
ingur fílabeinsturnsins."
Og fílabeinsturninn verður
niðurstaðan í grein Kristjáns:
„Þeir vilja sjálfir tæpast
kannast við að vera klika eða
hópur, öðruvisi en aðrir
kunningjahópar í þjóðfélag-
inu. Samt nefndu næstum
allir viðmælendur HP um-
svifalaust þennan hóp þegar
þeir voru spurðir hvort þeir
þekktu einhvern hóp sem
væri áberandi í bókmenntalíf-
inu. Þeir eru því í fílabeins-
turni, hvort sem þeim líkar
það betur eða verr — jafnvel
þó nafnið hafi sjálfsagt orðið
til í gríni í upphafi."
GETUR Framsókn verið
stikkfrí? spyr Þjóðviljinn í
leiðara í gær. Það er greini-
legt að blaðinu ofbýður hjá-
seta Framsóknarflokksins í
vorverkum stjórnarinnar (og
reyndar vetrarverkum einnig).
Þjóðviljinn segir í forystu-
grein sinni:
„í Þjóðviljanum í gær birt-
ist viðtal við Pál Pétursson
þingflokksformann Fram-
sóknarflokksins. Þar mátti
sjá að Framsóknarmenn gera
sér enn þá fullvel grein fyrir
þvi að eldur er enn laus. En
það er eins og áhuginn fyrir
slökkvistarfinu hafi eitthvað
dofnað frá þvi að Steingrimur
fékk að vera einn í sviðsljós-
inu og hrópa að Róm væri að
brenna. Nú virðist á þeim bæ
lögð áhersla á að sýna fram á
að eldsvoðinn komi Fram-
sóknarmönnum ósköp litið
við. Þeir fengu ekki að taka
að sér yfirstjórn efnahags-
mála, og stóð þó ekki á þeim
að taka að sér embætti fjár-
málaráðherra en samstarfs-
flokkarnir skömmtuðu þeim
hins vegar bara utanríkis-
ráðuneytið.
Það ber nokkuð nýrra
viðað einum flokki i sam-
steypustjórn sé nánast óvið-
komandi allt það sem ekki
heyrir undir þau fagráðuneyti
sem ráðherrar hans stjórna.
Auðvitað gengur það ekki
upp að Framsókn sé í stjórn
þegar landbúnaðarmálin eru
á dagskrá af því að Jón í
Seglbúðum er Framsóknar-
maður, en i stjórnarandstöðu
þegar rætt er um ríkisfjár-
málin af því að Jón Baldvin
er krati.
Almenningur veit að Fram-
sókn ber fulla ábyrgð á
stefnu rikisstjórnarinnar í
öllum málum. Það er líka
vitað að stefna núverandi
rikisstjórnar í efnahagsmál-
um er rökrétt framhald af
stefnu ríkisstjórnar Stein-
gríms Hermannssonar.
Framsókn getur ekki verið
stikkfrí.
Bragð er aö þá barnið
finnur.
Einn
með
kaffinu
Brandari dagsins er frá Frakklandi: Við réttarhöld í
flóknu ástríðuglæpamáli sagði dómarinn við réttinn:
— Nú kemur að mjög persónulegum vitnaleiðslum,
svo ég bið allar heiðvirðar konur að ganga úr réttarsaln-
um.
Engin kona í fullum réttarsalnum hreyfði sig. Dómar-
inn tók aftur til máls og sagði:
— Nú þegar allar heiðvirðar konur eru farnar úr
salnum, vil ég biðja þær sem eftir eru vinsamlegast að
ganga út!