Alþýðublaðið - 22.12.1990, Blaðsíða 2

Alþýðublaðið - 22.12.1990, Blaðsíða 2
2 Laugardagur 22. desember 1990 MÞYDUBMÐIÐ Ármúli 36 Sími 681866 Útgefandi: Blað hf. Framkvæmdastjóri: Hákon Hákonarson Ritstjóri: Ingólfur Margeirsson Fréttastjóri: Jón Birgir Pétursson Auglýsingastjóri: Hinrik Gunnar Hilmarsson Dreifingarstjóri: Sigurður Jónsson Setning og umbrot: Leturval, Ármúla 36 Prentun: Oddi hf. Áskrifarsími er 681866 Áskriftargjald 1100 kr. á mánuði. í lausasölu 75 kr. eintakið Jólin eru stundir samveru og hlýju. Tími fjölskyld- unnar þegar oki hinna daglegu verkefna linnir og þras og dægurþrætur eru lögö til hliðar. Jólin eru hátíð Ijóssins og friðarins. En jólin eru ekki alltaf slík í hug- um allra. Margir eru þeir sem um sárt eiga að binda yfir hátíðarnar, eru sjúkir eða lifa í einmanaleik og sorg. Margir eru fjarri ástvinum sínum yfir jólin eða þurfa að sinna skyldustörfum. Þeir einstaklingar sem fara á mis við samveru og hlýju á jólunum verða oft enn þjáðari en ella á þessum tíma Ijóss og friðar. Þess vegna eru jólin ennfremur tími tilfinninga; trega, söknuðar og minninga. r Islendingar halda jól að kristnum sið. Við heiðrum helgisöguna um fæðingu Frelsarans og hugleiðum kjarna kristinnar trúar og kristinnar siðfræði. Við reyn- um að varpa af okkur oki streitu og gæðakapphlaups og leita að innihaldi jólanna, hvert með okkar hætti. Sífellt rekum við okkur á andstæðurnar í efni og anda. Við lifum í nútímaþjóðfélagi hraða og samkeppni. Við leitum eftir efnislegum gæðum en eigum æ erfiðara með að finna hin andlegu verðmæti. Við þráum innri frið, ró og æðruleysi. Stundum er þessi þrá meðvituð en stundum ómeðvituð. Þá skynjum við ekki hvað er að í sálum okkar, en vanlíðanin rekur okkur áfram í nýju gæðakapphlaupi, í nýrri von um meiri hamingju í efnisheiminum. Kirkjan hefur stórt hlutverk á þessum umbrotatím- um. Hún hefur ekki aðeins þjónustuhlutverk, heldur félagslegt og pólitískt hlutverk. Boðskapur Krists var að stórum hluta boðskapur siðfræði; reglur um um- gengnisvenjur manna, framkomu, hugsunarhátt og afstöðu til einstaklinga jafnt sem þjóðfélags. Þess vegna er fæðing Krists ekki aðeins helgisaga, heldur tímamótaviðburður í siðferðilegri og trúarlegri sögu mannkyns. Kirkjan á íslandi í dag þarf að sinna mörg- um hlutverkum, en ekki síst er það mikilvægt að hún sé afl sálusorgar og þjóðfélagsumbóta. Kirkjan þarf í auknum mæli að rjúfa einangrun sína og koma til móts við fólkið í hinu daglega lífi í stað þess að bíða eftir að fólkið fylli kirkjurnar á tyllidögum. Meginverk- efni kirkjunnar hlýtur því að vera að finna nýja farvegi í þjóðfélaginu; nýjar leiðir kristins boðskapar til fólks- ins í landinu. w I þjóðfélagi harðnandi samkeppni eykst bilið milli manna. Við gleymum náunganum í eigin varnarbar- áttu. Við gleymum að gefa en erum því ötulli að þiggja. Þetta ber að varast. Það er mikilvægt að byggja upp þjóðfélag umhyggju. Stjórnvöld verða að standa vörð um velferðarþjóðfélagið. Við verðum að tryggja öldruðum ævikvöld með reisn, sjúkum öruggt heilbrigðiskerfi, hinum verr stöddu heilsteypt trygg- ingakerfi. Við verðum að standa vörð um samfélag mannúðar og tillitssemi. A jólum er hinn kristni boðskapur hafður í hávegum. Við hugleiðum kjarna kristninnar; kærleikann og fyrir- gefninguna. Kristin trú boðar auðmýkt og umburðar- lyndi, skilning og kærleika til náungans. Þessi boð- skapur á ekki aðeins við í þröngri merkingu afmark- aðra hópa, heldur er í eðli sínu alþjóðlegur boðskapur milli manna um gjörvalla heimsbyggð. Þess vegna er boðun kærleika og fyrirgefningar ennfremur friðar- boðskapur. Batnandi sambúð stórveldanna hefur aukið vonir mannkyns um varanlegan frið í heiminum. Víðtækir afvopnunarsamningar, sameining Þýskalands, ný- sköpun Evrópu og endalok kalda stríðsins eru allt stórir áfangasigrar í þágu friðarins. En nýjar blikur eru á loftj; aukin hernaðaruppbygging við Persaflóa í kjöl- far innrásar íraka í Kúvæt hefur gert þetta svæði að púðíjrtunnu sem hæglega gæti stefnt heimsfriðnum í hættu. Hlutverk Sameinuðu þjóðanna sem gæslu- aðila til að varðveita frið í heiminum verður æ stærra. Afsögn Shevardnadzes, utanríkisráðherra Sovétríkj- anna, hefur verið túlkuð sem slæmar fréttir fyrir um- bótastefnuna í Sovétríkjunum. Enginn vafi leikur á því að perestrojka Gorbatsjovs, eða svonefnd umbóta- stefna, hefur tengt stórveldin og fært þau nær hvort öðru jafnframt því að friðarlíkur og jafnvægi hafa styrkst í heiminum. Ýmsir telja að afsögn Shevardn- adzes kunni að þýða aukið einræði í Sovétríkjunum og afturhvarf til einangrunarog stöðnunar. Um slíkt er þó of snemmt að dæma. Vonandi þýðir afsögn sov- éska utanríkisráðherrans ekki kólnandi sambúð aust- urs og vesturs eða upphafið að falli Gorbatsjovs og endalokum umbótastefnunnar. Það hefur sýnt sig að umbótastefnan er stefna afvopnunar og friðar. Megi sú þróun halda áfram og Sovétmönnum auðnast að finna lausn á sínum miklu vandamálum heima fyrir án þess að það kosti róstur og óeirðir eða afturhvarf til hins mannfjandsamlega kommúnisma. IVIegi því friður ríkja á jörðu, ekki aðeins nú á jólum heldur til framtíðar. Megi þjóðir útkljá deiluefni sín á friðsamlegan hátt en ekki með vopnavaldi. Jólin eru ekki langur tími. Áður en við vitum af, eru hátíðarnar að baki og hvunndagurinn hefst með öll- um sínum hraða og kappi. Þess vegna er mikilvægt að við varðveitum kjarna jólaboðskaparins í hjörtum okkar þegar jólunum lýkur. Að við berum áfram í brjóstum okkar boðskapinn um mannkærleika, frið og umburðarlyndi. Að við hugsum áður en við fram- kvæmum. Og að við fyrirgefum í stað þess að hefna. Alþýðublaðið óskar lesendum sínum og öllum lands- mönnum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.