Alþýðublaðið - 10.05.1996, Blaðsíða 7

Alþýðublaðið - 10.05.1996, Blaðsíða 7
FÖSTUDAGUR 10. MAÍ1996 ALÞÝÐUBLAÐID 7 bessastaðabardaginn „Ég get varla hugsað mér leiðinlegra embætti á byggðu bóli og mér finnst að Jón Baldvin sé alltof góður og nýtur maður í það. Hann er í raun of stór fyrir þetta starf. Hins vegar er það rétt mátulegt á þjóðina að fá Ólaf Ragnar yfir sig." Getur Alþýðuflokkurinn verið án Jóns? Alþýðuflokksmenn eru nokkuð milli skers og báru í afstöðunni til þess hvort Jón Baldvin eigi að taka af skarið og fara í framboð. Vita- skuld munu þeir upp til hópa greiða honum atkvæði, en margir þó með nokkrum trega. Um þetta segir dyggur stuðningsmaður Jóns Baldvins í Alþýðuflokknum: „í mínum huga er Jón Baldvin Alþýðuflokkurinn. Flokkurinn get- ur ekki verið án hans. Svo einfalt er það. Það er enginn sem getur tekið við flokknum ef hann fer. Flokkurinn verður lamaður. Nú hefur þessu máli verið hleypt of langt og Jón getur vart annað en farið fram, ef hann gerir það ekki mun hann sífellt velta fyrir sér því sem hefði getað orðið. Ef hann tekur ákvörðun um að fara fram munum við vitanlega styðja hann. Best er vitanlega að hann fái gott fylgi, en nái ekki kosningu. Þá kemur hann aftur til okkar og þar á hann að vera og hvergi annars staðar." Alþýðuflokksfólki þykir semsé erfið tilhugsun að þurfa hugsan- lega að sjá að baki Jóni sem er óskoraður leiðtogi flokksins og á vísa endurkosningu í formanns- kjöri á flokksþingi í haust. Staða Alþýðuflokksins er að sönnu ekki sterk um þessar mundir og menn vita sem er að mikilvægt er að tak- ist að blása nýjuin lífsanda í flokk- inn á flokksþinginu. Flokkurinn þarf nauðsynlega á því að halda að verða leiðandi afl í stjórnarand- stöðu, makka með en gæta þess um leið að marka sér slíka sérstöðu að hann renni ekki of nálægt Alþýðu- bandalaginu. Jón Baldvin er ekki bara formaður flokksins, heldur líka hugmyndasmiður hans og mörgum þykir sýnt að flokkurinn muni eiga í mestu brösum með að ná þessu takmarki ef hans nýtur ekki við. Segir Jón af sér formennsku? Önnur spurning sem Alþýðu- flokksmenn velta mjög fyrir sér er hvernig Jón Baldvin ætti að sigla inn í kosningabaráttuna: Á hann að segja af sér formennsku í flokkn- um fyrir fullt og allt eða nægir það honum - og sætta kjósendur sig við það - að hann segi einungis af sér tímabundið og geti þá tekið aft- ur við formannsembættinu eftir kosningar? Hvort heldur sem er blasir við að Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður setjist í formanns- sætið, annað hvort fram yfir kosn- ingar eða fram að flokksþingi, en þá er talið líklegt að mótframboð kæmi gegn honum og eru þau þá helst nefnd til sögunnar Sighvatur Björgvinsson, Össur Skarphéðins- son og Rannveig Guðmundsdóttir. Þetta gæti leitt til illvígra innan- flokksátaka sem Alþýðuflokkurinn kærir sig varla um. Eitt viðhorfið innan Alþýðu- flokksins er reyndar það að Jón Baldvin þurfi ekki skilyrðislaust að sigra í forsetakosningunum. Tap myndi ekki endilega tákna pólitískan ætternisstapa, heldur nægi það Jóni að fá góða kosn- ingu, tuttugu til þrjátíu prósent at- kvæða, eða vel ríflega fylgi Al- þýðuflokksins. Svipuð hugmynd lá reyndar upphaflega að baki for- setaframboði Ólafs Ragnars, að styrkja stöðu hans í pólitík, enda óraði fæsta stuðningsmenn hans fyrir því að hann ætti möguleika á að sigra í forsetakosningum. Sumir álíta að þrátt fyrir að Jón þyrfti að lúta í gras yrðu honum allar leiðir færar í pólitík með slíkan stuðn- ing: „Þá gæti hann allt eins storm- að inn á flokksþing í haust, verið endurkjörinn formaður og styrkt stöðu sína og flokksins verulega," segir samstarfsmaður Jóns til margra ára. Of stór fyrir Bessastaði? „Ég mun ekki gera Jóni Baldvini þann bjarnargreiða að kjósa hann á Bessastaði," segir alþýðuflokks- maður sem kveðst hafa fylgt Jóni að málum alla tíð. Hann túlkar óef- að skoðanir margra sem velta því fyrir sér hvaða erindi Jón eigi á Bessastaði. Viðmælendur Alþýðu- blaðsins höfðu flestir allsterkar skoðanir á þversögninni sem á óef- að eftir að leita á hugi margra kjósenda: „Mér finnst furðulegt að Jón hafi áhuga á þessu embætti. Hann er svo mikill stríðsmaður að ég skil vel að hann langi að taka þennan slag, en hins vegar finnst mér erfitt að sjá hvað stjórnmála- maður af lífi og sál eigi að gera á Bessastöðum - þar sem er ekki hægt að stunda stjórnmál,“ segir sjálfstæðismaður sem þó kveðst ætla að kjósa Jón Baldvin ef til kastanna kemur. „Ég get varla hugsað mér leiðinlegra embætti á byggðu bóli og mér finnst að Jón Baldvin sé alltof góður og nýtur maður í það. Hann er í raun of stór fyrir þetta starf. Hins vegar er það rétt mátulegt á þjóðina að fá Ólaf Ragnar yfir sig,“ segir blaðamaður sem hefur fylgst grannt með kosn- ingabaráttunni. Margir af viðmælendum Al- þýðublaðsins veltu einnig fyrir sér þeirri spurningu hvernig sá maður sem hefur haft einna mestar og eindregnastar skoðanir af íslensk- um stjórnmálamönnum eigi að bera sig að múlbundinn á Bessa- stöðum eða hvernig hann geti orð- ið sameiningartákn þjóðarinnar. „Eigum við allt í einu að fara að búa með einhverri nýrri útgáfu af Jóni Baldvini sem steinþegir um skoðanir sínar á fiskveiðimálum, landbúnaði og Evrópusambandinu. Mér finnst óþægilegt að hugsa til þess að hann þurfi kannski að láta þessi stóru hugsjónamál sín lönd og leið. Um Ólaf Ragnar gegnir að vissu leyti öðru máli; hann hefur alltaf verið tækifærissinni og í raun aldrei haft djúpa sannfæringu um eitt eða neitt,“ segir gamall samherji Jóns í pólitíkinni. Alþýðuflokksmaður sem er fremur hvetjandi til þess að Jón fari í framboð telur hins vegar að þessi ótti sé ástæðulaus: „Það er auðvitað spuming hversu vel það fer honum að vera puntudúkka á Bessastöður. Það mun hann heldur ekki sætta sig við. Hann fer ekki að breyta persónu sinni og sann- færingu á einni nóttu, heldur er hann líklegur til að setja eigin svip á embættið og breyta áherslum." Pólitíkusar af lífi og sál Það væri gráglettni örlaganna ef sú staða kæmi upp að Jón Baldvin og Ólafur Ragnar, gömlu félagarn- ir sem eitt sinn fóru um landið á rauðu ljósi, lentu í einvígi um for- setaembættið. Hvorugur er náttúr- lega sú tegund af forseta sem fs- lendingar vildu, eða töldu sig vilja, á tíma Kristjáns Eldjárns og Vig- dísar Finnbogadóttur. Hvorugur hefur verið í pólitík sjálfum sér til persónulegs ábata eða til að auðg- ast; stjórnmálaferill þeirra hefur snúist um að ná völdum og áhrif- um og varla er það bílífið á Bessa- stöðum sem togar í þá. Þeir eru báðir pólitíkusar af lífi og sál - pólitísk dýr - og tæplega fær mað- ur varist þeirri tilhugsun að báðir myndu þeir kjósa sér eitthvert ann- að embætti sem færði þeim meiri völd. Raunar sagði einn viðmæl- andi Alþýðublaðsins, góður og gegn sjálfstæðismaður, að Sjálf- stæðisflokkurinn og Davíð gætu unað vel við sinn hlut: „Davíð ætti í raun að sitja skelli- hlæjandi niður í Stjórnarráði í stað þess að láta forsetakosningarnar fara svona í skapið á sér. Hér eru helstu leiðtogar vinstrimanna að berjast um vita valdalaust embætti meðan sjálfstæðismenn sitja þar sem völdin eru raunveruleg og ráða öllu.“ Nýir og breyttir menn? Báðir eru þeir Jón Baldvin og Ólafur Ragnar markaðir af löngu lífi í pólitíkinni; á ferli þeirra beggja má finna ósigra og mistök og ýmislegt sem hæglega má núa þeim um nasir í eftirsókninni eftir starfi sem hefur jafn hreina áru og forsetaembættið. Ólafur Ragnar hefur tekið þann kostinn í kosn- ingabaráttunni að þegja þunnu hljóði - „láta eins og ekkert sé“, voru óbreytt orð eins viðmælenda Alþýðublaðsins. Það er vandséð að Jón geti tekið sama kost - eða að Ólafur geti haldið áfram að stein- þegja ef kosningabaráttan harðnar. Flestir þeir sem Alþýðublaðið leit- aði álits hjá töldu þó að þeir myndu forðast að lenda í einhverjum pól- itískum hanaslag sem þeir þó kunna báðir mæta vel. Eftir Ólafi Ragnari er raunar haft að hann ætli ekki út i neinn ófrið við Jón, held- ur ætli hann að tala um hann sem vin sinn í kosningabaráttunni. Það yrðu auðvitað undur og stórmerki ef þeir birtust báðir óforvarendis eins og friðarhöfðingjar. Eða, líkt og einn stuðningsmaður Guðrúnar Pétursdóttur, orðaði það: „Það yrði bara kjánalegt, og beinlínis óþægi- legt, að sjá þá saman, Ólaf og Jón, settlega og pena eins og þeir hafi aldrei gert neitt af sér.“ ■

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.