Morgunblaðið - 29.09.2001, Qupperneq 16
Starfssvið jafnréttisnefndar HáskólaÍslands nær „til jafnréttismála í víð-um skilningi,“ eins og segir í erind-
isbréfi hennar frá 1997. Hlutverk jafnrétt-
isnefndar er m.a. að afla upplýsinga um
stöðu jafnréttismála innan Háskólans,
gera tillögur um jafnréttisstefnu, efna til
umræðu og fræðslu um jafnréttismál inn-
an Háskólans og veita ráð og umsögn í
jafnréttismálum.
Stofnun jafnréttisnefndar á sér nokkurn
aðdraganda. Árið 1995 skipaði háskólaráð
fjögurra manna millifundanefnd til að
gera tillögur fyrir ráðið um stefnu í jafn-
réttismálum og framkvæmd hennar. Að
tillögu nefndarinnar var jafnréttisnefnd
stofnuð sem ein af fastanefndum há-
skólaráðs og tók hún til starfa í ársbyrjun
1998.
Á grundvelli tillagna milli-
fundanefndar réðist jafnrétt-
isnefnd í gerð jafnréttisáætl-
unar sem var samþykkt í
Háskólaráði 19. október 2000.
Áætlunin er til fjögurra ára,
2000-04, og byggir á lögum nr.
96/2000 um jafna stöðu og
jafnan rétt karla og kvenna og
nær til nemenda og starfs-
manna en gert er ráð fyrir að
samin verði sérstök jafnrétt-
isáætlun fyrir minnihlutahópa
við Háskólann. Er þá einkum
átt við fatlaða í hópi nemenda
og starfsmanna, samkyn-
hneygða og erlenda starfs-
menn og stúdenta. Í jafnrétt-
isáætlun Háskólans segir m.a.:
Stefnt er að því að jafnrétt-
issjónarmið verði samþætt
allri starfsemi háskólasamfé-
lagsins. Það þýðir að jafnrétti
kynjanna verði haft í huga við
alla stefnumótun, ákvarð-
anatöku og áætlanagerð.
Rósa Erlingsdóttir stjórn-
málafræðingur er starfsmaður
jafnréttisnefndar og verkefn-
isstjóri jafnréttisátaks Háskóla Íslands og
Jafnréttisstofu. Hún segir að samþykkt
áætlunarinnar hafi verið stór áfangi. „Með
henni erum við komin með lagalega stoð
fyrir starfið og þar af leiðandi áþreifanlegt
tæki til að flétta jafnréttismálin inn í alla
þætti háskólasamfélagsins.“
Vísbendingar eru um að konur eigi við
fleiri hindranir að etja en karlar innan
vísindasamfélagsins. Rannsóknir hafa leitt
í ljós að vel menntaðar konur skila sér
ekki í ábyrgðarstöður í samfélaginu og hið
sama virðist gilda um Háskóla Íslands.
Könnun Félagsvísindastofnunar á starfs-
aðstæðum starfsmanna Háskólans árið
1996 og úttekt Þorgerðar Einarsdóttur á
vinnumatskerfi háskólamanna sýna að
menntun skilar konum ekki jafn háum
stöðum og körlum og að þær sitja í lægri
stöðugildum meðan jafnvel minna
menntaðir karlar færast upp virðingarstig-
ann. Konur virðast því lengur að vinna sig
upp innan háskólasamfélagsins og jafnt
hlutfall kynjanna í námi hefur enn sem
komið er ekki skilað konum upp á æðri
stig kennslu eða rannsókna.
Jafnréttisnefnd hefur óskað eftir því að
Rannsóknasvið Háskólans vinni fyrir sig
úttekt á framgangskerfi Háskólans með
tilliti til jafnréttissjónarmiða. Rósa út-
skýrir í hverju hún er fólgin: „Það á að
gera úttekt á framgangshraða kvenna og
karla við Háskólann með tilliti til gagna
úr grunnmati og starfsaldurs í hverju
stöðuheiti. Því hefur verið haldið fram við
erlenda háskóla að konur séu lengur að
komast í gegnum framgangskerfið en
karlar, þær sæki síður um framgang og að
samsetning stiga, sem þarf til þess að öðl-
ast framgang, sé önnur en hjá körlum.
Það er erfitt að alhæfa nokkuð um hverjar
skýringarnar kunni að vera en vafalaust er
bæði um að ræða innri og ytri áhrif. Ég
tel mikilvægt að komast að því hvar gler-
þakið svokallaða liggur í háskólasamfé-
laginu svo hægt sé að bregðast við því.
Með jafnréttisáætluninni er reynt að
bregðast við ofangreindum vanda en í
henni er m.a. kveðið á um að í auglýs-
ingum um störf skuli koma fram hvatning
til einstaklinga af því kyni sem er í minni-
hluta á því sviði, deild eða stofnun sem
um ræðir. Þá er einnig kveðið á um að
umsækjandi af því kyni sem er í minni-
hluta á umræddu stafssviði skuli ráðinn
teljist hann jafnhæfur öðrum umsækj-
endum. Þetta er í samræmi við þau laga-
sjónarmið sem komið hafa fram í dómum
Hæstaréttar (t.d. 1993:2230).“
Í jafnréttisáætlun Háskólans segir jafn-
framt að ráðast skuli í athugun á dóm-
nefndarálitum og kannað hvort finna
megi ósamræmi í mati á körlum og kon-
um en því hefur verið haldið fram að
konur fái aðra málsmeðferð en karlar við
stöðuveitingar. Norsk rannsókn á um-
sögnum og mati á umsækjendum um
stöður við háskóla leiddi í ljós sláandi
mun á því orðfæri sem notað var um kyn-
in. Rósa segir að jafnréttisnefnd hafi þeg-
ar fengið óháðan aðila til þess að gera út-
tekt á orðfæri dómnefndarálita með tilliti
til kynferðis. Verið er að leggja síðustu
hönd á úttektina og verða niðurstöður
hennar kynntar á haustdögum.
Sigríður Þorgeirsdóttir, dósent í heim-
speki, er fráfarandi formaður jafnrétt-
isnefndar. Þegar hún er beðin um að líta
til baka og meta starf nefndarinnar þessi
fjögur ár sem hún hefur gegnt for-
mennsku segir Sigríður að hæst beri jafn-
réttisáætlunina. „Hún er stefnuyfirlýsing
yfirstjórnar Háskóla Íslands. Með sam-
þykkt og framkvæmd hennar sýnir Há-
skólinn að hann kýs að vera í fararbroddi
í jafnréttismálum.“ Sigríður segir að þær
rannsóknir og kannanir sem nefndin hef-
ur staðið fyrir, og sagt er frá hér að ofan,
geri kleift að meta stöðuna í jafnrétt-
ismálum. „Tölur sýna t.d. að ef konum
fjölgar jafnhægt og hingað til í efstu stöð-
um, t.d. prófessorsstöðum, þar sem konur
eru aðeins 11%, mun taka óratíma að ná
jafnstöðu kynjanna í vísindasamfélaginu.
Þess vegna er aðgerða þörf, jafnrétti næst
ekki af sjálfu sér. Með jafnréttisátaki HÍ
og Jafnréttisstofu um jafnara náms- og
starfsval kynjanna er leitast við að andæfa
staðalmyndum um kynin og vinna gegn
allt of kynskiptum vinnumarkaði.“ Sigríð-
ur bendir á að Háskólinn sé einn stærsti
vinnustaður landsins með hartnær 7000
stúdenta og árið 2000 voru 3100 manns
greidd laun vegna starfa við skólann.
„Vinna að jafnréttismálum er því sjálf-
sagður liður í starfsemi Háskólans,“ segir
Sigríður. „Jafnréttissjónarmið þarf að hafa
að leiðarljósi við alla starfsemi og stefnu-
mótun skólans.“
Gegn of
kynbundn-
um vinnu-
markaði
16 D LAUGARDAGUR 29. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Jafnrétti
í öndvegi
Undanfarin 10 ár hefur Háskóli Íslands leitast við
að stuðla að jafnri stöðu kynjanna innan skólans,
bæði í hópi starfsmanna og nemenda. Jafnrétt-
isnefnd hefur verið sett á laggirnar og í gangi er
átaksverkefni sem ætlað er að jafna náms- og
starfsval kynjanna. ERLA HULDA HALLDÓRSDÓTTIR
ræddi við nokkra framverði þessara mikilvægu
mála í Háskólanum. Rannsóknir á sviði kvenna-
og kynjafræðirannsókna hafa eflst mjög, ekki síst
fyrir öfluga starfsemi Rannsóknastofu í kvenna-
fræðum HÍ og áhrif námsbrautar í kynjafræðum.
Stofnun Rannsóknastofu í kvennafræð-um á sér nokkra forsögu. Fljótlega uppúr 1970 fóru fræðikonur innan Há-
skóla Íslands og áhugasamir einstaklingar
utan háskólasamfélagsins að leggja stund á
rannsóknir tengdar konum, einkum innan
bókmennta, félagsvísinda og sagnfræði. Upp
úr 1980 var boðið upp á námskeið við Há-
skóla Íslands í t.d. kvennabókmenntum og
kvennasögu og var mikill áhugi á þessum
fræðum. Síðsumars 1985 var haldin í fyrsta
sinn hér á landi ráðstefna um kvennarann-
sóknir en þar kynntu tugir fræðikvenna
rannsóknir sínar af 15 mismunandi fræða-
sviðum. Í kjölfarið var stofnaður Áhugahóp-
ur um kvennarannsóknir en í honum voru
einstaklingar innan og utan Háskólans. Árið
1987 fékkst einnar milljónar króna fjárveit-
ing á fjárlögum til styrktar kvennarann-
sóknum og sá Áhugahópurinn um úthlutun
þessa fjár til rannsóknaverkefna og stóð auk
þess fyrir reglulegum fyrirlestrum um
kvennarannsóknir.
Eitt helsta markmið Áhugahópsins var að
koma á fót sérstakri stofnun í kvennafræð-
um við Háskólans líkt og gerst hafði við er-
lenda háskóla þegar á áttunda ára-
tugnum. Árið 1990 var samþykkt
reglugerð um stofnun Rann-
sóknastofu í kvennafræðum við Há-
skóla Íslands og tók hún formlega
til starfa 25. ágúst 1991 og fagnar
því tíu ára starfsafmæli á þessu ári.
Rannsóknastofa í kvennafræðum
hefur það að markmiði að standa
að og hvetja til rannsókna í kvenna-
og kynjafræðum, bæði meðal nem-
enda og fræðimanna innan Háskól-
ans sem og sjálfstætt starfandi
fræðimanna utan háskólasamfé-
lagsins. Stofan miðlar þekkingu
með fyrirlestrum, ráðstefnum og
útgáfu fræðibóka.
Frá upphafi hefur stofan staðið
fyrir reglulegum rabbfundum þar
sem fræðimenn kynna rannsóknir
sínar. Stjórn stofunnar hefur látið
sig málefni háskólasamfélagsins
varða og hafði stofan forgöngu um
að námsbraut í kynjafræðum var
komið á laggirnar og hvatti til stofn-
unar jafnréttisnefndar Háskólans.
Á síðasta ári gerðu Reykjavík-
urborg og Háskóli Íslands með sér
samstarfssamning um rekstur stof-
unnar til þriggja ára. Markmið samningsins
er „að stuðla að auknum rannsóknum á
sviði kvenna- og kynjafræða með sérstaka
áherslu á jafnréttisrannsóknir“. Að sögn
Irmu Erlingsdóttur bókmenntafræðings, for-
stöðumanns Rannsóknastofu í kvennafræð-
um, hefur samningurinn við Reykjavík-
urborg gjörbreytt starfsaðstæðum stofunnar.
Áður dugði fjárveitingin rétt svo til þess að
halda stofunni gangandi og sinna því allra
helsta sem var á döfinni hverju sinni en með
samningnum var í fyrsta sinn hægt að ráða
forstöðumann í fullt starf til þess að sinna
daglegum rekstri stofunnar og stýra rann-
sóknaverkefnum á vegum hennar.
Irma segir að eitt mikilvægasta verkefni
Rannsóknastofunnar um þessar mundir sé
að efla alþjóðlegt samstarf með því að tengj-
ast norrænum, evrópskum og alþjóðlegum
rannsóknum á sviði kvenna- og kynjafræða,
enda um að ræða mörg spennandi rann-
sóknarverkefni og góða möguleika á styrk-
veitingum. „Kvenna- og kynjafræðin er að-
ferðafræði sem notuð er til þess að greina
samfélag okkar og menningu,“ segir Irma.
„Kjarninn í þessum fræðum eru kynin, mun-
ur á milli þeirra, mismunur og hugsanleg
mismunun. Það er hægt að færa rök fyrir því
að þessi meinti mismunur sé grundvall-
aratriði í mannlegu samfélagi og sam-
skiptum og því þörfin fyrir fræðigreinina
augljós. Sérstaða kvenna- og kynjafræðanna
er gagnrýnið og þverfagleg sjónarhorn sem
nýtist vel við ýmsar rannsóknir. Meðal verk-
efna sem Rannsóknastofa í kvennafræðum
fæst við um þessar mundir er viðhorfs-
könnun til kláms, kynbundinn launamunur,
kyn og hnattvæðing, kyn og ofbeldi og jafn-
vægi milli heimilis og vinnu. Gildi þessara
rannsókna er praktískt og jafnframt ótví-
rætt.“
Augljóst er að mikil gróska er í starfsemi
Rannsóknastofu í kvennafræðum en stofan
stendur sem fyrr fyrir öflugu fyrirlestrahaldi
og ráðstefnum og í undirbúningi er nám-
skeiðshald við Endurmenntunarstofnun Há-
skóla Íslands á vormisseri.
Morgunblaðið/Kristinn
FRAMVERÐIR JAFNRÉTTIS: Þorgerður Ein-
arsdóttir lektor í kynjafræði, Arnfríður Guð-
mundsdóttir lektor í guðfræði og formaður
stjórnar Rannsóknastofu í kvennafræðum,
Sigríður Þorgeirsdóttir dósent í heimspeki og
fráfarandi formaður jafnréttisnefndar Há-
skóla Íslands, Rósa Erlingsdóttir starfsmaður
jafnréttisnefndar og verkefnissjóri átaksverk-
efnis HÍ og Jafnréttisstofu um jafnara náms-
og starfsval kynjanna og Irma J. Erlingsdóttir
forstöðumaður Rannsóknastofu í kvenna-
fræðum.
Menntun skilar konum
ekki jafn háum stöðum
og körlum í Háskólanum
eða í samfélaginu.
Um hlut kvenna í vísindum og fræðum, stöðu þeirra í há-
skólasamfélaginu og niðurstöður íslenskra og erlendra rann-
sókna þar að lútandi má lesa m.a. í:
Sigríður Þorgeirsdóttir, Kvenna megin. Ritgerðir um fem-
íníska heimspeki (Reykjavík, 2001);
Þorgerður Einarsdóttir, Bryddingar. Um samfélagið sem
mannanna verk (Reykjavík, 2000).
http://www.hi.is/stjorn/jafnrettisn
Mismunur og
mismunun
kynjanna
KYNJAFRÆÐI