Morgunblaðið - 21.10.2001, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 21.10.2001, Blaðsíða 8
8 B SUNNUDAGUR 21. OKTÓBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ Í RANNSÓKNUM mínum árið2000 kom fram að 35% þeirramunaðarlausu barna sem eruá götunni lentu þar strax eftirað foreldrar þeirra féllu frá, 44% höfðu búið hjá ættingjum ein- hvern tíma, áður en þau lentu á göt- unni, og 21% hafði flust tvisvar á milli heimila áður en þau lentu á göt- unni. Ástæða þeirra fyrir að fara frá þessum heimilum voru aðallega þær að það var farið illa með þau, þau voru rekin í burt eða umsjónarmenn þeirra dóu. Flest barnanna sem talað var við í rannsókninni höfðu misst foreldra sína vegna alnæmis, og 62% munaðarlausra götubarna höfðu hugsað um foreldra sína á meðan þeir voru veikir og deyjandi. Götubörnin gera sér það ljóst að ekki er litið á þau sem æskilega þjóð- félagsþegna. Flest hafa þau því mjög lítið sjálfsálit sem meðal annars kemur oft fram í ruddalegri hegðun. Þau eru iðulega handtekin fyrir minni háttar yfirsjónir og jafnvel á röngum forsendum. Í Úganda eru ekki til neinir gæslu- staðir sem eru eingöngu ætlaðir börnum, þau eru því oft sett í fang- elsi og klefa með glæpamönnum sem ekki bætir hegðun þeirra. Auk þess verða þau fyrir ýmiss konar óæski- legu áreiti og eru notuð til allskyns óþrifalegrar vinnu án þess t.d. að hafa nokkurn hlífðarfatnað. Hegðun margra þessara barna er á skjön við það sem til er ætlast af þjóðfélaginu, enda hafa þau oft farið á mis við það sem kallast má hefðbundið uppeldi. Mörg þeirra leiðast út í vafasama lifnaðarhætti á götunni, þau betla til að draga fram lífið, margar stúlkurn- ar selja sig og mörg barnanna stela þegar tækifæri gefst til að sjá sér farborða. Þá er notkun eiturlyfja nokkuð almenn. Hins vegar reyna ótrúlega mörg barnanna að lifa heið- virðu lífi með stuðningi frá ættingj- um eða vinveittu fólki. Þá er athygl- isvert hve börnin standa þétt saman, þó svo að þetta samfélag sé iðulega heldur gróft. Rannsóknin sýndi að götubörnin lifa ekki mjög innihaldsríku lífi. Svar ungs drengs í Kampala sem spurður var hvernig hann eyddi deginum var t.d. á þessa leið: „Þegar ég vakna á morgnana þvæ ég mér í framan, síð- an fer ég í ruslagámana að finna mér morgunmat. Svo fer ég að leita mér að vinnu. Helst er að fara á mark- aðinn, þar get ég fengið pening fyrir að bera hluti fyrir fólk, ég fæ stund- um 1.500 skildinga á dag“ (ísl. kr. 75). Rannsóknir mínar leiddu í ljós að ótrúlega mörg þessara barna eiga sér enga drauma um framtíðina eða hvað þau „ætla að gera þegar þau verða stór“. Þeim er það hins vegar alveg ljóst að lítil menntun þeirra gefur þeim ekki mörg tækifæri. Hugmyndin að kertagerðinni fæðist Þegar niðurstöður rannsóknar- innar voru ljósar velti ég því fyrir mér hvað væri unnt að gera fyrir götubörnin, og athugaði í því sam- bandi hvað væri gert á Íslandi til að hjálpa fólki sem ekki getur séð um sig sjálft, og hvað af því gæti hentað þjóðfélagsaðstæðum í Úganda. Þannig fæddist hugmyndin að kertagerðinni. Það hafði komið fram í rannsóknum mínum að 90% barna nota kertaljós til að læra við, enda býr aðeins lítill hluti þjóðarinnar í Úganda við þann munað að hafa raf- magn, og til þeirra sem hafa raf- magn er það oft skammtað. Mark- aður fyrir kerti sem ljósmeti er því mjög mikill í Úganda, sérstaklega meðal þeirra sem minni hafa efnin. Mér komu því í hug Sólheimar í Grímsnesi, en þar er meðal annars rekin kertagerð sem heimafólkið starfar við. Kertagerð krefst ekki mikils bún- aðar, og handverkið sem til þarf er tiltölulega auðlært. Þarna sýndist vera ákjósanlegur kostur sem vert væri að skoða sem áhugaverðan val- kost til að aðstoða þá sem minna mega sín í Úganda, líkt og gert hefur verið hér á landi. Það varð úr að ég fór á námskeið í kertagerð hjá Vax- andi á Íslandi, og dvaldi að auki heil- an dag við að kynna sér vinnuaðferð- ir starfsmanna á Sólheimum. Þar voru allir einstaklega jákvæðir og hjálpsamir og byggði það upp kjark og þor til að halda áfram, og eiga þeir þakkir skildar fyrir það. Í niðurstöðum fyrri rannsókna minna hafði komið fram að meiri hluti götubarna var ósáttur við þær aðstæður sem fylgja götulífinu, þau voru fús að þiggja aðstoð og leggja að sér við að losna þaðan. Við rann- sóknirnar í Úganda hafði meðal ann- ars verið haft samband við ýmis fé- lagasamtök sem unnu að því að aðstoða götubörn. Mér virtist ein þessara samtaka, „Friends of child- ren association“ eða FOCA, sýna hvað mestan árangur. Ég hafði því samband við FOCA og einnig „Save the Children“ frá Danmörku, og lagði til að við reyndum í sameiningu að setja upp kertagerð fyrir götu- börn. Markmiðið með verkefninu var að aðstoða FOCA við að koma á fót vinnustað þar sem götubörn fengju tækifæri til að starfa, og að þau fengju greidd laun fyrir vinnu sína. Kunnátta í handverki gæti hjálpað börnunum við að byggja upp sjálfs- álit og gæti komið þeim að gagni við að losna úr sárustu örbirgð og á þann hátt að komast af götunni. Götubörn- in eru séð af almenningi sem óalandi og óferjandi, en raunin er að flest eru þau ekki á götunni vegna þess að þau kjósi að vera þar heldur hafa ein- hverjar þær aðstæður skapast í lífi þeirra sem gera það að verkum að þau enda á götunni. Og eins og kom- ið hefur fram áður á alnæmisfarald- urinn í Afríku stóran þátt í því. Áhugasamir og ánægðir starfsmenn Í Úganda var höfundi og hug- myndum um kertavinnsluna vel tek- ið og bauð FOCA nokkrum stúlkum sem voru á þeirra snærum að taka þátt í tveggja vikna námskeiði í kertagerð. Námskeiðið hófst um miðjan maí og tóku 16 stúlkur þátt. Unnið var frá kl.10 á morgnana til þrjú á daginn, og sá FOCA þeim fyr- ir hádegismat og útvegaði félagsráð- gjafa til þess að starfa með þeim. Í upphafi höfðu stúlkurnar vara á sér, en fljótlega hvarf öll spenna, og núna er yfirleitt heldur létt yfir hópnum. Námskeiðið gekk vel fyrir sig, og flestar stúlknanna sýndu meiri áhuga en væntingar stóðu til. Eftir fyrstu tvær vikurnar var stúlk- unum boðið að halda áfram að vinna að kertagerð, en nú með það að markmiði að framleiða kerti til sölu og þeim yrðu borguð laun svo fremi sem eitthvað seldist. Til að hrinda verkefninu af stað í upphafi fékk kertagerðin húsnæði sem er við skrifstofur FOCA. Þar í garðinum eru tveir gámar sem hafði verið breytt í skrifstofur en voru ekki lengur í notkun. Á milli gám- anna var vinnusvæði, sem þak var yfir. Þarna var rafmagn en ekki rennandi vatn. Þessi vinnuaðstaða hentaði vel í upphafi, t.d. var gott að geta leitað til FOCA, og eins þurfti að sýna fram á tilverurétt verkefn- isins áður en færst yrði meira í fang. Kertabörnin í Kampala Málefni Austur-Afríku hafa lengi vakið áhuga Erlu Hall- dórsdóttur mannfræðings, en hún hefur verið þar bú- sett um árabil. Hún rann- sakaði þar hagi mun- aðarlausra barna á tíma- bilinu 1999–2000 og var eitt sinn spurð af mun- aðarlausu barni: „Af hverju eru allir að spyrja en enginn gerir neitt?“ Þessi orð sátu eftir og Erla hélt til Úganda til að „gera eitthvað“. Stúlkurnar bíða í röð eftir að dýfa kertunum, en sá hluti vinnunnar finnst þeim einna skemmtilegastur. Edith er ein þeirra stúlkna sem lengst voru á götunni. Hún var ansi framlág á morgnana fyrstu vikurnar, enda stundaði hún vændi á kvöldin og nóttunni. Prossy hefur verið á götunni í mörg ár og á von á barni í desember. Hún hefur verulega dregið úr eitur- lyfjaneyslu síðan hún fór að framleiða kerti. Stúlkurnar dýfa kertum utan við gámana hjá FOCA, en allar eru þær kunnar heildarferli kertaframleiðslunnar og er vonast til að kertagerðin nái að verða að litlu iðnfyrirtæki.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.