Morgunblaðið - 14.11.2001, Qupperneq 6
6 B MIÐVIKUDAGUR 14. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
BÆKUR
1.
Veturinn þreifaði fyrir sér,
þegar fundum okkar skáldsins bar saman.
Hann stóð brosandi á tröppunum
með sverð gegnum varir.
Hvernig finnst honum
að fá þessa mynd af sér upp í hendurnar?
Þakka þér fyrir. Það er góð tilfinning,
sagði skáldið. Gakktu í bæinn.
Ljóðasafn er eins og að líta um öxl,
ég fór að vega og meta svo margt.
Mest hugsaði ég um eldri bækurnar
og þá aðallega þær fyrstu.
Aungull í tímann fékk mjög góðar viðtökur,
en Undarlegir fiskar
urðu að synda gegn straumnum
og menn áttuðu sig ekki
á Malbikuðum hjörtum.
Þeir vildu bara hafa mig
eins og ég var í fyrstu bókinni;
ég átti alltaf að vera sautján ára.
Í fyrstu bókinni
og að stórum hluta í þeirri annarri
eru ljóðin ekki torræð með neinum hætti.
En í súrrealísku ljóðunum
komu myndgerð og málbeiting,
sem lítið var af
í íslenzkri ljóðagerð.
Hann sagðist hafa lesið súrrealísku ljóðskáldin,
frönsk og spænsk og nefndi Lorca.
Og myndlistin hreif hann.
Hann var eins og grár köttur á listasöfnum,
drakk í sig liti með ljóðunum.
Hér heima var hann
í tveggja manna klíku
með Alfreði Flóka.
Það fannst þeim hæfilegur fjöldi fyrir þjóðina!
Þeir voru óaðskiljanlegir,
súrrealískir síamstvíburar.
Svo skildi dauðinn þá að.
Nú segist skáldið
ekki gera sér fulla grein fyrir breytingunum
í Mig hefur dreymt þetta áður.
Súrrealismanum bregður fyrir,
en ljóðin eru í meira jafnvægi en áður,
það er tilhneiging
til klassískari ljóða
og í þeim heimspeki og tilvistarlegur tónn.
Ragnheiður
var komin inn í líf hans
með „bragð af tungli,
bragð af geislum“,
ætli hann væri enn súrrealisti án hennar?
Eitthvað kom nú Camus þarna líka við sögu,
með Útlendingnum og Plágunni,
Fallinu og Uppreisnarmanninum,
að ógleymdri Goðsögninni um Sisyfos.
Sisyfos settist að skáldinu,
velti steininum upp fjallið,
til þess að missa hann við brún
og verða að byrja upp á nýtt.
Það var þrátt fyrir allt hamingja.
Í Malbikuðum hjörtum
er ljóð um Albert Camus,
en ekki Jean Paul Sartre.
Sartre var alla tíð mikill vinstri sinni,
þrátt fyrir uppsteit gegn flokknum,
en Camus gaf gaum að klassískari efnum
og efnum af trúarlegum toga.
Skáldinu fannst Camus standa sér nær.
Áður hafði skáldið staðið Sartre nær,
en skipti um skoðun.
Það var allt að því dauðadómur
að freista þess að fara frá vinstri, sagði hann.
Svo harðir og ósvífnir voru þeir tímar hér heima.
2.
Hann vildi uppreisn
í hugmyndafræði og skáldskap.
Hann horfði á
eldri atómskáldin yrkja sig
inn á akademískar brautir,
en sjálfur vildi hann
koma til móts við heimildaskáldskapinn.
„Á stofuveggnum hangir mynd.
Mér er sagt að hún sé af langafa,
sem ég veit að fór aldrei til ljósmyndara.“
Svo birtust fleiri bækur á sömu nótum;
Dagbók borgaralegs skálds og Frá Umsvölum.
Hann kallaði þær ljóðsögur.
Þær voru kannski skrifaðar fyrir þá,
sem ekki lásu ljóð,
eins konar andljóð.
En þær urðu skáldinu þrautin þyngri,
því í heimildaskáldskap
er hætta á að ganga of langt.
Skáldið ákvað að taka sér hlé.
Taldi, að hann væri búinn að yrkja nóg,
og honum kom til hugar að hætta.
En auðvitað tókst það ekki.
Reyndar sleppti hann aldrei hendinni af ljóðinu,
þau stóðu stök upp úr prósanum
og skáldið stiklaði þau til baka,
en nú með klassíska kápu á herðunum.
3.
Það var skrýtið að sitja hjá skáldinu
og skoða lífshlaup hans.
Býr virkilega uppreisnarmaður hér?
Þetta er rólegheita sála að sjá!
Hann hló og talaði um lífsins margvíslegu kafla.
Ég hef alltaf viljað horfast í augu við sjálfan mig.
Það hefur vonandi aldrei verið nein kyrrstaða.
4.
Í ljóðaúrvalinu flögrar fortíðin hjá honum.
Ég hef verið að hugsa um eitt og annað
og helzt að endurmeta
súrrealíska tímabilið.
Ég hefði hugsanlega
getað gengið lengra í því.
En eitthvað hélt aftur af mér
og önnur áhugaefni tóku við;
tilvistarstefnan varð ágeng.
Núna gerði ég örfáar orðalagsbreytingar
í elztu bókunum.
Maður áttar sig alltaf á einhverju,
sem orða má betur,
það situr í kollinum og kallar til þín,
þegar tækifærið gefst.
En auðvitað er svona bók
gerð fyrir lesandann,
en ekki höfundinn.
Þetta er mynd Þrastar af mér.
Sjálfur hefði ég valið örlítið öðru vísi.
En þetta er mynd,
sem ég get vel verið sáttur við.
Finnar fengu á dögunum
aðra mynd af honum:
Brim Íshafsins er sýnisbók
með klassísku og módernísku yfirbragði,
sagði hann.
Sú bók spannar ekki allan skáldferilinn
og heimildaljóðin
voru flest viljandi skilin út undan.
Samt dregur bókin nafn
af ljóði Frá Umsvölum.
Hann sagðist hafa lesið
í sænskri bókmenntasögu
um íslenzkar bókmenntir,
að Myndin af langafa
sé fyrsta heimildaljóðabók íslenzk.
Hún var áreiðanlega með þeim fyrstu,
sagði hann,
það voru fleiri að yrkja svona.
5.
Ljóðið er skáldinu mjög mikilvægt.
Það er kannski helzt
að maður átti sig á lífi sínu í ljóði,
sagði hann.
Þó var hann ekki ljóðelskt barn.
En faðir hans var mikill ljóðamaður
og kunni reiðinnar býsn.
Þannig vandist hann ljóðinu,
en hann leitaði ekkert eftir því.
Skólaljóðin fundust honum yfirleitt hryllileg.
En þegar unglingurinn kom í hann,
fór hann að lesa ljóð,
hreifst af Steini og Jóni úr Vör
og grúskaði í erlendum skáldskap,
þótt hann kynni lítið í tungumálum.
Ég man, að fyrsta útlenda bókin mín
var eftir Walt Whitman.
Hann orti í óbundnu formi,
sem ég kunni strax bezt við.
Nú hefur hann sjálfur ort sextán bækur
og segist eiga í geymslu
óbirt ljóð, sem gætu dugað í einhverjar bækur.
En hann ætlar ekki að hleypa þeim út.
Hann er harður húsbóndi við sitt skáld.
Ég er að vinna að ljóðabók,
sem ég hugsa sem framhald
síðustu tveggja bóka minna;
að þessar þrjár
geti staðið saman sem einhvers konar heild.
Við verðum bara að bíða,
hann flýtir sér viljandi hægt.
Spurningin
um boðskap skáldsins vakti honum bros:
Ef við höfum það einfalt,
er ég bara að segja frá mínu eigin lífi
og hvernig ég lít á lífið.
Svo kemur að lesandanum
að halda áfram að yrkja.
Um lífið og dauðann?
Spurningarnar um líf og dauða
eru alltaf nærtækar.
Yrkisefnið er tilvist okkar,
og þá frekar lífið en dauðinn,
þótt hann sé alltaf með í för.
6.
Í síðustu bókunum
hefur hann leitað heim
á Snæfellsnes bernsku sinnar.
Hann, sem hefur farið um víða veröld
og velt fyrir sér lífsgátunni,
er aftur kominn í fjöruna heima.
Þessa þrotlausu leit,
hefur hann orkt inn í ótal ljóð,
á langri leið um þúsund lönd,
„með nokkrar línur úr Sturlungu
í lestinni til Tarragona“.
Nú hillir undir Hellissand,
þar sem hann
hefur dreymt þetta áður.
JPV-útgáfa hefur gefið út bókina Með sverð gegnum
varir, úrval ljóða Jóhanns Hjálmarssonar 1956–2000,
sem Þröstur Helgason valdi og ritaði formála að.
Myndin af skáldinu
eftir Freystein
Jóhannsson
Morgunblaðið/Jóra
JÓHANN HJÁLMARSSON: Ef við höfum það ein-
falt, er ég bara að segja frá mínu eigin lífi.
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Sorgargondóll og
fleiri ljóð er eftir
Tomas
Tranströmer í
þýðingu Ingibjarg-
ar Haraldsdóttur.
Tomas
Tranströmer er
höfuðskáld Svía.
Hann gaf út
fyrstu ljóðabók
sína árið 1954 og eftir það fjölda
ljóðabóka auk minningabókar. Ljóð
hans hafa verið þýdd á 51 tungu-
mál. Tomas hefur hlotið fjölda við-
urkenninga, m.a. bókmenntaverð-
laun Norðurlandaráðs og norræn
verðlaun sænsku akademíunnar.
Sorgargondóllinn hefur hlotið verð-
laun í Svíþjóð sem besta skáldverk
ársins.
Sérstakur viðauki er í bókinni sem
geymir nokkur nýrri ljóð Tomasar,
sem hann sendi Ingibjörgu sér-
staklega.
Útgefandi er Mál og menning.
Bókin er 56 bls., prentuð hjá Grafík.
Kápuna prýðir málverk eftir listmál-
arann Georg Guðna. Skaparinn
hannaði kápu. Verð: 1.990 kr.
Ljóð
Í spegli, í gátu er
eftir Jostein
Gaarder er í þýð-
ingu Ernu Árna-
dóttur. Þar segir
frá stúlkunni
Sesselíu sem
liggur veik í rúm-
inu sínu þegar
engillinn Aríel vitj-
ar hennar, nauða-
sköllóttur, vængjalaus og óend-
anlega forvitinn um verur af holdi og
blóði. „Í fyrstu er Sesselía tortryggin
gagnvart honum en uppgötvar fljótt
að það er óþarfi. Þrátt fyrir veikindin
getur Aríel skemmt henni stórkost-
lega og enginn styttir henni stund-
irnar í einverunni betur en hann.
Seinna kemur á daginn að hann á
við hana mikilvægt erindi,“ segir í
fréttatilkynningu.
Bókin hefur verið þýdd á fjölda
tungumála, eins og saga Josteins
Gaarder, Veröld Soffíu.
Útgefandi er Mál og menning.
Bókin er 172 bls., prentuð í Prent-
smiðjunni Odda hf. Margrét Laxness
hannaði kápuna. Verð: 2.890 kr.
Börn
Með lífið í lúk-
unum – Gam-
ansögur af ís-
lenskum læknum
er í ritstjórn Guð-
jóns Inga Eiríks-
sonar og Jóns
Hjaltasonar.
Í kynningu seg-
ir m.a.: „Hetjur
hvíta sloppsins taka til máls og
leyna engu. Ólafur Ólafsson, land-
læknir þjóðarinnar, auglýsir eftir
sjúklingum, Jónas Franklín hrósar
konu, Pétri Péturssyni verður orðfall
(jú, alveg satt), Ólafur Halldórsson
vill frið í viðtalstímum og Lýður
Árnason ljóstrar upp um lífið á
Borgar- og Landspítala.“
Útgefandi er Bókaútgáfan Hólar.
Bókin er 184 bls., prentuð í Lett-
landi. Verð: 2.980 kr.
Gaman
Náttúrulegar og
hefðbundnar
lækningar er eftir
Caroline Green í
þýðingu Helgu
Þórarinsdóttur.
Í bókinni eru
lesendum gefin
ráð um hvernig
bregðast skuli við
ýmsum algengum
kvillum sem gera vart við sig. Hér er
að finna lýsingar á einkennum og or-
sökum helstu sjúkdóma og kvilla sem
gera mönnum lífið leitt og bent á hve-
nær ástæða er til að leita sér hjálpar.
Útgefandi er Almenna bókafélagið.
Bókin er 112 bls., prentuð í Portúgal.
Ragnar Helgi Ólafsson hannaði kápu.
Verð: 2.490 kr.
Heilsa