Morgunblaðið - 28.11.2001, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 28.11.2001, Blaðsíða 4
4 B MIÐVIKUDAGUR 28. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ BÆKUR 1. Á móti einstefnu áleiðis að húsinu hans. Leigubílstjórinn ruglaðist. Lagleg byrjun, hugsa ég. Þrýsti þumalfingri á dyrabjölluna og heyri símann hringja inni. Bíð. Bíð enn. Ólafur Jóhann Ólafsson rithöf- undur og athafnamaður sviptir upp útidyrum húss síns í Austurbæ Reykjavíkur. „Blessaður. Ég veit aldrei hvort það er síminn eða dyra- bjallan. Þeir tengdu þetta eitthvað vitlaust.“ 2. Varla er ofmælt að aðalpersónan í nýjustu skáldsögu Ólafs, Höll minn- inganna, hafi einnig farið á móti um- ferðinni. Sé hefðbundið líf til mætti kalla það einstefnu. Lífshlaup Krist- jáns Benediktssonar – eins og Ólafur nefnir manninn, en hann á sér fyr- irmynd í raunveruleikanum eins og þegar hefur komið fram – var aftur á móti fráleitt að hætti fjöldans: Hann yfirgefur eiginkonu og börn á Ís- landi snemma á síðustu öld; gufar bókstaflega upp, og starfar lengst af eftir það sem einkaþjónn bandaríska blaðakóngsins William Randolph Hearst. Ökuferðin í upphafi var því ef til vill vel við hæfi, þegar öllu er á botn- inn hvolft. 3. Þigg kaffi fyrst hann var búinn að hella uppá. Ólafur fær sér vatn. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég nota lífshlaup einhvers sem grunn- tón í sögu. En þetta er skáldsaga; þó að persónurnar séu ekki allar úr lausu lofti gripnar eru þær hug- arburður minn. Ég þekkti ekki þennan mann og velti því fyrir mér hvort nokkur hafi þekkt hann,“ segir rithöfundurinn. Kristján Tómas Ragnarsson, læknir í New York, sonarsonur fyr- irmyndarinnar, er góðvinur Ólafs Jóhanns og sagði honum sögu afa síns fyrir nokkrum árum. „Þá var ég að skrifa síðustu bók á undan þess- ari, Slóð fiðrildanna, en byrjaði að pára hjá mér punkta strax og heim kom þetta kvöld. Sagan sat í mér; hún er heillandi; ég vissi strax ég myndi skrifa eitthvað upp úr þessu. Svona lagað er alltaf að gerast; sambönd og hjónabönd bresta en sjaldan á svona dramatískan hátt. Þegar allt virðist leika í lyndi spring- ur oft allt í loft upp; og ekki bara í lífi einstaklingsins; stundum nota þjóðir og jafnvel mannkynið allt helstu þekkingu sína til að búa svo um hnútana að við getum tortímt okkur. Þetta greip mig. Líka það að fólki sem málar sig út í horn í lífinu finnst það oft ekki eiga afturkvæmt til hins fyrra lífs. Það held ég sé ekki spurning um að vera góðmenni eða illmenni; mað- urinn í bókinni er svolítið flókinn, hann reynir að botna í sjálfum sér, en hann er ekki illmenni.“ 4. Sagan gerist að talsverðu leyti í höllu Hearsts blaðakóngs á Kyrra- hafsströnd Bandaríkjanna. Ólafur Jóhann skoðaði sig um þar og fékk meira að segja að dvelja næturlangt, þótt alla jafna sé ekki boðið upp á slíkt. Í húsinu er nú safn. „Mér fannst ég verða að skoða hvert smáatriði; skynja andrúms- loftið í húsinu og stemmninguna á staðnum. Allt sem Hearst segir og það sem fram fer í kastalanum er skáldskapur en það varð að passa inn í sögulegt samhengi. Ef ég trúi því ekki að umhverfið sé rétt þá verður það sem ég bý til inn í um- hverfið ekki nógu trúverðugt.“ 5. Árni Tómas Ragnarsson, læknir í Reykjavík og bróðir Kristjáns Tóm- asar, hefur verið Ólafi Jóhanni mjög innan handar vegna bókarinnar. „Hann hefur hjálpað mér afskaplega mikið með alls konar gögn, meðal annars hugleiðingar ættingja mannsins sem hafa velt málinu mikið fyrir sér. Árni ekki síst; hann er geysilega skynugur maður og til- finninganæmur. Mér var mikið í mun að ættingj- arnir væru sáttir því fyrirmyndin er svo augljós. Þess vegna vildi ég vera viss um að vera nógu nærgætinn. Árni las bókina í handriti og mér fannst það léttir hve ánægður hann var.“ 6. Ólafur Jóhann hefur lengi stundað viðskipti og er nú einn forráðamanna hins risavaxna bandaríska fjölmiðla- fyrirtækis AOL-Time Warner. Seg- ist sjálfur illa geta verið langdvölum burtu frá eigin börnum, vegna þess hve hann sakni þeirra. „Á árum áður var ég ansi mikið að heiman vegna vinnunnar þannig að ég þekki til- finningarnar; að sofa ekki í eigin rúmi og sjá krakkana ekki í marga daga, stundum vikur. Nú ferðast ég hins vegar eins lítið og ég mögulega get. En blessað ímyndunaraflið kem- ur til sögunnar,“ segir hann spurður um hvernig hafi verið að setja sig í spor mannsins. „Ekki varð hjá því komist að hugleiða hvernig manni líður sem sker svona á tengslin.“ Síminn hringir á ný. Nei, það er víst dyrabjallan. „Komdu blessuð...“ „Já, þakka þér kærlega fyrir,“ segir rithöfundurinn og lokar eftir stuttan stans í anddyrinu. Kemur inn með gjöf sem verið var að færa honum. Hann játar því að sagan í nýju bókinni sé átakanleg, sömuleiðis því að það hafi verið erfitt að skrifa hana. „Mér fannst ég þurfa að ganga ansi nærri sjálfum mér til að geta sagt hana; þurfti að spyrja sjálfan mig spurninga, og svara, sem kannski hefði verið auðveldara að setja til hliðar og fara einhverja auð- veldari leið en fannst það ekki hægt. Ég hef verið heppinn að því leyti [...þrjú nett högg í eldhúsborðið...] að mér gekk mjög vel að vinna. Lokaði mig ansi mikið af og tókst að vinna lengi óslitið. Ef ég næ að setjast nið- ur að morgni og skrifa í fjóra til fimm tíma er ég góður. Þá er búið úr pokanum; ég skil að vísu alltaf svolít- ið eftir til morgundagsins svo ég eigi auðveldara með að fara í gang.“ Sögupersónan spyr sjálfan sig að því í bókinni hvort brotalöm sé í sál- inni. Komst Ólafur Jóhann að ein- hverri niðurstöðu? Er hægt að svara því hvað gerðist? „Ég held í raun að hver lesandi verði að svara því fyrir sjálfan sig. Og ég held að svörin verði margs- konar, að hver muni svara út frá eig- in reynslu. Við vitum hver ytri ástæðan er fyrir því að hann fór, en hverjar eru hinar innri ástæður sem fá hann til þess? Ef til vill vanmátt- arkennd hans sjálfs.“ 7. Ólafur Jóhann var athafnamaður sem fékkst við ritstörf, en er rithöf- undur sem fæst auk þess við við- skipti. Segist rithöfundur í fullu starfi sem sinni viðskiptum sér til dundurs og afþreyingar. Enginn skrifi tíu tíma á dag. „Í við- skiptastússinu vil ég helst sitja á kontórnum og leggja meginlínur með helstu samstarfsmönnunum en ekki skipta mér af of miklu. Það sem skiptir mig mestu máli er sálarró og jafnvægi í lífinu; þá get ég skrifað best.“ Og þannig hagar hann lífinu. Í viðskiptum hittir hann fólk sem er að fást við annað en ritstörf. Fær þann- ig inspirasjón utan úr veröldinni, eins og hann orðar það, og slíkt henti mjög vel. „Ef viðskiptin trufluðu skriftirnar myndi ég sleppa því að sinna þeim. Mér finnst þetta tvennt hins vegar styðja hvort við annað og ég get sinnt viðskiptunum algjörlega á mínum nótum. Er tvo eða þrjá eða fjóra eða fimm tíma á dag í þeim en ritstörfin sitja algjörlega fyrir og hafa gert síðan ég skrifaði Slóð fiðr- ildanna. Ég held það sé ekkert óhollt fyrir rithöfunda að geta slitið sig burt frá sjálfum sér og verkum sínum að minnsta kosti stund úr degi því þetta er mikil einvera. Rithöfundurinn er svo nátengdur þeim persónum sem hann er að búa til og lífi þeirra að þegar ég er búinn að þurrausa mig eftir fjögurra til fimm tíma skriftir er gott að svitna við að spila fótbolta, og stússa í framhaldi af því í ein- hverju öðru sem gaman er að. Og ég hef gaman af þessum miðl- unarbransa því þar er verið að búa til lifandi efni; þar er verið að skapa; blöð og tímarit og bíómyndir og músík og bækur.“ Skyldi það skipta rithöfundinn Ólaf Jóhann máli hverjum hann er að segja sögu. Skiptir máli hvort hann er að skrifa fyrir Íslendinga eða einhverja aðra? „Þetta er interessant spurning. Maður skrifar af tveimur ástæðum; annars vegar er innri þörf – sá sem skrifar ekki til þess að honum líði betur sleppir því. Enginn pínir sig til skrifta. Hins vegar skrifar maður ekki bækur bara fyrir sjálfan sig heldur svo einhver geti notið þeirra. Nú er þessi bók að fá sitt framhalds- líf, hið raunverulega líf segja sumir, þegar hún lifnar í hugum lesenda sem hver les út frá sinni reynslu. Mínar persónur endurspegla það sem ég þekki og ég veit, þess vegna eru þær íslenskar og þótt þær séu kannski á milli tveggja heima á margan hátt, eins og Kristján Bene- diktsson – eins og ég hef verið á milli tveggja heima um nokkurt skeið, þó annarra heima en hann að sumu leyti en svipaðra að öðru – held ég að við mennirnir séum eins hvar sem við búum í heiminum. Og held ég sé ekki frekar að segja Íslendingum þessa sögu en Kínverjum eða Frökk- um eða Bandaríkjamönnum eða Bretum. Í Slóð fiðrildanna segi ég sögu ís- lenskrar konu sem býr í Bretlandi, en hvergi hef ég heyrt að hún sé sér- íslensk. Að svona myndi bara Íslend- ingur hugsa og bara Íslendingur gera. Að einhver skilji ekki hvað manneskjan er að hugsa. Tugir dóma eru komnir um bókina, jafnvel hundrað, og þetta hefur hvergi sést í allri þeirri umfjöllun. Þó að við látum stundum svo mennirnir að einhver óskapleg gjá sé á milli þjóðfélagshópa eða þjóða eða trúarhópa þá erum við að und- irlagi öll eins og sömu tilfinningar bærast með mönnum; blóðið í öllum er 37 gráðu heitt.“ 8. Rithöfundurinn og athafnamað- urinn nefndi fótbolta áðan og í ljós kemur að hann er forfallinn knatt- spyrnumaður. Nú mætir hann þrjá daga í viku hjá einkaþjálfara. „Við hittumst í há- deginu þegar ég er búinn að skrifa, byrjum einn á móti einum í fótbolta í hálftíma, þar sem átökin eru mikil. Síðan lætur hann mig lyfta, teygja og slíkt. Tvo aðra daga spila ég svo fótbolta innanhúss þar sem við erum þrír eða fjórir saman í liði og þar ganga menn í barndóm, sem er mjög gott. Enginn tekur sig allt of alvar- lega og þetta er helvíti gaman; að geta hlaupið, djöflast og sparkað í vini og kunningja! Það er eins og að vera kominn aftur í fimmta flokk KR. Ég er orðinn alveg forfallinn,“ segir Ólafur Jóhann. Lokaorðin eru mælt á bílastæðinu. Ég þigg far austur úr, Ólafur Jóhann sest undir stýri og ekur af stað í við- eigandi átt – á móti einstefnunni. Á milli tveggja heima Morgunblaðið/Einar Falur ÓLAFUR JÓHANN ÓLAFSSON: Fólki sem málar sig út í horn finnst það oft ekki eiga afturkvæmt til fyrra lífs. eftir Skapta Hallgrímsson  Vaka- Helgafell hefur gefið út skáldsöguna Höll minninganna eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. JÁTNING er eftir Birgittu H. Hall- dórsdóttur. Sagan segir af sjö krökkum, þremur stelpum og fjórum strákum, óað- skiljanlegir vinir öll bernsku- og æskuárin. Ein stelpan var Agatha, skírð í höfuðið á ensku skáldkon- unni frægu, Agöthu Christie. Hún átti erfiðan uppvöxt, ólst ásamt eldri systur sinni, Barböru, upp hjá einstæðri móður sem ól önn fyrir fjölskyldunni á vafasaman hátt. Þegar sagan hefst hefur Agatha bú- ið í Danmörku um hríð eftir voveif- legan dauða móður hennar en skyndilegt andlát í fjölskyldunni dregur hana heim á ný. Agatha hef- ur tæpast stigið fæti á land þegar hún fær að vita um hræðilegan dauðdaga systur sinnar. Útgefandi er Skjaldborg. Bókin er 219 bls., prentuð í Lettlandi. Verð: 3.480 kr. Skáldsaga Á lífsins leið IV. Í þessu fjórða bindi ritsafnsins segja fjölmargir kunnir menn og konur frá hugð- arefnum sínum, minnisstæðum atvikum á lífsleið- inni og fólki sem ekki gleymist og skrá sjálfir sögur sínar. Atburðir gerast á ýmsum ára- tugum 20. aldarinnar, flestir hér- lendis en einnig víðar, ýmist á landi eða sjó. Umsjón með útgáfunni höfðu Karl Helgason og Ólafur Haukur Árnason. Bókin er gefin út til styrktar Barnaspítala Hringsins og forvarna- starfi IOGT meðal barna. Útgefandi er góðgerðafélagið Stoð og styrkur. Æskan ehf. dreifir bók- inni. Bókin er 160 bls., prentuð í Odda. . Verð: 3.670 kr. Endurminningar GLATT er í Glaumbæ eftir Guðjón Sveins- son kemur nú út í þriðja sinn. Hér segir frá barnafjölskyldu sem býr í sjáv- arþorpi. Faðirinn er kennari en stundar búskap í hjáverkum. Bókin er myndskreytt af Erlu Sig- urðardóttur. Útgefandi er Mánabergsútgáfan. Bókin er 142 bls., prentuð í Prent- smiðju Hafnarfjarðar. Verð: 2.310 kr. Börn Gæsahúð II – Hryllings- myndavélin er eftir R.L. Stine. Karl Emil Gunn- arsson þýddi. Þetta er önnur bókin í ameríska bókaflokknum „Goosebumps“. Hrollvekjan segir frá Garðari og vin- um hans sem finna gamla mynda- vél. Allar myndir sem teknar eru á hana misheppnast en myndavélin virðist sjá fram í tímann og spá ill- um atburðum. Spurningin er: Hver verður næst fyrir barðinu á hryll- ingsmyndavélinni? Útgefandi er Salka. Bókin er 137 bls., prentuð í Danmörku. Verð: 1.680 kr. Skál fyrir skamm- deginu er fyrsta ljóðabók Ófeigs Sigurðssonar. Bókin hefur að geyma 69 ljóð. Útgefandi er Nykur. Bókin er 69 bls., prentuð í Lit- rófi. Ljóð

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.