Morgunblaðið - 12.06.2002, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 12.06.2002, Blaðsíða 2
2 C MIÐVIKUDAGUR 12. JÚNÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ ákvörðun íslensku stjórnarinnar um að færa fiskveiðilögsöguna út í 50 sjómílur auk þess sem hún voni að stjórnmálasambandið verði til þess að auka vináttu þjóðanna. Í grein- inni, sem var birt í heild í lauslegri þýðingu í Morgunblaðinu, segir að um merkan áfanga í sögu samskipta þjóðanna sé að ræða og er þessum nýja kafla í sögu samskiptanna fagn- að. „Hinn mikli leiðtogi kínversku þjóðarinnar, Mao formaður, hefur sagt: „Sérhver þjóð, stór eða smá, hefur sínar sterku og veiku hliðar.“ Við höfum alltaf haldið því fram að allar þjóðir, stórar eða smáar, séu jafningjar, og að fimm und- irstöðuatriði friðsamlegrar sam- búðar séu grundvöllur, sem sam- skipti þjóða eigi að byggjast á. Við erum andvígir kenningu heims- valdastefnunnar, sem kveður svo á að stórþjóðir séu öðrum fremri, en smáþjóðir öðrum síðri. Við munum ávallt, eins og fyrr og nú, berjast með smærri þjóðum heims gegn valda- stefnu og yfirdrottnun risaþjóðanna. Íslenzka þjóðin hefur átt í langvar- andi sjálfstæðisbaráttu. Hún hefur margsinnis barizt gegn erlendri ásælni og afskiptum, og krafizt þess að bandarískar herstöðvar verði lagðar niður. Nú hefur íslenzka rík- isstjórnin ákveðið að færa fiskveiði- lögsöguna úr 12 sjómílum frá strönd- um landsins í 50 mílur. Í þessari ákvörðun felst krafa íslenzku þjóð- arinnar, og hefur hún hlotið skilning víða um heim. Ríkisstjórn Kína og kínverska þjóðin styðja íslenzku þjóðina í réttmætri baráttu hennar.“ Kínverjar opnuðu sendiráð við Víðimel 1972 og Chen Tung var fyrsti kínverski sendiherrann á Ís- landi, en hann afhenti trúnaðarbréf sitt 8. september 1972. Fyrsta pólitíska heimsóknin 1955 Sem fyrr segir voru samskipti þjóðanna lítil áður en stjórnmála- sambandinu var komið á. Íslend- ingar heimsóttu Kína af og til um miðbik nýliðinnar aldar en eftir því sem næst verður komist fór fyrsta pólitíska sendinefndin, fimm manna nefnd ungliða stjórnmálaflokka, héð- an til Kína 1955 í boði kínverskra stjórnvalda og hitti m.a. utanrík- isráðherra landsins. Í nefndinni voru Stefán Gunnlaugsson, Halldór B. Stefánsson, Indriði G. Þorsteinsson, Sigurður Guðgeirsson og Böðvar Pétursson. „Við vorum fulltrúar æskulýðshreyfingarinnar á Íslandi,“ segir Stefán Gunnlaugsson, fyrrver- andi bæjarstjóri í Hafnarfirði og al- þingismaður, og bætir við að ekki hafi komist á nein sambönd í kjölfar- ið. Þetta hafi verið kynnis- og skemmtiferð og m.a. hafi félagarnir sungið íslensk lög fyrir kínverska æsku. „Við vorum engir söngmenn, en sungum lög sem allir lærðu í æsku og kunnu, lög eins og Siggi var úti með ærnar í haga, Blátt lítið blóm eitt er og Afi minn fór á honum Rauð. Kínversku ungliðarnir kunnu samt vel að meta þetta og klöppuðu mik- ið.“ Sendiráð opnað í Peking Sigurður Bjarnason, sendiherra í Kaupmannahöfn, var fyrsti sendi- herra Íslands gagnvart Kína. Hann afhenti trúnaðarbréf sitt 25. sept- ember 1973 og gegndi stöðunni til 20. september 1976, en fór aðeins tvisvar til Kína. Þá tók Pétur J. Thorsteins- son við og var hann sendiherra gagn- vart Kína til 24. febrúar 1988 með búsetu í Reykjavík. Hann var fyrsti svonefndi heimasendiherra Íslands, sendiherra með búsetu í heimalandi. Hann gerði það að venju að heim- sækja tvisvar á ári þau fjarlægu lönd, sem hann var sendiherra gagn- vart. Benedikt Gröndal tók við af honum og var sendiherra í Kína til 12. apríl 1991 þegar Ingvi S. Ingva- son tók við en hann gegndi stöðunni til 1995. Ísland opnaði sendiráð í Peking 21. janúar 1995. Hjálmar W. Hann- esson var fyrsti íslenski sendiherr- ann með aðsetur í Kína en hann var sendiherra frá 1995 til 1998 og bjó í Peking. Hann segir að vegna menn- ingarmunar hafi verið mikil viðbrigði að flytja frá Þýskalandi til Kína enda um mjög ólíka menningarheima að ræða. Mikill tími hafi farið í að finna húsnæði fyrir starfsmenn sendiráðs- ins, því mörg fyrrverandi ríki Sov- étríkjanna og fleiri ríki höfðu opnað sendiráð í Peking skömmu áður og ekki í mörg hús að venda auk þess sem strangar reglur hefðu gilt um hvar sendiráðsmenn mættu búa. Eins hefði tekið langan tíma að að koma sendiráðinu í almennilegt hús- næði en það hefði tekist skömmu fyr- ir heimsókn Vigdísar Finnboga- dóttur, þáverandi forseta Íslands, og Halldórs Ásgrímssonar, utanrík- isráðherra í september 1995. Heimsókn Vigdísar vendipunktur Hjálmar segir að með heimsókn Vigdísar hafi sendiráðinu opnast mjög margar nýjar dyr í Kína mun fyrr en ella, m.a. í samskiptum við fjölmiðla, sem hafi verið mikil og góð, en þeir hafi komið þó nokkurri kynn- ingu á Íslandi til skila enda koma for- setans vakið mikla athygli á Íslandi og íslenskum málefnum. Sendiráðið hafi búið að þessari heimsókn allan hans tíma í Peking og hún hafi verið geysilega mikil lyftistöng fyrir allt starfið, en Jiang Zemin, forseti Kína, sé nú að endurgjalda þessa heim- sókn. Nokkur eftirmál urðu á Íslandi vegna ummæla Vigdísar við Li Peng forsætisráðherra þess efnis að frelsið væri afstætt, en fram kom hjá Vigdís í samtali við Morgunblaðið að sér fyndist ómaklega að sér vegið með gagnrýni á ummæli sín. Forsætis- ráðherrann hefði rætt um frjálst og fullvalda Kína og spyrt orðin saman, en hún hafi svarað því til að sér þætti sérkennilegt og athyglisvert að leggja eina og sömu merkingu í þau. „Í mínum heimahögum eru þetta tvö orð og þau eru aðgreind. Svo kunni að vera að fullveldi og frelsi fari ekki saman,“ var haft eftir Vigdísi í Morg- unblaðinu sem sagðist hafa lokið samtali sínu við forsætisráðherrann með eftirfarandi orðum: „Góðir eru þeir tímar þegar menn mega hugsa það sem þeim sýnist og segja það upphátt.“ „Moldviðrið sem fylgdi í kjölfarið var gersamlega að ósekju,“ segir Hjálmar um viðræður Vigdísar og forsætisráðherrans í heimsókn- inni og bætir við að Vigdís hafi komið því á framfæri á kurteisan hátt að Ís- lendingar teldu að virða ætti mann- réttindi um allan heim. Eitt hugljúfasta landið Ólafur Egilsson hefur verið sendi- herra í Kína síðan 26. mars 1998. Í fyrra var íslenska viðskiptasetrinu komið þar á fót í samvinnu við við- skiptaþjónustu utanríkisráðuneyt- isins (VUR) og starfar það í tengsl- um við sendiráðið. Þar njóta íslensk fyrirtæki aðstöðu til að kanna mark- aðsmöguleika sína í Kína. Ólafur seg- ir að hægt hafi verið að veita íslensk- um fyrirtækjum ötulan stuðning við að átta sig á og hagnýta sér þá mögu- leika sem felist í samstarfi við Kín- verja á þessum stóra markaði. Margt sé ólíkt hvað snerti viðskiptahætti og aðstæður og því sé þeim mun mikil- vægara að geta unnið í samvinnu við fólk sem þekki þarfir Íslendinga en hafi jafnframt staðarþekkingu. Í sendiráðinu eru samtals átta starfs- menn og þar á meðal fjórir kínversk- ir. Ólafur segir að skipasmíðar Kín- verja fyrir Íslendinga hafi sett svip á samskiptin, en Íslendingar hafi fyrst og fremst selt sjávarafurðir til Kína og tækniþekkingu í sambandi við fiskvinnsluvélar. Gert sé ráð fyrir að samstarf á jarðhitasviðinu aukist í framtíðinni. Talið sé að jarðhiti finn- ist á allt að 3.000 stöðum í Kína, en hann sé enn lítið nýttur. Um 50 verk- fræðingar og tæknimenn hafi notið þjálfunar í jarðhitaskóla SÞ í Reykjavík síðan hann tók til starfa 1980. Ólafur segir að sambandið á stjórnmálasviðinu hafi gengið mjög vel. Tíðar gagnkvæmar heimsóknir hafi leitt til þess að kínverskir leið- togar hafi fengið meiri vitneskju um Ísland og viðhorf íslenskra ráða- manna og með sama hætti hafi for- ystumenn í íslenskum þjóðmálum átt þess kost að gera sér betur grein fyr- ir þeirri öru þróun sem átt hafi sér stað í Kína, sérstaklega á und- anförnum tveimur áratugum. Í gegn- um þessi samskipti hafi líka fengist stuðningur frá ráðamönnum við sam- starfsverkefni. Mikill velvilji ríki hjá Kínverjum í garð Íslands. Þeir af æðstu ráðamönnum þjóðarinnar sem hafi komið til Íslands hafi borið landi og þjóð mjög vel söguna og það sé ein ástæða þess hve margir kínverskir menn í háum stöðum hafi haft áhuga á að sækja landið heim. Sérstaklega hafi verið vitnað til orða Qian Qichen, utanríkisráðherra í áratug og nú eins af aðstoðarforsætisráðherrum lands- ins, en hann hafi sagt að Ísland væri eitt allra hugljúfasta land sem hann hefði komið til á öllum sínum ferli. Í kínverska ríkisráðinu, sem sé æðst í stjórnkerfinu og yfir ráðuneytunum, séu 10 menn og þrír af núverandi meðlimum þess hafi komið til Íslands en auk Qian Qichen hafi Li Lanqing varaforsætisráðherra heimsótt Ís- land 1995 og frú Wu Yi, fyrrverandi utanríkisviðskiptamálaráðherra Kína og eina konan í ríkisráðinu, þar sem hún fer með öll viðskiptamál, hafi komið hingað árið 2000. Li Peng, forseti kínverska þjóðþingsins og næstæðsti valdamaður Kína, hafi líka komið til Íslands árið 2000 auk annarra. Um 50 Íslendingar búa í Kína og heimsóknir Íslendinga þangað hafa aukist á undanförnum árum. Í því sambandi má nefna að íslenskir verkfræðinemar voru í rannsókn- arferð í Kína á dögunum og segir Ólafur þessa vakningu ánægjulega. Það sé að renna upp fyrir mönnum hvað framfarirnar hafi verið miklar og hvað hlutverk Kína í heiminum eigi eftir að stækka á komandi árum, jafnvel fyrr en menn varir. Hjálmar W. Hannesson var fyrsti sendiherra Íslands gagnvart Kína með aðsetur í Pek- ing, en hann afhenti Jiang Zemin, forseta Kína, trúnaðarbréf sitt 21. janúar 1995. Pétur J. Thorsteinsson afhenti trúnaðarbréf sitt í Peking 20. september 1976. Hann var sendiherra gagnvart Kína í tæplega 12 ár eða lengur en nokkur annar. Fyrsta íslenska pólitíska sendinefndin heimsótti Kína 1955 og sungu Sigurður Guð- geirsson, Indriði G. Þorsteinsson, Stefán Gunnlaugsson, Halldór B. Stefánsson og Böðvar Pétursson fyrir kínverska ungliða við mikinn fögnuð áheyrenda. steg@mbl.is LI Peng, forseti kínverska þingsins og fyrrverandi forsætisráðherra, kom í opinbera heimsókn til Íslands í september 2000 og varð heimsókn- in umdeild. Mörg félagasamtök efndu til sam- eiginlegs útifundar á Austurvelli daginn eftir komu Li Pengs til landsins til að mótmæla heimsókn hans til Íslands. Á fundinum var vakin athygli á ástandi mannrétt- inda í Kína og fórnarlamba blóð- baðsins á Torgi hins himneska friðar var minnst. Fram kom hjá fundarboðendum að kínversk stjórnvöld hefðu barið niður andóf námsmanna og lýðræð- issinna í blóðbaði á Torgi hins him- neska friðar í júní 1989. SUS skoraði á íslenska ráðamenn að hunsa heim- sókn Li Pengs til Íslands og taka þannig undir hörð mótmæli ungra sjálfstæðismanna vegna komu hans til landsins. Þá sendi Íslandsdeild Amnesty International samhljóða bréf til forseta Íslands, forsætisráð- herra, utanríkisráðherra og forseta Alþingis þar sem vakin var athygli á ástandi mannréttindamála í Kína. Vegna fundarins ákvað kínverska sendinefndin að heimsækja ekki Al- þingishúsið eins og til hafði staðið. Íslenskir lögreglumenn og kín- verskir öryggisverðir hindruðu fréttamann Stöðvar 2 í að leggja spurningar fyrir Li Peng á Nesja- völlum og lögreglan hafði afskipti af sama fréttamanni og meinaði honum aðgang að húsi í Breiðholti þar sem Li Peng var í heimsókn. Fréttamað- urinn spurði Li Peng hvort hann bæri ábyrgð á blóðbaðinu á Torgi hins himneska friðar, en fékk ekki svar og urðu af þessu nokkur eft- irmál. Morgunblaðið fjallaði um heim- sóknina í leiðara þriðjudaginn 5. september 2000 og þar segir m.a.: „Kína er eitt af voldugustu ríkjum veraldar. Þar býr um fjórðungur mannkyns og búast má við að áhrif Kínverja í heiminum fari stöðugt vaxandi næstu áratugina. Sú opnun, er átt hefur sér stað í kínversku efnahagslífi, gerir jafnframt að verkum að Kína er orðið að mik- ilvægum markaði, ekki síður fyrir Ísland en önnur vestræn ríki. Sam- skiptin við Kína eru því mikilvæg fyrir okkur Íslendinga og nauðsyn- legt að efla þau enn frekar. Það breytir hins vegar ekki því að okkur ber skylda til að fordæma það sem okkur þykir miður fara í stjórn- arfari Kína og ekki hika við að vekja athygli á því í samskiptum okkar við kínverska ráðamenn. Þrátt fyrir að Ísland hafi átt veru- leg samskipti og viðskipti við Sovét- ríkin á meðan þau voru og hétu varð það ekki til þess að við létum af gagnrýni á stjórnarfarið þar í landi. Að sama skapi hafa Íslendingar ekki sætt sig við að Kínverjar reyni að segja okkur fyrir verkum, til dæmis hvað varðar samskiptin við lýðræð- isríkið Taívan. Staða mannréttindamála er að mörgu leyti hrikaleg í Kína og er sorglegt að fjölmennasta þjóð ver- aldar skuli enn búa við þá andlegu kúgun er raun ber vitni. Tjáningar- frelsi og óheft skoðanaskipti eru grundvöllur okkar samfélags. Það sama á því miður ekki við um Kína líkt og greinilega kom í ljós er forseti kínverska þingsins ákvað að hætta við heimsókn sína í Alþingi Ís- lendinga til þess að þurfa ekki að sjá fólk, sem notfærði sér lýðræðislegan rétt í okkar þjóðfélagi og mótmælti heimsókn hans. Þann sama rétt og námsmennirnir á Torgi hins him- neska friðar börðust fyrir að kín- versk alþýða fengi en guldu fyrir með lífi sínu hina örlagaríku daga sumarið 1989.“ Umdeild heimsókn Li Peng, forseti þjóðþings Kína, heimsótti Ísland fyrir tæplega tveimur árum og voru ekki allir sáttir við heimsóknina. Hér eru mótmælendur við Hótel Sögu. Morgunblaðið/Ásdís

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.