Morgunblaðið - 12.07.2002, Qupperneq 2

Morgunblaðið - 12.07.2002, Qupperneq 2
DAGLEGT LÍF 2 B FÖSTUDAGUR 12. JÚLÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ Götutíska sumarsins Allir ítísku Tískan er síbreytileg en oft er hún gamalkunnug um leið, sam- anber tilhneigingu hennar til að fara í hringi. Þá fer uppspretta tískunnar líka í hring, því um leið og höfundar hátískunnar hafa áhrif á tísku götunnar, er götutískan mörgum tískuhönn- uðinum innblástur. En hvað einkennir götutísku sumarsins og hvaða áhrif hefur tískan á það sem fólk kýs að klæðast? Birna Anna Björnsdóttir blaða- maður og Kjartan Þorbjörns- son ljósmyndari gerðu tilraun til að komast að því á götum Reykjavíkur. FÖTIN sem ég er í núna eru dæmigerð fyrir mig,“ segir Bergþóra Magnúsdóttir. „Ég er yfirleitt í pilsi og háhæl- uðum skóm, er mjög mikið í svörtu og á mikið af rauðum fylgihlutum. Sjalið er í miklu uppáhaldi hjá mér, en mér var gefið það fyrir tveimur árum. Pilsið er þriggja ára og er úr versluninni Mondo, skórnir eru úr Karen Millen og vinkona mín gaf mér sokkana.“ Bergþóra er þar að auki með tvær töskur og segist alltaf ganga með að minnsta kosti tvær, oftast þrjár handtöskur. „Þegar ég fer út á morgnana, þá fer ég út fyrir daginn. Þannig að ég tek yfirleitt með mér bók, eitthvað að borða, aukaföt og annað sem ég þarf. Ég er ekki á bíl þannig að ég þarf að hafa þetta allt á mér og finnst betra að hafa fleiri litlar töskur en eina stóra.“ Hvernig myndirðu lýsa þínum stíl? „Ég reyni að vera mjög kvenleg til fara, legg áherslu á það umfram allt annað. Ég geng yfirleitt í svörtu og er svo frekar með einhverja fylgihluti í lit. Ég er mjög hrif- in af tískunni frá fyrri hluta tuttugustu aldar og þó að ég sé kannski ekki gangandi dæmi um það tímabil finnst mér oft gaman að vera með eitthvað gamalt, eins og armbönd eða töskur og blanda því þá við eitthvað nýtt.“ Hvað með tískuna, hefur hún áhrif á þig? „Kannski að einhverju leyti. Úrvalið í fatabúðum ein- kennist náttúrlega af því sem er í tísku, þannig að auð- vitað drekkur maður eitthvað í sig af tískustraumum. Það er samt frekar lítið, ég skipti til dæmis ekki um útlit eftir því sem kemur í Marie Claire eða Elle í hverjum mánuði. En ég skoða samt tískublöð og fylgist með því sem er í gangi.“ En hvað veldur því að þú velur sumt úr tískunni, en leiðir annað hjá þér? „Það er náttúrlega margt sem mér finnst ekki spenn- andi af því að það er til svo mikið af því. Við búum í svo lítilli borg og það þarf lítið til að allir séu komnir í það sama. Svo fer það að sjálfsögðu eftir því hvort tísku- sveiflurnar séu í mínum stíl. Ég er til dæmis frekar róm- antísk í klæðaburði og þegar það koma rómantískar sveiflur er ég dugleg að ná mér í svoleiðis föt á meðan þau eru til. Svo hugsa ég náttúrlega um hvað klæðir mig, en flest- ir komast sennilega að því einhverntímann eftir ung- lingsárin hvað fer þeim vel og ég held að það hafi mikil áhrif á það hvernig stíl hver og einn tileinkar sér,“ segir Bergþóra að lokum. Bergþóra Magnúsdóttir, 25 ára textílhönnuður. Kvenleiki um- fram annað Bergþóra 25 ára ÞAÐ nýjasta sem ég er í núna eru þessir brúnu támjóu leðurskór sem ég keypti í Barcelona í vor,“ segir Elma Lísa Gunnarsdóttir, þegar hún er spurð út í klæðnað dagsins og tekur jafnframt fram að skórnir séu afar þægilegir. „Buxurnar keypti ég í Los Angeles fyrir svona fimm árum, í „second hand“-búð, en mér fannst litirnir í þeim svo skemmtilegir – ég er mjög hrifin af sterkum litum. Ég dreg þær upp við sérstök tækifæri og fæ aldrei leið á þeim – ég nota þær heldur ekki það oft. Svo er ég í bol sem kærastinn minn gaf mér, svartur bolur sem gengur við allt og klúturinn er úr Noi. Galla- jakkann held ég mjög mikið upp á, hann er líka úr Noi, ég fékk hann í fyrra og hef notað hann mikið. Svo er það þessi brúna leðurtaska sem kærastinn minn gaf mér, frá Barcelona. Og sólgleraugun, hann gaf mér þau líka,“ segir Elma Lísa. Hvað ræður því hvernig þú klæðir þig? „Ég klæði mig oftast eftir því í hvernig skapi ég er. Ég er mikið fyrir liti og hef gaman af því að setja ólíka hluti saman, blanda saman gömlu og nýju og svo elska ég allt glingur. Ég kaupi mér yfirleitt föt í útlöndum, fer á markaði og kaupi þá oft nokkuð mikið, en kaupi frekar lítið hérna heima.“ Hvað með tískuna, hafa tískustraumar áhrif á þig? „Hún hefur örugglega einhver áhrif, en samt finnst mér voða leiðinlegt að klæða mig í föt sem allir eru í. En maður velur kannski eitthvað út, eins og núna til dæmis er ég í támjóum skóm og þessi taska er hálfgerð hippa- taska – þetta er í tísku, en svo eru þetta bara einhverjar gamlar buxur. Það er ekkert gaman að vera alltaf bara í nýjustu tísku. Reyndar er tískan núna nokkuð skemmtileg að því leyti að það er næstum allt í gangi og þannig séð eru eiginlega allir í tísku í sínum fötum.“ Hefur afstaða þín til tískunnar breyst með árunum? „Ég man náttúrlega eftir því þegar ég var unglingur, þá var maður ekki manneskja nema að eiga Millett-úlpu og strets-buxur. Þá vildi maður alltaf eiga það sem var í tísku, en það hefur svo sannarlega breyst. Ég er alveg hætt að hugsa: Þetta er í tísku, ég verð að eignast það! Nú fer ég meira eftir því sem mér finnst fallegt og flott og ég fíla mig í,“ segir Elma Lísa og viðurkennir hlæj- andi að hún hafi alltaf verið fatafrík, „alveg frá því ég var á leikskóla“.Elma Lísa Gunnarsdóttir, 28 ára leikkona. Klæði mig eftir skapi Elma Lísa 28 ára ÉG er í snyrtilegum hversdagsfatnaði,“ segir Hans Orri Kristjánsson, þegar hann er beðinn um að lýsa klæðnaði dagsins. „Ég held mikið upp á hvíta strigaskó, ég er eig- inlega alltaf í hvítum strigaskóm. Svo er ég í tíglasokkum, ég held líka upp á þá. Þegar ég er í slitnum fötum held ég í reglusemina með því að vera í tíglasokkum. Gallabuxurnar fékk ég í Köben, þetta eru Diesel-buxur og þær voru svona slitnar þegar ég keypti þær,“ segir hann og hlær að því að þær hafi samt kostað „morðfjár“. Hans Orri er með ,,skopp- arabelti“ og „Nirvana“- og „Sex Pistols“-nælur rétt neðan við buxnastrenginn. Þá er hann í brúnum rúllukragabol og innan undir honum í uppáhaldsstuttermabolnum sínum sem er svartur með mynd af Al Pacino úr kvikmyndinni Serpico. Að lokum bendir Hans Orri á úrið sitt sem hann keypti „af því það er með svo flottri ól“, og er frá Diesel eins og gallabux- urnar. „Ég er samt ekkert mikið merkjafrík,“ segir hann og hikar aðeins, „en samt er ég það svolítið.“ Er það ekki raunin með nokkuð marga, að þeir séu það ,,svolítið“? „Jú, en þú mátt náttúrlega ekki segja það og viðurkenna það. Tískan í dag er að drekka soja-latte og vera í notuðum fötum. En innst inni held ég að margt af þessu fólki sé alveg merkjafrík. Kúnstin er svo að blanda saman merkjavörunni og þessu gamla og notaða. Að blanda ódýru og dýru, fela merkjavöruna með þessu ódýra og svo öfugt.“ En hvað segirðu um tískuna, hefur hún áhrif á þig? „Ekki svo meðvitandi held ég. Yfirleitt þegar ég kaupi eitt- hvað, þá kaupi ég það af því að mér finnst það flott. En af hverju finnst mér það? Það er kannski vegna þess að ég fletti tískublöðum og ég er mataður stöðugt á því að þetta sé flott.“ Hans Orri segir að þó að tískan hafi vissulega áhrif á klæðaburð fólks telji hann líklegt að flestir haldi í sinn eigin stíl þó svo að þeir tileinki sér stöku tískufyrirbæri öðru hvoru. „Maður kemur sér upp sínum eigin persónulega stíl og tínir svo til það sem maður fílar í tískunni.“ Persónulegur stíll í bland við tískuna Hans Orri 22 ára

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.