Morgunblaðið - 06.11.2002, Síða 7
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 6. NÓVEMBER 2002 B 7
BÆKUR
Í upphafi var
morðið er sameig-
inleg skáldsaga
Árna Þórarins-
sonar og Páls
Kristins Páls-
sonar.
Sagt er frá
Kristrúnu, sem
missir móður sína
með voveiflegum hætti. Áður en hún
veit af er hún sjálf komin á kaf í rann-
sókn á dularfullri atburðarás sem koll-
varpar því sem hún hafði áður talið
sannleikann um ævi sína. Sagan leik-
ur sér öðrum þræði að sakamálasög-
unni sem bókmenntaformi, þar sem
blandað er saman hefðbundnum og
óhefðbundnum aðferðum. Árni er
einn helsti spennusagnahöfundur
þjóðarinnar og Páll Kristinn er höf-
undur fjölmargra skáldverka. Þetta er
fyrsta sameiginlega skáldsaga þeirra.
Útgefandi er Mál og menning.
Bókin er 268 bls. og prentuð hjá
Prentsmiðjunni Odda hf. Kápu hann-
aði Ámundi Sigurðsson. Verð: kr.
4.490 kr.
Glæpasaga
Grettissaga og
íslensk siðmenn-
ing er eftir Her-
mann Pálsson
fyrrverandi pró-
fessor. Hún var
nær fullbúin til
prentunar er Her-
mann féll frá 11.
ágúst sl.
Baldur Hafstað annaðist útgáfuna
og segir m.a.: „Í þessari bók Her-
manns Pálssonar birtast hans bestu
eiginleikar sem fræðimanns og
fræðara. Á kjarnmiklu og auðskilj-
anlegu máli og á stundum með
leiftrandi gamansemi ræðir hann
ævi og örlög Grettis sýslunga síns
og jafnframt hugmyndaheim og að-
föng þess manns sem söguna skóp.
Yfir henni er birta og reisn sem
sannlega hæfir þessu síðasta verki
einhvers merkasta og nafnkunnasta
fræðimanns á sviði íslenskrar menn-
ingar.“
Útgefandi er Bókaútgáfan Hof.
Bókin er 199 bls., prentuð í Guten-
berg.
Siðmenning
Ljóðelskur maður
borinn til grafar –
sögur af lífi og
dauða hefur að
geyma smásögur
eftir Maríu Rún
Karlsdóttur (Marj-
atta Ísberg). Höf-
undur er finnsk að
uppruna en hefur
búið á Íslandi frá 1979.
Hún byrjaði snemma að semja á ís-
lensku og hafa smásögur og ljóð eftir
hana gengið manna á milli í ljósriti.
Þetta er fyrsta bók hennar á íslensku
sem kemur út á prenti.
Sögusviðið í þessum smásögum er
ýmist Finnland, Svíþjóð, Noregur eða
Ísland, en þær tengjast gegnum megin
þema, sem er dauði og viðskilnaður.
Útgefandi er Bókaútgáfan Vöttur.
Bókin er 160 bls., prentuð í Hagprent.
Verð: 1.980 kr.
Smásögur
DON KÍKÓTI telst til heimsbók-
mennta. Þar með lítum við á verkið
sem skyldulesningu líkt og Hamlet
og Njálu. Í skólabókum stendur að
þetta sé skopstæling á riddarasögun-
um, saga af stríðsmanni sem barðist
við vindmyllur. Hvort tveggja má til
sanns vegar færa en segir þó aðeins
hálfan sannleikann – eða brot af hon-
um réttara sagt. Riddarasögurnar
töldust í raun til liðna tímans þegar
Cervantes færði í letur þessa sögu
sína. Hann var því fremur að beina
geiri sínum að afkáraskapnum með
samtíð sinni. Hugmyndaheimur ridd-
arasagnanna snart ekki lengur sam-
tíð hans. En í landi rannsóknarrétt-
arins var hyggilegra að fela skopið og
ádeiluna undir þessu yfirskini. Og
meir en svo, því Cervantes lét sem
hann hefði frásögur sínar eftir öðr-
um. Eflaust hafa landar hans áttað
sig á hvar fiskur lá undir steini.
Spánn stóð á hátindi valda sinna og
áhrifa eftir landafundina. Gerbreytt
heimsmynd kallaði á endurmat við-
tekinna sanninda. Og þjóðlífið var
mótsagnakennt. Stjórnarfarið var
rotið og spillt. Fjöldi karla og kvenna
naut lífsins í iðjuleysi undir handar-
jaðri kirkjunnar. Þrátt fyrir stöðug-
an flutning gulls og gersema frá nýja
heiminum rambaði ríkið stöðugt á
gjaldþrotsbarmi.
Cervantes hafði gengið í harðan
skóla lífsins og víða flækst þegar
hann tók að færa í letur
sögu sína, meðal annars
verið þræll í Barbarí-
inu. Hann hlaut því að
þekkja mannlífið í þess
fjölbreytilegustu mynd-
um. Í hópi samtíma-
skálda voru Shake-
speare og Lope de
Vega. Cervantes og
Shakespeare létust
reyndar á sama árinu.
Camôes og Rabelais
voru eldri. Cervantes er
talinn hafa tekið nokk-
urt mið af hinum síðar
nefnda, beint eða
óbeint.
Hugsjónamaðurinn don Kíkóti,
sem er meira en lítið ruglaður í koll-
inum, hlýðir köllun sinni að gerast
farandriddari, »ferðast um heiminn
og rétta ranglæti og bæta böl,« eins
og hann orðar það sjálfur. Á ferðum
sínum hittir hann hann bláfátækan
bónda, Sansjó Pansa, sem hann kýs
sér að skjaldsveini. Sá fylgir honum
dyggilega upp frá því. Riddarinn ríð-
ur hestinum Rósinant. Skjaldsveinn-
inn má þar á móti láta sér nægja asna
til reiðar. Don Kíkóti er haldinn því-
líkum ofskynjunum að hann sér
óvinafjöld í hinu ólíklegasta sem á
vegi hans verður, hvort heldur það er
kvikt eða dautt. Atlögu hans að veg-
farendum, sem eiga sér einskis ills
von, er þá svarað af fullri hörku með
þeim afleiðingum að kappinn hreppir
margan skellinn og harða pústra og
situr þá eftir með marga skrámuna.
Ásannast þar með spakleg orð hans
sjálfs að »engin staða er hættulegri
en starf ævintýramannsins« og
»ógæfan eltir jafnan hæfileikamann-
inn.«
Skáldverk þetta getur talist vera
tengiliður síðmiðalda
við nýöld. Frásagnar-
efnið með öllum sínum
útúrdúrum og allri
sinni flækju minnir um
margt á riddarasögurn-
ar. Ennfremur sá hátt-
ur að láta söguhetjuna
fara víða og rata í háska
og mannraunir. Í þriðja
lagi má telja hlutverk
ástmeyjarinnar sem er
fjarlæg, undrafögur og
alfullkomin að kven-
legri prýði en getur þó
reynst hvort heldur
sem er, trygg og stað-
föst eða hverflynd og
duttlungafull. Hennar vegna og fyrir
hana er auðvitað barist!
Mannlegi þátturinn á bak við allt
málskrúðið vísar á hinn bóginn til
þess sem koma skyldi. Ennfremur
nákvæmar og oftar en ekki dálítið
kómískar hversdagslífslýsingar. En
skáldsaga í nútímaskilningi er þetta
ekki; líkist fremur þjóðsagnasafni
eða sagnasyrpu. Staðanöfn og
mannanöfn, sem fyrir koma, eru nær
óteljandi; sumstaðar heilu nafnarun-
urnar. Ljóst er að Cervantes höfðar
beint til samtíðar sinnar. Ísmeygileg
kaldhæðni hans og kátlegar þver-
sagnir hafa vafalaust hitt beint í
mark. Landar hans hafa meðtekið
vísdóminn á bak við ýkjurnar og
skemmt sér við lesturinn líkt og t.d.
Reykvíkingar sem hlógu dátt undir
revíunum á fyrri hluta liðinnar aldar.
Með skaupi sínu hefur Cervantes
haft víðtæk áhrif. Sýnt hefur verið
fram á, svo dæmi sé tekið, að Hol-
berg hafi sótt til hans augljósar fyr-
irmyndir. Og sögur af flækingum,
sem minna á þá kumpánana, hafa
einatt verið að koma fram á sjónar-
sviðið og notið vinsælda, allt til dags-
ins í dag.
Fyrsta útgáfa don Kíkóta í ís-
lenskri þýðingu kom út fyrir tuttugu
árum. Guðbergur kveðst nú hafa
endurskoðað verk sitt og farið þá eft-
ir nýjum og upprunalegri textum.
Þýðing Guðbergs er hin vandaðasta
með þeirri undantekningu þó að
nokkuð skortir á hagmælskuna þeg-
ar þýðandi glímir við bundna málið.
Vísast er það ekki hans sterka hlið.
Hvergi er verið að fyrna mál til að
minna á aldur ritsins. Óbeinar stað-
færslur koma óvíða fyrir. Til slíks má
þó telja »sundvörðu […] gefa fimm-
eyring í það fjas« og »höggva í sama
knérunn«. Það sem þýðandi segir um
höfundinn, verk hans og samtíð, get-
ur maður kallað stílfléttur og frjáls-
legt hugarflug að hætti Guðbergs
fremur en markvissa og efnislega rit-
skýring.
Nöfn aðalsöguhetjanna hefur þýð-
andi lagað að íslenskum framburði og
stafsetningu. Á titilsíðu bókarinnar,
sem kom út año 1605, stendur don
Qvixote. Í útgáfu þeirri, sem þýðandi
fer eftir, nefnist hetjan don Quijote.
Skjaldsveinninn heitir í sögunni
Sancho Panza. Þýðandi breytir því í
Sansjó Pansa. Don Kíkóti kennir sig
við Mancha. Það lætur þýðandinn
standa óbreytt. Ósennilegt verður að
telja að þetta mikla verk verði ís-
lenskað aftur í bráð. Því má ætla að
nafngiftir Guðbergs – sem vissulega
orka tvímælis þar sem spænsk tunga
er ekki lengur það framandi tungu-
mál sem áður var – muni hér með
vinna sér hefð í íslenskri bókmennta-
fræði.
Útgefandi hefur gert bókina svo
veglega úr garði sem prýðilegast má
hæfa stórverki af þessu tagi.
Riddarinn hvatvísi
SKÁLDSAGA
Don Kíkóti
Um hugvitsama riddarann don Kíkóta frá
Mancha. Fyrra bindi. Þýðing og formáli:
Guðbergur Bergsson. Myndir: Gustave
Doré. 493 bls. JPV-útgáfa. Prentun: Oddi
hf. Reykjavík, 2002.
MIGUEL DE CERVANTES SAAVEDRA
Guðbergur Bergsson
Erlendur Jónsson
Á TITILBLAÐI þessarar bókar
segir, að hún sé seinna bindi í rit-
röðinni Íslenskir sagnfræðingar.
Fyrra bindið er ekki enn komið út
þegar þetta er ritað, en mér segja
fróðir menn og konur, að það verði
sagnfræðingatal og muni innihalda
persónulegar upplýsingar og afreka-
skrár þeirra, sem til stéttarinnar telj-
ast. Þar verður væntanlega gerð
grein fyrir verkinu í heild, markmið-
um þess og tilurð, en í inngangi þessa
bindis segir einungis af tilganginum
með útgáfu þess. Það má í sjálfu sér
kalla eðlilegt, en hinu er ekki að neita,
að við lestur bókarinnar hef ég all-
nokkuð velt því fyrir mér, hvort ekki
hefði farið betur á því að snúa röð
bindanna við: hafa umfjöllunina um
fræðigreinina, sögu hennar, aðferðir,
fræðilegan grundvöll, viðhorf og
rannsóknir í 1. bindi, en upptalningu
á liðsmönnum, útvöldum jafnt sem
óbreyttum, í 2. bindi. Með því hefðu
menn sýnt í verki nokkra auðmýkt
gagnvart fræðunum sem slíkum, hér
er fræðimaðurinn settur í fyrsta sæti,
fræðin sjálf verða númer tvö.
Bókinni, sem hér er til umfjöllun-
ar, er skipt í þrjá meginhluta. Í hin-
um fyrsta, sem ber yfirskriftina
„Fræðigreinin. Eðli og aðferðir“, eru
birtar sextán ritgerðir um ýmsa
þætti rannsókna, söguspeki ein-
stakra þátta sagnfræðinnar, aðferða-
fræði, söguskoðun o.fl. Allar hafa
þessar greinar birst áður í tímaritum.
Sumar mega kallast næsta nýlegar
en þær elstu eru nokkurra áratuga
gamlar. Sem heild veita þær nokkra
mynd af viðhorfi íslenskra sagnfræð-
inga til fræðigreinar sinnar síðustu
hálfa öldina eða svo.
Annar hlutinn nefnist „Sjálfsævi-
sögubrot íslenskra sagnfræðinga“.
Þar skrifa ellefu þekktir og „ráðsett-
ir“ fræðimenn um ævihlaup sitt og
starfsferil fram til þessa. Ekki veit ég
hver átti hugmyndina að þessum
bókarhluta, en hún er góð og mikið
gaman hafði ég af því að berja þessa
naflaskoðun kolleganna augum.
Sagnfræðingar eru eðli fagsins sam-
kvæmt vanari því að skrifa um annað
fólk en sjálfa sig og árangurinn er
óneitanlega harla misjafn. Greinarn-
ar eru allar ágætlega skrifaðar og um
margt fróðlegar og sérstaklega þótti
mér áhugavert að lesa frásagnir
þeirra, sem að miklu eða öllu leyti eru
menntaðir erlendis, sjá lýsingar
þeirra á fyrirkomulagi og áherslum
námsins þar og bera saman við það
sem tíðkaðist hér heima á þeim árum
er ég var kunnugur kennslu í sagn-
fræði. Þá er einnig forvitnilegt að sjá
hvernig fólk hefur brugðist við verk-
efninu, að þurfa á miðjum aldri (flest-
ir greinarhöfunda hljóta að teljast á
því æviskeiði) að skrifa um eigin ævi.
Sumir slá á létta strengi og segja
stórskemmtilega frá, aðrir virðast
hafa fyllst þvílíkum hátíðleika og
húmorleysi að engu er líkara en þeir
séu að skrifa eigin stórafmælis- eða
minningargrein.
Flestir geta höfundarnir að nokkru
kennara sinna í fræðunum og er at-
hyglisvert að skoða þær umsagnir.
Þeim, sem stunduðu nám hér heima á
7. og 8. áratugnum, ber flestum sam-
an um að Björn heitinn Þorsteinsson
hafi reynst örlagavaldur í lífi þeirra.
Staðfestir það enn hin miklu áhrif
sem þessi ljúflingur og eldhugi hafði í
fræðunum og jafnframt, hvílíkur
skaði það var að hann skyldi ekki
koma til starfa sem háskólakennari
löngu fyrr en raun varð á. Ólafur
Hansson hefur einnig orðið mörgum
eftirminnilegur, sömuleiðis Magnús
Már Lárusson og af sumum grein-
unum er ljóst, að Sverrir Kristjáns-
son hefur haft drjúg áhrif „úti í bæ“.
Flestum þeirra er fræðin námu hér
heima á þessum tíma, en héldu síðan
til náms í öðrum löndum, ber saman
um, að kennsla í sagnfræði við Há-
skóla Íslands hafi á 7. og 8. áratugn-
um verið harla gamaldags og á held-
ur lágu plani, a.m.k. í samanburði við
það sem gerðist erlendis. Fáir dirfast
hins vegar að ræða og meta hvort
þetta hafi breyst að ráði. Það er í
sjálfu sér skiljanlegt, en er þó ákveð-
inn brestur í sjálfsskoðuninni. Af
þessum ellefu höfundum eru fimm
starfandi kennarar við Háskólann og
ættu manna gerst að vita stöðu mála.
Þriðji og síðasti hluti bókarinnar
ber yfirskriftina „Ungir sagnfræð-
ingar“. Þar skrifar hvorki fleiri né
færri en 21 sagnfræðingur grein um
viðfangsefni sitt og rannsóknir. Það
er að sönnu alltaf álitamál hver er
„ungur“ sagnfræðingur og sumir
þeirra, sem þarna skrifa, hafa fyrir
löngu haslað sér völl í fræðunum, orð-
ið viðurkenndir hver á sínu sviði og
nálgast að teljast fremur miðaldra en
ungir. Þeir hefðu í sjálfu sér átt betur
heima í ævisöguhlutanum.
Greinarnar í þessum bókarhluta
eru allar ágætlega skrifaðar og
byggjast á ýtarlegum og traustum
rannsóknum. Þær eru, sem vænta
má, sundurleitar að efni en hver ann-
arri fróðlegri og gefa að minni hyggju
allgóða mynd af þeirri miklu grósku,
sem verið hefur í íslenskri sagnfræði
á undanförnum árum.
Öll er þessi bók ágætlega úr garði
gerð og gefur dágóða mynd af sumu
því helsta, sem helst hefur verið á
döfinni í íslenskri sagnfræði að und-
anförnu. Margs er þó að litlu eða
engu getið og við lesturinn hafa ýms-
ar spurningar vaknað og orðið æ
áleitnari. Á mínum námsárum í sagn-
fræði á síðari hluta 7. áratugar 20.
aldar og í upphafi hins 8. var fræða-
samfélagið í greininni örsmátt, varla
nema 20–30 manns og allir eða flestir
þekktust persónulega. Þá voru fé-
lagsmenn í Sögufélagi og öðrum „fag-
félögum“ hins vegar mun fleiri en nú
(urðu víst rúmlega 1.000 í Sögufélagi
þegar mest var) og einhvern veginn
höfðum við á tilfinningunni, að flest
helstu sagnfræðirit sem út komu og
aðrar athafnir fræðimanna vektu at-
hygli langt út fyrir raðir þeirra
sjálfra. Þórhallur Vilmundarson fyllti
t.d. Háskólabíó oftar en einu sinni er
hann flutti fyrirlestra um náttúru-
nafnakenninguna og Kristján Eld-
járn var um hríð vinsælasti sjón-
varpsmaður landsins með þætti sína
„Munir og minjar“.
Nú er þetta gjörbreytt. Fyrirlestr-
ar fræðimanna eru yfirleitt heldur
illa sóttir af almenningi og kollegarn-
ir láta helst ekki sjá sig, félögum í
„fagfélögum“ sagnfræðinga fjölgar
ekki lengur og þeir verða æ einsleit-
ari hópur. Fólk utan fræðanna virðist
láta sig æ minna máli skipta hvað við
erum að brölta og bókaútgefendur
segja, að bækur um sagnfræði séu lítt
vænlegar til sölu, nema helst ævisög-
ur þekktra höfunda (ekki endilega
sagnfræðinga) um þekkta menn.
Stórvirki á borð við „Kristni á Ís-
landi“ vekja að því er virðist lítinn
áhuga og jafnvel saga kynlífs í ald-
anna rás, sem þó var metsölubók víða
um heim, hreyfði lítt við landanum.
Hvað veldur þessu? Að minni
hyggju leikur ekki á tvennu, að ís-
lenskir sagnfræðingar eru nú betur
menntaðir en áður og í þeirra hópi
eru fleiri góðir rithöfundar en nokkru
sinni fyrr. Samt sem áður tekst okk-
ur ekki að ná til hins svokallaða „al-
menna lesanda“ á sama hátt og
starfsbræðrum okkar í t.d. Frakk-
landi og á Norðurlöndum, að ekki sé
minnst á Bretland þar sem sagn-
fræðirit og bækur um söguleg efni
eru eitthvert vinsælasta lesefnið og
sagnfræðingar eftirsóttir höfundar
hjá stórum forlögum. Hvers vegna?
Því miður kann ég ekki svarið, en hér
er greinilega verk að vinna. Glati ís-
lensk sagnfræði tengslum sínum við
þjóðina í landinu skiptir engu máli
hve margir sagnfræðingar eru eða
hve mikið og vel þeir skrifa. Það fer
allt í skrifborðsskúffuna og verður
aðeins örfáum að einhverjum notum.
Jón Þ. Þór
Íslensk sagnfræði um aldamót
SAGNFRÆÐI
Íslenskir sagnfræðingar
Seinna bindi. Viðhorf og rannsóknir. 476
bls. Mál og mynd, Reykjavík 2002.
RITSTJÓRAR: LOFTUR GUTTORMSSON,
PÁLL BJÖRNSSON, SIGRÚN PÁLSDÓTTIR,
SIGURÐUR GYLFI MAGNÚSSON
Hundabókin er
eftir Þorstein Guð-
mundsson.
Bókin geymir
sjö sögur úr nú-
tímanum af fólki í
misgóðu sam-
bandi við sitt dýrs-
lega eðli. Í kynn-
ingu segir að
sögurnar séu fullar af húmor, kald-
hæðni og karlmannlegri viðkvæmni.
Þorsteinn hefur áður samið sjón-
varpsþætti og útvarpsleikrit og árið
2000 sendi hann frá sér Klór, safn
samtengdra sagna.
Útgefandi er Mál og menning.
Bókin er 224 bls.,Haraldur Bald-
ursson hannaði kápuna. Verð: 4.490
kr.
Sögur úr
nútímanum