Morgunblaðið - 03.03.2003, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 03.03.2003, Blaðsíða 8
ÍÞRÓTTIR 8 B MÁNUDAGUR 3. MARS 2003 MORGUNBLAÐIÐ HAUKASTÚLKUR féllu um helgina úr efstu deild kvenna í körfuknattleik þegar þær töpuðu fyrir Keflavík með tíu stiga mun, 63:73. Gestirnir af Suðurnesjum náðu snemma forystu og létu hana ekki af hendi og eru Kefla- víkurstúlkur efstar í deildinni með 34 stig, tíu stigum meira en KR sem er í öðru sæti. Það verða stúlkurnar í ÍR sem taka sæti Hauka í efstu deild að ári en Breiðhyltingar hafa haft mikla yfirburði í annarri deild- inni í vetur, hafa leikið fimmtán leiki og sigrað í þeim öllum og er liðið með 471 stig í plús. Sann- arlega miklir yfirburðir. Þá skýrðist um helgina hvaða fjögur lið komast í úrslitakeppn- ina í 1. deild kvenna í körfuknatt- leik. Stúdínur urðu að vinna KR til að eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Það gekk ekki upp hjá Stúdínum, sem töpuðu 80:55 á heimavelli KR og þar með varð ljóst að Keflavík, KR, Grindavík og Njarðvík komast í úrslitakeppnina. Tvö síðastnefndu liðin eru með 16 stig hvort um sig og mætast á miðvikudaginn í næstsíðustu umferðinni. Slag- urinn stendur um þriðja sæti og það lið sem endar þar mætir KR í undanúrslitunum en fjórða sætið leikur við Keflavík. Haukastúlkur féllu – ÍR fer upp ÍR sigraði Snæfell í framlengdumleik með 89 stigum gegn 86. Bæði lið mættu hálfvængbrotin til leiks, hjá ÍR var Eugene Christopher ekki með vegna meiðsla og hjá Snæ- felli vantaði Jón Ólaf Jónsson vegna meiðsla og Lýður Vignisson lék með, en var engan veginn búinn að ná sér eftir meiðsli. Snæfell hafði frumkvæðið framan af, með þá Sigurbjörn Þórðarson og Clifton Bush fremsta í flokki. Í lok fyrsta leikhluta náði ÍR að komast yf- ir með góðum leikkafla, þar sem þriggja stiga skotin duttu. Í byrjun annars fjórðungs náðu heimamenn yfirhöndinni aftur og náðu að rífa sig upp eftir slakan kafla í lok þess fyrsta. Um miðjan leikhlutann var staðan 40:32 fyrir Snæfell, þá eru lyk- ilmenn Snæfells hvíldir það sem eftir var fyrri hálfleiks. Þetta riðlaði leik heimamanna verulega og gestirnir, með Sigurð Á. Þorvaldsson fremstan í flokki, skoruðu á rúmum fjórum mínútum 12 stig gegn 2 stigum Snæ- fells. ÍR hafði tveggja stiga forskot í hálfleik, 44:42. Upphaf seinni hálfleiks hófu ÍR- ingar með miklum krafti, léku vörn- ina eins stíft og dómarar leyfðu og náðu um tíma átta stiga forskoti. Á þessum kafla var leikur heimamanna svolítið ráðleysislegur og nokkuð um mistök. Í lok þriðja fjórðungs misstu heimamenn leikstjórnandann sinn, Helga Reyni Guðmundsson, meiddan af velli og var útlitið þá ekki bjart. Fjórði leikhluti einkenndist af spennu, villuvandræðum leikmanna og litlu skori. Þegar rúmar tvær mín- útur voru eftir af leiknum jafnaði Snæfell 77:77. Eftir það er ekki skor- að stig svo framlengja þurfti leikinn. Í framlengingunni reyndust gestirnir sterkari, þar sem Eiríkur Önundar- son fór á kostum, en hann skoraði 10 stig fyrir ÍR af 12 í framlengingunni. Snæfell náði boltanum þegar 9 sek- úndur voru eftir og ÍR með eins stigs forskot, sóknin var ekki nógu mark- viss og þriggja stiga skot geigaði þeg- ar 2 sekúndur voru eftir. Brotið var á Eiríki Önundarsyni um leið og hann náði frákasti. Gulltryggði hann sigur ÍR með tveimur vítaskotum. Í liði Snæfells lék Clofton Bush mjög vel, sérstaklega framan af leik, en þegar á leikinn leið þurfti hann á köflum að taka að sér hlutverk leik- stjórnanda, sem ekki er hans staða. Hlynur Bæringsson lék mjög vel að vanda bæði í sókn og vörn. Sigur- björn I. Þórðarson og Andrés M. Heiðarsson léku eins og þeir gera best, miklir baráttumenn. Hjá ÍR fór Eiríkur Önundarson sér frekar hægt framan af, en efldist er á leið og átti frábæran kafla í framleng- ingunni sem tryggði ÍR-ingum sigur- inn. Sigurður lék allan leikinn mjög vel og var jafnbesti maður liðsins. Hreggviður S. Magnússon átti einnig mjög góða kafla í leiknum og hefði að ósekju mátt hafa sig meira í frammi. Ómar Ö. Sævarsson átti góða spretti, en hann fékk fljótt á sig þrjár villur sem gerðu það að verkum að hann varð að hafa hægar um sig í leiknum. Spenna í Borgarnesi Skallagrímsmenn áttu í miklutaugastríði því ekkert annað en fimm stiga sigur kom til greina ef úr- valsdeildarsæti átti að vera mögulegt á næsta tímabili. Hjá heimamönnum var afleit skotnýting samfara lítilli getu til að ná sóknarfrá- köstum sem olli því að strax hallaði á lið Skallagríms. Staðan var orðin 24:14 í lok fyrsta leikhluta. Keith Vassel og Marvin Valdimarsson voru í miklum ham og skoruðu grimmt fyr- ir Hamar. Í öðrum leikhluta kvað við allt annan tón í vörn Skallagríms. Þeir pressuðu grimmt úti á vellinum og í öllum innköstum og það skilaði sér. Eftir mikla baráttu sem greini- lega útheimti mikla orku löguðu Skallagrímsmenn stöðuna og hálf- leikstölur voru 35:38. Þriggja stiga körfurnar frá Agli Egilssyni vógu þungt þegar stigaskorun var svona lítil. Sama var uppi á teningnum í þriðja leikhluta. Þrátt fyrir góða vörn og pressu heimamanna áttu Hamars- menn alltaf innkomu á dýrmætum augnablikum með þriggja stiga körfu eða þá að sóknarmistök heimamanna færðu þeim boltann. Í upphafi síðasta leikhluta var staðan jöfn, 57:57. Skallagrímsmenn hvíldu JoVann fyrstu mínúturnar og Finnur Jónsson stýrði leik sinna manna og dreif þá áfram. Þannig náðu heimamenn góðri forystu. Ákveðinn vendipunktur varð í leiknum þegar Darkó Ristic færði heimamönnum níu stiga forskot þeg- ar 4 mínútur voru eftir. Bæði skotin geiguðu og þarna gengu Hamars- menn á lagið og jöfnuðu 77:77 þegar ein mínúta var eftir. Keith Vassel sá um að innsigla sigurinn með tveimur fráköstum í restina og nokkrum víta- skotum sem rötuðu rétta leið og inn- siglaði baráttusigur 77:81. Hjá Hamri var Marvin Valdimars- son bestur en Lárus Jónsson spilaði einnig mjög vel. Keith Vassel var einnig mjög traustur og öruggur í restina. Hjá Skallagrími voru Egill Egilsson og Finnur Jónsson góðir þegar þeir voru inn á. Það sem skipti miklu varðandi niðurstöðu þessa leiks var afleit skotnýting heimamanna bæði úti í teig og á vítalínunni en þar töpuðust 12 stig. Skallagrímsmenn fá nú svigrúm til að byggja upp breiðari hóp í 1. deild á næsta ári. Fall úr efstu deild annað árið í röð var staðreynd. Góð stig Njarðvíkinga Njarðvíkingar gerðu góða ferð íDHL-höll KR-inga og sigruðu örugglega, 80:89, það tók þá ekki nema fyrstu sex mín- úturnar að gera út um leikinn, þá var staðan orðin 2:21. Þrátt fyrir góða til- raun heimamanna náðu þeir ekki að brúa bilið og hafði tapið í för með sér að möguleikinn á deildarmeistaratitl- inum er úti. Lið Njarðvíkur virkaði vel samstillt og reiðubúið fyrir úr- slitakeppnina. Fyrstu mínúturnar voru vægast sagt ævintýralegar. Í stöðunni 2:4 fór að halla undan fæti hjá heimamönn- um á meðan leikmenn Njarðvíkur settu öll sín skot ofan í. Gestirnir voru komnir 2:21 yfir áður en KR-ingar náðu að skora á ný. Þá gerðu þeir tíu stig í röð og minnkuðu muninn fyrir lok fyrsta leikhluta, 12:21. Heimamenn hresstust aðeins í öðr- um fjórðungi en það var ekki nóg á móti sterku liði Njarðvíkur. Herbert Arnarsson, fyrirliði KR, var ekki á skotskónum í fyrri hálfleik og gerði aðeins eitt stig en Teitur Örlygsson og Gregory Harris spiluðu einkar vel í sókn gestanna. Eftir því sem leið á leikinn hresstust heimamenn þó og náðu að grynnka aðeins á muninum fyrir leikslok – náðu honum mest nið- ur í sex stig en lengra komust þeir ekki og sannfærandi sigur Njarðvík- ur staðreynd, 80:89. „Þetta var sannfærandi sigur, KR liðið er sterkt og ekki auðvelt að sækja heim, en við vorum aldrei í neinni hættu á að missa þetta niður. Við byrjuðum frábærlega og leikur- inn í heild var mjög þéttur. Liðið smellur vel saman og það á besta tíma – svona rétt fyrir úrslitin. Mér líkaði vel við það sem ég sá og er mjög bjartsýnn á framhaldið,“ sagði Frið- rik Ragnarsson, þjálfari Njarðvík- inga, brosmildur í leikslok. „Ég er ekki klár á því hvað leik- menn mínir ætluðu sér í byrjun en við vorum alls ekki tilbúnir til að spila eins og lið. Það var einungis keyrt á einstaklingsframtaki og það gekk ekki upp – við gerðum það bara auð- velt fyrir þá að spila vörn,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR-inga. Auðvelt hjá Keflvíkingum Keflvíkingar þurftu ekki að hafamikið fyrir að leggja Breiðablik að velli þegar liðin mættust í næstsíð- ustu umferð deildar- innar. Keflavík vann auðveldan sigur, 78:93, og fara Blikar í snemmbúið sumarfrí eftir lokaleik sinn í deildinni sem verður gegn Njarðvíkingum á fimmtudag. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið. Keflvíkingar heyja harða baráttu við Grindvíkinga um deildar- meistaratitilinn og efsta sætið inní úr- slitakeppnina en Blikar urðu nauð- synlega að sigra til að eygja örlítinn möguleika á að komast í úrslitin. En svo virtist sem leikmenn Breiðabliks væru búnir að útiloka þann mögu- leika því baráttuþrek þeirra var mjög veikt. Það var aðeins í fyrsta leikhluta sem Breiðablik virtist líklegt til að hrekkja Keflvíkinga en Suðurnesja- menn slökktu það baráttuþrek í öðr- um leikhluta þegar Blikar skoruðu aðeins 13 stig gegn 23. Keflvíkingar léku síðan eins og þeir sem valdið hafa í seinni hálfleiknum, skoruðu nánast að vild en slökuðu síðan á um stund og hleyptu Blikum aðeins inní leikinn. Keflvíkingar þurftu sem fyrr segir ekki að hafa mikið fyrir sigrinum, þeir sýndu þó á köflum fyrsta flokks körfuknattleik þar sem þeir félagar Damon Johnson og Edmund Saund- ers fóru mikinn. Með sigrinum eru Keflvíkingar komnir upp að hlið Grindavíkur með 32 stig en Grindvík- ingar hafa mun betri stöðu eftir sigur í báðum leikjunum gegn Keflvíking- um. Keflavík verður því að treysta á að Grindvíkingar misstígi sig í síðustu tveimur leikjunum, gegn Haukum í kvöld og Hamri á fimmtudag. Damon Johnson var frábær í liði Keflavíkur eins og svo oft áður og Ed- mund Saunders stóð einnig fyrir sínu, sérstaklega í fyrri hálfleik. Blikar hafa sýnt að þeir geta mun betur en þeir gerðu í þessum leik,en skotnýting þeirra var afar léleg. Ken- neth Tate og Mirko Virijevic léku best en liðiðmá illa við því að lykil- menn eins og Pálmi Sigurgeirsson skuli ekki ná upp í meðaltal sitt í stigaskori. Kaflaskipt á Króknum Eftir ágætan leik í fyrsta leikhlutagegn Val virtust Tindastóls- menn halda að sigurinn yrði fyrir- hafnarlítill, en sprækir gestirnir voru hársbreiddinni frá því að stela sigr- inum og hafa stigin með sér suður. Það tókst þó ekki og heimamenn unnu 90:86. Jason Pryor átti frábæran leik og átti vörn Tindastóls í verulegum erf- iðleikum með þennan harðskeytta sóknarmann, en einnig kom Ólafur Ægisson sjóðheitur inn í síðari hálf- leik og hitti vel úr þriggja stiga skot- um. Tindastólsmenn léku á köflum ágætlega en duttu niður í algeran drunga en eins og oft áður var það gamla brýnið Kristinn Friðriksson sem átti mestan þátt í sigrinum. Leikurinn byrjaði fjörlega og heimamenn náðu að skapa sér þægi- legt forskot þegar í upphafi, gestirnir hittu illa og gerðu mikið af mistökum sem heimamenn notfærðu sér til fulls og við lok leikhlutans var munurinn á liðunum fimmtán stig. Í öðrum leik- hlutanum héldu heimamenn áfram en Valsararnir fóru nú að leika mun betri vörn og áttu Stólarnir ekki greiða leið að körfunni. Við lok hálf- leiksins skildu liðin tíu stig. Þegar við upphaf þriðja leikhluta var ljóst að Valsararnir voru ekki komnir til þess að tapa og nú börðust þeir af miklu harðfylgi og smátt og smátt söxuðu þeir niður forskot heimamanna og fóru þar Pryor og Ólafur Ægisson fremstir í flokki. Í þessum leikhluta gekk hvorki né rak hjá Tindastólsmönnum, þeir klúðr- uðu sóknum eða sendu boltann beint í hendur mótherjanna og við lok leik- hlutans var staðan 68:68. Í síðasta leikhlutanum var allt á suðupunkti, Valsararnir eygðu sigur og Tindastólsmenn virtust nú loksins gera sér ljóst að stigin voru í veði. Mikil barátta var á báða bóga og nú fengu dómarar leiksins nóg að gera og villurnar hrönnuðust upp, en fram að því hafði leikurinn verið léttur fyr- ir dómarana. Þegar þrjár mínútur voru til leiks- loka fékk Helgi Rafn hjá Tindastóli sína fimmtu villu og tæknivíti dæmt í kjölfarið, þannig að nú skildu liðin að- eins tvö stig. Síðustu mínúturnar voru að vonum æsispennandi, heimamenn náðu að halda gestunum frá sér þannig að þeir náðu ekki að jafna og náðu loks að landa naumum sigri. Morgunblaðið/Jim Smart Teitur Örlygsson á fleygiferð á móti KR-ingum í gærkvöldi. Skallagrím- ur féll á ný HAMARSMENN sendu lið Skallagríms niður í næstu deild í spennu- leik þessara liða í Borgarnesi í gærkvöldi. Hamarsmenn komu ákveðnir til leiks, nýttu sín færi vel og spiluðu af yfirvegun og unnu 77:81. ÍR-ingar unnu Snæfell í framlengdum leik og tryggðu sæti sitt í úrslitakeppninni. KR tapaði fyrir Njarðvík og draumur liðsins um deildarmeistaratitil er úti. Guðrún Vala Elísdóttir skrifar Andri Karl skrifar Ríkharður Hrafnkelsson skrifar Ingibjörg Hinriksdóttir skrifar Björn Björnsson skrifar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.