Morgunblaðið - 26.01.2004, Side 20

Morgunblaðið - 26.01.2004, Side 20
MINNINGAR 20 MÁNUDAGUR 26. JANÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Þorsteinn Sveins-son fæddist á Sauðárkróki 25. júlí 1955. Hann lést í Reykjavík 14. janúar síðastliðinn. Foreldr- ar hans voru Helga Ingibjörg Jónsdóttir, f. á Sauðárkróki 27.6. 1919, d. 24.9. 1999, og Sveinn Þorsteins- son, múrari frá Stóru-Gröf í Skaga- firði, f. 3.7. 1912, d. 23.1. 1991. Systur Þorsteins eru Jór- unn, f. 26.9. 1948, óskírð stúlka, f. 7.12. 1949, d. 2.1. 1950, Mínerva, f. 23.3. 1951, og Ástríður Jóna, f. 16.11. 1956. Þorsteinn kvæntist 7. apríl 1979 Helgu Björgu Helgadóttur kenn- ara, f. í Reykjavík 4.1. 1956. For- eldrar hennar eru Björg Pálsdótt- ir, f. 12.6. 1925 og Helgi Guðmundsson, f. 19.1. 1897, d. 22. 5. 1957. Börn Þorsteins og Helgu eru Kolbrún Björg, f. 2.1. 1979, unnusti hennar er Andri Magnús- son, f. 27.1. 1978, Hildur Inga, f. 21.5. 1981, og Helgi Már, f. 1.7. 1982. Þorsteinn og Helga hófu bú- skap á Ránargötunni 1978 og fluttu á Kóngsbakka 1981 þar sem þau bjuggu til ársins 1992 þegar fjöl- skyldan flutti í Jaka- sel. Þorsteinn ólst upp í Álfheimunum í Reykjavík og gekk í Langholtsskóla og síðan í Vogaskóla, þaðan sem hann lauk landsprófi. Leið hans lá síðan í Menntaskólann við Tjörnina þar sem hann útskrifaðist sem stúdent 1975. Þorsteinn hóf nám við Kennaraháskóla Íslands haustið 1977 og útskrifað- ist þaðan sem kennari vorið 1980. Haustið 1980 hóf hann kennslu við Hólabrekkuskóla í Reykjavík þar sem hann starfaði til dauðadags. Á sumrin sinnti hann garðyrkju- störfum til margra ára. Þorsteinn sinnti félagsstörfum, fyrst í Smíðakennarafélagi Reykjavíkur og síðan tók hann þátt í starfi list- og verkgreinakennara í Reykja- vík. Hann gekk í Oddfellowregl- una 1999. Þorsteinn var síðustu árin prófdómari við smíðadeild Kennaraháskóla Íslands. Útför Þorsteins fer fram frá Langholtskirkju í dag og hefst kl. 15. Elskulegur bróðir minn Steini var kallaður burtu úr þessum heimi á svipstundu, það gafst ekkert ráðrúm til að kveðja. Hann hafði ekki kvartað um veikindi, var fullfrískur til hinstu stundar. Fjölskyldan er harmi slegin, eftir situr sorg og söknuður. Þú varst góður bróðir, traustur, réttlátur og sanngjarn, mjög hjálplegur og ósér- hlífinn. Þú hafðir svo mörg áhugamál, varst mikill aðdáandi íþrótta, stund- aðir fótbolta alla tíð, einnig varst þú fær á skíðum. Þú hafðir mikinn áhuga á tónlist, spilaðir á gítarinn til að slaka á frá amstri dagsins eða hlustaðir á tónlist. Ég minnist þess þegar þú komst með Helgu Björgu inn í fjöl- skylduna, hún var þér alla tíð svo kær, enda yndisleg manneskja. Þið fóruð samtíða í Kennaraskólann og lukuð námi 1980. Í ársbyrjun 1979, 20. jan- úar, eignuðust þið Kolbrúnu, og gift- uð ykkur um leið og hún var skírð í apríl sama ár, það var hátíðleg stund. Síðan fæddist Hildur Inga og Helgi Már ári síðar. Þau hafa stundum talað um að þau væru eins og þríburar, það var svo stutt á milli þeirra. Þið Helga voruð svo samstiga í lífinu, lifðuð fyrir börnin ykkar og kennsluna, þar gátuð þið borið saman bækur ykkar og stutt hvort annað. Seinni árin, þegar börn- in stækkuðu, voruð þið dugleg að ferðast bæði innan lands og utan. Margar góðar stundir höfum við átt með ykkur í sumarbústaðaferðum og fjölskylduboðum. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. Héðan skal halda heimili sitt kveður heimilisprýðin í hinsta sinn. Síðasta sinni sárt er að skilja, en heimvon góð í himininn. (Vald. Briem.) Elsku bróðir, ég kveð þig og þakka þér fyrir góðar samverustundir á lífs- leiðinni. Ég bið Guð að geyma þig. Minning þín mun lifa með okkur fjölskyldu þinni. Elsku Helga Björg, Kolbrún, Hild- ur og Helgi Már, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Þín systir Mínerva. Elsku Steini frændi. Það eru fá orð sem geta lýst því hvernig okkur líður núna. Við áttum ekki von á því að þurfa að kveðja svona góðan frænda. Okkur systrun- um hefur ávallt þótt gott að koma til ykkar Helgu. Þið tvö eruð okkur svo kær og hafið alltaf verið til staðar þegar okkur vantaði stuðning, hjálp eða góð ráð. Það er svo erfitt að sjá fjölskyldu þína án þín, sérstaklega Helgu, því þið tvö voruð svo ham- ingjusöm og ástfangin. Okkur systr- unum þóttu þið fyrirmyndar fjöl- skylda. Heimilið ykkar stóð okkur ávallt opið og fyrir það erum við svo þakklátar. Elsku mamma, Minný og Ásta. Við vitum að þið hafið misst mikilvægan hlekk úr Svenson-ættinni, góðan bróður sem þið voruð vanar að treysta á. Elsku Helga, Kolla, Hildur og Helgi. Okkur þykir svo vænt um ykk- ur og það er sárt að horfa á ykkur í þessari miklu sorg. Sagt er að hver raun geri okkur sterkari. Við tökum einn dag í einu. Elsku Steini. Þú skilur eftir góða konu og yndisleg börn. Við munum reyna eftir okkar bestu getu að styðja þau á þessari sorgarstundu. Hér með kveðjum við góðan frænda. Helga Kristrún og Sigurborg Anna. Það eru blendnar tilfinningar sem takast þarf á við og erfitt að upplifa þegar maður er minntur með kröft- ugum hætti á hversu stutt er milli lífs og dauða, gleði og sorgar. Þriðjudagurinn 13. janúar rennur upp, fullur af gleði og hamingju. Kvöldið áður höfðum við Gerður upp- lifað þá sælu að eignast okkar fyrsta barnabarn. Ekki skyggði á gleðina að allt hafði gengið vel og ákveðið er að nota síðdegið til að kaupa sængurgjöf. Þar sem við stöndum inni í barnafata- verslun síðdegis koma Helga og Kolla til að samgleðjast okkur þar sem þær af tilviljun eiga leið framhjá. Um kvöldið er síðan eitt af umræðuefn- unum í Jakaselinu hið nýja líf sem komið er í heiminn í Álfaheiðinni. Miðvikudagurinn 14. janúar renn- ur upp og þær fregnir berast um morguninn að Steini hafi látist við kennslu í Hólabrekkuskóla. Fyrstu viðbrögð eru vantrú, þetta getur ekki verið. Hraustur og fullur lífsgleði, engin veikindi, engin viðvörun. Svona getur ekki gerst. Síðan reiði yfir tak- markalausri ósanngirni, söknuðurinn og sorgin verður öðrum tilfinningum yfirsterkari. Við nafnarnir kynntumst þegar ég hóf kennslu við Hólabrekkuskóla fyr- ir um 20 árum. Steini var kennari af lífi og sál og einn af þeim sem kenndu flestum þeim nemendum sem farið hafa í gegnum Hólabrekkuskóla til margra ára. Honum var einkar lagið að eiga við nemendur sína sem lærðu framar öðru nákvæm og góð vinnu- brögð um leið og hann miðlaði til þeirra af sinni miklu kunnáttu. Það voru ekki lætin í kringum hann held- ur róleg og yfirveguð vinnubrögð sem nemendur hans kunnu að meta og eru ómetanlegur þáttur þegar unnið er með börnum. Mikilvægt þótti honum að í starfsmannahópnum væri góður andi og þar var hann ákveðinn kjöl- festa. Tók þátt í flestu því sem tekið var upp á og oftar en ekki hrókur alls fagnaðar. Þá var oft ekki langt í gít- arinn og sönginn sem hann hafði mikla ánægju af. Þegar ég velti fyrir mér í dag hvað varð til þess að við urðum jafn góðir og innilegir vinir og raun bar vitni þá man ég það ekki. Það virtist bara vera þannig frá upphafi að ekkert var eðli- legra þrátt fyrir að við værum nokkuð ólíkir. En seinna átti eftir að koma í ljós að einmitt hversu ólíkir við vorum batt okkur kannski enn sterkari vina- böndum og gerði báðum gott á upp- byggilegan hátt í mörgum málum. Það spillti ekki fyrir vináttu okkar að konur okkar kynntust fljótt og milli fjölskyldnanna þróaðist ekki einvörð- ungu einlægur vinskapur heldur miklu fremur innileg væntumþykja. Við höfum getað fylgst að í uppeldi barnanna enda þau á svipuðum aldri, séð þau þroskast og verða sjálfstæðir heilbrigðir einstaklingar og nú vorum við saman að renna yfir á nýtt ævi- skeið. Tíma barnabarna og jafnvel aukins frítíma til að sinna tómstund- um í auknum mæli og jafnvel enn fleiri sameiginleg ferðalög möguleg en áður. Ekki svo sjaldan höfðum við rætt hversu frábær tími væri að baki og skemmtilegur tími framundan. Allt virtist ganga okkur í haginn. Steini var sérstakur á margan hátt. Hann var einlægur og opinskár en um leið afar ákveðinn á sínu. Aldrei varð okkur sundurorða þótt oft værum við ekki sammála. Málin voru þá oftar en ekki rædd því lengur þangað til við- unandi niðurstaða fékkst sem menn voru þokkalega sáttir við. Hann var afar hjálpfús og oftar en ekki tilbúinn til að leggja hönd á plóg þar sem þörf var á slíku. Margar minningar á ég frá þeim mörgu stundum sem við unnum saman að ýmsu á kvöldin og um helgar, hvort sem um var að ræða málningarvinnu, smíðar eða eitthvað annað sem sinna þurfti. Ofarlega stendur mér nú í huga tíminn okkar saman í sumar þegar ráðist var í smíði verandar í Jakaselinu. Einstak- lega ánægjulegur og skemmtilegur tími þar sem tilhlökkunin við upphaf hvers dags réð ríkjum og ánægjan að góðu dagsverki loknu. Við vorum líka ánægðir með okkur þegar verkinu lauk og allt hafði gengið eins og lagt var upp með í upphafi. Þarna kom eins og oft áður í ljós hversu nákvæm- ur og samviskusamur hann var. Allt varð að vera óaðfinnanlegt og lagði hann mikið á sig til að svo mætti verða. Já, svona var Steini í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur hvort heldur sem var út á við eða sneri að heimilinu og fjölskyldunni. Einhvers staðar segir að tíminn lækni öll sár og án efa er það rétt. Hitt er þó víst að við sem þekktum Steina upplifum nú hversu stórt skarð hefur verið rofið sem án efa verður erfitt að fylla. Elsku Helga, Kolbrún, Hildur og Helgi. Missir ykkar er mikill en hugg- un er þó til þess að vita að samheldni fjölskyldunnar mun hjálpa ykkur til að takast á við þann erfiða tíma sem nú fer í hönd. Minningin um góðan vin og ástkæran föður mun lifa í hjörtum okkar allra. Þorsteinn og Gerður. Ég ætla með örfáum orðum að kveðja hann Þorstein móðurbróður minn eða Steina eins og hann var allt- af kallaður í fjölskyldunni. Þótt ég hafi þekkt Steina frá því ég fæddist fannst mér ég ekki kynnast honum almennilega fyrr en ég fór að vinna hjá honum á sumrin. Meðfram kennslunni starfrækti Steini nefni- lega garðyrkjufyrirtæki ásamt tveim- ur öðrum ágætismönnum, þeim Héðni Péturssyni og Jasoni Ívars- syni, einnig kennurum. Þessi sumur sem ég vann hjá þeim má segja að ég hafi lært að vinna. Og þá einna mest af Steina. Steini var einn mesti forkur til vinnu sem ég hef kynnst. Og auð- vitað varð maður að reyna að halda í við karlinn. En það var ekki aðeins dugnaður- inn sem einkenndi Steina. Vandvirkni og samviskusemi voru honum í blóð borin. Fúsk var honum eitur í bein- um. Enda ber fallegt heimili hans þess vitni. Oft þegar eitthvað þurfti að gera heima hjá okkur sem við feðgar réðum ekki við þurfti oft ekki mikið til, var hringt í Steina. Og hann mætti og reddaði því óaðfinnanlega. Þeir voru margir kostirnir sem prýddu Steina. Þegar maður hugsar til baka sér maður hversu heilsteypt- ur, hreinn og beinn hann var. Það sem Steini sagði stóð eins og stafur á bók. Fals og tilgerð voru ekki til í hans fari. Það eru eiginleikar sem eru alltof sjaldgæfir. Í einkalífinu átti Steini miklu láni að fagna. Í Helgu á hann frábæra konu og saman eiga þau þrjú frábær börn, Kolbrúnu, Hildi og Helga. Í þeim endurspeglast mannkostir þeirra beggja, meðal annars styrkur og æðruleysi sem á eftir að hjálpa þeim á þessum erfiðu tímum. Ég votta þeim öllum mína dýpstu samúð. Minningin um Steina mun lifa. Minning um góðan dreng. Ragnar Steinn Guðmundsson. „Skjótt hefur sól brugðið sumri.“ Þorsteinn Sveinsson kennari er lát- inn aðeins 48 ára að aldri. Hann lést árdegis hinn 14. janúar við kennslu- störf í Hólabrekkuskóla. Það var mér mikið áfall þegar mér var tjáð þessi harmafregn þar sem ég var staddur erlendis. Hvernig má það vera að kær vinur, samstarfsmaður og Oddfellowbróðir á besta aldri er kallaður burt svo skyndilega og fyr- irvaralaust? Þorsteinn lauk kennaraprófi 1980. Það sama ár réð Þorsteinn sig sem smíða- og íslenskukennara við Hóla- brekkuskóla og kenndi alla tíð við skólann fram á hinsta dag eða í tæp 24 ár. Veturinn 2001 – 2002 fékk Þor- steinn námsleyfi og lagði stund á tölvunám og var hann einmitt að kenna 12 ára nemendum á tölvur er hann varð bráðkvaddur. Lengst af kenndi Þorsteinn fyrst og fremst smíðar og þar naut sín hag- leikur hans og vandvirkni sem end- urspeglaðist í árangri nemenda. Snyrtimennska hans í einu og öllu var einstök og báru smíðastofur skólans þess glöggt vitni. Þorsteinn var ætíð boðinn og búinn að taka að sér þau verkefni og störf sem honum var trúað fyrir og sat hann m.a. í kennararáði skólans, í stjórn smíðakennarafélagsins og síð- ustu árin var hann prófdómari í smíð- um við Kennaraháskóla Íslands. Þorsteinn var vinsæll kennari og eftirsóttur æfingakennari af kennara- nemum sem lögðu fyrir sig smíði og eru þeir margir sem notið hafa leið- sagnar hans í gengum tíðina. En Þorsteinn sinnti ekki einvörð- ungu smíðakennslu, í þau tæplega 24 ár sem hann starfaði við Hólabrekku- skóla tók hann virkan þátt í félags- og tómstundastarfi nemenda og veitti þeirri starfsemi forystu um langt ára- bil. Sú vinna var unnin að loknum löngum kennsludegi og stóð oft langt fram á kvöld en aldrei var minnst á vinnuálag. Þorsteinn hafði vanist því að litlu yrði áorkað ef ekki væri fyrir því haft. Fjölmargar voru ferðirnar sem hann fór með nemendum á haustin í Þórsmörk, á skíði á veturna og með 10. bekkinga á vorin til Vestmanna- eyja. Í þessi ferðalög varð að treysta á reyndan, vinsælan og úrræðagóðan kennara sem leysti þau mál er upp gátu komið af festu og hógværð. Mörg voru þau handtökin sem hann lagði vinum sínum til við margs konar vinnu enda með afbrigðum lag- hentur. Honum fannst svo sjálfsagt að rétta öðrum hjálparhönd ef með þurfti að ekki væri hafandi orð á því. Þorsteinn gekk í Oddfellowstúkuna nr. 19, Leif heppna, hinn 1.11. 1999. Í Oddfellowstarfinu reyndist Þorsteinn góður og dyggur Oddfellowi sem starfaði af einlægni í reglunni og var í hópi þeirra sem aldrei vantaði á fund enda voru honum fljótt falin trúnað- arstörf í stúkunni. Við stúkubræður söknum kærs bróður. Undanfarna daga hafa mér borist í hendur mörg bréf og ljóð frá nem- endum Þorsteins þar sem þau tjá til- finningar sínar og sorg yfir þessu skyndilega fráfalli. Orð þessara barna og unglinga lýsa hug þeirra á einlæg- an hátt. Það ríkir sorg og söknuður í hjört- um okkar og eftir löng og farsæl kynni kveðjum við kæran vin. Helgu og börnunum sendum við innilegustu samúðarkveðjur. Sigurjón Fjeldsted, skólastjóri. Hinn 14. janúar var hörmulegur dagur, þegar Þorsteinn fór frá okkur öllum. Þorsteinn lést skyndilega í lok tölvutíma hjá okkur. Þar sem hann var mikill grínisti töldum við í fyrstu að hann væri að fíflast. Hann var góð- ur, fyndinn og skemmtilegur. Þor- steinn sagði alltaf að allir ættu að hafa sínar skoðanir, það var eitt af því skemmtilega við Þorstein og hann hafði svo sannarlega sínar skoðanir. Hann var besti tölvu- og smíðakenn- ari sem hefur kennt okkur. Hans verður sárt saknað í huga okkar allra. Við spyrjum drottin særð, hvers vegna hann hafi það dularfulla verklag að kalla svona vænan vinnumann af velli heim á bæ um miðjan dag. Og þó, með trega og sorg, skal á það sæst, að sá með rétti snemma hvílast megi í friði, er hafði, fyrr en sól reis hæst, fundið svo til, að nægði löngum degi. (Jóhann S. Hannesson.) Bekkur 73. í Hólabrekkuskóla. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum.) Stórt skarð er nú höggvið í hóp starfsmanna Hólabrekkuskóla. Þorsteinn Sveinsson hóf kennslu við skólann 1980 og starfaði með okk- ur óslitið síðan að frátöldu einu ári sem hann var í framhaldsnámi. Hann var einn af þessum látlausu, hugprúðu mönnum sem unnu verk sín með ágætum og í hljóði. Hann var ósérhlífinn og honum farnaðist vel í samskiptum við nemendur og starfs- fólk. Ómældur er sá tími sem hann varði með unglingum í félagsstarfi og ferðalögum. Sem smíða- og tölvu- kennari hafði hann áhrif á fjölda- marga nemendur, ekki einungis með kennslu heldur einnig með framkomu sinni og viðhorfum. Um Þorstein má segja að hann var góður drengur í orðanna elstu og bestu merkingu. Kahlil Gibran segir um fræðslu: „Fræðarinn, sem gengur í skugga musterisins meðal lærisveina sinna, miðlar ekki af vísdómi sínum, heldur fremur af trú sinni og samúð.“ Megi minningin um einstakan mann verða öllum sem hann þekktu huggun á sorgarstundu. Sérstakar samúðar- kveðjur sendum við eiginkonu Þor- steins og börnum. Starfsfólk Hólabrekkuskóla. Af og til erum við minnt á það að ekkert í lífinu er sjálfgefið eða sjálf- sagt. Skyndilegt fráfall Steina vinar okkar og samstarfsmanns er því til vitnis. Kynni okkar hófust fyrir rúmum tuttugu árum en urðu meiri og nánari þegar við kennararnir ákváðum að sjá okkur sjálfir fyrir sumarvinnu. Okkar á milli gengum við undir nafninu Grasmaðkarnir. Steini var seintekinn og vinátta okkar þróaðist hægt og rólega en allt- af vaxandi. Hann var af gamla skól- anum, mjög traustur, vandvirkur, ná- kvæmur og flanaði aldrei að neinu en þó var alltaf stutt í glensið. Hann var bóngóður og ábyrgur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Þessir eig- inleikar hans nýttust vel hvar sem hann lagði hönd á plóg. Dagarnir í sumarvinnunni gátu orðið býsna langir og strangir og stundum gat það verið freisting að hætta áður en að verki var lokið en það átti ekki við Steina. ÞORSTEINN SVEINSSON

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.