Morgunblaðið - 26.01.2004, Side 36
MORGUNBLAÐIÐ, KRINGLUNNI 1, 103 REYKJAVÍK, SÍMI 569 1100, SÍMBRÉF 569 1181, PÓSTHÓLF 3040,
ÁSKRIFT-AFGREIÐSLA 569 1122, NETFANG: RITSTJ@MBL.IS, AKUREYRI: KAUPVANGSSTRÆTI 1 MÁNUDAGUR 26. JANÚAR 2004 VERÐ Í LAUSASÖLU 190 KR. MEÐ VSK.
Áskriftarsími 881 2060
Í FORMI
LIFANDI
VÍSINDI
Áskriftarsími 881 4060
LÍKT og í Tate Modern í London síðastliðið
haust og í Listasafni Reykjavíkur um síðustu
helgi hefur fólk streymt á sýningu Ólafs Elías-
sonar í Astrup Fearnely-safninu í Ósló, sem
var opnuð á laugardag. Að sögn Gunnars
Kvaran, forstöðumanns safnsins, hefur hún
þegar slegið öll aðsóknarmet um opnunarhelgi,
því á laugardag komu 2.003 gestir í safnið og
um þrjúleytið í gær voru komnir 1.100 til við-
bótar, en þá voru enn tvær stundir í lokun.
Gunnar segir slíka aðsókn fáheyrða miðað við
það sem tíðkast hefur í safninu á síðustu árum,
sem þó er alla jafna vel sótt: „Þetta er tvöfalt
meiri aðsókn en helgina sem við opnuðum sýn-
ingu á verkum Matthews Barneys.“/15
Ljósmynd/Örn E. Borgen
Mikill áhugi á sýningu Ólafs Elíassonar
LÍFEYRISSJÓÐUR verzlunarmanna hefur
gert upp árið 2003 og í ljós hefur komið að sjóð-
urinn skilaði þá bestu afkomu sinni frá upphafi,
eða síðan hann tók til starfa árið 1956. Ávöxtun
á árinu var 15,2% sem samsvarar 12,1% raun-
ávöxtun. Eru það mikil umskipti frá árinu 2002
þegar raunávöxtunin var neikvæð um 2,7%.
Eignir sjóðsins námu 123,7 milljörðum króna í
árslok, hækkuðu um 21,7 milljarða króna, eða
um rúm 21%.
Magnús L. Sveinsson, stjórnarformaður líf-
eyrissjóðsins, segir að eftir barning undanfar-
inna ára geti menn ekki verið annað en hæst-
ánægðir með útkomu síðasta árs, þá bestu frá
upphafi fyrir bráðum 50 árum.
Spurður um skýringu á svo góðri útkomu
segir Magnús að stór hluti eignasafns sjóðsins
sé í hlutabréfum og þar hafi orðið mikil um-
skipti á liðnu ári, jafnt hér á landi sem erlendis.
Þetta sé meginskýringin en einnig beri að
þakka forstjóra og starfsfólki lífeyrissjóðsins
fyrir góða vinnu. Þar fylgist starfsmenn vel
með þróun mála og hvar helst megi bera niður
til að fá sem besta ávöxtun. Segir Magnús
margt benda til að svipuð þróun verði á þessu
ári, þótt erfitt sé að spá um það. Lífeyrissjóðir
starfi á sveiflukenndum markaði.
Tryggingafræðileg úttekt sjóðsins sýnir að í
lok árs námu skuldbindingar hans 6,8% um-
fram eignir og eignir umfram áfallnar skuld-
bindingar námu 15,2%. Á síðasta ári greiddu
ríflega 42 þúsund sjóðfélagar iðgjöld að and-
virði 8,2 milljarða króna, sem er aukning milli
ára um 12%. Á nýliðnu ári nutu 6.585 lífeyr-
isþegar greiðslna úr sjóðnum upp á 2,3 millj-
arða króna, sem er aukning um 12% milli ára.
Aukinn séreignasparnaður
Iðgjöld séreignadeildar Lífeyrissjóðs verzl-
unarmanna námu 658 milljónum kr. í fyrra,
samanborið við 465 milljónir árið áður. Þetta er
aukning um 42% en séreignir sjóðfélaga jukust
enn meir, eða um 80%, og námu tæplega tveim-
ur milljörðum króna í árslok. Magnús segir
þessa niðurstöðu einnig ánægjulega, æ fleiri
sjóðfélagar séu að átta sig á mikilvægi þess að
spara og tryggja sig betur þegar aldurinn fær-
ist yfir.
Raunávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna var 12,1% á árinu 2003
Besta útkoman frá upphafi
STJÓRNVÖLDUM bárust ekki fullnægjandi
upplýsingar og svör frá eigendum Atlantsáls,
sem hafa haft uppi áform um byggingu álvers á
Húsavík. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráð-
herra tilkynnti heimamönnum á Húsavík þetta
á fundi fyrir helgi en sagði að eftir sem áður
yrði undirbúningi stóriðju á Norðurlandi hald-
ið áfram.
Atlantsál er í aðaleigu Transal á Bretlandi
og íslenska fyrirtækisins Altech, sem átt hefur
í fjárhagserfiðleikum undanfarið og leitar nú
nauðasamninga við helstu lánardrottna sína.
Voru uppi áform um að reisa 360 þúsund tonna
álver á Húsavík og byrja á 90 þúsund tonna ál-
veri. Áður hafði fyrirtækið verið að skoða stað-
setningu fyrir álver á Dysnesi í Eyjafirði.
Viljayfirlýsing var undirrituð á síðasta ári
milli Atlantsáls og Þeistareykja ehf. um að Atl-
antsál fengi svæðið á Þeistareykjum til raf-
orkuframleiðslu. Bundnar voru vonir við að
hefja jarðvegsframkvæmdir við álverið á þessu
ári, en nú er ljóst að það verður ekki raunin.
Ekki skynsamlegt að halda áfram
Valgerður segir við Morgunblaðið að ekki
hafi þótt skynsamlegt að halda samstarfinu við
Atlantsál áfram. Ekki hafi fengist fullnægjandi
eða traustvekjandi upplýsingar um fjárfesta að
baki fyrirtækinu. Komið hafi verið að þeim
tímapunkti í verkefninu að vinna umhverfis-
mat. Það sé stór ákvörðun og kostnaðarsöm
framkvæmd og ekki hafi verið skilyrði til að
stíga þau skref. Valgerður segir margt hafa
gerst í rannsóknum á svæðinu kringum Húsa-
vík og það komi mönnum til góða í undirbún-
ingi stóriðju á Norðurlandi. Stjórnvöld muni
hins vegar vinna að því á sínum forsendum.
Hætta
vinnu með
Atlantsáli
Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Áform um álver á Húsavík
MENNIRNIR tveir sem lentu í sjónum þegar bát þeirra, Sig-
urvini GK, hvolfdi í innsiglingunni í Grindavíkurhöfn á föstu-
dag þökkuðu björgunarmönnum lífgjöfina á laugardag.
„Þetta eru hetjur, þetta er ekkert annað. Menn þurfa að
vera svakalega hugaðir, þetta er ekki fyrir hvern sem er,“ seg-
ir Svanur Karl Friðjónsson, skipstjóri á Sigurvini GK, um
björgunarmenn sína úr Björgunarsveitinni Þorbirni í Grinda-
vík.
„Ég vissi ekkert hvernig þeir litu út blessaðir drengirnir, ég
man ekki einu sinni eftir því þegar þeir drógu mig upp,“ segir
Svanur, enda var hann orðinn kaldur og þrekaður þegar björg-
unarsveitarmennirnir náðu honum upp í björgunarbátinn.
Slysið varð með þeim hætti að brot kom beint aftan á bátinn
og við það þrýstist stefni bátsins niður og hann fór fram fyrir
sig og endaði á hvolfi, segir Svanur. „Heimir náði að skutlast
inn og ná í vestin og ýtti á neyðarrofann í leiðinni. Ef hann
hefði ekki náð í þessi vesti hefði ekki þurft að spyrja um fram-
haldið.“
Brimið var mikið en skipbrotsmennirnir náðu að koma upp-
blásnum björgunarbát fyrir borð og stökkva um borð. „Það
var bara skafl eftir skafl, við vorum í bátnum í kannski fimm
til átta sekúndur, þá fengum við annað brot og honum hvolfdi.
Þá fór allt úr honum og Heimir náði að flækja sig í spotta en
ég varð viðskila við hann.“
Barst tvisvar upp í grjótgarðinn
Brimið bar Svan tvisvar upp í grjótgarðinn, en hann var of
loppinn til að halda sér og bar út aftur. „Ég reyndi að halda
mér en hrundi alltaf út aftur. Ég var hættur að finna fyrir
nokkrum sköpuðum hlut.“
Svanur segist ekki hafa gert sér grein fyrir því að björgun
væri á næsta leiti. „Ég sá ekki neitt, einu sinni fannst mér ég
hafa séð til björgunarmanna, en svo sá ég ekkert meira. Ég
var alveg hættur að sjá, maður var eins og kuðungur í brim-
inu.“
Það mátti ekki miklu muna fyrir Svan og hann segist ein-
faldlega hafa verið búinn þegar honum var bjargað, og varð
ekki var við það að eigin sögn. „Þetta var orðið mitt síðasta, ég
vissi ekkert meir.“
Svanur þurfti að eyða einni nótt á spítala, enda var hann
orðinn mjög kaldur eftir volkið í sjónum. Heimir Hansson,
hinn skipverjinn á Sigurvini GK, fékk að fara heim að lokinni
skoðun. Hann er þó ekki á því að hætta að stunda sjóinn, og
hefur þegar verið boðin skipstjórastaða á öðrum bát.
Skipbrotsmennirnir þökkuðu björgunarsveitarmönnum fyrir lífgjöfina
„Menn þurfa að vera svakalega hugaðir“
Ljósmynd/Birkir Agnarsson
Heimir Gunnar Hansson (t.v.) og Svanur Karl Friðjónsson
standa hér við gúmmíbjörgunarbátinn sem Heimir hékk á.