Morgunblaðið - 19.03.2004, Qupperneq 49
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 19. MARS 2004 49
✝ Hilmar H. Gests-son fæddist í
Reykjavík 13. októ-
ber 1924. Hann lést á
líknardeild Landspít-
alans á Landakoti 13.
mars síðastliðinn.
Foreldrar hans voru
Gestur Hannesson
pípulagningameist-
ari, f. 14.2. 1901, d.
25.5. 1997 og Guðrún
Ólafsdóttir húsmóð-
ir, f. 23.8. 1898, d.
26.4. 1979. Systkini
Hilmars eru Ólafur,
f. 29.1. 1927, d. 25.9.
1992, maki Inga Axelsdóttir,
Gyða, f. 24.1. 1930, Viðar, f. 14.11.
1933, maki Halldóra Karlsdóttir
og Erla, f. 25.12. 1942, maki
Skarphéðinn Njálsson.
Hilmar kvæntist hinn 26. ágúst
1960 Hönnu Kristinsdóttur hús-
móður, f. 3. ágúst 1933, d. 28. des-
ember 2001. Foreldrar hennar
voru Kristinn Ottason skipasmið-
ur og Guðlaug Eiríksdóttir hús-
móðir, þau eru bæði látin.
Börn Hilmars og Hönnu eru: 1)
Kristinn skrifstofumaður, f. 15
nóvember 1960, kvæntur Patriciu
Albuquerque, og eru synir þeirra
Kristinn A, f. 1997 og Hilmar A., f.
2002. 2) Gestrún flugfreyja, f. 11.
ágúst 1964, gift Garðari Vil-
hjálmssyni, f. 21. september 1965,
synir þeirra eru
Hilmar Blöndal, f.
1985, Vilhjálmur
Árni, f. 1990 og Unn-
dór Kristinn, f. 1992.
3) Eiríkur markaðs-
stjóri, f. 24. maí
1971, maki Linda
Björk Helgadóttir, f.
22. júní 1971, börn
þeirra eru Einar
Örn, f. 1992, Guð-
laug, f. 1999 og Ísa-
bella Hanna, f. 2002.
Fyrir átti Hilmar
soninn Jóhann Óla
fuglafræðing, f. 26.
desember 1954 og á hann eina
dóttur, Oddnýju Össu, f. 1987.
Hilmar lærði til vélvirkjunar
hjá Vélsmiðjunni Héðni og lauk
prófi frá Iðnskólanum í Reykjavík
árið 1946. Þaðan lá leið hans í Vél-
skólann og lauk þaðan vélstjórn-
arprófi árið 1950. Hilmar var vél-
stjóri á skipum Skipaútgerðar
ríkisins (Ríkisskip) frá árunum
1950-1966 og á skipum Jökla hf.
frá 1966-1969. Frá janúar 1969
var hann vélstjóri á skipum Eim-
skipafélags Íslands og starfaði
þar sleitulaust þar til hann lét af
störfum fyrir aldurs sakir árið
1991.
Útför Hilmars fer fram frá
Fossvogskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 15.
Elsku hjartans pabbi minn, mikið
óskaplega er sárt að kveðja þig en nú
ertu kominn til hennar mömmu og
ég veit að ykkur líður vel saman.
Fyrir örfáum vikum varstu
hraustur og fínn, fórst í þínar venju-
legu göngu- og hjólaferðir tvisvar á
dag, sama hvernig viðraði og borð-
aðir bara hollan mat. Svona varst þú,
hugsaðir alltaf vel um heilsuna og
varst sannur reglumaður í einu og
öllu og einstakt snyrtimenni. Það er
því sárara að kveðja þig nú þar sem
þú áttir að eiga svo mikið inni.
Þú varst ekki bara pabbi minn
heldur vinur minn líka og mikill fé-
lagi strákanna minna. Þú varst besti
pabbi sem hægt er að hugsa sér. Þú
lifðir fyrir okkur börnin þín og
barnabörnin og fylgdist vel með öllu
sem við tókum okkur fyrir hendur og
tókst mikinn þátt í okkar daglega
lífi.
Þú varst umburðarlyndur, hlýr og
vildir allt fyrir alla gera, þú varst
drífandi og hvattir okkur systkinin
til dáða í hverju sem við tókum okk-
ur fyrir hendur.
Þú varst kletturinn okkar þegar
hún mamma dó og hjálpaðir okkur í
gegnum sorgina og söknuðinn og
sýndir af þér mikinn kraft, þor og
dugnað þá sem og nú í veikindum
þínum, elsku pabbi minn.
Nú hefur enn á ný myndast tóma-
rúm í hjörtum okkar sem ekki verð-
ur fyllt en við yljum okkur við allar
fallegu minningarnar um þig og
þökkum þér fyrir allt, elsku pabbi
minn.
Guð geymi þig.
Þín dóttir
Gestrún.
Mér er minnisstæð sú stund fyrir
um átta vikum þegar ég og Gestrún
systir mín fórum með pabba upp á
slysavarðstofu, þar sem jafnvægis-
skynið var eitthvað skrítið hjá hon-
um og önnur höndin var hálf mátt-
laus. Pabbi ætlaði ekki að fást til
þess að fara þennan dag, það var
sunnudagur, hann sagði við okkur
„förum bara á morgun“. Í mínum
huga hlaut þetta að vera eitthvert
minniháttar vandamál, eitthvað sem
hann myndi jafna sig á fljótt og vel.
Hann var í frábæru líkamlegu
ástandi miðað við aldur, og ég sá
hann alltaf fyrir mér sem rúmlega
níræðan heilsuhraustan mann, svo
vel fór hann alltaf með sig. En svo
þegar hjúkrunarfræðingur kemur til
okkar og ber þær fréttir til okkar að
útlitið sé ekki gott, pabbi sé með æxli
við heila, þá leið mér eins og ég væri
staddur í mjög vondum draumi, og
ég vildi vakna hið snarasta. En ör-
lögin voru víst óumflýjanleg. Ég
hugsaði með sjálfum mér, það er
greinilega verið að kalla elsku pabba
minn inn til einhverra góðra verka
hjá almættinu, og brátt yrðu foreldr-
ar mínir sameinuð á ný. Pabbi sýndi
ekki nein merki þess að hann hefði
verið að fá verstu fréttir lífs síns,
heldur hélt hann ró sinni en sagði
fátt. Ég veit að hugur hans hefur
fyllst af mörgum hugsunum á þess-
ari stundu þó svo hann hafi ekki deilt
þeim með okkur systkinunum. Þetta
var líkt honum pabba, hann sýndi
aldrei nein merki um veikleika, við-
urkenndi meira að segja aldrei að
hann væri kvefaður þó augljóst væri,
hvað þá heldur ef eitthvað alvarlegra
bjátaði á. Hann passaði ávallt upp á
að halda reisn sinni, og var alltaf sá
sem klappaði á bakið og hughreysti á
erfiðum stundum. Pabbi var alveg
frábær fyrirmynd, hann var heiðar-
legur, traustur, trúr þeim sem hon-
um þótti vænt um. Vildi allt fyrir alla
gera og var mjög liðtækur þegar
eitthvað þurfti að laga hjá hans nán-
ustu. Natni hans og snyrtimennska í
því sem hann tók sér fyrir hendur er
algjörlega fáheyrð, enda þoldi hann
aldrei óhreinindi eða óreiðu í kring
um sig.
Í huga mínum nú er mikið þakk-
læti, þakklæti fyrir allt sem pabbi
kenndi mér og gerði fyrir mig í lífinu
og ég er líka þakklátur almættinu
fyrir að fá að eiga Hilmar Hans
Gestsson fyrir föður. Ég veit að
þetta er engin kveðjustund, heldur
skiljast leiðir eitt andartak, þar til
við hittumst aftur, ég og foreldrar
mínir.
Eiríkur Hilmarsson.
Elsku tengdapabbi.
Ekki er allt sem sýnist í þessari
veröld. Fyrir átta vikum síðan varst
þú á þinni daglegu göngu um Vest-
urbæinn og nesið, stökkst síðan uppí
bílinn og kíktir í heimsókn, lagaðir
vatnsleka í krönunum hjá mér,
fékkst þér molasopa og spjallaðir, en
nú ertu allur. Þú þessi heilbrigði og
hrausti maður sem aldrei varst veik-
ur.
Það gagnast þér nú að þú ert
ferðavanur maður, vanur langferð-
um um heimsins höf og úfinn sæ,
vanur ókunnugum slóðum og vanur
löngum fjarverum frá þínum nán-
ustu. Þú ert nú að leggja upp í þína
hinstu og lengstu ferð til þessa á
ókunn mið og ég veit að það er bæði
lens og sléttur sjór í þessari ferð
þinni elsku kallinn minn og vel verð-
ur tekið á móti þér í þinni nýju
heimahöfn. Fyrir aðeins tveimur
mánuðum síðan varstu „eitthvað
slappur í hendinni“ og fórst hikandi
á spítalann til að láta kíkja á þetta
smáræði. Þaðan komstu ekki aftur.
Strax á fyrsta degi á spítalanum
fékst þú þær voðalegu fréttir um að
ekki væri von á bata. Þú tókst þess-
um fréttum af fádæma yfirvegun og
hugrekki og veittir meir að segja
þínum nánustu huggun og von. Þú
háðir hetjulega baráttu við vágest-
inn, vitandi það að hann var betur
vopnum búin og miskunnarlaus. Ég
mun sakna þess að fá þig ekki í
sunnudagslambið og þessar
skemmtilegu stuttu heimsóknir oft í
hverri viku. Þú fylgdist vel með öllu
sem var að gerast hjá okkur öllum,
hafðir áhuga og varst vel inní málum
okkar. Í veikindum þínum varstu
meir að spá í hverdagsleg málefni
okkar allra en stöðu þína og veikindi.
Það sýndi styrk þinn og áræði Hilm-
ar minn að síðustu dagana varst þú
að stjórna aðgerðum og ganga frá
ýmsum málum og tryggja að allt
væri í röð og reglu þegar kallið
kæmi. Þú hafðir alltaf lúmska kími-
gáfu og þeir sem þekktu þig vel
skildu hana vel og þú beittir henni
snilldarlega fram á síðustu stundu.
Þú hefur alltaf verið harðduglegur
og ósérhlífinn, látið verkin tala og
ekki verið mikið fyrir tuð og orða-
gjálfur og þú barst harma þína aldr-
ei á torg. Þú hefur alla tíð verið ein-
stakur reglumaður í einu og öllu og
hef ég heyrt því fleygt frá gömlum
samstarfsmönnum þínum hjá Eim-
skip að vélarúmið hjá þér hafi oftar
en ekki verið hreinna en matsalirnir
á skipunum og það lýsir þér vel. Þú
varst hreinskiptinn, horfðir alltaf
fram á veginn og leist aldrei um öxl.
Þú varst kletturinn sem brimið
hræddist.
Ég mun minnast sérstaklega sam-
ræðna okkar núna um daginn á
Landakoti þegar þú varst að rifja
upp gömlu góðu dagana á sjónum.
Ég er þér þakklátur að þú kaust að
hafa mig hjá þér síðustu dagana,
mínúturnar og sekúndurnar sem þú
lifðir hér á jörðu niðri og eru þessar
stundir ljósi umluktar í minningu
minni. Ég er einnig þakklátur al-
mættinu að hafa þrautagöngu þína
ekki lengri úr því sem komið var og
ég veit að þín er brýn þörf annars
staðar. Minnig þín mun lifa með okk-
ur öllum um aldur og ævi. Takk kær-
lega fyrir samfylgdina elsku kallinn
minn og góða ferð.
Þinn tendasonur,
Garðar Vilhjálmsson.
Kær kveðja frá vinum.
Vorið er að vakna, farfuglar á leið
til okkar og blóm farin að sjást.
Enn á ný hefur verið höggvið stórt
skarð í vinahóp okkar. Góðvinur
okkar Hilmar lést á Landakotsspít-
ala eftir stutt veikindi.
Hans góða eiginkona Hanna hvarf
okkur fyrir aðeins tveimur árum,
hennar er sárt saknað af vinahópn-
um og ekki síst af eiginmanni sínum
og börnum.
Hanna og Hilmar voru frábær og
góð hjón, samhent og dugleg. Þeirra
er minnst með þakklæti og hlýju og
þakkað fyrir góða margra áratuga
vináttu og skemmtun. Nú verður
þess saknað að rauði stífbónaði
sportbíllinn rennur ekki oftar í hlað-
ið að Þinghólsbraut.
Hilmar okkar var glæsilegur, góð-
ur eiginmaður faðir og sannur vinur
sem aldrei talaði illa um náungann.
Við minnumst þess hve annt hon-
um var um heimili sitt, ekkert var of
gott fyrir Hönnu og börnin. Fagrir
hlutir prýddu heimili þeirra, var það
ekki síst Hilmar sem stóð fyrir því að
færa í bú ýmislegt fallegt og nytsam-
legt. Öll verk léku í höndum þessa
góðmennis.
Því er fagnað að þau Hanna og
Hilmar séu nú saman á ný, hún tek-
ur á móti eiginmanni sínum, það er
vissa okkar.
Fjölskyldunni allri sendum við
kæra kveðju og samúð.
Guð geymi Hilmar og Hönnu.
Sunneva og Guðmundur
Snæhólm.
Elsku Hilmar.
Með örfáum orðum langar mig að
þakka þér samfylgdina í gegnum líf-
ið. Það var alltaf svo gott að koma til
ykkar Hönnu í Granaskjólið og alltaf
tekið svo vel á móti mér – alveg eins
og ég væri ein af ykkar börnum. Ég
var heppin að fá að kynnast þér og
geymi yndislegar minningar um þig.
Takk fyrir allt.
Í hjarta mínu veit ég að þér líður
vel núna – þú ert kominn til Hönnu
og ég veit að þar viltu vera og hún
hefur tekið vel á móti þér.
Guð, ég fæ af fyrirheitum þínum
frið og styrk sem ekkert buga má.
Auk mér trú og haltu huga mínum
helgum lífsins vegi þínum á,
svo að ég af hjartaþeli hreinu,
hvað sem mætir, geti átt með þér
daginn hvern eitt andartak í einu,
uns til þín í ljóssins heim ég kem.
(Sigurbjörn Einarsson.)
Elsku besta Gestrún mín og fjöl-
skylda. Guð varðveiti ykkur og gefi
ykkur styrk í þessari miklu sorg.
Ykkar vinkona,
Gróa.
Þegar við Ingi Þór keyptum íbúð-
ina okkar í Granaskjólinu fyrir 16 ár-
um þá tókum við strax eftir þessum
indælu nágrönnum, Hilmari og
Hönnu. Þessum samrýndu hjónum á
besta aldri sem bjuggu í næsta húsi.
Frá fyrsta degi var samgangurinn
mikill. Hanna var mikil húsmóðir og
átti mörg góð ráð að gefa, og Hilmar
sérfræðingur í að dytta að. Betri ná-
granna var ekki hægt að hugsa sér.
Hilmari féll aldrei verk úr hendi og
eftir að hann komst á eftirlaun þá
skipulagði hann daginn í þaula, hann
var að mála húsið, steypa tröppurn-
ar, klippa runnana, bóna bílinn eða
uppi á þaki. Útiverkin og fram-
kvæmdir voru hans líf og yndi og þá
var Hilmar í essinu sínu.
Ef eitthvað stóð til að gera í garð-
inum eða einhverjar framkvæmdir
stóðu yfir í húsinu hjá mér þá var
hann alltaf mættur til skrafs og
ráðagerða og þessi nærvera góðra
nágranna var mér svo mikils virði.
Við Hilmar fundum fljótt út að bæði
vorum við mjög vanaföst og vildum
hafa allt í föstum skorðum og fannst
báðum gott að vita hvort af öðru og
margan fundinn áttum við úti við
girðingarstaurana þar sem við röbb-
uðum saman um heima og geima og
gáfum hvort öðru skýrslu um það
sem á dagana hafði drifið undanfar-
ið. Honum fannst alltaf gaman að
heyra ferðasögurnar úr ferðunum
okkar á húsbílnum, hvert við hefðum
farið um helgina og hvort við hefðum
fiskað eða gengið á fjöll.
Ég gat nánast stillt klukkuna eftir
honum Hilmari, því alla morgna kl.
11:00 fór hann í göngutúrinn sinn og
svo aftur kl. 11:00 um kvöldið í þann
seinni. Það var svo notalegt að sjá
hann leggja í hann, alltaf með der-
húfuna og veðrið hafði engin áhrif,
hann bara klæddi sig eftir veðri og í
göngutúrinn skyldi haldið, alltaf svo
reffilegur og sportlegur.
Ég spurði Hilmar eitt sinn hvort
hann værir ekki bara til í að flytja sig
um eitt hús og yfir til mín því mig
vantaði nefnilega svona athafna-
mann í sameignina hjá mér. Þá
brosti hann þessu kímna brosi sem
náði alla leið til augnanna og sagði
svo margt. Fá orð en miklar mein-
ingar, það var stíllinn hans.
Svo dundi reiðarslagið yfir. Hilm-
ar fór í myndatöku vegna slappleika
í hendi og var greindur með ólækn-
andi krabbamein í höfði og lagður
inn á líknardeild. Þvílíkt áfall, hann
sem kenndi sér ekki neins meins og
nú bara bið. Þetta var stutt bið, að-
eins tveir mánuðir. Stundum er lífið
óréttlátt. En hann var sáttur í lokin
og ánægður með aðbúnaðinn á deild-
inni og nærveru hjúkrunarfólksins
og það var mér mjög mikils virði.
Við ræddum oft um hana Hönnu,
hversu missirinn var mikill og hvað
lífið var tómlegt án hennar. Nú ertu
kominn til hennar aftur, elsku Hilm-
ar minn. Guð geymi þig.
Hanna Birna.
HILMAR H.
GESTSSON
Þú skilur eftir auðlegð þá
sem enginn tekið fær.
Ást í hjarta, blik á brá,
og brosin silfurtær.
Mesta auðinn eignast sá
er öllum reynist kær.
(G.Ö.)
Hinsta kveðja,
Gyða systir og fjölskylda.
HINSTA KVEÐJA
Ástkær eiginkona mín, dóttir okkar, systir,
mágkona, frænka, barnabarn og tengdadóttir,
ÁSTA SYLVÍA BJÖRNSDÓTTIR,
Eskihlíð 35,
Reykjavík,
sem lést á Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki
miðvikudaginn 3. mars, verður jarðsungin
frá Sauðárkrókskirkju laugardaginn 20. mars
kl. 14.00.
Þeim, sem vilja minnast hennar, er bent á Krabbameinsfélagið.
Kristján Örn Jóhannesson,
Oddný Finnbogadóttir, Björn Friðrik Björnsson,
Emma Sigríður Björnsdóttir, Iain D. Richardson,
Alma Emilía Björnsdóttir og systrabörn,
Emma Hansen,
Friðrik J. Friðriksson,
Þóra Kristjánsdóttir.
Hjartans þakkir til allra þeirra sem sýndu
okkur samúð, vináttu og hlýhug við andlát og
útför móður okkar, tengdamóður, ömmu,
langömmu og langalangömmu,
LAUFEYJAR JAKOBSDÓTTUR.
Sérstakar þakkir til starfsfólksins á Vestur-
götu 7 og Hrafnistu, Reykjavík.
Guð blessi ykkur öll.
Edda Magnúsdóttir, Páll Jónsson,
Inga Magnúsdóttir, Birgir Björnsson,
Erlendur Finnbogi Magnússon,
Elín Björg Magnúsdóttir, Finnur Torfi Hjörleifsson,
Sigurbjörg Kristín Magnúsdóttir,
Helga Hafdís Magnúsdóttir, Hinrik Einarsson,
Jakob Skafti Magnússon,
Þorleifur Magnús Magnússon, Guðlaug Steinsdóttir,
barnabörnin og fjölskyldur þeirra.