Morgunblaðið - 19.03.2004, Side 50
MINNINGAR
50 FÖSTUDAGUR 19. MARS 2004 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Jón Árni Jónsson(Addi) fæddist á
Sölvabakka 7. októ-
ber 1937. Hann lést 9.
mars síðastliðinn.
Árni var yngstur af
sjö systkinum, börn-
um Jóns Guðmunds-
sonar bónda á Sölva-
bakka, f. 26.11. 1892,
d. 3.7. 1992, og konu
hans Magðalenu
Karlottu Jónsdóttur,
f. 7.12. 1892, d. 3.4.
1972. Systkini Árna
eru: Jón Árni, f. 1921,
d. 1935, Guðmundur
Jón, f. 1925, d. 1983, Guðný Sæ-
björg, f. 1926, Ingibjörg Þórkatla,
f. 1928, Finnbogi Gunnar, f. 1930,
d. 9.1. 2004, og Sigurður Kristinn,
f. 1933.
Árni kvæntist 13. júní 1965
Björgu Bjarnadóttur, f. 14.10.
1944, frá Haga í Þingi. Björg er
dóttir Bjarna Jónssonar og Jófríð-
ar Kristjánsdóttur. Dætur Adda
og Boggu eru fimm: 1) Magðalena
Karlotta húsmóðir og bóndi, f. 1.8.
1965, gift Guðna Úlfari Ingólfs-
syni bónda í Drangshlíðardal und-
ir Eyjafjöllum, börn: Ásdís Björg
Gestsdóttir, f. 4.2. 1986, Lilja
Dögg, f. 25.9. 1988, Árný Rún, f.
10.10. 1992, Ingólfur Freyr, f.
15.1. 1994, d. 17.8. 1994, Ingólfur
Freyr, f. 30.3. 2001, og Jóna Guð-
laug, f. 13.8. 2003, Guðnabörn. 2)
Jófríður félagsráðgjafi, f. 13.11.
1967, býr með Jóni Rögnvaldssyni
vélvirkja á Svangrund í Refasveit,
dóttir þeirra Helga
Björg, f. 14.4. 2003.
3) Bjarney Ragnhild-
ur ljósmóðir, f.
15.11. 1968, býr með
Baldvini Sveinssyni
bónda á Tjörn á
Skaga, sonur þeirra
Kristmundur Elías,
f. 21.3. 2003. 4) Jóna
Finndís vatnaverk-
fræðingur, f. 7.11.
1974. 5) Anna Mar-
grét landbúnaðar-
ráðunautur, f. 28.9.
1976, býr með Sæv-
ari Sigurðssyni vél-
smiði á Sölvabakka.
Addi ólst upp á Sölvabakka í
stórum systkinahópi, gekk í
barnaskóla (farskóla) og vann við
bú foreldra sinna þar til þau
brugðu búi árið 1964. Árin 1964–
1966 vann hann við lögreglustörf
og verkamannavinnu á Seyðis-
firði, Vestmannaeyjum, Blönduósi
og víðar. Addi og Bogga hófu bú-
skap á Sölvabakka árið 1966.
Meðfram búskap vann hann ýmis
störf, m.a. var hann í héraðslög-
reglunni í tíu ár. Addi var virkur í
ýmsum félagsstörfum í sveitarfé-
laginu og nágrenni, t.d. í Lions-
klúbbi Blönduóss. Hann var for-
maður veiðifélagsins Hængs,
hreppsnefndarmaður og fjall-
skilastjóri í Engihlíðarhreppi í
áratugi.
Útför Jóns Árna fer fram frá
Höskuldsstaðakirkju í dag og
hefst athöfnin klukkan 14.
Elsku besti pabbi minn er fallinn
frá, svo skyndilega að það er eins og
fótunum sé kippt undan okkur öllum
sem eftir erum og við klípum okkur
fast til að gá hvort þetta hafi ekki
örugglega verið slæmur draumur.
Aldrei á hann pabbi eftir að hringja
aftur, „bara til að heyra í einhverjum
skemmtilegum,“ eins og hann gerði
svo oft þegar hann var einn heima.
Ekki heldur að syngja „Fram í heið-
anna ró“ í góðum hópi þar sem hann
var svo oft hrókur alls fagnaðar.
Pabbi var fæddur á Sölvabakka,
yngsti sonur hjónanna Jóns Guð-
mundssonar og Magðalenu Jóns-
dóttur. Það var þeim mikið ánægju-
efni þegar pabbi og mamma fóru á
búa á Sölvabakka 1966 eftir að jörðin
hafði verið í eyði í 2 ár og fluttust þau
fljótlega í hornið til þeirra. Þar ól-
umst við upp systurnar í skjóli
tveggja kynslóða og betra veganesti
er vart hægt að hugsa sér.
Pabbi var félagslyndur og oft val-
inn til ábyrgðarstarfa í sveitinni.
Hann var lengi formaður veiðifélags-
ins, í stjórn búnaðarfélags og í
hreppsnefnd. Hann var fjallskila-
stjóri um árabil og virkur í Lions-
hreyfingunni hin síðari ár. Í fé-
lagsmálum var hann mikill diplómat
og átti gott með að fá fólk með sér til
starfa. Mamma hefur líka alltaf stað-
ið eins og klettur við hlið hans, heima
og heiman og tekið virkan þátt í bæði
félagsmálum og búverkum með hon-
um. Samheldni þeirra tveggja var
einstök, sem og virðingin fyrir hvort
öðru. Ekki man ég eftir styggðaryrð-
um þeirra á milli, eða leiðinda umtali
um náungann. Nöfnin Addi og Bogga
eru í mínum huga samtvinnuð eining.
Göngur og réttir voru jafnan góð-
ur tími hjá fjölskyldunni. Pabbi lagði
mikinn metnað í að sinna fjallskilum
vel og raða göngum niður þannig að
vel væri skipað í hverja leit. Þegar
safnast var saman á Þverá með
hrossin kvöldið fyrir göngur var oft
glaumur og gleði. Það var alveg sér-
stakt að fá að taka þátt í þeirri gleði
og heyra sönginn og sögurnar við
eldhúsborðið. Vakna síðan að
morgni, taka hesta og ríða fram til
fjalla. Þessar minningaperlur eru
einhverjar þær dýrmætustu sem ég
á.
Veiðifélagið var honum líka kært
og í gegnum það eignaðist hann
marga góða vini. Honum var það svo
lagið að eignast vini en ekki bara
kunningja. Hann lét sér einfaldlega
annt um fólk.
Lífsgleði, bjartsýni, jákvæði og
ljúfmennska hafa ætíð verið bestu
eiginleikar föður míns. Hans besta
fyrirmynd var örugglega amma og til
hennar sótti hann svo mikið. Kær-
leikur hennar var honum afar dýr-
mætur fjársjóður.
Hann var góð fyrirmynd fyrir okk-
ur, kvenfélagið sitt, eins og hann
kallaði okkur systurnar, og hvatti
okkur alltaf til að gera vel og standa
okkur til jafns við strákana ef svo bar
undir. Ekki fannst honum verra ef
við höfðum þá undir í ærslafullum
leik unglinganna á sumrin.
Elsku besta mamma mín, til þín
sækjum við kjark og hughrekki sem
þú hefur í svo ríkum mæli, til að tak-
ast á við söknuðinn og leyfum minn-
ingunum að flæða um okkur og
sjáum í huga okkar brosið hans
pabba þar sem hann leiðir lítinn afa-
dreng um grænar grundir nýrra
heimkynna.
Magðalena.
Elsku pabbi minn, ég sakna þín
svo mikið.
Lítil hnáta leiddi ég pabba suður í
fjárhús til að hjálpa til við sauðburð-
inn. Aðeins stærri var ég komin á
hestbak á Mána til að hjálpa til við að
smala, farin að kippa á milli bagga og
moka í blásarann. Seinna kom ég
heim á Sölvabakka, pabbi stóð í dyr-
unum, faðmaði mig og bauð upp á
spæld egg og beikon í hádegismat
áður en við færum í útiverkin. Við
keyrðum norður á Þverárfjall að
huga að kindum, við fórum út í Dali
að athuga hvernig hrossin okkar
hefðu það, við sátum uppi á hey-
stabbanum og spjölluðum saman.
Um síðustu jól leiddumst við pabbi
suður í fjárhús og gáfum kindunum.
Í fimm systra hópi ólst ég upp á
Sölvabakka. Mamma og pabbi ólu
okkur upp, í ást, gleði og trausti,
samhent í einu og öllu. Frá því ég var
pínulítil skotta hef ég vitað að sam-
band þeirra er einstakt.
Elsku mamma, við verðum alltaf
við hliðina á þér, eins og hann pabbi
hefði viljað.
Guð geymi þig alla tíð, elsku pabbi
minn.
Jóna Finndís.
Elsku pabbi minn.
Það er erfitt að hugsa sér til-
veruna án þín. Þú hefur svo lengi
verið fastur punktur og stoð í lífi
mínu, sá sem mátti stóla á til að leita
ráða og umfram allt ræða málin. Það
var alveg sama af hvaða toga það var,
alltaf var svo gott að ræða við þig um
málefni lífsins. Þú hafðir þann ein-
staka hæfileika að geta hlustað þann-
ig að maður gat trúað þér fyrir
hverju sem var. Ég vissi það reyndar
fyrir, en nú á þessum erfiða tíma, þá
heyri ég líka frá svo mörgum öðrum
hið sama. Þú varst bara þannig mað-
ur. Það var alltaf tilhlökkunarefni
hjá mér að fara með þér í fjárhúsin
að gefa. Þá tókum við okkur oftast
stund til að setjast niður og spjalla
þegar við vorum hálfnuð með gjöfina
og stundum oftar. Þá sátum við hvort
á móti öðru og ræddum saman,
stundum án orða enda vissum við svo
oft hvað hitt var að hugsa að það var
líka hægt. Ég á eftir að sakna þess-
ara stunda mikið.
Þegar ég hugsa til baka þá koma
upp í hugann svo margar minningar,
óteljandi eins og sóleyjarnar á
túninu. Þær einkennast svo margar
af því hvað þú varst alltaf að hugsa
um okkur dætur þínar, mömmu og
okkar nánustu. Ég man þegar hann
Feykir minn var folald, að þá var
mér svo annt um að hann yrði nú
ekki skítugur í stíunni og þú barst
undir hann moð á hverjum degi og ég
held að hreinna folald hafi aldrei
komið út úr hesthúsinu að vori eins
og hann þá. Svona varst þú, alltaf að
hugsa um að gleðja okkur og að okk-
ur liði vel. Eins varst þú alltaf svo
stoltur af okkur í hverju sem við tók-
um okkur fyrir hendur og það studdi
svo sannarlega við bakið á okkur,
hvort sem var í leik eða starfi. Ég
gleymi því aldrei þegar þú reiddir
rósina í hnakktöskunni fram í Trölla
til að færa mér frá ykkur mömmu á
tvítugsafmælinu mínu, þegar við vor-
um í eftirleit. Heldur ekki þegar þú
varst að keyra mig suður á Hvann-
eyri og gafst mér hana Drottningu
mína á leiðinni, því mér hafði litist
svo vel á hana þegar við vorum að
taka frá. Eða þegar þú sagðir við mig
í sumar að það væri réttast að ég ætti
hana Siggu, hún hefði nú eiginlega
alltaf verið mitt hross.
Eftir að við Sævar tókum við búi
nú um áramótin, þá varst þú alltaf
boðinn og búinn að aðstoða okkur,
það brást varla að þú værir búinn að
sópa garðana og setja í einn vagn
þegar við fórum saman að gefa
kvöldgjöfina, til að létta verkin. Þú
varst óþreytandi að segja okkur og
lofa okkur að finna hvað þér þótti
vænt um okkur öll, svo endalaust
hlýr og gefandi. Fjölskyldan var þitt
forgangsmál og það er ykkur
mömmu að þakka hvað hún er sam-
heldin, hefur alltaf staðið saman og
gerir það einnig nú sem endra nær.
Það er mikill styrkur fyrir okkur öll.
Þú varst alltaf svo léttur í lund og
tókst lífinu með bros á vör og hnyttn-
um tilsvörum. Þú varst félagslyndur
og hafðir gaman af að sitja í góðum
hóp vina og fjölskyldu, henda gaman
að atburðum dagsins og segja sögur
af liðnum stundum. Það verður
skrýtið að sitja uppi á Þverá kvöldin
fyrir göngur og hafa þig ekki við
borðið hjá okkur með kímniglampa í
augunum og bros á vör eða þá skelli-
hlæjandi.
Þú varst líka alltaf svo iðinn við að
segja okkur sögur af liðinni tíð,
hvernig hlutirnir hefðu verið þegar
þú varst að alast upp, skemmtilegar
sögur af samskiptum ykkar systkin-
anna, afa og ömmu og svo ótal margt
fleira. Jólasveinavísurnar lærðum
við líka af þér og margar aðrar vísur
sem við höfðum gaman af. Þú hafðir
svo einstakt lag á að hafa gaman af
því sem þú tókst þér fyrir hendur og
það smitaði út frá sér.
Það var alltaf svo gott að vinna
með þér pabbi minn og við höfðum
gott lag á að vinna hlutina saman.
Við töluðum oft um að það væri alltaf
auðveldara að vinna hlutina saman,
og þá ekki kannski síst vegna þess að
það er alltaf svo miklu skemmtilegra.
Þú kenndir mér líka svo margt, að
hugsa vel um skepnurnar, hirða vel
um allan búskapinn og ég mun búa
að þeirri reynslu alla mína tíð. Von-
andi tekst mér ásamt Sævari að
halda uppi merki Sölvabakkabúsins í
framtíðinni.
Ég gæti eflaust skrifað heila bók
um allar minningarnar sem ég á um
þig, pabbi minn, og þær eru allar svo
hlýjar og skemmtilegar. Ég er enda-
laust þakklát fyrir þann tíma sem ég
fékk að eiga með þér því þótt sökn-
uðurinn sé sannarlega sár, þá munu
minningarnar ylja okkur um alla
framtíð. Guð veri með þér alla tíð,
elsku pabbi minn.
Þín
Anna Margrét.
Það er venjulegur þriðjudagur
þegar síminn hringir og í kjölfarið
finnst mér sem heimurinn hrynji.
Tengdafaðir minn, Addi á Sölva-
bakka, er látinn. Síst átti ég von á
því, á mánudeginum þegar við
kvöddumst, að það yrði okkar síðasta
kveðja. Það síðasta sem við ræddum
um var hvort við kæmum í heimsókn
fyrir sauðburð. Það hefðum við
gjarna viljað, en á öðrum forsendum.
Á svona stundum reynist okkur
erfitt að skilja, og spurningar vakna.
Af hverju? Til hvers?
Af hverju varstu hrifinn svona
skyndilega úr þessum heimi, svona
fljótt? Mér fannst þú eiga eftir að
gera svo margt fyrir þig sjálfan og
með Boggu.
Tími er samt alltaf afstæður mæli-
kvarði. Þú hafðir svo sannarlega skil-
að góðu og miklu starfi, áttir stóra og
samheldna fjölskyldu sem var þér
svo kær, og þið hjón höfðuð byggt
upp gott bú sem þið höfðuð nýlega
látið í hendur næstu kynslóðar.
„Vel notað líf er langt líf“ stendur
einhvers staðar. Það finnst mér eiga
vel við þitt lífshlaup. Þó okkur fynd-
ist það hefði átt að verða lengra get-
um við sætt okkur við það að þú not-
aðir það vel og máttir vera stoltur af
því.
Hugurinn hvarflar nú til þess hve
oft var gaman í samheldnum og glað-
værum hópi í eldhúsinu á Sölva-
bakka, einnig til þeirra tíma þegar
við gengum saman til gegninga, ann-
ar gestur hjá hinum, spjölluðum
saman og bárum saman bækur okk-
ar.
Mér er hugsað til þess hve mikil
eftirvænting og tilhlökkun ríkti iðu-
lega í bílnum á leið til Adda afa og
Boggu ömmu þó leiðin þætti stund-
um löng. Auðvitað verður áfram til-
hlökkun þegar farið verður á Sölva-
bakka en það verður ekki eins og
áður. Minningin um allar þessar
stundir er ómetanleg.
Það hafa verið forréttindi og mikill
fjársjóður að hafa þekkt þig og átt
þig að sem sannan vin í þessi 17 ár
sem liðin eru síðan ég kom fyrst á
Sölvabakka. Fyrir það vil ég þakka.
Þín verður sárt saknað, en ég veit
að annars staðar bíður þín útréttur
faðmur dóttursonar sem er tilbúinn
að taka á móti afa sínum.
Hvíl þú í friði kæri vinur.
Elsku Bogga mín. Ég bið Guð að
gefa okkur öllum styrk til að skilja og
sætta okkur við það sem við getum
ekki breytt.
Guðni Úlfar.
Þriðjudaginn 9. mars sl. var mér
færð sú sorgarfregn að tengdafaðir
minn Addi á Sölvabakka væri dáinn.
Þetta gat ekki og mátti ekki vera
satt, hann tengdapabbi, maður á góð-
um aldri, rétt nýhættur búskap og
ætlaði að fara að njóta efri áranna og
sinna sínum hugarefnum sem ekki
hafði gefist tóm til í amstri hvers-
dagsins.
Svona er lífið. Enginn veit hve
lengi og jafnt kertið hans brennur,
og kertið hans Adda er nú brunnið
niður í stjakann.
Ég kynntist Adda og fjölskyldu
hans fyrst að ráði uppúr 1990 þegar
hann fékk mig til að dytta að vélum
fyrir sig. Það tókst strax frá fyrsta
degi með okkur mikil og góð vinátta
sem aldrei hefur fallið blettur eða
hrukka á. Ferðirnar á Sölvabakka
sem urðu ófáar voru mér ætíð til-
hlökkunarefni og átti ég margar
ánægjustundir með fjölskyldunni við
létt spjall og hlátrasköll. Addi var
mikill og hlýr fjölskyldufaðir og
studdi kvenfélagið sitt (eins og hann
kallaði Boggu og dæturnar gjarnan)
með ráðum og dáð.
Í mínum huga er og verður Addi
alltaf fyrirmynd mjúka mannsins því
honum var svo eðlilegt að sýna ein-
lægar tilfinningar. Ég öfundaði Adda
svolítið af þessum hæfileika og ósk-
aði mér þess að ef ég eignaðist konu
og börn þá gæti ég orðið eins fjöl-
skyldufaðir og hann.
Addi minn, þegar við Fríða dóttir
þín hófum sambúð og byggðum okk-
ur heimili í túnfætinum hjá þér
fannst mér að þú yrðir alltaf til stað-
ar sem einn af föstu punktunum í til-
verunni, og það yrði alltaf hægt að
leita ráða hjá þér, eða bara fá knús.
En sá sem öllu ræður var á annarri
skoðun og kallaði þig til annarra
starfa. Sorglegast finnst mér að litla
dóttir okkar Fríðu og hin litlu barna-
börnin skuli ekki fá að kynnast þér
og njóta samvista við þig. Þú varst jú
einu sinni besti afi í heimi. Minning-
arnar um þig tekur enginn frá okkur
sem lifðum með þér, og þær eiga eft-
ir að gleðja okkur í framtíðinni.
Það verður alltaf gott að koma á
Sölvabakka. Það verður öðruvísi gott
þegar Adda vantar við borðshornið
með brosið sitt og hnyttnu athuga-
semdirnar, en hláturinn og lífsgleðin
eru varanlega sest að í gamla hlýlega
húsinu á Sölvabakka.
Elsku Bogga, dætur og barna-
börn, megi góður guð styrkja ykkur
og styðja í gegnum sorgina, ykkar
missir er mikill. Það er í eðli góðs
fólks að vaxa og þroskast af mótlæt-
inu. Guð veri með ykkur.
Jón Rögnvaldsson.
Elsku afi. Það er svo margt sem
kemur upp í hugann þegar við hugs-
um um þig. Hvernig þú sagðir alltaf
„habði“ í staðinn fyrir „hafði“, hvern-
ig við heyrðum alltaf hláturinn þinn
út um allt hús, og hádegisblundurinn
þinn, allt þetta venjulega. Við mun-
um líka eftir því þegar við ætluðum
að safna hári svo við gætum búið til
hárkollu handa elsku afa, og hvað var
erfitt að fá okkur til að henda hárinu
þegar við fórum í klippingu.
Elsku afi. Þó að við vitum að þú
verðir hjá okkur og hugsir um okkur,
þá er erfitt að skilja að þú komir
aldrei aftur til okkar. Þegar við hugs-
um um þig, þá trúum við því ekki.
Okkur líður eins og þegar við förum
næst á Sölvabakka þá verðir þú þar
með ömmu að bíða eftir okkur.
Elsku afi, þú ert svo yndislegur og
hjartahlýr. Við söknum þín en við vit-
um að þú munt hjálpa okkur að tak-
ast á við söknuðinn og sorgina.
Horfi upp í himininn
þar sem þú ert.
Mjúkur blær
strýkur burt tár
eins og höndin þín
og ég veit
að þú ert hjá okkur.
Samt sakna ég þín.
(Á.B.G.)
Ásdís Björg, Lilja Dögg,
Árný Rún, Ingólfur Freyr
og Jóna Guðlaug.
Þegar ég fékk fregnina um bróður
minn um hádegið á þriðjudaginn var
eins og lífið stöðvaðist. Gat þetta ver-
ið satt að Addi væri allur? Hvernig
átti ég að lifa án hans, við sem aldrei
höfum verið lengra frá hvor öðrum
en að hægt væri að ná hvor til annars
án mikillar fyrirhafnar? En svo rann
sannleikurinn upp fyrir mér og þá
fór ég að hugsa og það er svo margs
að minnast bæði gaman og alvarlegt.
Ég man t.d. eftir því þegar Bergur
í Kambakoti kom og skildi byssuna
sína eftir suður í fjárhúsum og við
bræður þurftum að sjálfsögðu að
handleika byssuna og laumuðumst
suður eftir. Pabbi hafði kennt mér að
beina byssu alltaf til jarðar og svo
gerði ég. Ekki datt okkur í hug að
byssan væri hlaðin og ég tók í gikk-
inn, hún var sko ekki bara hlaðin
heldur líka spennt og skotið hljóp úr
henni í grindurnar og skildi þar eftir
kringlótt gat sem minnti okkur á að
við hefðum sloppið tiltölulega vel frá
hættulegum leik. Við flúðum svo nið-
ur í Sandgil alveg niður að sjó. Addi
fór upp Dagsláttuhornið en ég upp
Hrútshvamminn, við höfðum bara
verið að gá að silunganetunum.
Þegar Addi og Bogga fóru að búa á
Sölvabakka árið 1966 hafði jörðin
verið í eyði í tvö ár en ég held það
megi segja að Bogga hafi hvatt mjög
til þess. Þá fóru hlutirnir að gerast.
JÓN ÁRNI
JÓNSSON