Morgunblaðið - 22.03.2004, Blaðsíða 10
FRÉTTIR
10 MÁNUDAGUR 22. MARS 2004 MORGUNBLAÐIÐ
„ÉG tefldi illa á mótinu. Þess vegna
er ég ekki ánægður með taflmennsk-
una en þó er ég ánægður með að
hafa sigrað. Hvað annað get ég
sagt?“ var það eina sem skákmeist-
arinn Garrí Kasparov vildi segja við
Morgunblaðið er hann yfirgaf móts-
stað á skemmtistaðnum NASA í gær
með blóm í hendi og ávísun upp á 15
þúsund dollara.
Kasparov hafði sigur á Englend-
ingnum Nigel Short með einum og
hálfum vinningi í úrslitaviðureign al-
þjóðlega atskákmótsins Reykjavík
Rapid. Þette er fjórða skákmótið
sem Kasparov sigrar á hér á landi í
jafnmörgum mótum sem hann hefur
tekið þátt í. Fyrir annað sætið fékk
Short rúma hálfa milljón króna en
aðalstyrktaraðili mótsins var Atl-
antsál.
Hinn geðþekki Nigel Short sagð-
ist í samtali við Morgunblaðið hafa á
óskiljanlegan hátt misst sigur úr
höndunum í fyrri atskákinni í gær.
Hann hefði verið með góða stöðu
þegar Kasparov hefði snúið skákinni
sér í vil á augabragði. „Í seinni skák-
inni var mér stillt upp við vegg og
þessi náungi tapar eiginlega aldrei
þegar hann hefur hvítt,“ sagði Short
um Kasparov. Þrátt fyrir þetta sagð-
ist Short geta verið vel sáttur við
frammistöðu sína á mótinu í heild,
þar til að úrslitaskákinni gegn Kasp-
arov kom hefði hann unnið mjög
sterka skákmenn eins Aronian í 2.
umferð og Dreev í undanúrslitunum.
Helgi Ólafsson, stórmeistari og
stjórnarmaður í Skáksambandi Ís-
lands, bar hitann og þungann af und-
irbúningi mótsins fyrir hönd sam-
bandsins. Hann sagðist vera
ánægður með hvernig mótið fór
fram og engin teljandi vandamál
hefðu komið upp.
„Sjálf úrslitin komu í raun ekki á
óvart. Kasparov er líklega enn lang-
sterkasti skákmaður heims þó að
hann hafi ekki teflt sérlega vel, ekki
síst í úrslitunum. Einhver kraftur er
í honum sem gerir það að verkum að
jafnvel þegar hann er ekki í topp-
formi þá er erfitt að tefla við hann,“
sagði Helgi. Hann sagði Reykjavík
Rapid hafa að ýmsu leyti markað
viss tímamót. Tæknin hefði verið
með því besta og skákirnar komist
vel til skila til áhorfenda. Þá taldi
Helgi að fyrirkomulagið í upphafi, að
efna til hraðskákmóts til að raða
mönnum niður í fyrstu umferð at-
skákmótsins, gæti brotið upp keppn-
isfyrirkomulag í skák og mögulega
átt eftir að skapa fordæmi á heims-
vísu. Ævintýraleg stemmning hefði
skapast fyrsta kvöldið á NASA á
hraðskákmótinu. Helgi sagði að
vissulega hefði verið skemmtilegra
að sjá Íslendingana ná lengra, en
þeir duttu allir úr leik í 1. umferð.
Persónulega hefði hann ekki verið
rétt stemmdur sökum anna við und-
irbúning mótsins. „Án þess að ég sé
að afsaka mína frammistöðu sér-
staklega þá getur maður ekki verið
að raða upp stólum og borðum og
farið svo að tefla við bestu skák-
menn heims,“ sagði Helgi, sposkur á
svip.
Kasparov lagði Short í úrslitaskák atskákmótsins Reykjavík Rapid
Tefldi illa
en er
ánægður
með sig-
urinn
Morgunblaðið/Ómar
Nigel Short játar sig sigraðan og tekur í hönd Garrí Kasparov á Reykjavík Rapid í gær.
HÆKKUN fermingaraldurs, jafn-
rétti kynjanna, lækkun stræt-
isvagnagjalda, betri laun fyrir ung-
lingavinnu, lenging vinnutímans og
betra aðgengi að getnaðarvörnum
var meðal þess sem rætt var um á
Landsþingi ungs fólks á laugardag,
sem haldið var í annað skiptið. Hátt
á sjötta tug unglinga víðsvegar að
af landinu sat þingið. Ályktanir og
tillögur þingsins verða sendar við-
eigandi ráðuneytum, sveit-
arfélögum og öðrum sem málið
varða. Unglingarnir vonast til að
vel verði tekið í tillögur þeirra,
segja að þeir sem fari með völdin í
landinu hafi gleymt því hvernig það
sé að vera unglingur.
„Fólkið sem ræður þessu er allt
hætt að vera unglingar. Það er að
setja lög og reglugerðir fyrir ung-
linga en er kannski löngu búið að
gleyma því hvernig það er að vera
unglingur og veit ekkert í hvernig
aðstæðum unglingar eru í dag. Við
höfum engan vettvang til að segja
hvað okkur finnst og koma okkar
skoðun á framfæri, það er það sem
við erum að gera hér,“ segir Ólafur
Jóhann Sigurðsson, sem er á fyrsta
ári í MH.
Inga Rán Arnarsdóttir, fé-
lagsmiðstöðinni Óðali í Borgarnesi,
sem er í tíunda bekk, segir að á
Unglingaþinginu sé unglingum gef-
inn vettvangur til að fá rödd. „Allir
unglingar eru ekki heilalausir og
fylgja bara straumnum,“ segir hún.
Fordómar mæta innflytjendum
Inga Rán fjallaði meðal annars
um þörf fyrir betri og fordómalaus-
ari umræðu um samkynhneigða og
innflytjendur á Íslandi. „Mér finnst
fordómar taka á móti innflytjendum
á Íslandi. Krakkar eru fáfróðir um
þetta og eru hræddir við það sem er
öðruvísi og ókunnugt. Það þarf að
fræða krakkana áður en tekið er á
móti innflytjendum og koma inn-
flytjendunum meira inn í hvað er að
gerast á Íslandi. Það þarf bæði að
fræða krakkana um hvað er að ger-
ast hérna og fræða okkur, þannig
að við getum tekið betur á móti
þeim,“ segir hún.
Þá var einnig fjallað um hækkun
fermingaraldurs. „Mér finnst það
mjög mikilvægt. Unglingar eru ekki
tilbúnir til að taka svona stóra
ákvörðun svona snemma í lífinu.
Þau eru enn þá undir áhrifum frá
foreldrum og hafa ekki nógu sjálf-
stæða hugsun til að ákveða fyrir sig
sjálf, þau fylgja straumnum og
hugsa ekki um um hvað ferming
snýst í raun,“ segir Inga Rán.
Ólafur Jóhann segir að í hans
hópi hafi verið rætt um styttingu
framhaldsskólanna og unglingar
séu mjög mikið á móti þeirri hug-
mynd. „Ef það á að stytta skólakerf-
ið á að stytta grunnskólann,“ segir
hann.
Þau segja bæði að kynfræðsla
þurfi að byrja mun fyrr en hún geri
í dag. Í grunnskólum landsins hefj-
ist kynfræðsla yfirleitt ekki fyrr en í
tíunda bekk. „Það eru margir byrj-
aðir að stunda kynlíf mikið fyrr og
það er bara fáránlegt að vera að
byrja svona seint á kynfræðslu,“
segir Inga Rán. Ólafur Jóhann bæt-
ir við að einnig sé óheppilegt að
þessi fræðsla eigi sér stað í líf-
fræðitímum. „Það vantar andlega
pólinn í þessu. Þetta er bara svona
„limurinn stinnist“ og eitthvað
þannig. Það er verið að drepa alla
andlega tilfinningu,“ segir hann.
Inga Rán bætir við að mikilvægt
sé að kynfræðsla komi frá ut-
anaðkomandi aðila, ekki kennara
sem hafi kannski kennt bekknum í
mörg ár. „Auðvitað erum við ekkert
voðalega framfærin að spyrja ein-
hvern eins og kennara,“ segir hún.
Unglingarnir fjölluðu einnig um
að bæta þurfi aðgengi að getn-
aðarvörnum, íbúar landsbyggð-
arinnar ræddu sérstaklega um það
að erfitt væri að kaupa getn-
aðarvarnir í litlum byggðarlögum.
Á sjötta tug unglinga sat Landsþing ungs fólks í Miðbergi
Morgunblaðið/Nína Björk
Inga Rán Arnarsdóttir og Ólafur Jóhann Sigurðsson segja að þeir sem fara
með völdin í þjóðfélaginu muni ekki hvernig það sé að vera unglingur og
því þurfi stjórnmálamenn að gefa rödd unglinga betri gaum.
Ræddu jafnrétti
kynjanna og betri laun
„MAÐUR á ekki að
vera of lengi í sama
starfi. Ég hef verið
mun lengur hér en ég
ætlaði mér,“ segir
Jón Sigurðsson, for-
stjóri Norræna fjár-
festingarbankans
(NIB) í Helsinki.
Hann mun láta af
störfum vorið 2005
eftir ellefu ára starf
og hefur staðan nú
verið auglýst laus til
umsóknar.
Jón sagði að það
væri löngu ákveðið að hann færi úr
forstjórastólnum næsta vor. Hann
hefði fyrst ráðið sig til fimm ára
árið 1994 og síðan framlengt ráðn-
ingarsamninginn um önnur fimm
ár. Hann hefði ætlað að hætta nú
en stjórn sjóðsins óskað eftir því
að hann væri í eitt ár til viðbótar
vegna inngöngu Eystrasaltsríkj-
anna þriggja í bankann en hann
hefur hingað til verið í eigu Norð-
urlandaríkjanna fimm. Sú vinna er
nú langt komin.
Jón segist geta hætt sáttur.
Þetta hafi verið viðburðaríkur tími
í sögu Norræna fjárfestingar-
bankans. Hann hafi vaxið ört og
orðið alþjóðlegri. Lánveitingar til
ríkja Austur-Evrópu hafi aukist
mjög, ekki síst til nágrannaríkja
Norðurlandanna. Lán
til aðila utan Norður-
landanna hafi þrefald-
ast á þessum tíma.
Starfsemin á Norður-
löndunum hafi einnig
aukist mjög, þau séu
tvisvar og hálfu sinni
meiri en í upphafi
starfsferils hans sem
forstjóra og samsvari
það 8–9% aukningu að
meðaltali á ári.
Bankinn hafi mjög
gott álit á alþjóðleg-
um fjármálamarkaði
og fái jafngóð eða betri kjör en
ýmsir stærri sjóðir. Þá hafi bank-
inn náð settum markmiðum sínum
með lánveitingum og samhliða
getað skilað allgóðum fjárhagsleg-
um ávinningi til eigendanna.
Jón flytur heim þegar hann
hættir í bankanum, þá 64 ára gam-
all, en segist engar áætlanir hafa
gert um framtíðina að öðru leyti.
„Ég hef tekið þátt í að gera fjölda
áætlana fyrir aðra en lítið gert af
því fyrir sjálfan mig,“ segir Jón
þegar hann er spurður hvað hann
hyggist taka sér fyrir hendur. Seg-
ist þó ekki kvíða því að finna sér
ekki verkefni og bætir því við að
skemmtilegt gæti verið að taka að
sér eitthvað ólíkt því sem hann hafi
fengist við til þessa.
Hef verið lengur
en ég ætlaði mér
Jón Sigurðsson
Auglýst eftir nýjum forstjóra Nor-
ræna fjárfestingarbankans
ÞRENNT var flutt á slysadeild eftir
harðan árekstur tveggja bifreiða á
mótum Skólavörðustígs og Týsgötu
um hálftvöleytið í gær. Báðir bíl-
stjórarnir og einn farþegi, barnshaf-
andi kona, voru fluttir á slysadeild
Landspítala – háskólasjúkrahúss í
Fossvogi.
Annar bílstjórinn var lagður inn á
gjörgæsludeild til eftirlits og er líðan
hans eftir atvikum góð. Hin tvö hlutu
minniháttar meiðsl.
Árekstur á
Skólavörðustíg
TVENNT hefur gefið sig fram við
lögregluna í Árnessýslu sem kann-
ast við að hafa tekið upp í bíl sinn
ungan dreng er svarar til lýsing-
arinnar á drengnum sem álitið var
að farið hefði á puttanum frá Sel-
fossi til Hveragerðis og aftur til
baka mánudaginn 15. mars.
Karlmaður kveðst hafa tekið
drenginn upp í bíl sinn upp úr há-
degi 15. mars við Biskupstungna-
braut, skammt vestan við Selfoss,
og ekið honum til Hveragerðis.
Konan segist hafa tekið drenginn
upp í sinn bíl í Hveragerði um miðj-
an dag og hann hafi farið út úr bíln-
um á Selfossi.
„Lögreglan vill þakka viðkomandi
ökumönnum og fjölmiðlum sérstak-
lega fyrir aðstoðina varðandi þenn-
an þátt málsins,“ að því er segir í til-
kynningu frá lögreglustjóra á
Selfossi.
Tvennt segist
hafa tekið
drenginn upp í
♦♦♦
PILTURINN sem slasaðist alvar-
lega í bifhjólaslysi á Sauðárkróki á
föstudag er á góðum batavegi.
Hann var fluttur með sjúkrabíl frá
Sauðárkróki til Akureyrar síðdegis á
föstudag og með sjúkraflugi til
Reykjavíkur stuttu seinna. Þar var
hann lagður inn á gjörgæsludeild en
hann hefur nú verið fluttur á al-
menna sjúkradeild.
Á góðum batavegi
eftir bifhjólaslys