Lesbók Morgunblaðsins - 26.05.2001, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 26.05.2001, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 26. MAÍ 2001 3 FRÆGT er þegar Halldóri Laxness of- buðu dönskuslettur íslenskra blaða- manna. Þá spurði hann, hversvegna mennirnir skrifuðu ekki á dönsku fyrst hún væri þeim svona töm? Nú um stundir þegar hlustað er á útvarp hvarflar óneit- anlega að manni hversvegna sumir ekki tali ensku í stað þess að vera að bögglast við að tala íslensku. Rétt fyrir páska hlustaði undirritaður á morgunútvarp Ríkisútvarpsins rásar tvö. Þegar greina mátti orðaskil og umsjón- armenn töluðu ekki báðir samtímis og þá jafnvel ofan í það sem viðmælandi þeirra var að segja mátti heyra að þær hefðu „skannað“ skíðastaðina (af hverju ekki kannað?) og viðmælandi þeirra sagði okk- ur að það væri „inn“ að drekka bergvatn með mat og hann ætlaði að setja nauta- kjöt, muni ég rétt, „á hóld“ yfir páskana. Oft hefur verið á það bent að þeir sem mest sletta ensku kunni sennilega ekki mjög mikið í því ágæta tungumáli, sem er heimsins auðveldasta mál að kunna illa en jafnframt eitt hið erfiðasta að kunna vel. Það er raunar jafnljóst að þeir sem mikið sletta ensku kunna heldur ekki íslensku að gagni og úr verður hrognamál. Ljóst er að útvarpsmaður ræður ekki málfari viðmælenda sinna. En væri úr vegi, þegar viðmælendur tala um að eitt- hvað sé „inn“ og að þeir ætli að setja eitt- hvað „á hóld“, að umsjónarmaður segi: Þú átt við að þetta sé mjög vinsælt eða í tísku og að eitthvað verði látið bíða eða sett til hliðar um sinn? Ríkisútvarpið á að halda uppi merki ís- lenskrar tungu. Og vissulega eru þar margir vel máli farnir. En þegar umsjón- armaður kvikmyndagagnrýni segir að til- tekin leikkona hafi verið „besta James Bond pían“ (danska) „ever“ (enska) eða að einhver leikari hafi „coverað“ öll svið, þá ættu ábyrgðarmenn dagskrár að benda viðkomandi á að vanda mál sitt. Nú undir vorið mátti heyra í umræðuþætti í Rík- isútvarpinu, að blað sem ætlað er farþeg- um í áætlunarflugi innanlands væri „value –added“ fyrir farþegana, að tiltekið mál væri ekkert „issue“ og að tilgreindur mað- ur hefði búið sér til „platform“. Af hverju talar fólkið ekki ensku? Brýnir Ríkisútvarpið fyrir starfsfólki sínu að forðast slettur? Biðja umsjón- armenn dagskrárefnis viðmælendur að forðast erlendar slettur? Er nú ekki rétt að yfirmenn Ríkisútvarpsins láti það boð út ganga að í íslensku útvarpi skuli töluð íslenska, rétt eins og bæjarfógetinn í Reykjavík lét þau boð út ganga á nítjándu öldinni að íslenska skyldi töluð í íslensk- um kaupstað. (Nú er ekki lengur hægt að segja: „á öldinni sem leið“ um öldina þá!) Það er virðingarvert þegar umsjónar- menn og þulir leitast við að íslenska er- lend heiti og hugtök, en þegar okkur hlustendum er sagt að heiti slagarans gamla „I’ve Got You Under My Skin“ þýði: „Ég hef náð taki á þér“ og að fyrirtækisformið „Societé Anonyme“ sé leynifélag þá er nú eiginlega verr farið en heima setið. Fyrst verið er að ræða um málsóða þá fer því fjarri að þar séu ljósvakamenn manna verstir. Nýlega rak á fjörur skrif- ara blað sem nefnir sig „af netinu“. Heiti blaðsins er með litlum staf. Kannski eru aðstandendur blaðsins lítt kunnugir grunnreglum stafsetningar. En þetta var bara byrjunin. Þar var líka eftirfarandi: „Meðleigjandi óskast af 3 herbergja 80 fm Íbúð í kópavogi.“ Síðan kom önnur hús- næðisauglýsing þar sem húsnæðinu er tal- ið það til sérstaks gildis að vera „staðsett við Tjörnina í Hafnarfirði“. Nú hefði nægt að segja að húsnæðið væri við og sleppa orðinu staðsett, en svo er hitt að Tjörnin er í Reykjavík, en Lækurinn, Hamars- kotslækur, er í Hafnarfirði. Hafnfirð- ingum er ekki skemmt. Síðan er auglýsing um hestaferðir. Þar eru „sérstakar brott- farir fyrir þá sem hafa einhverja reynslu af hestum“. Rúsínan í pylsuendanum var þó þessi: „Ungu reyklausu pari í góðum vinnum vantar íbúð á leigu...“ Nú er það ekki svo að fólk kaupi þetta blað. Því er troðið í póstkassann, að minnsta kosti hjá höfuðborgarbúum, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Rusl- póstur sem stendur undir nafni. Hyggist aðstandendur blaðsins halda útgáfunni áfram ættu þeir að ráða sér prófarkales- ara sem kann íslensku. En hvers vegna þessar aðfinnslur, sem sumir sjálfsagt kalla einbert nöldur? Svarið er einfalt. Það á ekki að láta það óátalið þegar móðurmálinu er misþyrmt. Við sem greiðum afnotagjöld til Ríkis- útvarpsins eigum heimtingu á því að mál- kennd okkar sé ekki misboðið. Dagblöðin ráðum við hvort við kaupum, en afnota- gjaldið til Ríkisútvarpsins er gjald sem við verðum að greiða hvort sem okkur lík- ar betur eða verr. Rétt þegar verið var að skrifa drög að þessum línum barst Morgunblaðið með viðtali við Megas, sem ræðir um Passíu- sálma séra Hallgríms og segir m.a.: „þar sem hver sálmur er of langur til að „fúnkera“ sem þriggja mínútna „hit-lag“... Hann segir einnig frá upplestrardiski: „Þetta er alltaf kallað „spoken word“.“ Við fáum líka að vita að útgáfufyrirtækið Edda sé „artista-vænlegt“ og að efni hafi verið „skedúlerað“ á plötu. Hefði Jónasi Hallgrímssyni þótt þetta verðlaunavert? Davíð Gíslason, vestur-íslenskur bóndi á Svaðastöðum skammt frá Árborg í Manitoba, sagði við höfund þessa rabbs fyrir skömmu: „Móðir mín sagði okkur í æsku að tala ensku og íslensku. En ekki samtímis.“ Þetta er auðvitað kjarni máls- ins. Það er kannski vegna þess að undirrit- aður var svo lánsamur að hafa góða ís- lenskukennara frá barnaskóla til stúd- entsprófs að hann á erfitt með sitja þögull undir málspjöllum. Þeir góðu lærifeður voru m.a. Anna Konráðsdóttir í Austur- bæjarskóla, Helgi Þorláksson og dr. Guð- rún P. Helgadóttir í Gagnfræðaskóla Austurbæjar og Menntaskólanum í Reykjavík ásamt Jóni S. Guðmundssyni. Seinna tók við verklegt framhaldsnám á fréttastofu sjónvarpsins þar sem séra Emil Björnsson fréttastjóri stóð dyggan vörð um vandað málfar í sjónvarps- fréttum. (Við hefðum farið með veggjum í marga daga eftir að hafa sagt „að reið- ingur á seglskipi hefði slitnað“ eins og heyra mátti í sjónvarpsfréttum 5. maí!) Oft hugsa ég hlýlega til þessa ágæta fólks með þakklæti fyrir að hafa kennt manni að sýna móðurmálinu verðskuldaða virðingu og lokið upp leyndardómum ljóðs og sögu. Vonandi eru enn til kennarar sem kenna af hugsjón og ástríðu. SLETTUR RABB E I Ð U R G U Ð N A S O N EINAR BENEDIKTSSON ALDAMÓT (BROT) Árdagsins stund gefur auðinn í mund. Á aldarmorgni skal risið af blund. – Húmtjöldin falla og hylja allt liðið, vér hringjum út öldina gömlu í kvöld. Í ævinnar leik sjást atvik og þættir í eilífri skipting. Allt byrjar og hættir. En landsins börn kveikja ljós yfir grund og ljóma upp framtíðarsviðið. Þau tindra hátt yfir húsanna fjöld, þau horfa til uppheimsins þúsundföld. Með söngvum og ljóði og lágt í hljóði allt landið vort biður þau himnesku völd að leiða í fylking fámenna liðið í framsókn á rétta miðið. Vor hólmi er snauður, svo hart er um brauð, margt hérað sem eyðimörk köld og dauð. Sú öld, sem nú hefst, á hlutverk að inna – sjá hjálpráð til alls, varna þjóðinni falls. En sýnir ei oss allur siðaður heimur, hvað sárlegast þarf þessi strjálbyggði geimur, að hér er ei stoð að stafkarlsins auð? Nei, stórfé! Hér dugar ei minna! Oss vantar hér lykil hins gullna gjalds að græða upp landið frá hafi til fjalls. Hann opnar oss hliðin til heiðanna’, á miðin, í honum býr kjarni þess jarðneska valds. Þann lykil skal Ísland á öldinni finna, – fá afl þeirra hluta’, er skal vinna. Einar Benediktsson (1864–1940) birti ljóðið Aldamót í fyrstu ljóðabók sinni Sögur og kvæði sem kom út árið 1897 en aldamótaárið kom út sérprent eftir hann sem nefndist Aldamótaljóð. LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR 2 0 . T Ö L U B L A Ð - 7 6 . Á R G A N G U R EFNI Tíðarandinn í aldarbyrjun var til umræðu á málþingi sem Lesbók Morgunblaðsins og Reykjavík- urAkademían stóðu fyrir síðastliðinn mið- vikudag í húsnæði akademíunnar. Fjórir fyrirlesarar fluttu erindi. Jón Karl Helga- son bókmenntafræðingur fjallaði um tíðar- andann sem getraun og Anne Brydon mannfræðingur gerði sífellt meira andóf gegn hnattvæðingunni að umræðuefni. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræð- ingur kallaði erindi sitt Kviksjá fortíðar og Matthías Viðar Sæmundsson, dósent í ís- lenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, fjallaði um táknmál aldamótanna. Erindin eru öll birt í Lesbók í dag auk inngangser- indis Þrastar Helgasonar umsjónarmanns Lesbókar þar sem hann gerði grein fyrir hugmyndinni á bak við greinaflokkinn. Með þessu lýkur greinaflokki Lesbókar um tíðaranda í aldarbyrjun. Á málþinginu var opnuð sýning á ljósmyndum Kristins Ingvarssonar sem prýtt hafa greinaflokk- inn og stendur hún til 10. júní. Bókmenntaþýðingar Líflegar umræður á ýmsum tungumálum urðu á málþingi um bókmenntaþýðingar í Prag fyrir skömmu. Í brennidepli voru lítil málsvæði og staða þeirra gagnvart stórum tungumálum. Sigurbjörg Þrastardóttir sat þingið og sá marga snertifleti við stöðu ís- lenskra bókmennta. Bragi Ásgeirsson Sýning á nýjum málverkum Braga Ásgeirs- sonar verður opnuð í sýningarsal Sævars Karls Ólasonar kl. 14 í dag og önnur á mánudag í Listhúsinu Fold. Í báðum til- vikum er um að ræða boðssýningar, en Bragi verður stjötugur á mánudag og tekur sérstaklega á móti gestum á afmælisdaginn í Listhúsinu Fold milli kl. 17 og 20. FORSÍÐUMYNDIN Myndina tók Jim Smart af málverki Braga Ásgeirssonar, Árdegi – olía á masonít 2000–01, en á bls. 13 segir frá tveimur sýningum, sem verða opn- aðar á laugardag og mánudag í tilefni sjötugsafmælis Braga.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.