Lesbók Morgunblaðsins - 15.09.2001, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 15.09.2001, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. SEPTEMBER 2001 Á SINN hátt má segja að kvikmyndin Dagbók Bridget Jones sé ekki bara aðlögun á samnefndri skáldsögu, heldur einnig eins konar aðlögun á skáldsögu Jane Austen, Hroki og hleypidómar, eða kannski frekar á samnefndum sjónvarpsþátt- um gerðum eftir þeirri skáldsögu. Aðalkarl- leikari þeirra þátta, Colin Firth, leikur sam- svarandi karlhetju Bridget Jones kvikmyndarinnar og þannig eru tengsl mynd- arinnar við sjónvarpsþættina undirstrikuð. Að auki leikur Hugh Grant annað aðalhlutverk, en hann lék eitt aðalhlutverkið í kvikmyndinni Sense and Sensibility sem einnig var byggð á skáldsögu Austen. Dagbók Bridget Jones er því einskonar aðlögun á Austen-heiminum eins og hann hefur birst í kvikmynduðu formi tí- unda áratugarins. Kvikmyndin um Bridget Jones er gott dæmi um þau flóknu tengsl milli skáldsagna, kvik- mynda, og sjónvarpsþátta sem hafa hrist ræki- lega upp í öllum hugmyndum um „aðlaganir“, sem einfalda og einhliða tilfærslu frá bók yfir í mynd. Þær fjölmörgu kvikmyndir og sjón- varpsþáttasyrpur sem gerðar hafa verið eftir sögum Austen eru einstaklega gott dæmi um þetta, að því leyti sem þær birta hvernig aðlag- anir geta verið af ólíku tagi og tengsl skáld- sögu og kvikmyndar oft öllu flóknari en virðist við fyrstu sýn. Við skulum byrja á öfugum enda. I Duldir drekar (drekar, ástin?) Mynd taiwanska leikstjórans Ang Lee, Krjúpandi tígur, dulinn dreki, var kynnt sem „Jane Austen með bardagalistaívafi.“ Sagan gerist í Kína snemma á 19. öld og segir frá tveimur bardagalistamönnum, Li Mu Bai og Yu Shu Lien, og árekstrum þeirra við unga og villta bardagakonu, Jen. Li og Yu eru ástfang- in, en strangar hefðir og heiðursreglur hafa meinað þeim að eigast. En nú hefur Li ákveðið að setjast í helgan stein og eyða því sem eftir er af lífinu með Yu. Til þess að innsigla þetta færir hann henni sverð sitt, til að setja það í geymslu hjá sameiginlegum vini þeirra. En of- urhuginn Jen stelur sverðinu og Li og Yu verða að bjarga málunum. Myndin er um þriggja tíma löng og þrátt fyrir að um helmingi þess tíma sé vel varið í fallegustu bardagalistasenur sem sést hafa á hvítu tjaldi þá er hinum helmingnum ekki síð- ur vel varið í hádramatíska rómantík. Senurn- ar með Li og Yu eru hlaðnar tilfinningu sem minnir ekki lítið á rómantískar senur í Austen myndum, að því leyti að fátt er sagt, mynda- vélin fylgir augum elskendanna og orð eins og ljúfsár og þrunginn banka óbeðin uppá. Líkt og í Austen myndunum eru það konur sem eru í aðalhlutverkum, og átökin eru fyrst og fremst á milli þeirra, öll ást er í leynum og reglur samfélagsins meina elskendum að eig- ast; mesti munurinn liggur kannski í því hvernig allt fer að lokum. Þrátt fyrir að hinn ofurenski heimur Austen virðist eins fjarlægur nítjándu aldar Kína og hægt er, þá er svona eftir á að hyggja bara af- skaplega viðeigandi að bera þetta tvennt sam- an. Siðareglur stýra samfélaginu, og agað samfélag Kína minnir um ótrúlega margt á hefðarsamfélag Englands – þó ekki væri nema vegna allrar tedrykkjunnar. Hinsvegar er ólíklegt að þessi fundur ólíkra menningar- heima – ensks hefðarfólks og kínverskra bar- dagalistamanna – gæti orðið nema í kvikmynd. Því það er einmitt kvikmyndin sjálf, kvik- myndamenningin og beiting myndavélarinnar sem byggir upp líkingu milli Austen og Kína. Eftir að hafa gert tvær myndir í Taiwan, Eat Drink Man Woman og The Wedding Banquet, í samvinnu við bandaríska framleið- endur, færði Ang Lee sig alveg yfir til Banda- ríkjanna. Fyrsta enskumælandi myndin sem hann gerði var þó ekki sérlega bandarísk, en það var hin fræga kvikmyndun á sögu Jane Austen, Sense and Sensibility. Það þótti með ólíkindum hvað þessi asíski leikstjóri náði full- komlega fram hinum fínlegu blæbrigðum Austen, skáldkonu sem hefur löngum þótt enskari en allt enskt. Og að sama skapi er heillandi að sjá hvernig hann endurskapar ein- mitt tök sín á tilfinningaþrungnum ljúfsárum (hvað sagði ég?) andartökum og augnatillitum Austen í Krjúpandi tígri, duldum dreka. Myndatakan krefur áhorfandann um óvæntan en jafnframt heillandi samanburð á gerólíkum menningarheimum og vekur óhjákvæmilega upp spurningar um hin fjölbreyttu menning- artengsl kvikmynda og bókmennta. II Vonir og væntingar (ah, Hugh Grant) Sense and Sensibility var sú fyrsta af Aust- en myndum tíunda áratugarins sem vakti verulega athygli. Myndin var frumsýnd árið 1995, sama ár og sjónvarpsþættirnir Hroki og hleypidómar rúlluðu upp áhorfendum BBC. Það stóð heilmikill styr um þetta allt saman: myndin hafði verið draumaverkefni leikkon- unnar Emmu Thompson í mörg ár, en hún skrifaði handritið. Þegar loks fékkst fjármagn var Thompson skilin við frægan eiginmann sinn, Kenneth Branagh og tekin saman við yngri mann, Greg Wise, sem lék hlutverk flag- arans Willoughby í myndinni. Thompson (þá þrjátíu og sex) þótti allt of gömul í hlutverk El- inor – sem á að vera nítján – og svo framvegis. Gott ef Ang Lee þótti vart nógu enskur. En hvað sem öllum þessum ástardrömum leið sló myndin í gegn, enda á ferðinni aðlögun sem tókst að ná jafnvægi milli tveggja helstu skylla og karibdísa aðlagana: myndin er bæði „trú“ skáldsögu Austen, og „sjálfstætt“ verk. Nú er ástæða til að staldra við og ræða þessi hugtök aðeins. Fyrra hugtakið, það að vera „trúr“ skáldsögunni, er algengasta viðmiðið þegar meta á kvikmynd sem byggð er á skáld- verki. Kvikmyndin er metin út frá samanburði við skáldritið, hvernig hún „nær“ skáldsög- unni, hversu vel hún heldur sig við hana og er henni „trú“. Þessi trúfesta er mjög mikilvæg í umræðu um kvikmyndaaðlaganir, því hún gef- ur sér svo ljóslega að kvikmyndin sé eftirlík- ing, einskonar útgáfa af skáldsögunni, en ekki sjálfstætt verk. Við sjáum stigveldið hreinlega birtast í orðinu að-lögun, sem gefur sér að ver- ið sé að laga að nýju formi, skapa eftirmynd, og jafnframt kemur klárt fram að skáldsagan er hrein frummynd. Þessi hugsun gefur sér einnig mjög einfalt stigveldi milli skáldsögu og kvikmyndar þar sem skáldsagan, hið ritaða mál, er talið æðra kvikmyndinni, sem mynd- rænu efni, ímynd, sem er þá eftirlíking af frummynd skáldsögunnar. Og í þessu stigveldi getur kvikmyndin aldrei unnið, því miðlunar- aðferð hennar, sjálf myndin, er bundin í þetta gildismat orða og mynda, og því er myndin alltaf, fyrirfram skilgreind sem síðri, eða óæðri, hvort sem þetta er gert á meðvitaðan hátt eða ómeðvitaðan. Að auki kemur þarna greinilega fram gildismunurinn á afþreyingu og fagurmenningu – því ekki má gleyma því að hið almenna og undirliggjandi viðhorf til kvik- myndana á skáldritum er að þar sé verið að gera fagurmenningu að afþreyingu, að því leyti sem ritverk er tengdara fagurmenningu, en kvikmyndin álitin afþreying, eða fjölda- menning. Þetta verður sérstaklega áberandi þegar klassísk kanónuverk eins og skáldsögur Austen eru mynduð. Á undanförnum árum hefur þetta viðhorf til aðlagana verið gagnrýnt sterklega. Bent hefur verið á að kvikmynd er ekki myndskreyting á skáldsögu, útgáfa af henni, eða eftirlíking. Kvikmynd er alltaf „sjálfstætt“ verk og hlýtur að gera þá kröfu að vera metin á eigin for- sendum. Það að bera hana einhliða saman við eina bók sem hún sækir efnivið til er heftandi, því kvikmyndun er miklu margháttaðri sam- setning en svo. Hver kvikmynd er flókinn vef- ur annarra mynda sem móta hana og skipta máli ekki síður en skáldsagan sem hún „er byggð á“. Að því leyti er hún ekki bundin skáldsögunni, sem er oft ekki annað en hrá- efni, eitt hráefni af mörgum. Og þetta kemur einmitt svo vel fram í mynd- unum á skáldsögum Austen. III Hvítir hestar (en hvað með Darcy?) Eitt af því augljósasta sem gerist í ferlinu frá bók til myndar, er það að efni bókarinnar, umhverfi hennar og hugmyndaheimur eru færð í myndrænt form. Tökum dæmi: tvær dramatískustu og jafnframt rómantískustu senurnar í mynd Lee, Sense and Sensibility, eru atriðin þar sem Marianne hleypur um í rigningu. Í fyrra atriðinu hleypur hún niður grasi gróna brekku í haugarigningu og dettur og snýr á sér ökklann. Út úr rigningarþokunni kemur skyndilega maður ríðandi á hvítum hesti. Riddarinn fleygir sér af baki og fellur á kné við hlið Marianne, kannar meiðsl hennar kurteislega og tekur hana svo í fangið og ber hana heim, kynnir sig þar sem Willoughby, segir einn brandara og fer. Í þessari senu kristallast rómantíska hliðin á Austen, með til- heyrandi tengslum við gotnesku hefðina. Riddarinn á hvíta hestinum kemur stúlku í nauð til bjargar og úr þessu verður eldheitt ástarævintýri. En að þessu sinni reynist ridd- arinn ekki allur þar sem hann er séður, Marí- anna tapar sér í ástarsorg og í öðru hádrama- tísku atriði undir lok myndarinnar rýkur hún af stað í aðra örlagaríka gönguferð; sem er einskonar spegilmynd þeirrar fyrri að því leyti sem það húðrignir, stúlkan verður gegndrepa og – örmagna af langvarandi sulti vegna ást- arsorgarinnar – fellur í yfirlið og út úr rigning- unni kemur karlmannleg hetja, Brandon of- ursti, grípur hana í fang sér og ber hana í húsaskjól. Úr þeirri riddaramennsku verður hins vegar hjónaband. Þessi atriði eru svo fimlega felld inn í hug- myndaheim skáldsagna Austen að þeir sem þekkja skáldsöguna vel verða steinhissa þegar þeir uppgötva að hvorugt atriðið er þar að finna. Eða allavega ekki í þessu formi. Í skáld- sögunni kemur Willoughby barasta labbandi í rigningunni, enginn hestur í nánd. Og hitt at- riðið er klassískt dæmi um sjónræna áherslu; það speglar hina hetjusenuna og þjónar því hlutverki að láta okkur áhorfendur átta okkur á því að ást Maríönnu getur fullt eins flust yfir á Brandon. Því í bókinni, í bókinni góðir les- endur, þá ber Brandon ofursti Maríönnu aldrei inn í hús. Eftir ítrekaðar rigningargönguferðir veikist Maríanna heiðarlega, og leggst í rúmið. Það er best að ítreka það að þessar viðbætur þeirra Thomson og Lee eru á engan hátt að- finnsluverðar: þær falla gersamlega að hug- myndum okkar um Austen, heimi hennar og rómantískum ímyndum hetjunnar – sem verð- ur að vera á hvítum hesti, þannig tekur hún sig best út á mynd. Hins vegar er ekki úr vegi að benda á að viðbætur af þessu tagi eru ekki al- saklausar: þær fela í sér ákveðna túlkun, ákveðin skilaboð til áhorfandans. Í fyrsta lagi eru vaktar með áhorfandanum falskar vænt- ingar vegna Willoughby; við sjáum hann sem dæmigerða glæsilega hetju, og því verður fall hans mun hærra en annars. Að sama skapi sættir spegilmynd síðara atriðins okkur við það að Maríanna, hin lífsglaða, öra og sjálf- RÓMANTÍSK ÆVINTÝRI „Ó, og svo má ekki gleyma þeim nauðsynlega hæfileika að sniðganga alla pólitík og hella sér heilshugar út í þá dásamlegu rómantík sem Jane Austen hefur upp á að bjóða, hvort sem er í skáldsögunum eða aðlögunum.“ HETJUR OG DREKAR E F T I R Ú L F H I L D I D A G S D Ó T T U R Morgunblaðið/Ásdís „Kvikmyndin er metin út frá samanburði við skáldritið, hvernig hún „nær“ skáldsögunni, hversu vel hún heldur sig við hana og er henni „trú“.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.