Lesbók Morgunblaðsins - 15.09.2001, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 15.09.2001, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ? MENNING/LISTIR 15. SEPTEMBER 2001 5 segja hafa miklar skyldur við það. Og þær felast í því að láta ekki teyma sig hvert sem er. Hlut- verk listamannsins er að bæta samfélagið, halda því lífvænlegu og hreyfa við því um leið. Ef ekk- ert hreyfir við neinum þá er fólkið orðið dálítið dautt ? einum of rólegt.? Í þeim skilningi eru verkin þín einhvers kon- ar svörun? ?Já, það má kannski segja það. Vil ekki gefa listinni fasta boðun Í bókinni segir þú á einum stað að listaverk sé mynd af list. Er listin þá í þínum huga fyrst og fremst huglæg og myndbirtingin sjálf eins kon- ar eftirmynd? ?Hvað er það sem við köllum list og hvað er átt við þegar við segjum að eitthvað sé list en annað ekki?? spyr Kristján á móti. ?Það eru ekki öll þjóðfélög í heiminum sem hafa listhug- tök sem eru sambærileg við það sem við notum. Í Kína t.d. er ekki til listhugtak eins og við not- um hér, þ.e.a.s. þetta einkennilega einstaklings- framtak. Ef listin er til þar ? sem hún er sjálf- sagt ? þá er það í einhvers konar kalligrafíu og kannski í óperu eða tónlist. En hún fer sér afar hægt og breytist lítið frá einni öld til annarrar. Og listin má svo sem alveg vera svoleiðis, það er ekkert verra. En á Vesturlöndum er hún ekki þannig, það vitum við. Mér finnst öll list vera bætandi fyrir samfélagið, jafnvel þó hún virðist í fljótu bragði rífa það niður. En ég vil ekki gefa listinni fasta boðun ? segja að hlutirnir eigi að vera svona frekar en öðruvísi. Stjórnmálamenn hafa, eða reyndu í það minnsta í gamla daga, að taka listina og segja að hún yrði að vera með ákveðnum hætti. Vinna fyrir flokkinn, þjóna verkamanninum eða kapítalistanum. Þannig hugsuðu bæði Hitler og Stalín, enda er þetta til- hneiging hjá valdhöfum. Hjá kapítalistum þarf listin bara að vera dýr til að vera góð. Hún er þá statussymból eða peningatilfærsla. En í rauninni voru engir peningar í myndlist fyrir 1970 á alþjóðlegum grundvelli. Margir góðir listamenn eins og Robert Fillou, Georges Brecht, Dieter Roth og fleiri, voru orðnir mjög vel þekktir, en þó fátækir. Nú til dags verða menn annaðhvort stjörnur eða ekki. Þetta er að verða svolítið eins og í poppinu og það verður bara að hafa það. En svo er til mikið af lista- mönnum sem eru viðurkenndir að einhverju leyti og virkir, en sem eru samt ekki í þessum rakettu- og stjörnufansi. Mig hefur aldrei lang- að í þann leik. Það hefði ekki hentað mér ef ég væri ungur í dag að láta eitthvert gallerí skjóta mér upp eins og rakettu og selja verkin mín á 100.000 dollara. Ég myndi ekki fá neitt út úr því sérstaklega, þó ég hafi ekkert á móti peningum. Það fer enginn út í list til þess að verða millj- ónamæringur. Jú, kannski Jeff Koons, sem sagði að það væri miklu betra að vera listamað- ur heldur en að vera í fasteignabransanum ? eða var það kannski öfugt?? segir Kristján og hlær. Íslendingar hafa frekar lítið formskyn Hvernig finnst þér Íslendingum hafa tekist að vera samstiga því sem er að gerast annars staðar, bæði í listsköpun og skilningi á listum? ?Íslendingar eru nú yfirleitt mjög fljótir að tileinka sér nýjungar, í það minnsta hvað varðar græjur, hvort sem það eru farsímatæki, bílar, eða sjónvarpstæki. Við erum efnishyggjufólk að því leyti, höfum gaman af leikföngum og erum svolítið barnaleg stundum. Maður sér gleggst hvað Íslendingar eru ung þjóð í því að tuttugasti hver bíll er með númeraplötu á borð við ?Bubbi? eða ?Dísa?,? segir Kristján og brosir. ?En þegar fólk er að skíra svona í höfuðið á sjálfu sér þá er það ekkert öðruvísi en þegar menn lýstu ánægju sinni yfir hestinum sínum, Rauð eða Grána, í gamla daga. Ég myndi þó aldrei setja Kristján á bílinn minn. Hvað myndlistarsviðið sjálft varðar er staðan þannig að við erum ekki nema 300.000 manna þjóð og ef við eigum 10 eða 20 frambærilega listamenn, þarf ekki annað en að margfalda það með þúsund til að sjá hvað margir frambærileg- ir myndlistarmenn ættu að vera í Bandaríkj- unum. Þannig að samkvæmt þessari frægu höfðatölu erum við mjög fljót til og módern ? og eiginlega best í öllu,? heldur hann áfram og hlær. ?Sjálfum finnst mér þó Íslendingar hafa frekar lítið formskyn. Formskynið er ekki sterkt hjá okkur. Ég veit ekki hvers vegna, en auðvitað hefur aldrei verið kennd nein listasaga í skólakerfinu hér. Hún hefur allavega ekki ver- ið gerð skemmtileg. Hér vita allir unglingar hver þjálfar fótboltaliðið í Angóla en ef þeim er sýnd mynd eftir Ásgerði Búadóttur, þá segja þau annaðhvort Picasso eða Salvador Dali. Íslendingar hafa svo sem ágætis tilfinningu fyrir landslagsfegurð nú til dags, en því er oft ekki fyrir að fara í húsagerðarlist og myndlist. Þú myndir t.d. aldrei sjá útihöggmyndir á borð við þær sem hér eru á torgum í Helsinki. Það er útilokað að menn gætu þolað þær,? segir Krist- ján ákveðinn. ?Ég tek bara Finna sem dæmi, en ég held að það sem við búum við myndi hrein- lega særa formskyn þeirra. Byggingarlistin hér er kannski svolítið villt og það má vel vera að það sé skemmtilegt að hafa það þannig. Sjálfur hef ég aldrei komið til Los Angeles en mér er sagt að borgin hjá okkur sé farin að líkjast út- hverfunum þar.? Ekki fyrir íslenskt tilstilli að ég er enn myndlistarmaður Þú dvaldist lengi erlendis og naust snemma virðingar þar; fékkst listamannalaun frá hol- lenska ríkinu og varst meðal þeirra sem sýndu þegar Pompidou-safnið var opnað í París ?77 ? hvernig kom þetta til? ?Nokkrum árum áður tók ég þátt í tvíær- ingnum í París undir íslensku flaggi þótt ég muni ekki hvernig það kom til. Að því loknu var mér boðið að sýna í nútímalistasafninu í Amst- erdam og svo leiddi eitt af öðru. Annars held ég að þetta sé nú fyrst og fremst spurning um að vera virkur og gera eitthvað,? rifjar Kristján upp, hógvær. ?Ég hef nú aldrei verið ofvirkur í myndlist. En þó aldrei gleymt henni. Stundum koma lægðir en svo fer allt af stað aftur. Það er þó alveg víst að ef ég hefði ekki farið til Hol- lands ungur þá hefði ég bara dottið út út þessu. Það er því ekki fyrir íslensk tilstilli að ég er enn myndlistarmaður. Árið 1970 voru engar for- sendur fyrir myndlist hér á landi eða fyrir mig til að vera hér áfram. Ég veit ekki hverjar for- sendurnar eru nú, en skilningurinn hefur þó að- eins aukist. Starfslaunin eru betri og fag- mennskan meiri í þeim geira.? Talið berst að leiðum til að efla myndlistar- þekkingu og Kristján segist undra sig á því hvað t.d. sjónrænn miðill á borð við ríkissjón- varpið standi sig illa. ?Það er til mýgrútur af góðu efni um myndlist sem aldrei er sýnt. Við fáum bara að sjá Frasier, systurnar í Kaliforníu og unglinga í gaggó einhvers staðar. Þetta eru mest barnaprógrömm. Það hlýtur einhver að gefa sjónvarpinu þetta. Þeir geta tæpast þurft að borga mikið fyrir svona efni, þar sem kórinn hlær alltaf úr dós. Maður veltir því fyrir sér hvort Markús Örn horfi á þetta sjálfur,? segir hann alvarlegur í bragði. En þjónar ekki sjónvarpið bara þeim tilgangi fyrir fólk að slökkva á heilastarfseminni eftir dagsins önn? ?Það er þá í samræmi við það sem ég heyrði frá einhverjum í Galleríi Fold, í útvarpinu um daginn,? svarar Kristján og brosir, ?hann sagði að myndlistin ætti að fela í sér hvíld. Að fólk ætti að geta komið heim til sín eftir erfiðan dag og horft á myndina til að gleyma sér í hvíldinni. Þetta er á alveg sama plani. Ekki það að ég eigi við að fólk þurfi að vera neitt óskaplega greint eða gáfað til að geta notið lista. Ef maður þyrfti að vera algjört séní til þess að skilja list þá myndi ég nú ekki njóta margra hluta. Það hefur einhver logið því að fólki að listin sé erfið. Fólk þarf heldur ekki alltaf að taka afstöðu til verks þegar að sér það, það er ágætt að melta lista- verk í rólegheitum.? Minni áhersla lögð á það sem lendir inni í umgjörðinni Finnst þér skilningur stjórnvalda í menning- armálum hafa aukist? ?Ég veit ekki hvort hann hefur aukist, ég held að stjórnvöld hafi nú meiri skilningin á ein- hverju öðru en listum. Enda eiga stjórnmála- menn ekki að velja og hafna list nema bara fyrir sjálfa sig. Sem betur fer er nú ekki lengur við lýði að draga fólk í dilka eftir pólitískum línum. Sjálfur vil ég hafa óperu og sinfóníuhljómsveit, þótt sumir vilji leggja slíkt niður. Ekki þarf heldur að kvarta yfir því að hér séu ekki til söfn. Umgjörðin er í það minnsta til staðar og meira segja alltof dýr, stundum. Því svo er minni áhersla lögð á það sem lendir inni í þessari um- gjörð ? það er ekki alltaf mjög hnitmiðað.? Nú er þetta töluvert yfirgripsmikil sýning á Kjarvalsstöðum, fylgir svona sýningu ekkert tilfinningauppgjör? ?Nei, ekki fyrir mig¸? svarar Kristján ákveð- inn. ?Þegar Eiríkur Þorláksson, forstöðumaður Kjarvalsstaða, hringdi í mig fyrir ári og bauð mér að sýna var ég nú bara svona á báðum átt- um um hvort ég myndi nenna að standa í því. Ég bað hann að gefa mér nokkurra daga frest til þess að hugsa mig um, því ég er bæði latur og alveg nægilega vel þekktur hérna heima fyrir minn smekk. Ég vissi líka sem er að þetta yrði heilmikil vinna ? og ef þetta er einhver upphefð má hún liggja á milli hluta. Staðreyndin er sú að listamaðurinn býr til verkin á sýninguna og hann ákveður einnig hvernig sýningin á að vera. Þrátt fyrir það er hann eini maðurinn sem er ekki á kaupi við þessa vinnu. Ég ákvað nú samt að slá til og þannig þróaðist þetta. Um svipað leyti hitti ég, ásamt Sigurði bróð- ur mínum, Halldór Guðmundsson hjá Máli og menningu, fyrir tilviljun á matsölustað og hann sagðist vilja gera bók um mig fljótlega. Þegar boðið kom frá Eiríki stakk ég upp á því að þeir ynnu eitthvað að þessu saman. Svona bók er líka heilmikil vinna fyrir mig. Ég þarf að velja allar myndir í hana og kunna skil á tímasetn- ingum og atburðum. Annars er ég ekkert að vorkenna sjálfum mér fyrir að vinna í þessu öllu saman í mánuð eða svo, það er bara hluti af vinnu listamannsins. En ég hef svo sem haldið svona sýningar áður, bæði í Svíþjóð og Þýska- landi, svo þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég held yfirlitssýningu. Sýningin á Kjarvalsstöðum spannar brot af sex eða átta litlum einkasýn- ingum og ég er alveg viss um að þetta á eftir að gera sig ágætlega. Bókin markar ef til vill meiri skil af því það hefur ekki verið gerð um mig bók áður, þó það hafi oft verið gerðar veglegar sýn- ingaskrár. Efnið í henni er blandað, viðtöl, myndefni ýmiskonar og skissur. Það er svona leikur í henni á köflum.? Tómt og hlaðið í senn Ertu ekki með eitthvað alveg nýtt á sýning- unni? ?Jú,? svarar Kristján að bragði, ?ég er með nýja bók sem er búin að vera lengi að brjótast í mér. Hún heitir Two Hundred Pages on Barn- ett Newman og fjallar um málverk eftir þennan fræga myndlistarmann, sem er að vísu dáinn fyrir nokkru. Málverk eftir hann var skorið í tætlur á safni í Amsterdam og tilraun til að gera það upp mistókst, svo verkið er ekki til lengur. Bókin er allt í senn, tileinkuð verkinu, um verk- ið og það má jafnvel segja að hún sé verkið sjálft að nokkru leyti, þ.e.a.s. litirnir og stærðin. Verkið hét Who is Afraid of Red, Yellow and Blue? og ég vinn þetta sem minningu um það, eða óð til þess, því ég þekkti það mjög vel. Bókin kemur út í 100 tölusettum eintökum, en sam- hliða henni kemur út veggspjald í 10 eintökum.? Hér er Kristján búinn að rekja feril sinn fram að yfirlitssýningunni fyrir blaðamanni eins og hann hafði lofað, með nokkrum útúrdúrum eins og við er að búast. Kaffið er búið og farið að líða að kveldi í stofunni heima hjá honum. Þegar hann er beðinn um myndir rís hann á fætur, rót- ar í pappakassa og finnur þar mynd af sér frá fyrstu Súm-sýningunni sem okkur varð tíðrætt um í byrjun samtalsins Hann segir að það megi nota hana með viðtalinu, hún hafi aldrei birst áður. Á myndinni bregður ungur og snyrtilegur maður, í támjóum skóm, á leik með tómar flösk- ur úr verkinu. Gerir sig líklegan til að fylla eina, því hvað er ?tómara og kraftlausara en tóm flaska?? eins og hann segir sjálfur í nýju bók- inni. Kraftur verka Kristjáns er þó óumdeildur, ekki síst eins og hann birtist í óvæntum og hug- vitsamlegum efnistökunum, hvort sem hann notar súra sláturkeppi til að skila andlegri nær- ingu, byssukúlur til að teikna ?yfirhljóðhrað- ateikningar? eða klukkusímsvara til að lesa upp ljóð. Meira að segja tómleikinn í verkum hans er hlaðinn, en í lýsingu á bókverki sínu Circles, segir Kristján það ?kannski akkúrat eins og ég vil hafa það. Tómt og hlaðið í senn.? fbi@mbl.is Morgunblaðið/Einar Falur Verkið Brotinn sjóndeildarhringur frá árinu 1993. Morgunblaðið/Einar Falur Verkið Þríhyrningur í ferningi frá árunum 1971??72.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.